28.05.1960
Efri deild: 86. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2612 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Mér skildist á hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK), miðað við það, hve hann hefur fordæmt það, sem hér hefur verið að gerast í sambandi við þetta mál, að hann gefi þá jafnframt með sinni afstöðu og með sinni síðustu ræðu yfirlýsingu um það, að hann telji, að aðgerðir vinstri stjórnarinnar í bankamálum hafi verið rangar. Hann segist vilja með þessari brtt. sinni gefa stuðningsmönnum þessa frv. og þá fyrst og fremst sjálfstæðismönnum, sem gagnrýndu margt í þeim breyt., sem þá voru gerðar á bankalöggjöfinni, tækifæri til þess að lýsa eða staðfesta fordæmingu þeirra á þeim aðgerðum, sem þá hefðu verið. Og með því að ganga sjálfur fram fyrir skjöldu með flutningi till., verður ekki annað skilið, ef orð hans eiga að skiljast í réttu samhengi, en að hann jafnframt lýsi því yfir, að það, sem þá hafi verið gert af hálfu vinstri stjórnarinnar, hafi verið rangt.

Við getum látið þetta alveg liggja á milli hluta. Ég álít, að það sé rétt og eðlilegt, að bankaráð ríkisbankanna, ég endurtek: ríkisbankanna, séu skipuð með þeim hætti, sem hér er lagt til, að það séu fimm manna bankaráð, sem miðast við þá samsetningu, sem nú er í flokkaskiptingu á Alþingi og jafnan með þjóðinni, þar sem Alþ. er nú eftir kjördæmabreytinguna orðið miklu réttari mynd af raunverulegum þjóðarvilja, — að bankaráð þeirra banka séu skipuð á þennan veg, og sé þar ekki farið eftir því, sem gert var í tíð vinstri stjórnarinnar, vegna þess að þá var beinlínis gert ráð fyrir að skipa bankaráð eftir reglum, sem fyrir fram tryggðu misrétti, á þann hátt, að það séu kjörnir fjórir bankaráðsmenn og einn skipaður af ríkisstj., sem beinlínis var gert með það í huga að útiloka, að Sjálfstfl. gæti fengið eðlilega tölu bankaráðsmanna í samræmi við fylgi sitt á Alþingi. Þetta var eini tilgangurinn með tilhögun bankaráðsskipunar þeirrar, sem þá var lögfest.

Með þeirri reglu, sem lagt er til að taka upp í þessu frv. og er að sjálfsögðu eðlilegt að gildi um ríkisbanka almennt, er gert ráð fyrir að innleiða reglu, sem sé þess eðlis, að ekki sé ástæða til að halda, að það þurfi að vera að hringla til eða frá með skipun bankaráða, enda þótt breyting verði á ríkisstj. og meiri hluta í Alþ., vegna þess að það er vitanlega alger misskilningur, sem hér hefur komið fram hjá ýmsum, að ef þessi háttur sé á hafður, þá leiði það af sér, að ógilda þurfi umboð bankaráðs og umturna þessari skipan allri, ef mynduð yrði ný ríkisstj. með annarri samsetningu en núverandi stjórn.

Einmitt vegna þess, að bankaráðin eru í samræmi víð skipan Alþ., eru allar yfirgnæfandi líkur til þess a.m.k., þó að ekki sé sagt, að það sé fullvíst, að hvernig svo sem ríkisstj. yrði hér mynduð, þ.e.a.s. meirihlutastjórn, — og það er að sjálfsögðu aðeins eðlilegt, að þetta gildi, þegar um meirihlutastjórn er að ræða, — þá mundu bankaráðin með þeirri samsetningu, sem hér er lagt til, jafnan vera þannig skipuð, að ríkisstj. á hverjum tíma hefði meirihlutastuðning í bankaráðum ríkisbankanna.

Þetta held ég að liggi í augum uppi, og þessi breyting, sem því er hér gerð, er beinlínis til þess að tryggja það, að ekki þurfi æ ofan í æ að vera að gera breytingar á bankakerfinu eftir á, og þá einmitt alls ekki verið að fylgja því fordæmi, sem gefið var af vinstri stjórninni í því efni, því að þar var lagt til að lögleiða skipan mála, sem vitanlega fær ekki staðizt, vegna þess að hún er ranglát.

Hér er lagt til, að flokkar fái aðild að bankaráði ríkisbanka nákvæmlega í samræmi við þau eðlilegu styrkleikahlutföll í Alþ., og er þar engum ívilnað eða misboðið í einu né neinu. Þetta sýnist vera eðlileg regla, sem ætti að mega vænta að allir þingflokkar vilji viðurkenna, þar sem með því móti er ekki hætta á, að hlutur neins verði fyrir borð borinn.