23.05.1960
Efri deild: 82. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2565 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

135. mál, ríkisreikningurinn 1957

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað frv. um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir 1957. Eins og nál. ber með sér, leggur n. til, að frv. verði samþykkt óbreytt.

Það eru þó nokkur atriði, sem ég vildi vekja máls á hér við þessa umr., þó að engin þeirra séu þess eðlis, að þau gefi tilefni til sérstakra brtt. við frv. þetta, enda er það, eins og það ber með sér, um samþykkt á reikningi frá 1957 og því ekki um að ræða að gera neina breyt. á honum, úr því sem komið er, heldur er um atriði að ræða, sem varðar framtíðina.

Varðandi form reikningsins sjálfs eru tvö atriði, sem ég vildi minnast á og ég tel ábótavant. Annars vegar er það atriðið, að eins og ríkisreikningur er upp settur, þá er mjög erfitt um vik og raunar næstum ómögulegt að finna út úr honum, hver er raunverulegur greiðslujöfnuður, þ.e.a.s. greiðsluafgangur eða greiðsluhalli. Þetta munu menn sannfærast um eftir athugun ríkisreikninga fyrir þau ár, sem greiðsluafgangur ríkissjóðs var mikill og ákveðinni fjárhæð var varið til tiltekinna þarfa. Þær tölur, sem þá eru taldar greiðsluafgangur, eru ekki finnanlegar í ríkisreikningi nema með alveg sérstöku uppgjöri hans, sem er ekki á færi nema fagmanna að gera. Nú vil ég taka það skýrt fram, að með þessum orðum mínum er ég ekki á neinn hátt að finna að hinni reikningslegu uppsetningu ríkisreiknings frá hálfu ríkisbókhaldsins, því að að sjálfsögðu er hann, eins og hann er uppsettur, réttur frá faglegu sjónarmiði. En ég hef áður hér við umr. um fjárlög bent á þetta atriði, sem ég teldi að væri mjög nauðsynlegt að kæmist í lag og það fylgdi ríkisreikningi hverju sinni sérstakt uppgjör, þar sem hægt væri að sjá, hvernig hin raunverulega útkoma er að þessu leyti. Þetta hefur verið útbúið fyrir hvert einstakt ár, er mér kunnugt um, í ríkisbókhaldinu, en hefur hins vegar ekki verið látið fylgja ríkisreikningi.

Þá er annað atriði, sem hvað eftir annað hefur valdið miklum árekstrum milli fjvn. annars vegar og fjmrn. hins vegar. Það er um uppsetningu á 20. gr., eignahreyfingagreininni. Þessi ágreiningur hefur verið um það, að hve miklu leyti væri ástæða til þess að fá aukafjárveitingar fyrir útgjöldum á 20. gr. Ég hygg, að það sé auðið að setja 20. gr. upp á þann veg, að um þetta geti naumast verið ágreiningur, og væri það mjög æskilegt í framtíðinni, að sú breyt. yrði gerð á uppsetningu greinarinnar.

Þetta eru hin tvö formsatriði varðandi ríkisreikninginn, sem ég sérstaklega vildi benda á. Hinu er ekki að leyna, að það eru vitanlega ýmis önnur atriði í sambandi við uppbyggingu ríkisreiknings, sem kemur til álita að breyta, og það er auðvitað þá í nánu sambandi og samræmi við, hvernig fjárlög eru á hverjum tíma upp byggð. Hæstv. fjmrh. hefur skýrt frá því í sambandi við umr. um fjárlög, að hann telji nauðsynlegt að gera hér breyt. á, og vænti ég þá, að þessi tvö atriði, sem ég hef hér sérstaklega minnzt á, komi þar til athugunar m.a.

Svo sem hv. þdm. vita og sjá á ríkisreikningnum, fylgja honum aths. yfirendurskoðunarmanna ríkisins, svör ráðuneytanna við aths. þeirra og svo loks tillögur yfirskoðunarmanna eftir að hafa fengið þessi svör ráðuneytanna. Það hefur oft verið rætt um það hér á Alþ., hvernig bregðast eigi við þeim aths., sem bornar eru fram af hálfu yfirskoðunarmanna, og hefur það stundum verið gagnrýnt, að þeir hafi lítið gert til þess að fylgja sínum tillögum eftir. Nú er því þar til að svara, að vitanlega er það ekkert skilyrði, að yfirskoðunarmenn eigi sæti á Alþ., enda er það ekki nema stundum, sem þeir hafa átt það, þannig að raunverulega verður ekki sú krafa til þeirra gerð, að þeir fylgi málinu fram á Alþ. Það hlýtur því að koma til athugunar hverju sinni í fjárhagsnefndum þingsins, að hve miklu leyti Alþingi getur haft afskipti af þeim aths.; sem yfirskoðunarmenn telja að þörf sé að gera, eftir að þeir þó hafa fengið svör rn. Það hefur verið venja, að þeir hafa um ýmis atriði þessara athugasemda sinna vísað til aðgerða Alþingis, en um önnur hefur verið tekið fram, að þau væru til athugunar framvegis. Þar sem um það er að ræða, að aths. séu til athugunar framvegis, verður í flestum tilfellum að líta svo á, að það séu ábendingar til fjmrn. og viðkomandi ráðuneyta um að haga þeim málum á þann veg, sem yfirskoðunarmenn telja þurfa að gera, en þar sem um er að ræða, að óskað sé aðgerða Alþ., ber væntanlega að líta svo á, að það sé af hálfu yfirskoðunarmanna talið nauðsynlegt, að af hálfu þingsins sjálfs séu gerðar einhverjar skipulagsbreytingar eða ráðstafanir til úrbóta.

Í þessum ríkisreikningi er aðeins að finna tvö atriði, sem vísað er til aðgerða Alþingis. Önnur aths., sem raunar er margar aths., en þær varða eina ríkisstofnun, er um ríkisútvarpið. Yfirskoðunarmenn hafa ár eftir ár gert margar aths. við útgjöld ríkisútvarpsins og telja, að þeim sé haldið harla lítið innan við ramma fjárlagaáætlunar, og er það vissulega rétt, að það hefur oft og tíðum verið svo, að ríkisútvarpið hefur farið allmikið fram úr áætlun. Hins vegar hygg ég, að það sé nokkrum erfiðleikum bundið fyrir Alþingi að hafa afskipti af því máli. Það hlýtur að verða hlutverk þess rn., sem ríkisútvarpið heyrir undir, að gæta þess, að útvarpið fylgi áætlunum fjárlaga, því að enda þótt ríkisútvarpið hafi sínar tekjur, ber því að sjálfsögðu alveg eins og öðrum stofnunum ríkisins að fylgja þeim útgjaldaáætlunum, sem fjárlög gera ráð fyrir. Á það er bent í aths. við ríkisútvarpið, sem er næsta einkennilegt, að útistandandi afnotagjöld þess hafi í árslok numið rúmum 2 millj. kr., og er þar vert að benda á, að það er kvartað yfir því sérstaklega í svörum útvarpsstjóra, að innheimtumenn ríkissjóðs standi ýmsir illa í skilum við ríkisútvarpið og geri seint upp. Þessu ætti vitanlega að vera hægt að kippa í lag og verður vonandi tekið til athugunar. Annað atriði er það, sem vissulega er ástæða til þess að taka til athugunar, en það eru lánveitingar þær, sem stundaðar hafa verið úr byggingarsjóði ríkisútvarpsins, sem er allstór sjóður. Hann hefur í árslok numið rúmum 7 millj. kr., en af því er útistandandi um 1.8 millj. kr. í verðbréfum, og það furðulega er, að af þessum verðbréfum er töluvert mikið í vanskilum, þó að hér sé fyrst og fremst um byggingarlán að ræða með ríkisábyrgð, jafnvel allt frá árinu 1951. Það er auðvitað ekki hægt að segja um það nú, hvort þetta er komið í lag eða ekki, en það er auðvitað fráleitt með öllu, að lán sem þessi þurfi eða eigi að vera í vanskilum. Og raunverulega er það svo, bæði með framkvæmdasjóð útvarpsins og einnig með húsbyggingarsjóð Áfengisverzlunar ríkisins, sem er stór sjóður einnig, að það er mjög óeðlilegt, að verið sé að veita lán úr þessum sjóðum, a.m.k. til langs tíma, því að að sjálfsögðu eiga þeir að vera handbærir, þegar hafizt verður handa um byggingu fyrir þessar stofnanir.

Hitt atriðið, sem vísað er til aðgerða Alþingis, er í sambandi við innheimtumál Tryggingastofnunar ríkisins. En þar segir, að um árslok hafi verið útistandandi þar um 44.5 millj. kr., sem vissulega er mjög há upphæð. Það er ekki heldur ljóst, að Alþ. geti hér á haft mikil áhrif, nema það sé beinlínis ætlazt til þess, að Alþ. að einhverju leyti taki yfir á ríkissjóð þessi útgjöld, sem ég geri þó naumast ráð fyrir, enda þyrfti það mál að sjálfsögðu allt að rannsakast með endurskoðun á tryggingalöggjöfinni, og af þeim sökum er ekki sjáanlegt, að hægt sé á þessu stigi að gera neinar ákveðnar tillögur um það efni. Auðvitað er það hins vegar ljóst, að það er hið mesta nauðsynjamál, að þessum innheimtum sé komið í sem bezt horf og þess gætt, að ekki safnist þarna fyrir stórkostlegar skuldir. Sé það svo, að þessum aðilum, sem byrðarnar eru á lagðar, sé gersamlega um megn að risa undir þeim gjöldum, sem þeir eiga að greiða, hlýtur að sjálfsögðu að því að koma, að það verði að takast til endurskoðunar, hvernig allt það fjármálakerfi er upp byggt. En það verður vitanlega að gerast í sambandi við lögin um almannatryggingar sem slík, en ekki sérstaklega í sambandi við þetta mál.

Það er eitt atriði, sem mér þykir næsta undarlegt að yfirskoðunarmenn ríkisreiknings skuli ekki gera neinar aths. við, og það eru útgjöld samkv. 19. gr. fjárlaga, 3. lið, óviss útgjöld. Að þeim útgjöldum er ekki vikið í aths. yfirskoðunarmanna, en hér er um útgjöld að ræða, sem talin eru upp á rúmum 4 blaðsíðum í ríkisreikningi. Það má auðvitað endalaust um það deila, að hve miklu leyti sé eðlilegt að inna af hendi útgjöld, sem hér um ræðir. En ég vil þó hiklaust halda því fram, að stórar fjárfúlgur af þessum útgjöldum hafi ekki verið eðlilegt að fjmrn. samþ. að greiða án heimildar í fjárlögum. Þarna er um að ræða útgjöld mörg, sem eru nákvæmlega sams konar og hér er fjallað um í Alþ. við afgreiðslu fjárlaga, og það er vitanlega jafneðlilegt, að við afgreiðslu fjárlaga sé tekin afstaða til þessara útgjalda eins og þeirra, sem þar hafa komið til meðferðar hverju sinni, og óeðlilegt, að hægt sé af hlutaðeigandi aðilum eða félagasamtökum, eftir að fjárlög eru afgr., að fara beint með þau mál til viðkomandi rn. eða til- fjmrn. og fá greitt úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum. Það er t.d. hægt að benda á, að í þessum ríkisreikningi frá 1957 eru veittir styrkir til þess að sækja milli 20 og 30 erlendar ráðstefnur og mót, sem ólíklegt er að hafi borið svo bráðan að, að ekki hafi verið hægt að sækja um slíkar fjárveitingar í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, enda eins og menn vita, þá koma oft einmitt slíkar umsóknir þá til meðferðar og eru þá metnar eftir því, sem efni standa til, svo sem eðlilegt er. Þessar fjárhæðir eru að vísu ekki háar í flestum tilfellum og nema samtals rúmum 186 þús. kr., en ég held, að það sé ekki rétt að hafa þann hátt á að greiða styrki til að sækja ráðstefnur með þessum hætti.

Þá eru enn fremur nokkrir tugir utanfararstyrkja, sem nema samtals 220 þús. kr. og greiddir hafa verið algerlega án heimildar í fjárlögum. Einnig það atriði verður að teljast mjög hæpið.

Það eru auðvitað margs konar útgjöld í þessari grein, sem eðli málsins samkvæmt er eðlilegt að þar færðust og ekkert við að segja. Það er t.d. kostnaður við undirbúning ýmissa lagafrv., málskostnaður og ýmis önnur gjöld, sem ríkissjóður hefur orðið að inna af hendi, en ekki hafa verið sérstakar fjárveitingar til. En þessi tvö atriði vildi ég minnast á, sem mér finnst vera mjög hæpið að eigi að afgreiða á þennan hátt, heldur eigi að koma til athugunar hverju sinni við meðferð fjárlaga. Og raunar er svo um marga aðra styrki í þessari grein, styrki til einstakra félagasamtaka og ýmsa aðra styrki, sem allt of langt mál yrði að rekja sérstaklega. Það má segja, að þetta sé ef til vill sparðatíningur, að vera að finna að þessu, þar sem hér sé um mjög smávægilegar upphæðir að ræða, miðað við heildarútgjöld fjárlaga, en það er þó engu að síður rétt að vekja athygli á þessu vegna þess, að ef inn á þessar brautir er farið, þá gætu þessar upphæðir alveg eins numið milljónum eins og hundruðum þúsunda. Þetta tel ég nauðsynlegt að verði tekið til athugunar í framtíðinni.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um ríkisreikninginn, þó að vissulega væri margt, sem fróðlegt væri að minnast á í því sambandi, en ég leyfi mér að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði honum vísað til 3. umr.