23.03.1961
Efri deild: 80. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Á þskj. 579 flyt ég brtt. við þetta frv. til laga um Seðlabanka Íslands. Í raun og veru er ekki nema um eina brtt. þar að ræða, þ.e. að nafni bankans verði breytt. Orðið seðlabanki er heldur leiðinlegt orð, og einkum finnst mér það óvirðulegt nafn á æðstu peningastofnun landsins. Ég hef átt tal við ýmsa menn um nafnið, og ég hef engan hitt, sem væri ekki óánægður með þetta nafn: Seðlabanki Íslands. Ég flyt því till. um það, að nafninu verði breytt og að bankinn verði kallaður Þjóðbanki Íslands.

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. taldi tvo agnúa á því að samþ. þessa brtt. Annar var sú hefð, sem skapazt hefur um þetta nafn, Seðlabanki, en hinn var sá, að Landsbanki Íslands hefði sem sitt erlenda heiti National Bank. Báðar þessar fyrirbárur finnst mér heldur léttvægar. Hefðin hefur hér ekki mikið að segja. Það var eðlilegt fyrst framan af, meðan seðlabankinn var aðeins deild í öðrum banka, að hann héti þessu nafni þá. Þá átti það við, en nú alls ekki, eins og hv. frsm. meiri hl. fjhn. tók fram. Hlutverk þessa banka, sem hér er um að ræða, er miklu víðtækara en svo, að orðið seðlabanki nái þar yfir. Landsbanki Íslands gæti prýðilega eftir sem áður heitið National Bank á erlendu máli, með því að erlenda heiti Seðlabankans eða Þjóðbankans er Central Bank. Þar yrði aldrei um að ræða neinn rugling. Auk þess kæmi til greina, ef þess þætti þörf, að Landsbankinn tæki sér upp annað erlent nafn. Það væri ekki ósanngjarnt, að hann gerði það, ef á þyrfti að halda, fyrir þessa æðstu fjármálastofnun landsins. En það er fyrst og fremst af því, að mér finnst orðið seðlabanki heldur leiðinlegt nafn á virðulegri stofnun, það er fyrst og fremst þess vegna, sem ég ber fram þessa till., en tel ekki, að ég þurfi að hafa um það fleiri orð.