02.02.1961
Neðri deild: 54. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Íslenzkt bankakerfi er ekki aldargamalt. Fyrsti sparisjóður landsins var stofnaður árið 1868, það var sparisjóður Múlasýslna á Seyðisfirði. En hann starfaði ekki nema til 1870. Þremur árum síðar var Sparisjóður Siglufjarðar stofnaður, og er hann elzti sparisjóðurinn, sem nú starfar á landinu. Fyrsti bankinn, Landsbanki Íslands, var hins vegar stofnaður 1885. Á þingunum 1881 og 1883 höfðu verið borin fram frumvörp um bankastofnun, en málið í bæði skipti strandað á ágreiningi um, hvort stofna skyldi seðlabanka eða fasteignaveðlánastofnun. Í frv., sem lagt var fyrir þingið 1885, var farið bíl beggja, enda gekk málið þá greiðlega gegnum þingið.

Starfsfé þessa fyrsta banka Íslendinga var hálf milljón króna, sem hann fékk úr landssjóði. Svo mikla fjárhæð átti landssjóðurinn að vísu ekki, og hann tók hana heldur ekki að láni. Hann lét prenta seðla — íslenzka seðla fyrir þessari upphæð, ábyrgðist jafngengi þeirra við dönsku krónuna og fékk þá Landsbankanum til umráða, enda voru þeir löglegur gjaldmiðill.

Þannig fór það saman, að Íslendingar eignuðust fyrsta íslenzka bankann og fyrstu íslenzku peningaseðlana, þótt bankinn væri að vísu ekki seðlabanki.

Tæpum tveim áratugum síðar, eða 1901, samþykkti Alþingi hins vegar frv. um stofnun hlutabanka, sem hafa skyldi einkaleyfí til þess að gefa út gulltryggða seðla. Var bankinn stofnaður í Kaupmannahöfn tveimur árum síðar og nefndur Íslandsbanki. Hafði hann einkarétt til seðlaútgáfu til ársins 1921, er hann var sviptur honum, og 1922 var síðan ákveðið, að Landsbankinn skyldi annast seðlaútgáfu, sem nauðsynleg yrði umfram seðlaútgáfu Íslandsbanka. Gaf Landsbankinn fyrst út seðla samkv. þeim lögum árið 1924.

Árið 1923 var samþykkt á Alþingi heimild til þess að stofna nýjan banka, en hún var ekki notuð. Á Alþingi 1924 lagði síðan Björn Kristjánsson fram frv. um seðlaútgáfu ríkisins, og átti samkv. því sérstök stofnun að hafa seðlaútgáfuna með höndum og gefa út gulltryggða seðla, er hún lánaði bönkunum. Að tilmælum ríkisstj. var flutt annað frv. um þetta efni, og átti Landsbankinn samkv. því að vera hlutabanki og hafa seðlaútgáfurétt. Hvorugt málið hlaut afgreiðslu. Ári síðar, eða 1925, bar ríkisstj. enn fram frv. um Landsbankann, en fjhn. efri deildar klofnaði í fjóra hluta um málið, og lauk því þannig, að ákveðið var að skipa milliþn. til athugunar á málinu. Hún gaf síðar út ýtarlegt álit, og var seðlaútgáfumálinu endanlega ráðið til lykta á þingunum 1927 og 1928.

Deilt hafði verið um það fyrst og fremst, hvort koma skyldi á fót sérstökum seðlabanka eða hvort Landsbankanum skyldi falinn seðlaútgáfurétturinn. Minni hluti milliþn., Benedikt Sveinsson, lagði til, að stofnaður yrði sérstakur seðlabanki, er nefna skyldi Ríkisbanka Íslands. En meiri hluti nefndarinnar lagði til, að farið yrði bil beggja, og varð það niðurstaðan á Alþingi. Landsbankanum var skipt í 3 deildir, seðlabanka, sparisjóðsdeild og veðdeild, og var seðlabankanum fenginn seðlaútgáfurétturinn. Þessi lög um Landsbankann frá 1928 hafa siðan, í rúma þrjá áratugi, verið kjarninn í íslenzkri bankalöggjöf.

Lagasetningin bar þess greinileg merki, að hún var málamiðlun milli tveggja ólíkra sjónarmiða. Sú málamiðlun kann að hafa verið skynsamleg eða jafnvel nauðsynleg, eins og þá háttaði í íslenzku fjárhagskerfi, einkum þegar höfð er hliðsjón af því, hversu aðstæður allar eru hér miklu þrengri en gerist nokkurs staðar annars staðar í nálægum löndum.

Í grundvallaratriðum hlaut það þó að teljast óeðlilegt, að sama bankastofnunin ætti að gegna jafngerólíkum hlutverkum og þeim, sem teljast meginverkefni seðlabanka annars vegar og viðskiptabanka hins vegar, Höfuðhlutverk seðlabanka hlýtur jafnan að vera annars vegar að annast seðlaútgáfu og leitast við að tryggja peningamagn í umferð og að heildarframboð lánsfjár sé hæfilegt, miðað við það, að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt að fullu, og hins vegar að efla og varðveita gjaldeyrisvarasjóð, sem tryggi frjáls viðskipti við útlönd og fjárhagslegt öryggi þjóðarinnar út á við. Hlutverk viðskiptabanka er hins vegar að ávaxta sparifé og lausafé og lána það til atvinnurekstrar og hvers konar framkvæmda og stunda auk þess ýmiss konar fjármálaviðskipti. Hér er um svo gerólík hlutverk að ræða, að erfitt getur verið fyrir sömu stofnun og sömu stjórnendur að gegna þeim báðum samtímis á bezta hátt. Reynsla sýndi líka fljótlega, að seðlabankasjónarmiðin og viðskiptabankasjónarmiðin rákust oft á. Deilurnar um þessa skipun þögnuðu og aldrei. Uppi voru alltaf raddir um það, að nauðsynlegt væri að greina seðlabankastörfin frá viðskiptabankastarfseminni og koma á fót sérstökum seðlabanka.

Sænskur hagfræðingur — Erik Lundberg sem starfaði hér á landi á vegum ríkisstj. á árinu 1935, lagði til, að hér yrði komið á fót sjálfstæðum seðlabanka, og flutti Emil Jónsson frv. um það efni 1937, en það náði ekki fram að ganga.

Milliþn., sem starfaði að bankamálinu og skilaði áliti árið 1941, taldi enn ekki tímabært að koma á fót sérstökum seðlabanka.

Áratug síðar, 1951, skipaði ríkisstj. enn nýja nefnd til þess að fjalla um skipulag bankamálanna, og var dr. Benjamín Eiríksson bankastjóri formaður þeirrar nefndar. Ári áður, eða haustið 1950, hafði starfað hér fjármálasérfræðingur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Henry Murphy, og lagt mjög eindregið til, að stofnaður yrði sérstakur seðlabanki. Voru tillögur hans ræddar ýtarlega í hinni nýju bankamálanefnd, en um þær varð ekki samkomulag í nefndinni og skilaði hún ekki endanlegu áliti.

Meginrökin, sem jafnan höfðu verið flutt fyrir nauðsyn sérstaks seðlabanka, voru þau, að seðlabanki gæti ekki sem skyldi rækt meginhlutverk sitt í sambandi við stjórn seðlaútgáfunnar og eflingu gjaldeyrisvarasjóðs, ef stjórnendur hans væru jafnframt stjórnendur umsvifamikils viðskiptabanka, enda væru slík tengsl milli viðskiptabanka og seðlabanka óþekkt í öðrum löndum með þroskuðu fjármálakerfi. Aðalrökin gegn því að losa seðlabankann úr tengslum við Landsbankann, voru hins vegar þau, að það hefði aukinn kostnað í för með sér, auk þess sem það gæti verið seðlabankanum til styrktar í stjórn sinni á bankakerfinu, að stjórnendur hans hefðu jafnframt tök á stærsta viðskiptabankanum. Enn fremur var áherzla lögð á það, að það væri seðlabankanum nauðsynlegt í skiptum sínum út á við að njóta áfram þess trausts, sem Landsbankinn hafði aflað sér erlendis.

Sú breyting, sem gerð var á landsbankalögunum 1957, var að vissu leyti tilraun til þess að sætta þessi tvö sjónarmið. Landsbankanum var ekki skipt formlega, en stjórn seðlabankans og viðskiptabankans var hins vegar alveg aðskilin. Seðlabankinn var settur undir stjórn tveggja bankastjóra og þriggja meðstjórnenda, en viðskiptabankinn var eftir sem áður undir stjórn þriggja bankastjóra og bankaráðs. Í reynd hefur aðskilnaðurinn milli seðlabankans og viðskiptabankans orðið gagngerðari en lögin gerðu ráð fyrir með því að halda báðum deildunum innan einnar stofnunar, Landsbanka Íslands. Hér hefur í raun og veru verið um tvo banka að ræða, þótt gert hafi verið ráð fyrir ýmsum tengslum þeirra á milli og því, að þeir hefðu ýmislegt sameiginlegt. Reynslan hefur sýnt, að það er ekki aðeins gagnlegt, heldur beinlínis nauðsynlegt að hafa seðlabankann undir sérstakri stjórn. Varla mun nokkrum lengur detta í hug að sameina aftur seðlabanka og viðskiptabanka undir einni og sömu stjórn. Virðist því sjálfsagt að breyta lögum í samræmi við þá skipan mála, sem raunverulega er komin á, og gera þá jafnframt þær breytingar á lagasetningunni, sem nauðsynlegar eru, til þess að hún svari kröfum tímans og verði þannig, að von ætti að geta verið til, að hún stæði til nokkurrar frambúðar.

Lagasetningunni 1957 var því miður hraðað um of. Það meginatriði að fela sérstakri stjórn seðlabankahlutverkið, stefndi tvímælalaust í rétta átt. Það var hins vegar óeðlilegt að halda seðlabankanum í tengslum við viðskiptabanka innan stórrar stofnunar, Landsbankans, og hlaut að leiða af því margs konar vankanta, bæði í lagasetningunni sjálfri og í reynd. Þess vegna hefur núv. ríkisstj., allt frá því að til hennar var stofnað, talið það eitt af verkefnum sínum að bæta úr því, sem vangert var 1957, stíga sporið varðandi stofnun sérstaks seðlabanka til fulls, setja um hann sérstök lög í samræmi við nútímasjónarmið á hlutverki slíkra banka og endurskoða jafnframt lagasetninguna um stærstu viðskiptabankana, Landsbankann og Útvegsbankann. Ríkisstjórnin hefur um langt skeið undanfarið unnið að þessum málum ásamt sérfróðum mönnum og í samráði við framkvæmdastjórnir seðlabankans og þessara viðskiptabanka. Niðurstaðan af þessu starfi er fólgin í frv. því um Seðlabanka Íslands, sem hér liggur nú fyrir, frv. um Landsbanka Íslands, sem einnig hefur verið lagt fram, og frv. um Útvegsbanka Íslands, sem bráðlega mun verða lagt fyrir Alþingi, ásamt frv. um nokkrar breytingar á gildandi lögum um Framkvæmdabanka Íslands, sem hæstv. fjmrh. mun á sínum tíma gera grein fyrir.

Ég skal nú leitast við að gera grein fyrir helztu nýmælunum og breytingunum, sem fólgnar eru í þessu frv.

Hlutverk það, sem Seðlabankanum er markað í 3. gr. frv., er í samræmi við viðurkenndar skoðanir fjármálasérfræðinga og nýjustu fyrirmyndir í löggjöf annarra þjóða, en ákvæði gildandi laga um hlutverk Seðlabankans eru orðin mjög úrelt. Samkvæmt þessu frv. skal það vera meginhlutverk Seðlabankans að annast seðlaútgáfu og vinna að því, að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt, miðað við það, að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt, og að efla og varðveita gjaldeyrisvarasjóð, er nægi til þess að tryggja frjáls viðskipti við útlönd og fjárhagslegt öryggi þjóðarinnar út á við. Auk þessa er það talið hlutverk Seðlabankans að kaupa og selja erlendan gjaldeyri, fara með gengismál og hafa umsjá og eftirlit með gjaldeyrisviðskiptum, að annast bankaviðskipti ríkissjóðs og vera ríkisstj. til ráðuneytis um allt, er varðar gjaldeyris- og peningamál, að vera banki annarra banka og peningastofnana, hafa eftirlit með bankastarfsemi og stuðla að heilbrigðum verðbréfa- og peningaviðskiptum.

Varðandi stjórn bankans eru þau ákvæði í frv., að yfirstjórn hans sé í höndum ráðherra þess, er fer með bankamál, og 5 manna bankaráðs, sem kosið sé hlutbundinni kosningu á Alþingi til fjögurra ára í senn, og skal það hafa yfirumsjón með starfsemi Seðlabankans auk þess, sem bankastjórnin skal hafa náin samráð við bankaráðið um stefnu bankans almennt svo og um ákvarðanir í mikilvægum málum. Að öðru leyti skal stjórn bankans vera í höndum þriggja manna bankastjórnar, sem ráðherra skipi að fengnum tillögum bankaráðs. Skal bankastjórnin bera ábyrgð á rekstri bankans og fara með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans undir yfirstjórn ráðherra og bankaráðs, svo sem ég gat um áðan.

Sú spurning hefur mjög mikið verið rædd, bæði hérlendis og erlendis, hversu mikið sjálfstæði löggjafinn skuli veita seðlabanka til ákvarðana sinna. Hafa sumir haldið því fram, að seðlabanki eigi aðeins að vera ein grein ríkisvaldsins og fara í einu og öllu eftir fyrirmælum þeirrar ríkisstjórnar, sem með völd fari hverju sinni. Aðrir hafa verið og eru þeirrar skoðunar, að seðlabanki eigi að vera sem sjálfstæðastur og geta gengið í berhögg við stefnu ríkisstjórnar, ef hann telji hana ranga eða hættulega. Í löggjöf margra þjóða er enn gert ráð fyrir því, að seðlabankar njóti mikils sjálfstæðis til ákvarðana. En í reynd hefur þó smám saman hlotið viðurkenningu í öllum lýðræðisríkjum, að, það sé hlutverk seðlabanka að styðja þá meginstefnu, sem löggjafarþing og ríkisstj. hefur ákveðið að beita sér fyrir, og sú stjórn seðlabanka verði að víkja, sem vill ekki marka störf bankans til stuðnings þeirri stefnu. Að hinu leytinu er nauðsynlegt, að tekið sé tillit til skoðana seðlabankans á því, hvaða stefnu beri að fylgja í efnahagsmálum hverju sinni, og veita honum hæfilegt ákvörðunarvald í þeim málefnum, sem liggja innan starfssviðs hans.

Stjórn peninga- og gjaldeyrismála er að mjög verulegu leyti sérfræðilegt viðfangsefni, sem nauðsynlegt er að hafa í höndum sérstakrar stofnunar, sem hefur aflað sér bæði reynslu og þekkingar til þess að leysa úr þeim. Ríkisstjórn á því að viðurkenna, að seðlabanki hefur sjálfstætt verk að vinna varðandi tryggingu hæfilegs peningamagns í umferð og eflingu gjaldeyrisvarasjóðs, þótt endanlegt úrskurðarvald varðandi það, hvaða markmiðum eigi að keppa að í efnahagsmálum og hvaða leiðir beri að fara að því marki, hljóti jafnan að vera hjá löggjafarþingi og ríkisstjórn. Í samræmi við þessi sjónarmið eru þau ákvæði í 4. gr. frv., að Seðlabankinn skuli í öllu starfi sínu hafa náið samstarf við ríkisstj. og gera henni grein fyrir skoðunum sínum varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar. Sé hins vegar um verulegan ágreining við ríkisstj. að ræða, er Seðlabankanum talið rétt að lýsa honum opinberlega og skýra skoðanir sínar, en hann skuli engu að siður telja það eitt meginhlutverk sitt að vinna að því, að sú stefna, sem ríkisstj. markar að lokum, nái tilgangi sínum. Ákvæði eins og þessi munu enn sjaldgæf í seðlabankalöggjöf, en sjónarmið þau, sem í þessum ákvæðum felast, eru hins vegar orðin ráðandi í reynd með lýðræðisþjóðum.

Ákvæði frv. um seðlaútgáfu eru svipuð núgildandi lagaákvæðum. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að samið verði um það milli bankans og fjmrn., að bankinn taki að sér myntsláttu. Ætti sú skipun að geta haft í för með sér sparnað og betri samræmingu á seðlaútgáfu og myntsláttu.

Þá er gert ráð fyrir því, að Seðlabankinn hafi eftirlit með starfsemi banka, sparisjóða og annarra innlánsstofnana, en lengi hefur verið mikil þörf á, að slíku eftirliti væri komið á hér á landi eins og annars staðar.

Í núgildandi lögum er Seðlabankanum falið vald til ákvörðunar á vöxtum og til þess að binda innlán banka og annarra innlánsstofnana, en þetta er hvort tveggja meðal mikilvægustu tækja, sem seðlabanki hefur yfir að ráða til þess að hafa áhrif á peningamagnið og útlánagetu bankakerfisins. Í núgildandi lögum er heimild Seðlabankans til innstæðubindingar ótakmörkuð. Í þessu frv. eru hins vegar ákvæði um hámark þeirrar innstæðubindingar, sem Seðlabankinn má ákveða, og er það 20% af innstæðum, sem ávísa má á með tékka, en 15% af öðrum innstæðum, í lögum viðskiptabankanna eru ákvæði um, að þeir skuli eiga verðbréfaeign á móti tilskildum hluta innstæðna. Í þessu frv. er Seðlabankanum gert kleift að skylda allar innlánsstofnanir til að eiga slíka verðbréfaeign, er nemi allt að 10% af innstæðum hjá þeim, enda verður að telja sjálfsagt, að allar innlánsstofnanir ávaxti þannig hluta af innlánsfé sínu í tryggum og auðseljanlegum verðbréfum.

Ákvæði þessa frv. um heimild Seðlabankans til þess að ákveða vexti eru hin sömu og í gildandi lögum.

Seðlabankinn hefur verið viðskiptabanki ríkissjóðs og annazt bankaþjónustu fyrir hann, og gerir frv. ráð fyrir, að svo verði áfram. Hins vegar eru það nýmæli í frv., að Seðlabankinn beiti sér fyrir því, að hér komist á eðlileg verðbréfaviðskipti, m.a. með því að stofna og reka kaupþing. Er hér um að ræða mjög brýnt verkefni, sem leggja þarf kapp á að sinna til þess að stuðla að eðlilegri fjármagnsmyndun í landinu.

Á sviði gjaldeyris- og gengismála er Seðlabankanum samkv. þessu frv. ætlað að gegna sama hlutverki og hann hefur gegnt hingað til, en varðveizla gjaldeyrisvarasjóðs þjóðarinnar og eftirlit með gjaldeyrisverzluninni hlýtur ætið að vera eitt af meginhlutverkum seðlabanka. Hins vegar er það nýmæli í þessu frv., að Seðlabankinn verði fjárhagslegur aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en jafnframt falli niður skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann vegna framlags Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hingað til. Frv. gerir og ráð fyrir, að Seðlabankinn haldi áfram að reka hagfræðideild og annist ýmiss konar hagskýrslugerð.

Stofnfé Landsbanka Íslands — seðlabankans er nú 4.8 millj. kr. og greiðir Seðlabankinn árlega vexti í ríkissjóð af þeirri upphæð. Þetta frv. gerir ráð fyrir, að stofnfé bankans verði hækkað í 100 millj. kr. með nauðsynlegum breytingum á reikningum bankans, enda er það í samræmi við raunverulegar eignir hans. Er svo kveðið á í frv., að af þessari upphæð skuli bankinn greiða 5% í arð á ári, en þó ekki hærri upphæð en helming tekjuafgangsins. Einnig er gert ráð fyrir, að arðurinn renni í sérstakan sjóð, sem Seðlabankinn varðveiti, en hálfar tekjur sjóðsins renni til vísindasjóðs og sé þannig varið til eflingar vísindastarfsemi í landinu, en um það mun ekki vera ágreiningur, að brýn þörf sé á því, að Íslendingar stórefli vísindastarfsemi sína frá því, sem nú er, einkum og sér í lagi á sviði hvers konar hagnýtra vísinda, svo sem fiskirannsókna, iðnaðarrannsókna og landbúnaðarrannsókna, ef þjóðin á ekki að dragast aftur úr öðrum þjóðum á sviði tækni og vísindalegrar þekkingar.

Í bráðabirgðaákvæðum er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. og Seðlabankinn semji um gengisreikninginn, sem myndaðist vegna ákvæða laganna um efnahagsmál frá síðasta ári og á var fært það gengistap og sá gengishagnaður, sem gengisbreytingin hafði í för með sér hjá bönkunum og ríkissjóði. Um síðustu áramót var skuld á þessum reikningi 191.2 millj. kr., og var meginhluti þessarar upphæðar 142.6 millj. kr. vegna gengistaps á skuld Íslands við Greiðslubandalag Evrópu. Heildargengistap bankanna í sambandi við gengisbreytinguna nam því 48.6 millj. kr. Í efnahagsl. var svo kveðið á, að reikningur þessi skyldi vera á nafni ríkissjóðs. Í bráðabirgðaákvæðum þessa frv. er hins vegar gert ráð fyrir heimild til þess, að svo verði um samið, að Seðlabankinn taki þennan reikning að sér, enda er gert ráð fyrir því; að Seðlabankinn og ríkisstj. semji svo um, að bundnar innstæður, sem standa á nafni ríkissjóðs í Seðlabankanum vegna mótvirðisfjár, samtals að upphæð 112.5 millj. kr., geti komið hér á móti, þannig að upphæð gengisreikningsins lækki á þennan hátt í 78.7 millj, kr. Er síðan gert ráð fyrir því, að Seðlabankinn jafni þessa skuld á gengisreikningnum af rekstrartekjum sínum árið 1960 og næstu ár þar á eftir.

Það er eðlilegt, að sú spurning vakni, hvort samþykkt þessa frv. um stofnun sjálfstæðs seðlabanka muni hafa verulega aukinn kostnað í för með sér. Það var ein af röksemdunum fyrir því að halda seðlabankanum og viðskiptabankanum innan einnar stofnunar 1957, þar sem hvor um sig væri þó settur undir sérstaka stjórn, að slíkt hefði sparnað í för með sér. Reynslan hefur hins vegar sýnt, að seðlabankinn og viðskiptabankinn hafa smám saman tekið að starfa sem tvær alveg sjálfstæðar stofnanir, með aðskildum fjárhag og aðskildu starfsliði. Það hefur því ekki orðið neinn sparnaður að því, að báðar þessar stofnanir væru innan vébanda Landsbanka Íslands. Sú samvinna, sem eðlileg og nauðsynleg er milli Seðlabankans og Landsbankans, sérstaklega meðan báðar stofnanir eru til húsa í sömu byggingunni, getur átt sér stað með alveg sama hætti, þótt bankarnir verði formlega aðskildir. Það mun því óhætt að staðhæfa, að í kjölfar þeirrar skipulagsbreytingar, sem leiða mun af samþykkt þessa frv., mun ekki sigla aukinn rekstrarkostnaður, nema að því leyti sem telja má eðlilega afleiðingu þeirra auknu verkefna, sem Seðlabankanum eru falin í þessu frv.

Ekki sízt vegna þeirrar algerlega sjálfstæðu stöðu, sem Seðlabankinn nú fær, ef þetta frv. nær fram að ganga, og þeirra nýju verkefna, sem honum eru lögð á herðar, hefur þótt nauðsynlegt, að stjórn hans sé skipuð með svipuðum hætti og stærstu viðskiptabankanna, þ.e.a.s. að bankastjórar séu þrír og þeir starfi undir umsjón þingkjörins bankaráðs. Samkvæmt gildandi lögum er stjórn Seðlabankans í höndum tveggja bankastjóra og þriggja meðstjórnenda. Gert er nú ráð fyrir, að starf meðstjórnendanna sé lagt niður, en einum bankastjóra bætt við í staðinn. Við því er ekki að búast, að unnt sé að sinna þeim störfum, sem meðstjórnendum Seðlabankans voru ætluð, á þann hátt, sem æskilegt væri, meðan þau eru aukastörf, og hitt því heppilegra, að fela þau einum manni, sem hafi þau að aðalstarfi, en kostnaðurinn við það er svipaður og hann hefur verið vegna starfa hinna þriggja meðstjórnenda.

Kostnaður við stjórn Seðlabankans eykst því ekki umfram það, sem því svarar, að gert er ráð fyrir bankaráði við Seðlabankann eins og alla hina bankana. En það verður að teljast eðlilegt, að yfirumsjón með Seðlabankanum sé í höndum bankaráðs, sem kosið sé af sjálfu Alþingi.

Jafnframt má geta þess, að ekki eru tekin í frv. ákvæði um þingkjörna endurskoðendur, heldur er bankaráðinu falin ábyrgð á endurskoðun reikninga Seðlabankans.

Ríkisstj. hefur undirbúið þetta frv. vandlega. Hún gerir sér þess ljósa grein, að nauðsynlegt er, að skipulag bankamálanna sé í sem föstustum skorðum. Tíðar breytingar á bankalöggjöf eru ekki heppilegar. Það er ekki heldur heppilegt, að tíðar breytingar séu gerðar á sjálfri stjórn bankanna. Af þessum sökum hefur ríkisstj. viljað leggja áherzlu á að koma nú bankalöggjöfinni og stjórn bankakerfisins í slíkt horf, að hvort tveggja gæti orðið til nokkurrar frambúðar. Ég vona, að um það verði ekki ágreiningur, að ákvæði þessa frv. um hlutverk og skipulag Seðlabankans séu þannig, að þau samrýmist nútíma sjónarmiðum í fjármálum og lýðræðisreglum.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.