28.04.1960
Neðri deild: 72. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2160 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef gefið út sérstakt nál. um þetta frv., og það er nú í prentun. Vænti ég þess, að það komi fyrir augu hv. þdm. nú innan skamms.

Það hafa alllengi verið í gildi hér á landi lög um vald þess opinbera og ákvörðunarrétt þess um gjaldeyrisverzlunina og viðskipti við útlönd. Á þessu tímabili, sem liðið er, síðan slík ákvæði voru í lög tekin, hefur engin stjórn treyst sér til að hverfa frá þessum ríkisafskiptum af viðskiptamálunum, ekki heldur sú hæstv. ríkisstj., sem nú situr. Þessi opinberu afskipti af viðskiptamálunum má telja að hafi hafizt á þessari öld, á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar, sem geisaði á árunum 1914–1918. Þá voru gerðar ýmsar ráðstafanir af stjórnarvöldunum, einkum í því skyni að afstýra vöruskorti hjá þjóðinni, og á fyrstu árum eftir fyrri styrjöldina voru einnig sett á Alþingi ýmis lagafyrirmæli um viðskiptamál. Það má nefna t.d., að með lögum nr. 1, sem út voru gefin 8. marz 1920, var landsstjórninni veitt heimild til að takmarka eða banna með reglugerð innflutning á alls konar óþörfum varningi, og gat hún ákveðið, hvaða vörur skyldu teljast til slíks varnings. Þessi lög munu þó ekki hafa verið notuð fyrsta áratuginn, sem þau voru í gildi. Með brbl., sem út voru gefin 15. apríl 1920, var landsstjórninni heimilað með reglugerð að setja ákvæði um peningaviðskipti hérlendra banka, félaga og einstakra manna við útlönd. Þar með voru hafin afskipti þess opinbera af gjaldeyrismálunum. Fleira var sett í lög á þessum árum, sem snerti viðskiptamálin. T.d. var ríkisstj. veitt heimild með lögum 31. maí 1920 til að taka í sínar hendur alla sölu á hrossum til útlanda svo og útflutning þeirra. Og með lögum nr. 78 frá 27. júní 1921 er ríkisstj. heimilað að hafa á hendi sölu allrar síldar, sem verkuð er til útflutnings hér á landi.

Og árið 1924, þann 4. júní, eru gefin út lög nr. 48, um gengisskráningu og gjaldeyrisverzlun., Það væri fróðlegt að rifja upp ákvæði þeirra laga. Í 4. gr. þessara laga um gengisskráningu og gjaldeyrisverzlun segir, að sérstök n., sem átti að annast framkvæmdir samkvæmt lögunum, geti, þegar nauðsyn krefur, með samþykki fjmrh. krafizt þess, að sér verði afhentur erlendur gjaldeyrir, sem fenginn er, eftir að lögin öðlast gildi, til umráða handa bönkum eða ríkissjóði fyrir skráð kaupgengi á hverjum tíma. Og í 5. gr. laganna segir, að fjmrh. skuli heimilt, þegar sérstök nauðsyn krefur, að banna öllum öðrum en bönkunum verzlun með erlendan gjaldeyri. Í 6, gr. voru þó nokkur undantekningarákvæði, þannig að ef eigandi gjaldeyris færði sönnur á, að hann þyrfti að nota gjaldeyrinn til að borga nauðsynjavörur til atvinnurekstrar síns eða nauðsynleg tæki til hans á næstu sex mánuðum eða þurfi hann til að fullnægja skuldbindingum, sem hann hefur tekið á sig vegna atvinnurekstrar síns, þá verði ekki gjaldeyrir af honum tekinn, nema n. tryggi honum yfirfærslu í því skyni á allt að jafnmiklum gjaldeyri, þegar með þarf.

Þessi lög voru gefin út á Amalienborg 4. júní 1924 af kónginum okkar sáluga, Kristjáni X, og Jóni Þorlákssyni, formanni Íhaldsflokksins, sem þá nefndist svo. En mér sýnist, að þessi lög um heimild til afskipta af gjaldeyrisverzluninni og heimild til þess að heimta af mönnum þann erlenda gjaldeyri, sem þeir eiga, fyrir skráð kaupgengi, séu þau haftalög, sem afdrifa-. og afleiðingaríkust hafa orðið í okkar viðskiptamálum. Að vísu mun það hafa verið svo, að þessum lögum var ekki beitt að fullu næstu árin eftir að þau voru gefin út, en á grundvelli þessara laga var gefin út reglugerð 2. okt. 1931, þar sem ákveðinn er samkvæmt þessum lögum einkaréttur Landsbankans og Útvegsbankans til gjaldeyrisverzlunar og þar sem enn fremur er ákveðin afhendingarskylda allra þeirra, sem gjaldeyri eiga og eignast, á gjaldeyrinum fyrir skráð kaupgengi.

23. okt. 1931 var svo gefin út reglugerð um takmörkun á innflutningi á óþörfum varningi samkvæmt heimild í lögunum nr. 1 frá 1920, sem ég nefndi áður. Og síðan þetta gerðist, hafa verið meiri og minni hömlur á innflutningi erlendrar vöru. Hömlur á verzlun með útflutningsvörur voru á settar á árunum milli 1930 og 1940, a, m. k. gilti það um einstakar útflutningsvörur. Það voru sett lagaákvæði um saltfiskverzlunina og einnig um verzlun með síld, svo að nokkuð sé nefnt.

En árið 1940 eru síðan sett lög um útflutning á vörum. Það eru lög nr. 11 það ár. Þau lög nefnast lög um sölu og útflutning á vörum. Í 1. gr. þeirra segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj, er heimilt að ákveða, að engar vörur megi bjóða til sölu, selja til útlanda eða flytja úr landi nema að fengnu leyfi hennar og með þeim skilyrðum, er hún setur.“ Og í 3. gr. segir, að ríkisstj. sé heimilt að ákveða, að engir megi bjóða til sölu, selja til útlanda eða flytja vörur úr landi aðrir en þeir, sem til þess hafa fengið sérstaka löggildingu ríkisstj., og ríkisstj. getur falið n., er hún skipar, að fara með það vald, er henni er veitt samkvæmt þessum lögum. Þessi lög eru gefin út á Amalienborg 12. febr. 1940 af konungi vorum og þáverandi formanni Sjálfstfl., Ólafi Thors. Þessi lög um sölu og útflutning á vörum hafa verið í gildi síðan, og samkvæmt þessu frv., sem hér liggur fyrir, eiga enn að gilda höftin á útflutningnum eins og þau hafa verið. Ég gerði fsp. um það á fundi í fjhn. til ráðuneytisstjóra efnahagsmrh., sem þar var staddur, hvort fyrirhugaðar væru breytingar á þessu, hvort stjórnin hefði í hyggju að hætta að nota þá heimild til afskipta af útflutningnum, sem í lögunum felst og í þessu frv., en samkvæmt hans svörum liggur ekkert fyrir um, að fyrirhuguð sé breyting á þessu.

Og í þessu frv., 4. gr. þess, er einkaréttur bankanna tveggja til gjaldeyrisverzlunar ákveðinn nákvæmlega sá sami og hann hefur verið samkvæmt lögum, sem gilt hafa undanfarna áratugi.

Þetta er nú að segja um verzlunina með erlendan gjaldeyri og útflutninginn. En hvað er þá að segja um vörukaupin frá öðrum löndum og lagafyrirmæli viðkomandi þeim? Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er engin efnisbreyting á gildandi lögum um það efni. Nú eru í gildi lög frá 1953 um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o.fl. Þessi lög voru sett það ár, á samstjórnartímabili Framsfl. og Sjálfstfl. Í 1, gr. þeirra laga segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Stefna skal að því að gera allan innflutning til landsins frjálsan. Meðan gjaldeyristekjur þjóðarinnar nægja ekki til þess, að svo megi verða, ákveður ríkisstj. hverju sinni með reglugerð, hvaða innflutningur til landsins skuli vera frjáls.“ Þannig hljóðar það. Þetta hefur verið í gildi síðan og er enn. En í stað þessara fyrirmæla í lagagreininni, sem ég hér hef lesið, vill ríkisstj. nú skv. frv., sem hér liggur fyrir, fá lögfest það, sem hér greinir, samkvæmt 1. gr. frv.: „lnnflutningur á vörum til landsins skal vera frjáls, nema annað sé ákveðið í sérstökum lögum eða í reglugerð, sem ríkisstj. er heimilt að gefa út samkv. þessum lögum.“

Við samanburð á þessu sést, að hér er dálítil] munur á orðalaginu, en efnisbreytingin er engin. Skv. frv. á það að vera eins og áður á valdi ríkisstj. algerlega, að hve miklu leyti megi flytja inn vörur án innflutningsleyfa. Frv. þetta hefur sem sé ekki að geyma nein ákvæði um aukið frelsi í verzlun.

En hvers vegna er hæstv. ríkisstj. og hennar lið þá að reyna að blekkja fólk með því að halda því fram, að hún sé að innleiða hér verzlunarfrelsi? Ég álit, að þetta sé algerlega vonlaust verk. Það hljóta allir að sjá, ef þeir bera þetta frv. saman við núgildandi lög um þessi mál, að þetta eru blekkingar einberar af hálfu hæstv. stjórnar. En aftur á móti hefur hæstv. ríkisstj. núv. og hennar stuðningsflokkar lagt mjög miklar hindranir í veg þeirra, sem fást við verzlun og viðskipti, með ýmsum ráðstöfunum, sem stjórnarflokkarnir hafa gert og fengið lögfestar á þessu þingi. Þetta hafa þeir gert t.d. með takmörkunum á útlánum frá bönkunum, með stórkostlegri vaxtahækkun og einnig með því að leiða mikla kjaraskerðingu yfir almenning, sem hlýtur að hafa þau áhrif, að vörukaup dragist mjög saman, enda gerir sjálf ríkisstj. ráð fyrir, að svo fari.

Grundvöllurinn, sem utanríkisviðskiptin hvíla á, er að sjálfsögðu framleiðsla á vörum til útflutnings, flutningur þeirra og sala á erlendum mörkuðum. En til vöruútflutningsins þarf leyfi yfirvaldanna, og það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að það gildi áfram, að ríkisstj. sé heimilt að ákveða, að vörur megi ekki bjóða til sölu, selja til útlanda eða flytja úr landi nema að fengnu leyfi hennar. Þetta var ákveðið í lögunum frá 1940, sem hæstv. núv. forsrh. stóð að og gaf út ásamt konungi vorum á þeim tíma, og þetta á að gilda áfram, skv. frv. Þetta er um vöruútflutninginn að segja.

Og gjaldeyrisverzlunin á að vera bundin með nákvæmlega sama hætti og áður hefur verið um langt skeið. Allir, sem eignast erlendan gjaldeyri, eru með lögum skyldaðir til að selja hann til bankanna fyrir lögákveðið verð. Meðan slík ákvæði eru í landslögum og í framkvæmd, þýðir ekki að segja neinum skyni bornum manni, að frjáls verzlun sé á voru landi.

Ég held, að það borgi sig alls ekki fyrir hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar að reka þessa blekkingastarfsemi. Ég held, að það sé miklu hyggilegra fyrir þá að viðurkenna hreinlega það rétta, að núv. hæstv. ríkisstj. treysti sér ekki til að gefa verzlunina frjálsa. Stjórnirnar, sem setið hafa á undan henni síðustu áratugina, hafa ekki heldur treyst sér til að leysa höftin af verzluninni.

Hv. frsm. meiri hl. fjhn., 6. landsk. þm. (BK), sagði að vísu hér áðan, að höftin væru alls ekki nauðsynleg, og hann sagði, að hæstv. viðskmrh. hefði sagt það sama í framsöguræðu sinni, þegar þetta frv. var hér til 1. umr. Ég gat því miður ekki hlustað á ræðu hæstv. ráðh. í það sinn, en ég hef ekki ástæðu til að ætla, að hv. frsm, meiri hl. segi hér rangt frá um ummæli ráðh., ég hef ekki ástæðu til að ætla það.

En hvernig á þá að skilja þetta allt saman, ef þessir menn, sjálfur hæstv. viðskmrh. og hv. 6. landsk., frsm. meiri hl. fjhn., telja báðir höftin ónauðsynleg, en samt eiga þau að haldast? Hafa þá aðrir hæstv. ráðh. og stuðningsmenn ríkisstj. tekið ráðin af þessum mönnum, svo að þeir hafi orðið þarna í minni hl. og verði að beygja sig fyrir hinum? Ja, ég veit það ekki, hvaða skýring er helzt á þessu.

Skv. frv. hefur stjórnin í hyggju að gera nokkrar breytingar á framkvæmd haftanna. Það er lagt til, að innflutningsskrifstofan verði

lögð niður, sömuleiðis verði útflutningsnefndin og úthlutunarnefnd jeppabifreiða látnar hætta störfum. Í staðinn fyrir þetta eiga að koma Landsbanki Íslands, Útvegsbanki Íslands, ríkisstj. sjálf og sérstakir trúnaðarmenn hennar, sem svo eru nefndir, ótiltekið hvað margir. Þessir aðilar eiga skv. frv. að framkvæma höftin.

Hv. meðnm. minn og frsm. meiri hl. fjhn. var ákaflega rogginn áðan í ræðu sinni yfir því, að nokkrar nefndir fengju að týna tölunni. En hvað er það, sem kemur í staðinn? Getur hv. 6. landsk. nokkuð upplýst mig um það, hvað þessir sérstöku trúnaðarmenn muni verða margir? Í sjálfri frumvarpsgreininni, 2. gr. frv., segir, að ríkisstj. sé heimilt að fela sérstökum trúnaðarmönnum úthlutun tiltekinna leyfa, en í aths. um þessa gr., sem fylgir frv., segir, að stjórnin geti falið sérstökum trúnaðarmönnum sínum úthlutun tiltekinna leyfa. Þarna er orðinu „sínum“ bætt inn í, líklega til að gefa til kynna, hverrar tegundar þessir sérstöku trúnaðarmenn eigi að vera. Getur hv. frsm. meiri hl. gefið okkur hér nokkrar upplýsingar um það, hvað þeir muni verða margir, eða nokkru nánar um, hvernig þeir eigi að verða valdir? Engar upplýsingar eru um það í aths. með frv., og ekki komu þær fram heldur á nefndarfundum.

Og svo eru það bankarnir, sem eiga ásamt fleirum að fara með framkvæmd haftanna. Mér hefur skilizt, að bankastjórar hefðu annir allmiklar oft og jafnvel svo, að mönnum gengi ekki ætíð sem greiðlegast að ná tali af þeim, þó að þeir stundi vel sín verk og séu dag hvern í sínum stofnunum til að ræða við viðskiptamenn. En hvernig verður þá, þegar þeir eiga að bæta því við sín störf, sem þeir nú hafa, að taka á móti mönnum, sem vilja fá innflutnings- eða gjaldeyrisleyfi? Þeir mörgu umsækjendur um slík leyfi hafa undanfarið farið til annarra manna, en bankastjórarnir hafa ekki haft með þetta að gera, ekki þurft að sinna því. Nú var sagt í nefndinni, að bankastjórarnir mundu fela sérstökum fulltrúum í bönkunum að fara með þetta, en það eru bankastjórarnir, sem fela þessum mönnum þetta og velja þá starfsmenn bankanna, sem fara með þessi mál. Og það gefur auga leið, að ef einhver þykist ekki fá nægilega fyrirgreiðslu hjá þessum undirmönnum, þá liggur náttúrlega leiðin til sjálfra bankastjóranna, sem eru yfirmenn þar, yfirmenn yfir þessu.

Ég veit ekki, hvað um þetta á að segja. En reynslan ein sker náttúrlega úr því, hvort hér er skipt um til batnaðar. Ég ætla ekkert að segja um það. Ekki eru horfur á, að framkvæmd haftanna verði ódýrari en verið hefur með þessari breytingu. Í frv. er gert ráð fyrir því, að eins og áður skuli allir þeir, sem leyfi fá, greiða 1% af upphæð leyfa. Hæstv. stjórn gerir þar með ráð fyrir því, að kostnaðurinn verði svipaður.

Það er sagt, að hæstv. ríkisstj. hafi í hyggju að gera breyt. á svonefndum frílista. En ég vil vekja athygli á því, að það er engin þörf lagabreytingar til þess. Ríkisstj. hefur helmild í núgildandi lögum til þess að ákveða frílista, og stjórnir hafa gert það undanfarið. Það er ekkert nýtt að finna í frv. þessu viðkomandi.

Í frv. er lagt til, að sú breyting verði gerð á l., að hér eftir þurfi ekki leyfi ríkisvaldsins til stærri verklegra framkvæmda. Með þessu segist stjórnin vera að veita mönnum framkvæmdafrelsi. En sá stóri galli er á gjöf Njarðar, að mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur ekkert af því frelsi að segja, heldur þvert á móti. Ríkisstj. hefur og stuðningsmenn hennar með lagasetningu á þessu þingi lagt stórkostlegar hömlur á verklegar framkvæmdir hjá öllum þorra landsmanna, svo að á því sviði ern nú raunverulega strangari höft og meiri hindranir en nokkru sinni áður. Af slíkum ráðstöfunum, sem nú hafa verið gerðar og allar torveldað mjög nýjar framkvæmdir og framfarir í landinu, má nefna gengisbreytinguna og þær stórkostlegu verðhækkanir, sem henni fylgja, enn fremur niðurskurð lánveitinga frá bönkunum og gífurlega hækkun á vöxtum. Sama er að segja um fyrirætlanir stjórnarvaldanna um að sópa fé sparisjóða og innlánsdeilda um land allt inn í banka í Reykjavík, en þær stofnanir hafa gegnt mjög þýðingarmiklu hlutverki, hver á sínum stað, með stuðningi við gagnlegar framkvæmdir. Allt miðar þetta að því að takmarka framkvæmdamöguleika almennings.

Stefna ríkisstj. er að draga úr framkvæmdunum. Það er viðurkennt af henni sjálfri. Að sjálfsögðu eru takmörk fyrir því, hvað mikið er hægt að framkvæma á hverjum tíma, hvað mikið er hægt að ráðast í af verklegum framkvæmdum. Það er ekki hægt að verja nema nokkrurn hluta þjóðarteknanna til þeirra hluta. En það er ákaflega mikilsvert, að framkvæmdafénu sé þannig varið, að það sé þannig notað, að það gagnlegasta sé látið sitja í fyrirrúmi, en hitt á hakanum, sem helzt má án vera. En stjórnin heldur ekki þannig á málum og ætlar ekki að halda þannig á málum. Hún vill láta peningana ráða, en ekki þörf þjóðarheildarinnar. Þeir, sem ráða fyrir fjármagninu, eiga að fá að gera það, sem þeim sýnist, að því er varðar verklegar framkvæmdir. Stjórnin vill veita þeim ótakmarkaðan rétt í því efni, þó að fjármagnið, sem þeir hafa í höndum, sé oftast að mestu þegið að láni frá bönkum landsins. Þeir mega gera það, sem þeir telja sér sjálfum hagkvæmast, sem þeir telja ábatavænlegast fyrir sig, en það er ekki víst, að það sé um leið æskilegast fyrir þjóðfélagið, fyrir þjóðarheildina. Hins vegar er allur almenningur hindraður við framkvæmdirnar af ráðstöfunum valdhafanna, hindraður með geysilegum verðhækkunum, lánasamdrætti og vaxtaokri. Ég hef haft þær fregnir nú nýlega úr fleiri en einu landbúnaðarhéraði, að níu af hverjum tíu bændum, sem höfðu ætlað að kaupa dráttarvélar til búa sinna á þessu ári, hafi afturkallað pantanirnar. Þessi kaup voru þeim alveg óviðráðanleg eftir þá geysilegu hækkun, sem orðið hefur á verði þessara tækja, og eftir að lánsmöguleikar hafa verið skertir svo mjög sem nú hefur verið gert, og þar við bætist það, að þó að einhvers staðar sé hægt að fá takmarkaða upphæð að láni, þá verður að greiða af henni okurvexti. Þetta gildir vitanlega alveg eins um önnur atvinnutæki eins og þessi, sem ég nefndi. Og þessar ráðstafanir gera einnig í mörgum tilfellum algerlega óframkvæmanlegar byggingarframkvæmdir og aðrar nauðsynlegar framkvæmdir hjá almenningi, hvort heldur er í sveitum eða við sjó.

En hér er stórhætta á ferðum, einmitt í sambandi við þetta, þessa gífurlegu skerðingu á framkvæmdamöguleikum almennings í landinu, — mikil hætta á ferðum. Framfarasókn þjóðarinnar má alls ekki stöðva. Sé landsmönnum yfirleitt gert ómögulegt með ráðstöfunum stjórnarvalda að afla nauðsynlegra tækja til atvinnurekstrarins, að halda áfram nauðsynlegum framkvæmdum til eflingar atvinnulífinu, þá er vá fyrir dyrum. Svo er einnig, ef nauðsynlegar byggingarframkvæmdir almennings eru stöðvaðar. Þá vofir m.a. sú hætta yfir, að byggilegir staðir víða um land fari í eyði. Móti þessari hættu þarf að vinna með tiltækum ráðum.

Eins og ég hef þegar gert grein fyrir, á hæstv. ríkisstj. skv. þessu frv. að hafa sama vald yfir viðskiptamálunum og hún hefur nú. Það er ekkert ákvæði í þessu frv. um aukið verzlunarfrelsi, og það er ákaflega þýðingarlítið viðfangsefni fyrir hæstv. Alþ. að sýsla við orðalagsbreytingar á lagafyrirmælum, sem ætlunin er að láta standa óbreytt að efni til. En í sambandi við viðskipta- og peningamálin er brýn þörf nýrra úrræða og ráðstafana til þess að tryggja nauðsynlegar almennar framkvæmdir og framfarir í landinu, eins og verið hafa síðustu árin. Þess vegna tel ég nauðsynlegt og rétt að reyna að beina þessu máli í þá áttina. Ég vil því, herra forseti, leggja til, að þetta frv. verði afgreitt með svo hljóðandi dagskrártillögu:

„Í trausti þess, að ríkisstj. feli fjögurra manna nefnd, er sé þannig skipuð, að hver þingflokkur tilnefni einn mann í nefndina, að undirbúa fyrir næsta þing lagasetningu um ráðstafanir í viðskipta- og peningamálum, er m.a. tryggi, eftir því sem kostur er, að almenningur í sveitum og við sjó geti haldið áfram framkvæmdum við eflingu atvinnuveganna og við nauðsynlegar byggingar til endurnýjunar og óhjákvæmilegrar aukningar á húsakosti vegna fólksfjölgunarinnar, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“