17.01.1961
Neðri deild: 45. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

131. mál, sala jarðanna Stokkseyri I--III með hjáleigum

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Frv., sem hér er til umr., er flutt af okkur fjórum þm. Suðurlandskjördæmis eftir beiðni hreppsnefndarinnar í Stokkseyrarhreppi, sem hefur gert þá grein fyrir óskum sínum, að hreppsfélagið telji eðlilegt, að það geti eignazt með kaupsamningi við ríkið jarðeignir þær, sem ríkið á og heyra nú til Stokkseyrarkauptúni. Hreppsnefndin bendir á, að nú hafi þorpið verið skipulagt og á hreppsfélagið leggist sérstakar skyldur til gatnagerðar samkv. skipulagi og hvers konar kostnaður annar til þess að gera jarðir þær, sem hér um ræðir, að byggingarlóðum, en hins vegar á sveitarsjóður þessa hrepps ekki von í því að hagnast að neinu leyti eða fá upp borinn sinn kostnað af hækkuðum lóðarafgjöldum, en lóðargjöld í þorpum eða kauptúnum eru jafnan nokkru hærri en afgjöld af jörðum.

Þá bendir hreppsnefndin einnig á, að það væri til mikils hagræðis fyrir hreppinn, sem þarf að skipuleggja notkun jarðnæðis af ýmsum ástæðum, að geta gert það sem eigandi. T.d. er á það bent, að garðrækt er verulegur liður í atvinnulífi þessa þorps, og nú stendur einmitt svo á, að vegna sérstaks sjúkdóms í kartöflum, sem þarna hefur geisað um nokkurt skeið, er útlit fyrir, að skipta verði með öllu um garðlönd og taka önnur í ræktun en þau, sem nú eru, og er það allmikil skipulagsbreyting á nýtingu landsins. Á sama hátt eru og færð rök að því í grg. hreppsnefndarinnar, að landbúnaður — kvikfjárrækt — sé verulegur liður í atvinnulífi þorpsins og það væri til mikils hagræðis, ef hreppsnefndin gæti sem landeigandi skipulagt hagbeit þarna, eftir því sem hagkvæmast þætti. Fleiri rök eru færð fyrir því af hreppsnefndarinnar hálfu, að hagkvæmt væri fyrir hreppinn að eignast lönd þessi.

Þess vegna er hér lagt til í frv. um þær jarðir, sem ríkið á nú, en heyra til Stokkseyrarþorpi, að ríkisstj. verði gefin heimild til þess að semja um sölu á þessum jarðeignum til Stokkseyrarhrepps. Um lagafrv. er farið mjög að þeim fyrirmyndum, sem hér hafa verið samþykktar að undanförnu varðandi sölu á landi ríkisins til einstakra hreppa eða einstakra þorpa og bæjarfélaga, en þróunin hefur verið sú á síðustu árum, að þau hreppsfélög eða bæjarfélög, sem þannig stendur á um, að þau eða íbúar þeirra eru að mestu landsetar ríkisins, hafa hvert af öðru nú gert kaupsamninga við ríkið. Má þar til nefna Kaupavogskaupstað, Eyrarbakkahrepp og síðast á árinu 1960 Vestmannaeyjakaupstað. Hér er í öllu farið að með sama hætti um lagafrv. og um þau lagafrumvörp, sem heimiluðu þær sölur, sem ég nú hef nefnt. Ég legg þess vegna til, að þegar þessari umr. lýkur, verði málinu vísað til 2. umr. og til umsagnar landbn.