07.04.1960
Efri deild: 57. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

60. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þessu um breyt. á l. nr. 31 4. febr. 1952, um skipun prestakalla, fylgir grg., og kemur þar fram, að frv. er flutt skv. ósk biskups Íslands, og eru færð allglögg rök fyrir því, að æskilegt sé að skipa það embætti, sem hér er farið fram á. Hv. alþm. hafa frv. fyrir framan sig ásamt grg., og er því ljóst, hver tilgangur frv. er. En til frekari áréttingar vil ég gjarnan lesa hér upp kafla úr bréfi frá biskupi Íslands til rökstuðnings fyrir þessu máli, en bréf þetta sendi biskupinn yfir Íslandi hv. menntmn. Nd., þegar hún fjallaði um málið. Biskup Íslands segir:

„Sérstök æskulýðsstarfsemi hefur farið fram á vegum þjóðkirkjunnar mörg undanfarin ár, og er hún að verða margþætt. Í flestöllum söfnuðum er einhver vísir kirkjulegrar starfsemi fyrir börn og unglinga, fyrir utan það, sem beinlínis heyrir til embættisskyldu presta, og sums staðar er sú starfsemi atkvæðamikil og blómleg. Aðstaða til slíkrar starfsemi er auðvitað mjög mismunandi. Sums staðar bagar fámenni og strjálbýli, annars staðar eru söfnuðir svo fjölmennir og ört vaxandi, að hvergi sér út yfir verkefnin og allt skipulag og aðstaða til félagslegrar starfsemi innan safnaðanna á byrjunarstigi. Gildir þetta einkum um Reykjavík.

Það þarf ekki að rökstyðja, að þær miklu breytingar, sem orðið hafa á íslenzku mannfélagi á liðnum áratugum og eru að verða, krefjast nýrra viðbragða og vinnuhátta af hálfu kirkjunnar. Sú aðstaða, sem hún hafði áður til áhrifa á æskulýð landsins með samstarfi við heimili og skóla, er ekki lengur einhlít. Það má hiklaust fullyrða, að það sé mjög almenn ósk mikils þorra þjóðarinnar, .að kirkjan geti á virkari hátt en verið hefur um sinn beitt uppeldis- og mótunaráhrifum kristindómsins meðal uppvaxandi fólks í landinu.

Á síðustu árum hefur æskulýðsstarf kirkjunnar mjög færzt í aukana. Æskulýðsfélög eru starfandi í ýmsum söfnuðum. Fjölmenn æskulýðsmót hafa verið í öllum fjórðungum landsins s.l. sumur. Sumarbúðir fyrir unglinga hefur kirkjan rekið á Löngumýri í Skagafirði, og sams konar sumarstarf er í undirbúningi víðar. En öll æskulýðsstarfsemi kirkjunnar má teljast á byrjunar- og tilraunastigi enn sem komið er hér á landi, miðað við gerbreyttar þjóðfélagsaðstæður. Það er mikið í húfi fyrir kirkjuna og þjóðina, að þessi starfsemi komist á traustan grundvöll og geti orðið eins markviss og verða má. Að öðrum kosti notast ekki sem skyldi að þeim áhuga og kröftum, sem fyrir eru í söfnuðum landsins til þess að styðja að hollum trúar- og siðgæðisþroska æskulýðsins með félagslegu sjálfboðaliðsstarfi.

Æskulýðsfulltrúa þjóðkirkjunnar er ætlað að vera ráðunautur og leiðbeinandi í þessum efnum.

Um mörg undanfarin ár hefur íþróttafulltrúi starfað á vegum fræðslumálaskrifstofunnar. Er engum blöðum um það að fletta, að sá starfsmaður hefur unnið fyrir launum sinum, ef miðað er við það, að íþróttaáhugi og líkamsrækt sé einhvers virði fyrir þjóðina. Og ef gengið er út frá því, að andlegir .hagir og mótun íslenzks æskulýðs skipti verulegu máli og að þjóðkirkjan sé líkleg til þess að geta. þar einhverju góðu til vegar komið, þá getur ekki orkað tvímælis, að sú umbót á starfsaðstöðu kirkjunnar, sem farið er fram á með frv. um æskulýðsfulltrúa, er eðlileg og sjálfsögð.“

Ég tel, að þessi kafli úr bréfi biskups skýri það bezt, hver tilgangur þessa frv. er, en hann er sá að fá — sérstakan æskulýðsfulltrúa, sem starfi á vegum kirkjunnar og hafi áhrif á mótun og uppeldi æskunnar í landinu.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um frv. að sinni, en legg til, að því verði vísað til 2. umr, og hv. menntmn.