06.04.1960
Efri deild: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Því miður liggur ekki nál. frá mér fyrir. Ég skilaði því fyrir um það bil 5 tímum, og þess vegna þykir mér undarlegt, að það skuli ekki vera komið, af því að það var ekki sérstaklega langt, þó að það að vísu væri dálítið lengra en nál. hv. meiri hl., sem mér virðist að meginmáli vera hálf þriðja lína. En þegar um svona stórt mál er að ræða eins og hér liggur fyrir, þá má nú segja, að slíkt nál., hálf þriðja lína, sé lúxus valdsins.

Að vísu bætti hv. frsm. meiri hl. allmikið úr með ræðu sinni, en það undarlega skeði þó, að í ræðunni kom það í ljós, að hann telur beina skatta sanngjarnasta skatta í sjálfu sér. En frv. ræðst að þeirri stefnu og skerðir hana, enda mun svo vera, að í þeim flokkum, sem að því standa, sé það sívaxandi skoðun, að afnám beinna skatta sé sjálfsagt markmið. Og þess vegna má segja, að skoðun hv. frsm. meiri hl. sé álíka sett og fluglaus önd í vök, sem alltaf er að þrengjast.

Frv. er lagt fram sem þáttur í efnahagsaðgerðum hæstv. ríkisstj. Það á að reiknast á móti kjaraskerðingaraðgerðunum. Stundum er það, sem frv. þessara aðgerða felur í sér til útgjaldalækkunar fyrir fólk, reiknað upp í afleiðingar gengisfellingarinnar og stundum upp í söluskattana nýju. Þetta fer eftir því, hvað er til umræðu á Alþingi. Hv. stjórnarflokkar haga sér nefnilega eins og spilamaður, ef hann, þrátt fyrir allar reglur, sem banna, tæki spil, sem hann væri búinn að slá út og komið væri í samantekna slagi, — tæki það aftur og aftur úr slögunum til þess að slá því út á ný. Þetta gera stjórnarflokkarnir vegna þess, hve slæm spil þeir hafa á hendinni, en ekki af því, að þetta séu góð tromp.

Frv., sem hér liggur nú fyrir, þjónar tvennum tilgangi. Aðaltilgangurinn er sá, sem líka hefur sérstaklega verið básúnaður af þeim, sem að frv. standa, létting tekjuskatta, og eiga það að vera nokkrar sárabætur vegna lífskjaraskerðingar þeirrar, er aðrar aðgerðir hæstv. ríkisstj. valda fólkinu. Það má líka orða þetta þannig, að skattalækkunin eigi að vera eins konar móteitur gegn því, sem hæstv. ríkisstj. hefur með hjálparkokkum sínum bruggað efnahagslífinu í landi okkar. Hinn tilgangurinn með frv. er að stíga spor í þá átt, eins og ég sagði áðan, að afnema algerlega beina skatta til ríkisins. Ég lít svo á, eins og hv. frsm. meiri hl., að beinir skattar, tekjuskattur, sem lagður er á eðlilega eftir efnum og ástæðum og forsvaranleg framkvæmd fylgir eftir, sé sanngjarnastur skatta, og sú stefna að afnema hann er mér ákaflega ógeðfelld. Ég viðurkenni hins vegar, að tollar þurfa ekki að vera eins óréttlátir og í fljótu bragði getur virzt, ef þeir eru lagðir á með tilliti til þess, hversu nauðsynlegur varningurinn er fyrir almenning, sem skattlagður er, og þeir, sem veita sér dýrara líf, eru látnir greiða hærri tolla af þeim vörum, sem til þess þarf. Og á því er heldur enginn vafl, að ríkið kemst ekki af án slíkrar tekjuöflunar. Enn fremur getur söluskattur við hæfi komið til greina. En að afnema hinn beina skatt, tekjuskattinn, og hækka þá skatta, sem eru með eðli nefskatta, það tel ég vera að hverfa frá bræðralagshugsjón og í raun og veru ekki hæfa öðrum en þeim, sem eru hreinir og beinir auðvaldssinnar, Ég er þess vegna á móti stefnu þessa frv. að því er snertir þennan þátt.

En hinn þátturinn, að veita sárabætur fyrir þær efnahagsaðgerðir, sem skert hafa lífskjör manna í landinu og ríkisstj. hefur komið á, hann hefur verið látinn hljóma sem aðalatriði í sambandi við þetta mál. Það hefur verið túlkað svo, að það væri ákaflega mikil tillitssemi í því fólgin að fella niður skatt af lágum tekjum og almennum launatekjum. Og það hefur verið talað um í því sambandi, að með því ætti að jafna byrðar þjóðfélagsins, sem auknar hafa verið nú á þegnana, jafna álögurnar milli þegnanna og láta þá, — menn hafa skilið það svo og það hefur verið látið hljóma þannig, — sem sterkari eru, taka á sig meiri þunga en hinn veikburða af efnahagsaðgerðunum. En hvernig kemur svo þessi góðgerðastarfsemi hæstv. ríkisstj. niður, þegar frumvarpið sýnir sig? Jú, tekjuskattur hefur verið numinn af almennum launatekjum og lægri tekjum. Hæstv. ríkisstj. hefur staðið við það fyrirheit, eftir orðanna hljóðan. Hún hefur gert það með því að hækka persónufrádrátt einhleypra manna upp í 50 þús. kr., hjóna upp í 70 þús. kr. og barnafrádrátt í 10 þús. kr. Niður falla þess vegna skattar af tekjum, sem stíga ekki hærra en þetta. En með því er ekki eins mikið gert fyrir hvern og einn, sem í hlut á, og látíð er í veðri vaka. Með því er ekki tekið tillit til burðarþolsins, kraftanna til þess að bera.

Tekjuskattur hefur yfirleitt verið á s.l. árum lágur á þessum stigum. Það er því ekki hægt að veita miklar sárabætur með afnámi skattsins af almennum launatekjum og þaðan af minni tekjum. Sumir fá alls engar sárabætur með þeim hætti og sumir ekki teljandi. En annað kemur í ljós: hátekjumennirnir fá aftur á móti háar upphæðir niður felldar samkv. frv. Hæstv. ríkisstj. og flokkar hennar, sem talað hafa um sárabætur og gert hafa ráð fyrir því í háværum tilkynningum sínum, hafa hins vegar haft hljótt um það, að með frv. er gaukað að hátekjumönnum miklum bótum, margföldum við það, sem þeir fá, sem látíð er klingja, að frv. sé í raun og veru gert fyrir. Dæmi þessu til sönnunar hef ég birt í nál. mínu, og af því að nál. liggur ekki fyrir, ætla ég að leyfa mér að lesa þessi dæmi upp. Þau eru samanburður á sköttum samkv. skattstigum 1959 og skattstiga þeim, sem frv. flytur.

Fyrst er þá einhleypur maður, sem hefur 50 þús. kr. nettótekjur. Hann greiddi 2131 kr., en verður skattfrjáls, vegna þess að persónufrádrátturinn mætir þessum tekjum. Lækkunin á honum verður því 2131 kr., eða allt, sem hann bar áður. Einhleypur maður, sem hefur 75 þús. kr. nettótekjur, greiddi í skatt 6049 kr. Skattur á honum verður 2000 kr. og lækkun því 4049 kr. Einhleypur maður með 100 þús. kr. nettótekjur greiddi 12645 kr., nú á hann að greiða 5500 kr., og lækkunin verður þar 7145 kr. Einhleypur maður með 150 þús. kr. nettótekjur greiddi 28971 kr., á nú að greiða 17500 kr., hjá honum á að lækka um 11471 kr. Einhleypur maður, sem hafði 200 þús. kr. nettótekjur, greiddi 48530 kr., en á nú að greiða 32500, hjá honum lækkar um 16030 kr.

Þá eru það hjón með 2 börn. Hafi þau 50 þús. kr. í nettótekjur, var skatturinn af þeim tekjum 343 kr., en verður enginn, og þeirra sárabót verður því 343 kr. Hafi þau 75 þús. kr. nettótekjur, greiddu þau skatt, sem var 2484 kr., en verður nú enginn, og þess vegna fá þau lækkun, sem nemur 2484 kr. Hafi þessi hjón 100 þús. kr. nettótekjur, greiddu þau 6928 kr. í tekjuskatt, en eiga nú að greiða 500 kr., og lækkunin verður því 6428 kr. Hafi þau 150 þús. kr. nettótekjur, greiddu þau 21876 kr. í skatt af þeim, eiga nú að greiða 7500, lækkun hjá þeim verður 14376. kr. Og ef þau hafa haft 200 þús. kr. nettótekjur, hafa þau greitt af þeim 40511 kr., en eiga nú að greiða bara 20500, og þess vegna verður lækkunin hjá þeim nær helmingslækkun, eða 20011 kr.

Og taki maður nú hjón með þrjú börn líka til samanburðar og hafi þau 50 þús. kr. nettótekjur, áttu þau að greiða í skatt 236 kr., en nú engan skatt, og lækkunin verður 236 kr. Hafi þau haft 75 þús. í nettótekjur, hafa þau greitt 1949 kr., greiða nú eftirleiðis samkv. frv. ekkert, og lækkunin verður því allur skatturinn, sem þau höfðu, 1949 kr. Hafi þau haft 100 þús. kr. í nettótekjur, hafa þau greitt áður 5706 kr., greiða nú ekkert, og lækkunin hjá þeim verður því 5706 kr. En hafi þau haft 150 þús., hafa þau greitt 20018 kr. í tekjuskatt, eiga nú að greiða 5500. Ávinningur þeirra við breytta löggjöf verður því 14518 kr. Og ef þau hafa haft 200 þús. kr. í nettótekjur, hafa þau greitt 38369 kr., en eiga samkv. frv. að greiða 17600 kr. og lækkunin verður 20769 kr.

Beri menn nú saman t.d. hjónin með 3 börnin, sem hafa 50 þús. kr. í nettótekjur og fá 236 kr. skattalækkun í sárabætur, og hjónin með sömu ómegð, sem hafa 150 þús. kr. nettótekjur og fá 14518 kr. bætur, eða meira en 60 sinnum hærri bætur. Þetta er, eins og hver maður getur skilið, í öfugu hlutfalli við þörfina fyrir sárabætur. Ef maður tæki þessi hjón, sem hafa 3 börn, hafa lægstar tekjur eða greiða 236 kr., og bæri það saman við skattalækkunina hjá þeim hjónum í þessu dæmi, sem hafa hæstar tekjur, fá afslátt, sem nemur 20769 kr., þá verða bæturnar til tekjuhærri hjónanna rúmlega 90 sinnum meiri en til hinna hjónanna.

Hv. frsm. meiri hl. gat þess, að það væri örðugt að koma því við að láta eftir þessum leiðum alla njóta hins sama. En fyrr má nú rota en dauðrota. Og úr því að frv. er flutt til þess að mæta sérstaklega þeim erfiðleikum dýrtíðar, sem leiddir eru yfir þessi hjón, bæði þau, sem fá 236 kr. bætur, og hin, sem fá 90 sinnum meiri bætur, þá sér hver maður, að þarna er fjarstæða á ferðinni. Þessar aðgerðir eru ekki aðgerðir jafnaðarmennskunnar eða tillitsseminnar eða þess hugsunarháttar, sem vill, að allir beri sem líkastar byrðar af efnahagsaðgerðunum.

En þó nú að frv. sé með þessum göllum, er ég fyrir mitt leyti þannig settur gagnvart því, af því að það felur í sér nokkra leiðréttingu til sumra og af því að ranglætinu og réttlætinu er grautað saman þarna, að ég get ekki greitt atkvæði á móti frv. En þá er spurningin þessi: Ætti ekki að breyta frv.? Nú er það staðreynd, að hv. stjórnarflokkar vilja enga samvinnu hafa við stjórnarandstöðuna um efnahagsaðgerðir sínar og fella allar brtt., þó að þær séu ekki nema innskot í mál. En ef ætti að breyta þessu frv., svo að gagni kæmi, þyrfti að umsteypa það, og því sýnist mér vera vonlaust mál að gera við það nokkrar brtt., enda varð reynslan sú í hv. fjhn., að meiri hl. n. taldi sig alls ekki vilja taka brtt. til greina.

Samt er í frv. á einum stað gengið svo langt í fjarstæðum, að ég í nál. mínu legg til, að þar verði breyting á gerð. Það er nefnilega, að samkv. 1. gr. í frv. er skattstiginn lokaður að ofan, svo að segja má, að frádráttur sé einnig að ofan. Síðasta lína hans lokar honum, elns og hver lína lokar fyrir sig að því er þær upphæðir snertir, sem samkv, henni eru greindar. Eftir skattstiganum í frv. eru tekjur umfram skattgjaldsteknaupphæðina 110 þús. kr. skattfrjálsar. Sá gróðapeningur er hafinn yfir skattlagningar eftir þessu að dæma. Þetta virðist eiga að vera aukafrádráttur vegna persónu hátekjumannsins og því meiri sem hann er tekjuhærri. Ég sá ekki betur en að þarna kæmust stjórnarflokkarnir á strikið. Og af því að þetta er svo fjarstæðukennt, fannst mér rétt að gera tilraun til þess að fá þessu breytt og flyt þess vegna í nál., sem ég skilaði fyrir 5 klst., till. um breytingu.

Nú sé ég, að hv. stjórnarflokkar hafa vaknað við vondan draum. Sennilegast finnst mér, að þeir hafi frétt um þessa till. mína og ekki viljað eða þorað að standa við það, sem lagt hefur verið til í þessu frv., og því hafa þeir flutt núna, rétt áður en ég tók til máls, skriflega brtt., sem er efnislega sú sama og mín till., er ég afhenti skrifstofunni fyrir 5 klst. Jæja, mér þykir gott, að hv. stjórnarflokkar hafa flutt þessa brtt., hverjar sem ástæðurnar eru. Tilganginum er náð. En af því að till. mín er sennilega prentuð, virðist mér vera sjálfsagt fyrir stjórnarflokkana að taka sína skriflegu brtt. aftur og samþykkja mína.

Mér virðist þetta, að nú er komin fram hin skriflega brtt., vera sönnun fyrir því, að þó geti þannig faríð, að stjórnarflokkarnir finni, að þeir gangi of langt. Og mér finnst það vera góðs viti og vænti þess, að líka megi sýna sig eitthvað slíkt í sambandi við útsvarsmál, sem nú eru á ferðinni, að vísu ekki hér til umr., en snerta þó töluvert skattaálagningu, þannig að rétt er að hafa hvort tveggja fyrir augum saman. — Já, skriflega till. er óþörf.