15.11.1960
Neðri deild: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fram í Ed. og var samþykkt þar óbreytt og einróma. Frv. felur í sér í meginatriðum sömu ákvæði og l. nr. 67 frá 1959, um bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga. Hér er um að ræða viðauka við ýmis gjöld, sem samþ. höfðu verið og framlengd ár frá ári um margra ára skeið. Þó eru nokkrar breytingar í þessu frv. frá gildandi lögum og skal ég rekja þær.

Eftir að þessi lög frá 1959, um bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga, voru sett fyrir síðustu áramót, voru nokkur ákvæði þeirra tekin upp í efnahagsmálalögin. Það voru ákvæði um innheimtu vitagjalds, um lestagjald og sérstakt innflutningsgjald af benzíni. Þessi ákvæði, sem sett voru inn í efnahagsmálalögin, hafa því verið felld niður úr þessu frv. Þá eru skipaskoðunargjöld, sem hafa verið í sams konar frv. áður. Þau eru ekki tekin í þetta frv., vegna þess að sett hefur verið reglugerð samkv. l. frá 1947 um eftirlit með skipum, og er af þeirri ástæðu óþarft að hafa í þessu frv. ákvæði um skipaskoðunargjöldin. Það, sem þetta frv. fjallar þá um, eru sem sagt framlengingar, eins og þær hafa verið gerðar frá ári til árs, að undanteknum þeim, sem ég nefndi, en það er heimild um að innheimta stimpilgjald og leyfisbréfagjöld með viðauka, gjald af innlendum tollvörum með viðauka, um bifreiðaskatt, innflutningsgjald af hjólbörðum og viðauka við vörumagnstoll og verðtoll.

Gert er ráð fyrir því, að sú heimild haldist, sem verið hefur, að fella niður aðflutningsgjöld af nokkrum nauðsynjavörum, eins og greinir í niðurlagi 4. gr. frv. Nú er að því unnið að endurskoða tollskrána og alla löggjöf um aðflutningsgjöld. Er það mikið verk, og verður væntanlega ekki unnt að leggja hina endurskoðuðu tollskrá fyrir þetta þing. Þess vegna þarf að framlengja þessa gjaldaviðauka nú, eins og verið hefur undanfarin ár, en við endurskoðun tollskrár og aðflutningsgjalda annarra verður að sjálfsögðu stefnt að því að fella þessa viðauka þar inn í. Ég vil leggja til, að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjárhagsnefndar.