10.02.1961
Efri deild: 56. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

182. mál, afhending Þingeyjar í Skjálfandafljóti

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þessa till., sem hér er komin fram í frumvarpsformi, og þó sérstaklega ef á frv. fengjust breytingar, sem ég tel æskilegar. Ég færðist undan að flytja þetta mál á því Alþingi, sem nú situr, og hafnaði því einnig að vera meðflm. að frv. Þetta stafar af því, að ég taldi heppilegra, að undirbúningur heima fyrir væri lengra á veg kominn, þegar farið væri með málið fyrir Alþingi, t.d. að það væri búið að leggja frumdrög að samningum við bændur þeirra tveggja jarða, sem 1/4 eyjarinnar tilheyrir, og er land hennar, eins og kom fram hjá frsm., óskipt milli eigenda sem sameign þeirra, og einnig, — það var nú stærra atriði kannske, — að búið væri að gera áætlun um, hvað gera skuli fyrir eyna sem héraðsgarð. Að gera Þingey að héraðsgarði getur verið töluvert fyrirtæki. Eyjan er ekki svo upplögð fyrir héraðsgarð sem ætla mætti. Eyjan er þannig sett, að þangað koma nú orðið fáir nema næstu nágrannar. Ég get t.d. ekki sagt, að ég hafi stigið fæti á eyna fyrr en í haust sem leið, að ég gerði mér ferð þangað til þess að kynnast henni og skoða hana með tilliti til þessarar hugmyndar, sem uppi er. Mér varð það augljóst, að til þess að gera eyna t.d. að samkomustað fyrir héraðið þyrfti að leggja þangað alllangan veg og byggja brú yfir fljótið eða kvísl af því. Eyjan er líka mjög ógreið yfirferðar, og þyrfti þess vegna að hafa töluvert fyrir að gera þar æskilegan samkomustað. Minjar um þinghaldið eru ekki augljósar, einkum af því að á 18. öld var komið þar upp bóndabýli, sem fór í eyði aftur um aldamótin að vísu, en tættur frá því býli blandast saman við minjarnar um þinghaldið, svo að það er ekki þægilegt, a.m.k. fyrir leikmann, að lesa það í sundur. Eftir að hafa komið í eyna, fannst mér sjálfsagt að biðja þjóðminjavörð að rannsaka þessa hluti, og ég átti tal við hann um það, eftir að ég kom hér suður, og tók hann því mjög vel að koma norður næsta sumar til skrafs og ráðagerða. Þetta er sá undirbúningur, sem mér fannst fyrst og fremst, að hafa þyrfti, áður en málið væri lagt fyrir Alþ.

Nú má að vísu segja, að þó að Alþingi hafi gefið ríkisstj. heimild til að selja eyna, þá sé vitanlega hægt að gera þetta, sem gera þarf, áður en ákvarðanir eru teknar um föst kaup eyjarinnar. En ég hafði hugsað mér, að þegar málið kæmi fyrir Alþingi, væri mjög eðlilegt, ef þarna væri ráðizt í fyrirtæki, sem nokkuð kostaði, eins og mér sýnist í raun og veru einboðið að hlyti að verða, og væri nokkurs virði fyrir héraðið og einnig frá sjónarmiði þjóðfélagsins til þess að vernda sögulegar minjar og halda í heiðri gamalli helgi, — þá mætti vel fara fram á það og væri eðlilegt að fara fram á það, að Alþingi heimilaði ríkisstj. að láta sinn hluta af eyjunni af hendi við sýslufélagið til eignar og umráða endurgjaldslaust. Og því er það, að ég vildi óska þess, að sú nefnd, sem fær málið til meðferðar, taki það til athugunar, hvort ekki væri viðeigandi að breyta frv. á þá leið, að Alþ. heimili ríkisstj. að láta eyjuna til eignar og umráða fyrir Þingeyjarsýslu án endurgjalds, en með einhverjum tilteknum skilyrðum. Ég óska þess, að n. taki það til athugunar, þó að grundvöllurinn fyrir því, að hér fáist slík heimild, sé ekki eins góður og hefði getað verið, ef málið hefði verið meira undirbúið heima og ákvarðanir hefðu verið teknar um meðferð þessarar eyjar meira en gert hefur verið. Það er ágætt náttúrlega, að hún sé friðuð — það er það eina, sem fram kemur hér fyrir beit. En í raun og veru hefur hún ekki mikið verið beitt síðustu ár, og síðasta sumar var ekkert fé sett í eyna. En aftur á móti hafði annar sá bóndi, sem hlut á að máli, og sá, sem hefur eyjuna á leigu, látið sá í uppblástur eyjarinnar og einnig kostað einhverju til áburðar í því sambandi, og mátti sjá þess vott s.l. haust. Þetta um beitina vil ég taka fram út af því, sem kom fram í ræðu hv. frsm.

Eins og ég þykist hafa gert grein fyrir, þá er ég málinu fylgjandi, en vildi sérstaklega óska, að n. tæki til athugunar, hvort hún sæi sér ekki fært að gera till. um það, að sýslan fái þessa ríkiseign ókeypis með þeim skilyrðum, að hún vinni að því, að þær minjar, sem þarna eru, verði verndaðar og helgi þeirra við haldið.