23.03.1961
Efri deild: 890. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa langa framsöguræðu fyrir nái. á þskj. 553. Eins og nál. ber með sér, var ekki ágreiningur um það innan n., að samþykkja bæri frv., svo langt sem það gengur, en einstakir nm. áskildu sér hins vegar rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma, og ég sé, að a.m.k. hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur þegar lagt fram allvíðtækar brtt. við frv.

Hæstv. viðskmrh. gerði allýtarlega grein fyrir frv. og tilgangi þess við 1. umr. málsins, þegar það var lagt hér fram. En tilgangurinn er í stuttu máli sá að heimila stofnlánadeild sjávarútvegsins að opna nýja lánaflokka í þeim tilgangi að bæta fjárhagsaðstöðu fyrirtækja, er stunda sjávarútveg og fiskvinnslu, eins og segir í 1. gr. frv. Eins og kunnugt er, hefur sjávarútvegurinn um langt skeið átt við verulega fjárhagsörðugleika að etja, sem sérstaklega hafa verið tilfinnanlegir á síðustu mánuðum vegna þeirra óhappa, sem útvegurinn hefur orðið fyrir af völdum aflabrests, verðfalls og af öðrum ástæðum, þannig að ég hygg, að ekki sé ágreiningur um það í þessari hv. d., að brýn ástæða sé til þess að gera það, sem unnt er, til þess að leysa þau fjárhagsvandamál, sem sjávarútvegurinn á við að etja, og ágreiningur varla heldur um, að frv. það, sem hér liggur fyrir, er spor í þá átt, þó að hitt megi auðvitað um deila, hvort nógu langt sé gengið í því efni. Og vitanlega er það öllum ljóst, að því fer fjarri, — þó að þeir möguleikar, sem þetta frv. býður upp á, ættu að geta orðið sjávarútveginum töluverð hjálp, — að allur vandi sjávarútvegsins í þessum efnum sé leystur með því, þó að þetta frv. verði að lögum.

Ég sé samkv. áður sögðu ekki ástæðu til þess að fjölyrða um efni frv. að þessu leyti, og um það mun ekki verða neinn ágreiningur að samþykkja það, svo langt sem það nær. Mér er fyllilega ljóst, að auðvitað er þörf fjármagns á mörgum fleiri sviðum en hvað sjávarútveginn snertir, Ég efast ekkert um, að þörf sé fyrir fjárframlög í því skyni, sem hv. 1, þm. Norðurl. e. hefur nú þegar lagt fram till. um, til atvinnubóta úti á landinu til þess að afla framleiðslutækja úti á landinu, til landbúnaðarins o.s.frv. Um þetta atriði mun enginn ágreiningur vera. Ég vil aðeins segja það, að þess verður að gæta í sambandi við allar tillögur, sem gera verður eða gerðar eru í sambandi við fjármagnsþörf atvinnuveganna, að við bætum okkur ekki með því að ætla að ráðstafa miklu meira fjármagni en til er, þó að hitt sé ljóst, að fjármagnsþörfin á hverjum tíma er að jafnaði meiri en möguleikarnir á því að leysa fjármagnsþörfina. En við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti í þessum efnum, og það er síður en svo til bóta, þó að samþykktar séu hér á Alþingi tillögur um að leggja fram svo og svo mikið fé í þessu eða hinu skyni, ef fjármagnið er ekki fyrir hendi.

Ég hef einhvern tíma áður í umr. hér á hv. Alþ. nefnt það dæmi, að það var á dögum hinnar ágætu nýsköpunarstjórnar, ef ég man rétt, að lög voru sett um nýbýli, ræktunarframkvæmdir o.fl. Þar var m.a. ákveðið að veita lán til bygginga nýbýla á óræktuðu landi. Þessi lán áttu að vera til 50 ára og greiðast 2% í afborgun á 50 árum, en engir vextir áttu að vera af þessum lánum. Þetta voru auðvitað stórglæsileg lánskjör og ekki vafi á því, að það var af góðum hug gert að samþykkja þessi lög. En sá hængur var á, að það var ekki neinn möguleiki á því að sjá fyrir fjármagni með þessum hagstæðu lánskjörum, svo að alls munu hafa verið veitt lán á þessum grundvelli, sem námu 82 þús. kr. Þarf ekki að skýra það nánar, hvað skammt slíkt hefur auðvitað hrokkið til þeirra framkvæmda, sem hér var um að ræða.

Það gagnar m.ö.o. ekki að gera samþykktir hér á hv. Alþingi um fjárframlög í einu skyni eða öðru, jafnvel þó að um mjög gagnlegar framkvæmdir sé að ræða, ef ekki er möguleiki á því að afla fjármagnsins, og það er e.t.v. einmitt þetta öðru fremur, sem er grundvallarorsök efnahagsvandamála okkar, að við höfum ætlað að taka allt of stóra bita i einu eða ráðstafa meira fjármagni en við höfum haft yfir að ráða. Það er e.t.v. í þessu, sem skýringin liggur á hinni dapurlegu staðreynd, sem komið hefur fram í opinberum skýrslum, að á síðustu 15 árum höfum við ráðstafað til fjárfestingar hvorki meira né minna en á 7. milljarð króna, án þess að af því sé um að ræða nokkurn árangur í bættum kjörum almennings hér á landi, sem ætti þó að vera grundvallarmarkmið efnahagsstarfseminnar. Það hefur því miður farið svo, að vegna þess að átt hefur að leggja í miklu meiri fjárfestingu en möguleikar hafa orðið á, þá hefur bæði fjárfestingin og sér í lagi árangur hennar orðið miklu minni en ef minna hefði verið haft í takinu í einu, en aðeins ráðizt í það, sem möguleikar voru á að framkvæmt yrði.