19.05.1960
Neðri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2500 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Mér finnst nokkuð einkennileg meðferð hæstv. ríkisstj. á þessu máli. Þetta er frv. til l. um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála o.fl. og búið að vera hér í d. og mikið um það rætt, og svo er því breytt þannig í Ed., að sett er inn í bráðabirgðaákvæði heimild handa fjmrn. til að lækka aðflutningsgjöld af efnivörum til skógerðar, og síðan vill hæstv. viðskmrh. koma hér inn í það breyt. enn um lækkun á aðflutningsgjöldum eða heimild til slíks. Nú á þetta náttúrlega ekki erindi og á alls ekki heima í þessum lögum um innflutningsmál. Þetta er tollskrármál. Það átti að flytja þetta sem breyt. á tollskrá. En ef stjórnin hefur viljað komast hjá því, sem náttúrlega var þó óeðlilegt, því að þetta á heima í tollskrá og hvergi annars staðar, þá hefði hún getað haft annan skynsamlegri hátt á þessu. Hún er sjálf búin að flytja hér frv. um breyt. á lögum sínum frá í vetur um efnahagsmál, og það hefði verið ólíkt skynsamlegra að setja þetta inn í það frv. Í því frv. eru þó ákvæði um innflutningsgjöld í einum kafla þess, og þar eru m.a. heimildir til þess að gefa eftir innflutningsgjöld í vissum tilfellum. Það væri þó heldur skárra að setja þetta inn í þau lög en inn í lögin um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála. Það væri vitanlega það réttasta fyrir stjórnina að flytja nú till. um að taka út þetta tollskrárákvæði, sem sett var inn í þetta frv. í Ed., og láta það fara aftur til hennar til samþykktar þar, eins og það kom héðan frá Nd., og setja þessi tollskrármál sín þá heldur inn í frv. um efnahagsmál, sem er hér á fyrsta stigi, er hér í Nd. og á svo eftir að fara til Ed., heldur en vera að hrekja þetta mál milli deilda fram og aftur og reyna að koma inn í það atriðum, sem eiga þar alls ekki heima. Eins og ég sagði, væri réttast að flytja þetta hvort tveggja í frv. um breyt. á tollskrárlögum, en vilji stjórnin það ekki, þá er þó hitt stórum skárra, sem ég benti á, að setja þetta inn í efnahagslögin.