28.05.1960
Efri deild: 86. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2609 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég gat þess við 2. umr. í gær, að ég hefði hug á því að flytja litla brtt. við bráðabirgðaákvæði þessa frv., sem hér liggur fyrir til umræðu. Þessi brtt. hefur verið prentuð og liggur nú fyrir á þskj. 551. Hún er, eins og liggur ljóst fyrir, um það, að umboð þeirra, sem nú skipa bankaráð Búnaðarbankans og endurskoðenda, falli ekki niður strax, heldur frá næstu áramótum að telja, og þá um leið, að starfstími hinna nýju manna, sem frv. gerir ráð fyrir að Alþ. kjósi nú, skuli vera frá ársbyrjun 1961 til ársloka 1961.

Þessi brtt. er einkum gerð vegna þess, að samkvæmt henni mundi form. bankaráðsins, sem skipaður var af landbrh. á sínum tíma, útenda sinn starfstíma samkvæmt sínu skipunarbréfi.

Ég lít svo á, að það sé alltaf athugavert að grípa inn í og breyta kjörtímanum hjá þeim, sem starfa samkvæmt lögum um ákveðinn kjörtíma. Vitanlega getur Alþ. gert það og er ekki alls kostar óeðlilegt, að það geri það í sambandi við þá menn, sem það hefur kosið. En þegar landbrh. skipar með innsigli sínu einhvern, þá má telja, að sú skipan sé á þá leið, að það sé eins og sá maður sé konunglegur starfsmaður, ef um konungsríki væri að ræða.

Allt í þessu sambandi telst til fordæma. Það er vitnað til fordæma, ef slíkt hefur átt sér stað áður, og það er talið til fordæma eftirleiðis, ef það er upphaf mála.

Ég tel, að það mundi verða viðkunnanlegra fyrir þann hæstv. núv. ráðh., þegar hann gefur út skipunarbréf sín, að hann geti gengið út frá því og þeir, sem hann skipar, að sá tími, sem þau eru út gefin fyrir, standi. Ég hef með þessari till. viljað gefa stjórnarflokkunum tækifæri til að segja síðar: Við virtum skipunarbréf fyrirrennara okkar. Þess vegna ætlumst við til, að okkar skipunarbréf verði virt.

— Ég vænti þess, að hv. stjórnarflokkar vilji nota þetta tækifæri til að fá aðstöðu til að segja það og ætlast til, að þeirra skipunarbréf verði virt, þegar nýir taka við.