06.04.1960
Efri deild: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Í tilefni af því, sem hv. síðasti ræðumaður talaði um fjarstæður af hálfu stjórnarliðsins, sem hann ætlar sér að leiðrétta með brtt., þá er þar, eins og öllum er ljóst, ekki um neitt slíkt að ræða.

Það hefur aðeins af vangá við prentun frv. fallið niður lína og skattstiganum óvart verið lokað. Það var vitanlega aldrei meiningin og vitanlega sjálfsagt að leiðrétta þetta, svo að öll orð hans um fjarstæður falla raunverulega dauð og ómerk, enda leit nú hv. þm. yfir þetta frv. í n., og ég held við höfum farið tvisvar á nefndarfund, og hann tók ekki eftir þessu þá frekar en við hinir. Þarna var aðeins um misgáning að ræða, en ekkert annað, enda held ég, að öllum hljóti að vera það ljóst.

Þetta frv. um niðurfellingu tekjuskatts á almennar launatekjur og verulega lækkun tekjuskatts á hærri tekjum er áfangi að því marki að draga úr beinum sköttum eða fella þá niður og taka upp óbeina skatta í staðinn. Álagning söluskattsins og ákvörðun um að greiða hluta af honum til bæjar- og sveitarfélaga og létta þannig útsvarsbyrðina, eru einnig áfangar á þessari sömu braut.

Afstaða manna og flokka til þessa frv. á að mínum dómi fyrst og fremst að fara eftir því, hvaða stefnu menn aðhyllast í skattamálum yfirleitt, en ekki eftir því, hvaða skoðanir menn hafa á gengisbreytingunni og afleiðingum hennar út af fyrir sig. Að vísu er afnám og lækkun tekjuskattsins liður í heildaraðgerðum núverandi ríkisstj. í efnahagsmálum, en samt virðast mér hv. stjórnarandstæðingar tengja þetta of mikið saman. Þeir vilja sífellt vega hvert atriði efnahagsaðgerðanna á einhverja kjaravog til þess að komast að raun um, hvort þar sé um kjaraskerðingu eða kjarabætur að ræða. Er aflestur þeirra af voginni alltaf á einn veg: kjaraskerðingarnar eru þungbærar, en kjarabæturnar eru léttvægar. Þannig vilja þeir einnig meðhöndla þetta tekjuskattsfrv., sem hér er til umræðu.

Við Alþýðuflokksmenn lítum svo á, að þetta frv. hefði átt að koma fram, þótt hér hefði ekki verið ríkjandi alvarlegur gjaldeyrishalli og við ekki átt við að búa rotið styrkja- og uppbótakerfi, sem nauðsynlegt væri að afnema, m.ö.o.: tekjuskattslækkunin á fyllsta rétt á sér, þó að ekki hefði þurft að gera hér neinar sérstakar efnahagsráðstafanir. Tekjuskattslækkunin rýrir tekjur ríkissjóðs um hér um bil 120 millj. kr. Þann tekjumissi þarf ríkið vitanlega að bæta sér upp með nýjum óbeinum sköttum eða á annan hátt. Það er fremur á þessa hlið málsins, sem efnahagsráðstafanirnar hafa áhrif að minni hyggju. Án þeirra ráðstafana kynni að hafa verið réttmætt að bæta tekjumissinn upp á annan hátt en gert hefur verið, t.d. með stighækkandi söluskatti eftir því, hvort um nauðsynjavörur eða óhófsvörur væri að ræða.

Ástæðurnar fyrir því, að Alþfl. hefur á síðari árum barizt fyrir niðurfellingu tekjuskattsins, eru margvíslegar:

1) Tekjuskatturinn var upphaflega auðjöfnunarskattur, til þess gerður að leggja þyngstu byrðarnar á hina efnameiri þegna þjóðfélagsins og stuðla að jafnari tekjuskiptingu. Þessi þýðing tekjuskattsins hefur gerbreytzt frá því, sem var fyrir 30–40 árum. Þjóðfélagið hefur nú yfir að ráða öðrum tækjum, sem betur duga í þessu skyni. Þar má til nefna umfangsmiklar almannatryggingar, tryggingar gegn atvinnuleysi, lífeyrissjóði, öfluga verkalýðshreyfingu og volduga samvinnuhreyfingu.

2) Tekjuskatturinn er orðinn tiltölulega lítill hluti af heildartekjum ríkisins. Afnám hans sem tekjustofns og álagning óbeinna skatta til að bæta upp þennan missi veldur því ekki mikilli röskun.

3) Tekjuskatturinn hefur í reynd hvílt með mestum þunga á launþegum, hvort sem það hafa verið hátekjumenn eða lágtekjumenn. Þeir, sem hafa einhvers konar rekstur undir höndum, — en þeir eru fjöldamargir í okkar þjóðfélagi og yfirleitt tekjuhærri en launþegarnir, — hafa hins vegar komizt létt út úr skattinum, af því að þeir hafa haft aðstöðu til að draga meira og minna af tekjum sínum undan. Launþegar hafa því í skattamálum búið við óþolandi ranglæti um langan tíma. Þeir hafa í raun og veru gert meira en greiða eigin skatta og útsvör, þeir hafa einnig greitt að nokkru leyti fyrir alla hina, þ.e.a.s. atvinnurekendurna, sem að jafnaði hafa breiðust bökin. Stórfelld lækkun tekjuskattsins eða afnám hans er því knýjandi réttlætismál.

4) Það hefur aldrei tekizt hér á landi að hafa strangt og áhrifaríkt eftirlít með því, að skattaframtöl væru rétt. Með eignakönnunarlögunum 1947 átti að gefa mönnum, sem höfðu dregið undan skatti, upp sakir og fá þá til þess að taka upp nýtt og betra líf á þessu sviði. Þetta mistókst. Skattsvikin hafa haldið áfram og fremur vaxið en minnkað. Hin langa og bitra reynsla sýnir, hve erfitt er að bæta hér úr, og þótt eftirlit með skattframtölum verði hert um stundarsakir, er líklegt, að fljótlega mundi sækja í fyrra horf. Það er á almannavitorði, að næstum því hver maður, sem getur því við komið, dregur tekjur undan skatti. Þessi almenni undandráttur sýnir, að allur almenningur telur beina skatta of háa, auk þess sem undandrátturinn er hverjum einstaklingi nauðvörn til þess að þurfa ekki að borga skatta fyrir nágranna sína. Eina áhrifaríka ráðið til að draga úr þessari spillingu og fá menn til þess að telja heiðarlega fram er að lækka beina skatta að verulegu marki. Aðgerðir, sem miða að því að uppræta spillingu í þjóðfélaginu, verða aldrei ofmetnar.

5) Þá tekjustofna, sem ríkið verður að skapa sér í stað þess, sem það missir í vegna lækkunar beinna skatta, svo sem nýja tolla, aðflutningsgjöld, söluskatt eða því um líkt, er vandalaust að hafa með þeim hætti að þeir bitni með mun meiri þunga á hátekjumönnum en lágtekjumönnum. Niðurfall tekjuskattsins þarf því síður en svo að vera meiri hagsbót fyrir menn með háar tekjur en lágar tekjur.

6) Álagning og innheimta óbeinna skatta er miklu einfaldari og kostnaðarminni en álagning og innheimta beinna skatta. Óbeini skatturinn er lagður á og greiddur um leið og menn kaupa vöruna. Álagning beinna skatta útheimtir hins vegar heilt kerfl skattstjóra og skattanefnda, og innheimtan krefst fjölda innheimtumanna og lögtaksfulltrúa og leggur þær kvaðir á atvinnurekendur að halda eftir af kaupi starfsmanna sinna upp í skatta. Beinir skattar koma því oft mjög illa við launþega, þar sem þeir geta oft átt það á hættu, að aðeins lítill hluti af launum þeirra komi upp úr umslaginu á útborgunardegi. Álagning beinna skatta kemur líka mjög illa niður á mönnum, sem hafa misjafnar tekjur frá ári til árs. Á tekjurýrum árum þurfa þeir oft að borga háa skatta vegna þess, að árið á undan höfðu þeir góðar tekjur.

Höfuðröksemdir stjórnarandstæðinga gegn þessu frv. eru þær, að í því felist miklu meiri hagsbætur til handa hátekjumönnum en láglaunafólki. Þótt lágtekjumaðurinn með t.d. 2000 kr. tekjuskatt fái skattinn alveg felldan niður, lækki skatturinn hjá hátekjumanni t.d. úr 20 þús. niður í 10 þús., og það sé því hálaunamaðurinn, sem græði miklu meira á skattbreytingunni. Þessi rök eru þó ekki sterk, þegar málið er athugað betur. Í fyrsta lagi verðum við að athuga, að hugtakið hátekjumaður í munni stjórnarandstæðinga nær hér aðeins yfir þá menn, sem telja fram háar tekjur. Fyrir hvern einn slíkan eru áreiðanlega tveir aðrir, sem eru raunverulegir hátekjumenn, en hafa aðeins miðlungstekjur samkvæmt skattframtölum sínum. Kemur hér enn fram, að mismunandi aðstaða manna til að draga undan skatti skapar óhæfllegt ranglæti. Að mínum dómi eru margir þeirra manna, sem telja fram háar tekjur, skipstjórar á bátum og togurum, ellegar það eru kvæntir menn, þar sem eiginkonurnar vinna utan heimilis fyrir verulegum tekjum. Sé ég ekkert ranglæti fólgið í því að lækka tekjuskatt þessa fólks að miklum mun. Við þekkjum þess mörg dæmi með okkar aflasælustu skipstjóra, að þeir taka sér frí margar veiðiferðir eða jafnvel heilar vertíðir, vegna þess að þeir eru orðnir svo tekjuháir, að yfirgnæfandi meiri hluti tekna þeirra, sem þeir gætu unnið sér inn til viðbótar, fer í skatta og útsvör. Þetta er öfugþróun, og í þessu er fólgið mikið tjón fyrir þjóðfélagið. Þó að t.d. aðeins einn góður síldveiðiskipstjóri sitji heima eina vertíð, getur það eitt þýtt milljónatap í erlendum gjaldeyri fyrir þjóðina. Fyrir skipshöfnina og fyrir verkafólk í landi getur það einnig þýtt tekjumissi, sem nemur hundruðum þúsunda og jafnvel milljónum.

Það eru fjölmargir hátekjumenn, sem hagnast lítið á verulegri lækkun tekjuskattsins vegna þess, hvernig þeir geta hagrætt sínum framtölum. Flestir þessara manna eru úr hópi atvinnurekenda, en þekkjast einnig nokkur dæmi meðal launþega. Það er t.d. alkunnugt, að einn allra tekjuhæsti launþegi landsins, sem er aðalbankastjóri Seðlabankans og miðstjórnarmaður í Framsfl., borgar engan tekjuskatt. Hann og aðrir slíkir hagnast því ekkert á lækkun tekjuskatts af háum tekjum. Það er því aðeins mjög takmarkaður hópur hátekjumanna, sem hlunnindanna verður aðnjótandi, en hins vegar eru það allir láglaunamenn.

Þegar stjórnarandstæðingar eru að gagnrýna lækkun tekjuskatts hjá hátekjumönnum, líta þeir aðeins á aðra hlið málsins. Á hinn bóginn ganga þeir alveg fram hjá því, hvað þessir menn þurfa að borga í staðinn. Þær verðbreytingar, sem leiðir af efnahagsráðstöfunum, bitna með mun meiri þunga á hátekjumönnum en láglaunamönnum, eins og líka réttmætt er. Þær vörur, sem mest hafa að segja í vísitölunni, hækka minnst, en það eru þær vörur, sem lágtekjumenn nota mest. Hækkanir á vörum og þjónustu, sem lítil eða engin áhrif hafa á vísitöluna, eru hins vegar mun meiri, en það eru einmitt þessar vörur og þessi þjónusta, sem hátekjumaðurinn notar í miklu ríkara mæli en lágtekjumaðurinn. Það er aðeins í því tilfelli, að tekjuhái maðurinn eyði ekki meira sér til lífsframfæris en láglaunamaðurinn, sem hann gæti hagnazt. En slíku er að jafnaði ekki til að dreifa í raunveruleikanum, og væri þá ekki heldur úr vegi að verðlauna slíkan sparnað, ef hann ætti sér stað. Ég tel því í raun og veru æskilegt, að efnahagssérfræðingar ríkisstj. létu ekki við það sitja að reikna út kjaraskerðingu vísitölufjölskyldunnar, heldur reiknuðu einnig út kjaraskerðingu hátekjumannafjölskyldu, og er ég þess fullviss, að þá kæmi í ljós, að kjaraskerðing hinnar síðarnefndu væri til muna meiri. Markmiðið með því að draga úr beinum sköttum, en auka hina óbeinu, er einmitt að skapa jafnrétti milli gjaldþegnanna. Menn geta ekki svikizt undan því að greiða óbeina skatta, og með því er hægt að ná til allra hátekjumanna, hvort sem þeir eru launþegar eða ekki og hvort sem þeir geta falið tekjur sínar eða ekki. Þegar litið er á hátekjumannastéttina sem heild, hefur hún því ekki hag af skattbreytingunni, heldur alveg þvert á móti.

Með þessu frv. er verið að hrinda í framkvæmd einu af helztu baráttumálum Alþfl. og efna eitt af kosningaloforðum hans. Með frv. er stigið stórt skref í áttina að nýju, heilbrigðu og réttlátu skattakerfl. Alþfl. veitir því frv. þessu allt það brautargengi, sem í hans valdi stendur.