24.05.1960
Efri deild: 83. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2586 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er í samræmi við málfærslu þessa hæstv. ráðh. að koma inn á það, sem er vitanlega gersamlega út í hött, að sjónarmið mitt í þessu máli stjórnist að einhverju leyti af eiginhagsmunum. Það er satt að segja svo auðvelt að sanna það, að það ætti ekki að þurfa ráðh. til að skilja það, því að þótt ég sé ekki á flæðiskeri staddur, skiptir það mig kannske ekki öllu máli, hvort ég fer úr bankaráði nú eftir nokkra daga ellegar um áramót, svo að slík röksemdafærsla er vitanlega út í hött og ósæmandi manni, sem þó er í þessari stöðu.

Það, sem kom greinilega fram í röksemdafærslu hæstv. ráðh., er þetta, sem ég lagði megináherzlu á í upphafi máls míns, að það er pólitískur yfirráðaréttur yfir bankanum, sem verið er að berjast fyrir, og ekkert annað. Ef stjórnin situr til áramóta, sem ég tel vafaatriði, sem ég skal ekkert fara lengra inn á, — ef hún situr til áramóta, fær hún meiri hluta í bankaráði, — og það er vitanlega það, sem öllu máli skiptir og skiptir svo miklu máli, að þeir geta ekki beðið eftir því að fá þann meiri hluta, vegna þess að það er vitað mál, að sá, sem nú er bankastjóri, er svo vel séður meðal allra fyrir óhlutdrægt starf, að það er ómögulegt að gera þar á breytingu, þó að þeir fái meiri hluta, fyrr en eftir talsverðan tíma. Þess vegna er ekki hægt að bíða, vegna þess að það þarf meiri hluta til að skipa annan bankastjóra. Þetta er ástæðan og ekkert annað, og fyrir fullorðna menn gagnvart fullorðnum mönnum og reyndum, eins og eru hér í þessari hv. d., þýðir ekki að tala svona, og ráðh. á ekki að tala svona. Það er þetta, sem á veltur, og það er þetta, sem er verið að ræða um í raun og veru, og það er þetta, sem frv. er um.

Það er borið fyrir sig, að sjóðirnir séu illa stæðir. Það er alveg rétt, að þeir sjóðir verða illa stæðir, sem lána með miklu lægri vöxtum en almennt eru greiddir, án þess að ríkið hlaupi þar undir bagga, eins og það hefur orðið að gera og hefur gert gagnvart Búnaðarbankanum og gert gagnvart lánasjóðum meðal ýmissa erlendra þjóða á hliðstæðan hátt. Það er ekki hægt að safna fé í sjóði, nema stjórnin sé skipuð með lýðræðislegum hætti. Það er ekki hægt að hlynna að sjóðunum, sem eru fyrir bændur og til þess að lána bændum, — og enginn efast um, að það er lánað án nokkurrar hlutdrægni gagnvart þessum bændum, eftir föstum reglum, það dettur engum í hug að orða það, af því að það er ekki til, — það er ekki hægt að styrkja sjóðina, nema stjórn bankans sé skipuð með eðlilegum hætti, þ.e.a.s. stjórn bankans sé þegar í stað skipuð slíkum meiri hluta, að Sjálfstfl. og stjórnarflokkarnir ráði þar bankastjóra og hafi meirihlutavald í bankanum. Þetta er alveg umbúðalaust það, sem hæstv. ráðh. sagði. Öðruvísi má ekki styrkja bankann. En bankinn er engin persóna. Það eru bændur, sem eiga að njóta bankans; sem hér eru aðalatriðið. Það má ekki styrkja bankann þannig, að bændur fái notið þeirra hagsmuna, sem það er að hafa slíkan banka, nema hann sé undir stjórn Sjálfstfl. og það þegar í stað.

Svo mikið liggur þessum hæstv. ráðh. á og þeim flokkum, sem að honum standa, að þetta eru sömu flokkarnir sem héldu því fram, að það væri hrein yfirtroðsla og hreinn yfirgangur, þegar flokkar, sem hafa meiri hluta á Alþ., breyta Útvegsbankanum og Landsbankanum, þar sem einn flokkur, sem er í minni hluta bæði á Alþ. og meðal þjóðarinnar, ræður öllu í tveimur stærstu bönkunum og aðalútlánastofnunum, og málum var skipað þannig að koma því til vegar, að þar réðu allir flokkar. Þetta eru sömu mennirnir sem liggur svo á, að þeir geta ekki beðið í hálft ár, því að um þetta er frv. Vitanlega er hægt að styrkja sjóðina nákvæmlega eins án þess af núverandi stjórnarflokkum, vegna þess að þeir hafa bankastjóra, sem hægt er að trúa fyrir því að lána þá út á þann hátt, að ekki verður um deilt, að það er réttlátlega lánað.

Hann minntist á það, hæstv. ráðh., að það hefði komið fyrir í bankanum, að ekki hefði verið farið að óskum landbrh. og meiri hluti bankaráðs hefði framkvæmt aðgerðir, sem hefðu verið á móti vilja ráðherra. Það vill nú brenna við, að hæstv. ráðh, geri sér ekki alltaf grein fyrir því, hver eru hans valdatakmörk. Vitanlega ræður hann ekki yfir bankanum, hvorki nú né eftir að nýja bankaráðið er komið, heldur ræður bankaráðið og meiri hluti þess á hverjum tíma, og þess vegna er bankaráð, að það er ekki ætlazt til þess, að bankarnir standi beint undir stjórn ráðherrans.

Að því er snertir þetta verk, þessa breytingu, sem þarna er gerð, þegar útibúið var stofnað, þá man ég ekki betur en einn sjálfstæðismaður, ekki lítið þekktur, Jón Pálmason, þáv. landbrh., væri búinn að samþykkja fyrir mörgum árum að stofna útibú á Austurlandi. Það er sem sagt búið af tveimur stærstu flokkunum að staðfesta það, að bankinn stofni þetta útibú, og bankaráðið er búið að samþykkja það löngu áður. Það er á annað ár a.m.k. síðan bankaráðið ákvað í samræmi við samþykktir beggja þessara flokka að stofna þetta útibú. Svo eru okkur gerð skilaboð gegnum bréfaskriftir til bankans að láta þetta bíða, vegna þess að það væri verið að undirbúa breytingar á bankalögunum. Við áttum sem sagt að setjast upp og halda að okkur höndum um það, sem búið er að samþykkja fyrir hálfu öðru ári, og það, sem er búið að samþykkja af mér sem landbrh. og er búið að samþ. af landbrh. Sjálfstfl., að við höldum að okkur höndum, á meðan verið væri að breyta lögunum. Vitanlega stjórnar bankaráðið þessu, og er sjálfsagður hlutur, að það stjórni þessu, meðan það situr. Hins vegar getur sá meiri hluti á Alþ., sem nú situr, breytt því og tekið valdið af meiri hluta bankaráðs, eins og nú á að gera. En það er ekki hægt að gera það með bréfaskriftum, þar sem ráðh. ætlar að fara að skipa bankaráðinu, sem nú situr, eða nokkru bankaráði fyrir verkum, ekki sízt af því, að samþykktin er engin flausturssamþykkt, hún er gerð af landbrh. Sjálfstfl., gerð af landbrh. Framsfl., gerð af bankaráði fyrir löngu og hefur verið undirbúin nú á annað ár, svo að það þarf ekki að gefa í skyn, að það sé nein ástæða fyrir því, að þessar breyt. séu gerðar.

Ég ætla ekki að fara inn á almennar umr. út af þessu máli. En hæstv. ráðh. minntist á, að mönnum vildi gleymast það, að þótt við værum kosnir af bændastéttinni, vildi það gleymast stundum að sjá fyrir hagsmunum bændastéttarinnar. Ég held nú satt að segja, að meðan hæstv. ráðh. er í þessu starfi og starfar eins og hann hefur starfað undanfarið, þurfi hann ekkert að minna á það. Þegar hann er að tala um lánin til vélakaupa, held ég, að bezt væri fyrir hann að kynna sér hjá kaupfélögunum, hvað menn óska eftir að fá af lánum til að kaupa vélar núna, eftir að hann er búinn að fara þannig með lánamál landbúnaðarins eins og hann er búinn að fara. Hann ætti að kynna sér, hvað það eru mörg prósent af bændum, sem óska eftir því yfirleitt að standa í vélakaupum, hafa bolmagn til þess með þeim vöxtum, sem nú eru.

Ég er ekki vanur að halda uppi málþófi í málum. Eins og ég sagði í upphafi, voru þeir flokkar, sem standa að þessu frv., búnir að semja um þessa breytingu, og það verður sjálfsagt samþykkt. Það verða gerðar tilraunir til þess að standa á móti því, eftir því sem hægt er og atkvæði standa til, en jafnframt til þess að gera breytingar á frv., ef það er sýnt, að það á fram að ganga, eins og ég geri ráð fyrir. Ég sé ekki ástæðu til þess að undirstrika frekar þá almennu reglu, sem þó er þess verð, að það sé minnzt á hana, að það má búast við því, að hér eftir verði þessari reglu fylgt, að gera breytingar á bankaráði, ef mönnum þóknast svo, ef einhverjir vilja ekki fara þær leiðir að samþykkja það, sem stjórninni þóknast að fá bankaráð til þess að samþykkja, þá verði bara breytt til. Þetta er almenna reglan, og hún er ekkert smávægilegt atriði. Í annan stað er það, sem hæstv. ráðh. tókst ekki að hnekkja, að bankinn er með þessari almennu kosningu meira slitinn úr sambandi við bændastéttina en áður. Á þessu er kannske hægt að gera breytingar og sjá, hvort vilji er fyrir því að tengja hann bændastéttinni á þann hátt, sem kunna að koma fram till. um. Það er vel hægt að koma því þannig fyrir, að flokkarnir allir kjósi fulltrúa í bankaráð, þegar þar eru 5 menn, og sjónarmið þeirra allra komi þar fram og gæzla þeirra á óankanum sé svo örugg í höndum eins fulltrúa frá hverjum flokki, að það ætti að vera auðvelt að útvega bankanum fé, eins og ráðh. tekur fram að sé nauðsynleg forsenda. Bændur ættu þá kannske líka að eiga rödd þarna og ráða einhverju um það, hvernig bankanum er stjórnað. Það reynir þá á það, hver er viljinn með þessu frv., er sú till. liggur fyrir, því að mér virðist það ekki óeðlilegt, ef allir flokkar ráða þessu, að þá hafi bændur þarna líka einhver ráð, og ráðin eru ekki meiri en það, að þeir hafa tillögurétt frá einum manni, en flokkarnir á Alþ. hafa 4 menn og geta öllu ráðið, og það ætti ekki að vera hættulegt, ef menn vilja leyfa þeim að láta rödd sína heyrast í bankaráðinu.