21.03.1961
Efri deild: 78. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram nokkrar brtt. á þskj. 548.

1. brtt. er við 15. gr. frv., og hún er um það, að í stað „fyrsta flokks verðbréf“ komi: trygg verðbréf. — Þetta er aðeins orðalagsbreyting. Það er, eins og allir vita, ekkert mat hér fyrir hendi á verðbréfum, og mér finnst það þess vegna hortittur að tala um „fyrsta flokks verðbréf“ þarna. Það, sem hlýtur að vera meint með þessu, er trygg verðbréf.

2. brtt. er við 19. gr. frv., en í 19. gr. er svo fyrir mælt, að tveir viðskiptabankar skuli auk Seðlabankans löggiltir til þess að verzla með gjaldeyri, þ.e.a.s. Landsbanki Íslands og Útvegsbanki Íslands, en bankastjórn Seðlabankans mun hins vegar heimilt að bæta fleiri bönkum við. Þetta er í samræmi við það, sem nú er, en reglan nú er sú, að það er stjórn Seðlabankans, sem ákveður, hvaða bankar hafi með höndum gjaldeyrisviðskipti. Ég hef á öðrum vettvangi barizt mjög lengi fyrir því, að Búnaðarbanka Íslands væri veitt sams konar heimild og Landsbankanum og Útvegsbankanum til þess að verzla með erlendan gjaldeyri, en árangurslaust, þar eð það hefur ekki fengizt meiri hluti í stjórn Seðlabankans fyrir tili. í þá átt. Ég hef þess vegna leyft mér að taka hér upp í þessa brtt. Búnaðarbanka Íslands og leggja til, að þegar í stað verði löggiltir sem gjaldeyrisbankar — auk Seðlabankans — Landsbankinn, Útvegsbankinn og Búnaðarbankinn.

Ég þarf ekki og ætla ekki að hafa mörg orð um réttmæti þessarar tillögu, vil aðeins segja það, að Búnaðarbanki Íslands er ríkisbanki eins og hinir og hann er jafngamall t.d. Útvegsbankanum. Hann er orðinn stór banki og traustur banki, eins og allir vita, og hann hefur áreiðanlega veruleg viðskipti við þá aðila, sem fást við innflutningsverzlun, og liggur því í augum uppi, að það er mikið hagræði fyrir hann að fá heimild til þess að inna þessa þjónustu af hendi gagnvart sínum föstu viðskiptamönnum. Ég held, að það mæli fyllsta sanngirni með þessari breyt., og mér finnst ekki nokkur ástæða til þess að setja Búnaðarbankann í þessu efni skör lægra en hina bankana. Ég vona, að að athuguðu máli geti hv. þm. þessarar deildar orðið sammála um að samþ. þessa brtt., og skal ég ekki fara um hana fleiri orðum að svo stöddu a.m.k. Frá mínu sjónarmiði er hún og hefur lengi verið svo sjálfsögð. Ég hef mikið rætt um þetta annars staðar og hef aldrei heyrt nein frambærileg rök flutt fram fyrir því að synja Búnaðarbankanum um þennan rétt. Það er auðvitað, að um leið og það er gert, mundi hlutur hinna bankanna í þessum viðskiptum minnka eitthvað, en ég get ekki séð, að það séu ástæður, sem réttlæta það að vera á móti því að veita þessum banka réttinn, sem er engu síður orðinn einn af höfuðbönkunum hér heldur en Landsbankinn og Útvegsbankinn.

Svo flyt ég 3., 4. og 5. brtt. við 24., 25. og 26. gr., sem allar eru orðalagsbreyt., þannig að í staðinn fyrir „bankastjórn“ í þessum greinum komi: framkvæmdastjórn. — Það er alveg ótvírætt, að í þessum greinum er átt við bankastjórana, og kemur það einnig fram í athugasemd. En að mínum dómi er í öðrum greinum frv. ýmsum með bankastjórn eða stjórn Seðlabankans eða jafnvel orðinu Seðlabankinn, sem mjög víða er notað, átt við það, sem eðli málsins og orðanna hljóðan samkvæmt er bankastjórnin, þ.e.a.s. bankaráð plús framkvæmdastjórnin. Ég held þess vegna, að það horfi til skýringar á lögunum að setja framkvæmdastjórn þarna í staðinn.

Svo er 5. brtt. líka um það, að við gr. bætist ný málsgrein, þar sem tekið er fram það, sem mér virðist vanta í frv., ákvæði um það, hverjir skuldbindi bankana. Því verður kannske svarað, að um þetta verði sett ákvæði í reglugerð. En ég held, að í ákvæðum um hina bankana séu þess háttar ákvæði í sjálfum bankalögunum, og ég held, að það geti ekki orkað tvímælis, að slík ákvæði sem þetta, hvað þurfi til þess að skuldbinda bankann, eigi heima í lögunum.

Þá er 6. brtt. um það, að ný grein komi inn á eftir 32. gr., sem verði 33. gr., og hún er um það, að Alþ. kjósi tvo endurskoðendur, svo sem verið hefur, til þess að endurskoða reikninga bankans. En með þessu frv. er gert ráð fyrir því, að það verði ekki framvegis kosnir endurskoðendur af Alþ., heldur sé það sérstök endurskoðunardeild, þ.e.a.s. starfsmenn stofnunarinnar í sérstakri endurskoðunardeild, sem á að vísu að lúta undir bankaráðið og formanni bankaráðs er sérstaklega ætlað að hafa eftirlit með, sem á að sjá um endurskoðunina. Það er að sjálfsögðu gott að hafa endurskoðunardeild þannig innan bankans og þörf á því að hafa sérkunnáttumenn til þess að fjalla um reikningana. En ég verð nú að segja það, að ég kann ekki við að fella niður það að hafa þingkjörna endurskoðendur til þess að endurskoða reikninga bankans og kann ekki við það frávik, sem með því er gert frá því, sem gildir um hina bankana. Það er alveg eins eðlilegt og nauðsynlegt fyrir Alþ. með þessum hætti að hafa eftirlit með þessum banka eins og hinum, að láta sína trúnaðarmenn, sem það kýs til ákveðins árabils, hafa með endurskoðunina að gera. Það má vera, að þetta hafi bara verið einhver gleymska í frv., ég satt að segja vildi vona það. Í frv. er að vísu gert ráð fyrir, að samráð sé haft við bókhaldsfróðan endurskoðanda. Mér finnst það samt sem áður ekki tryggilegur háttur og ekki viðeigandi. Það má vel vera, að sumir geri ekki mikið úr endurskoðun hinna þingkjörnu endurskoðenda, en það er nú samt sem áður siður, sem mér finnst ekki rétt að hverfa frá.

Svo er það 7. brtt. Hún er við 34. gr. — 34. gr. hljóðar svo í frv., með leyfi forseta: „Bankastjórar, bankaráðsmenn og allir starfsmenn bankans eru bundnir þagnarskyldu um allt, er þeir fá vitneskju um í starfi sínu.“ Fari greinin svona orðuð frá hv. Alþ., þá sé ég ekki betur en þessir starfsmenn allir verði að ganga með bundið fyrir munninn, því að þeir eru bundnir þagnarskyldu um allt, sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu. Það getur nú verið býsna margt. Ég hef leyft mér að flytja brtt. og legg til, að greinin orðist þannig: „Bankastjórar, bankaráðsmenn og allir starfsmenn bankans eru bundnir þagnarskyldu um atriði, sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkv. lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli málsins. Þagnarskyldan helzt, þótt látið sé af starfi.“ Þannig orðað er þetta í samræmi við þá reglu, sem gildir um opinbera starfsmenn almennt.

Loks hef ég svo borið fram brtt. við 36. gr. á þá lund, að í reglugerð séu einnig sett fyrirmæli um lífeyrissjóð starfsmanna bankans. Ég hef ekki fundið, að það væru í þessu frv. nein ákvæði um lífeyrissjóð starfsmanna þessa banka. Þó er það hins vegar svo, að starfsmenn Seðlabankans eru í lifeyrissjóði og eftirlaunasjóði Landsbankans, og það getur náttúrlega ekki verið meiningin að breyta því í sjálfu sér, það hlýtur að vera gert ráð fyrir því, að eftir sem áður verði starfsmenn bankans tryggðir hjá lífeyrissjóði og bankinn með sama hætti og verið hefur greiði í þann lífeyrissjóð. En til þess að fá að halda slíku áfram og stofna þannig nýjan lífeyrissjóð að formi til og að byggt verði áfram á þeim grunni, sem skapazt hefur, þá sýnist mér alveg óhjákvæmilegt að hafa einhverja lagaheimild, og vægari getur hún varla verið heldur en þetta, að það sé þó heimilað að ákveða þetta í reglugerð. En ég tel það alveg vafasamt og meir en vafasamt, að það væri heimilt að ákveða slíkt með reglugerð, án þess að hafa nokkra stoð í lögunum til þess. Það er a.m.k. víst, að í gömlu landsbankalögunum eru ákvæði um eftirlaunasjóð starfsmanna.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þessar brtt. Ég vissi, að þýðingarlaust væri að bera fram brtt., sem högguðu við meginstefnu eða meginefni þessa frv., og hef þess vegna alls ekki lagt í það, en hef hins vegar áður lýst afstöðu minni til þess. Formaður fjhn., hv. 11. þm. Reykv., hefur óskað eftir því, að fjhn. fengi tækifæri til þess að athuga þessar till. Ég get fúslega fallizt á það að taka þessar till. aftur til 3. umr, og mun gera það með ánægju, ef n. vill athuga þær.