02.05.1960
Neðri deild: 74. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2228 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. með því að ræða einstök atriði þessa mikla máls, enda hafa þeim málstað, sem ég ber fyrir brjósti, verið gerð ákaflega glögg skil af hæstv. viðskmrh. og hv. frsm. meiri hl. fjhn., hv. 6. landsk. (BK). Ég hygg, að málefnalega geti ég þar engu við bætt, og það er ekki minn háttur að taka hér þátt í umr. til að halda einhverjar maraþonræður, heldur frekar ef ég þarf eitthvað sérstakt að segja.

Ástæðan fyrir því, að ég kveð mér hljóðs, er ein og eingöngu ein. Mér finnst, að það hafi komið fram nokkur uggur hjá einstökum mönnum fyrir því, að afleiðing þessa frv., ef samþ. verður, kynni að verða sú, að eitthvað mundi draga úr viðskiptum okkar við hin austrænu jafnvirðiskaupalönd. Það hefur að sönnu komið greinilega fram, bæði hjá hæstv. viðskmrh. og hv. frsm. meiri hl. fjhn., hv. 6. landsk., að allar slíkar ágizkanir séu úr lausu lofti gripnar, og mér sýnist, að einnig hafi verið borin fram af þeim báðum alveg skýr rök fyrir því, að slíkur ótti er ástæðulaus. Það mætti miklu frekar segja, að með þessu frv. og því, sem því fylgir, séu þessi viðskipti meira löghelguð og lögtryggð en nokkru sinni fyrr, þannig að hvorki meira né minna en 87% af viðskiptunum við þessi lönd, eins og þau voru 1958, er nú tryggt og aðeins 13% af þessum viðskiptum þarf að byggja á samkeppnishæfni þessara landa. Og það er mikil vantrú á samkeppnishæfni þeirra, ef þau eru ekki álitin megna að halda uppi þessum hlut sínum, þegar eingöngu er um að ræða 13%.

Ég er hingað kominn til að lýsa því yfir, að þessi skoðun, sem hér hefur komið fram frá þessum tveimur hv. virðulegu alþm„ sem ég hef nefnt, hæstv. ráðh. og hv. 6. landsk. þm., eru ekki neinar einkaskoðanir þeirra, heldur er þetta skoðun ríkisstj. í heild og þeirra flokka, sem hana styðja. Ég tel þess vegna ekki, að af þessum ráðstöfunum leiði neina hættu á því, að þessi viðskipti réni svo, að einhver skaði verði að, annaðhvort fyrir okkur eða þær aðrar þjóðir, sem hér eiga hlut að máli. Við óskum eftir, Íslendingar, að þessi viðskipti megi haldast. Þau hafa reynzt þjóð okkar gagnleg, og enda þótt við séum margir því mjög andvígir, að of mikill hluti viðskipta okkar byggist á kaupum eða sölu til einstakra landa, eins og þessara sem hér um ræðir, þá erum við jafnhvetjandi þess, að verulegur hluti sé tryggður með viðskiptum við þau, alveg eins og við erum því hlynntir, að verulegur hluti okkar afurðasölu sé tryggður með viðskiptum við önnur ríki.

Ég segi þess vegna, og ég bæti því við, að eftir takmarkaðri þekkingu minni, sem þó er ekkert minni en flestra annarra hér á landi, hef ég enga ástæðu til þess að ætla, að gagnaðili okkar, þær viðskiptaþjóðir, sem hér eiga hlut að máli, vilji slíta þessum viðskiptum, — ekki minnstu ástæðu. Ef þær vita, að Íslendingar vilja, að viðskiptin standi, og muni ekki fremja sjálfráðan verknað, sem spilli þeim, og ef við vitum eða höfum ástæðu til að halda, að viðskiptaþjóðirnar hafi sama áhuga á áframhaldandi viðskiptum og við höfum, þá segi ég: Þá eiga þessi viðskipti að vera tryggð. Og ef eitthvað kemur fyrir í þeim efnum, sem ég vona að verði ekki, þá er það af annarlegum ástæðum, sem við berum ekki neina sök á.

Þetta vil ég, að liggi alveg ljóst fyrir. Það er engum til góðs, að menn séu hér á Alþingi að gera því skóna, að hér eigi af Íslands hálfu að hefja einhverjar aðgerðir til að slita þessi tengsl, sem ég tel að hafi orðið þjóð okkar til góðs, Við skulum gera okkur grein fyrir því, að slíkar bollaleggingar gætu vakið einhverjar grunsemdir í okkar garð, sem leiddu til tjóns fyrir þjóðina. Við skulum þess vegna ekki gera leik að því, og ég hef staðið upp sem forsrh. þjóðarinnar til þess að bæta við yfirlýsingar þessara merku manna, sem hér hafa talað f.h. stjórnarinnar, Alþfl. og Sjálfstfl., annars eða beggja og vanalega beggja, — ég er að bæta þessu við til þess að taka af öll tvímæli, að þetta er sameiginlegur vilji okkar og við viljum ekkert gera í þessum efnum, sem gefur ástæðu til að halda, að við séum að reyna að slíta sundur þessa þræði, sem við höfum talið leiða til viðskipta, sem báðum hafa verið til farsældar.