24.03.1961
Neðri deild: 83. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

217. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. nr. 48 frá 28. maí 1957, um landnám, ræktun og byggingar í sveitum, hefur verið samþ. í Ed. Það fer fram á nokkra hækkun til jarðræktar og til húsbygginga á þeim jörðum, sem skemmst eru á veg komnar, og til þeirra aðila, sem þannig eru settir, að þeir þurfa sérstaklega fjárhagsaðstoðar við.

Um 1. gr. er það að segja, að þar er lagt til, að framlagið hækki í 5. gr. laganna úr 5 millj. kr. á ári í 61/2 millj. Þessi grein snertir jarðrækt, vatnsleiðslur og undirbúning ræktunar á nýbýlum. Með 2. gr. er gert ráð fyrir að hækka framlag til íbúðarhúsabygginga á nýbýlum úr 25 þús. kr. í allt að 40 þús. kr. Og samkv. 3. gr. er aðeins gert ráð fyrir að fullnægja lögum, sem voru samþykkt á síðasta Alþingi, þ.e. að hækka nokkuð framlag til þeirra býla, sem enn hafa ekki 10 hektara tún. Frv. þetta, ef að lögum verður, leiðir af sér hækkun styrkja í þessu skyni um 3 millj. kr.

Frv. er flutt til þess að leiðrétta að nokkru það misræmi, sem hefur skapazt vegna verðlagsbreytinga, vegna hækkaðs ræktunarkostnaðar og byggingarkostnaðar, sem þeir aðilar, sem byrja á framkvæmdum í sveitum og eiga við þrengstan kost að búa, hafa orðið fyrir. Pálmi Einarsson landnámsstjóri hefur samið þetta frv. og sniðið það eftir brýnustu þörfum, og telur hann, að ef það verður að lögum, þá muni þær framkvæmdir, sem átt hafa sér stað á sviði nýræktar og nýbýla, geta þróazt svipað og áður.

Þar sem nú er komið á síðustu daga þingsins, vil ég mælast til, að sú nefnd, sem fær þetta mál, sem er væntanlega landbn., geri svo vel að haga störfum þannig, að frv. geti orðið á dagskrá á mánudaginn.

Ég vil svo leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.