24.03.1961
Efri deild: 82. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa yfir ánægju yfir afstöðu meiri hl. hv. félmn. til þessa frv. Ég vil líka lýsa yfir ánægju yfir afstöðu minni hl., því að fulltrúar minni hl. eru ekki í sjálfu sér andvígir málefninu, heldur telja þeir aðeins, að þetta gangi of skammt. Og þetta er sérstaklega ánægjulegt fyrir þá sök, að maður hefði, eftir því sem áður hefur skeð í þessum málum, jafnvel getað búizt við hinu gagnstæða, því að mér er ekki kunnugt um það, að þeir flokkar, sem minnihlutamennirnir tilheyra, hafi nokkru sinni borið fram hér á Alþ. frv. til l. um launajöfnuð karla eða kvenna.

Það kom fram í ræðum hv. minnihlutafulltrúa ýmiss konar misskilningur, sem ég vil leyfa mér að gera hér að umtalsefni og leiðrétta. Ég ætla þá fyrst að snúa mér að nál. hv. 1. minni hl. heilbr.- og félmn., hv. alþm. Karls Kristjánssonar. Að vísu skal ég játa, að ég veitti því athygli, þegar hann var að tala, ég tók ekki eftir því, að hann minntist nokkurn tíma á Framsfl. eða á stefnu hans eða Framsóknarstefnuna í sambandi við þetta mál, heldur virtist afstaða hans til þessa máls aðallega byggjast á ást til kvenþjóðarinnar, og þætti mér það vel, ef afstaða hans í stórmálum byggðist frekar á þessu framvegis en á Framsóknarstefnunni.

Hið fyrsta, sem getur í þessu nál. á þskj. 637, er: Hvers vegna ekki jöfn laun kvenna og karla fyrir sömu störf í öllum starfsgreinum? Þetta komu reyndar báðir þeir hv. þm., sem skipa minni hl. n., inn á. Hvers vegna er eitthvað fólk skilið út undan? Og inn á þetta er líka komið í umsögn Alþýðusambands Íslands um þetta frv. Ég vil leyfa mér að lesa hér örfáar setningar úr þessari umsögn Alþýðusambandsins, með leyfi forseta. Hún hljóðar svo:

„Ákvæði 1. gr. um launajöfnuð á árunum 1962–1967 mundu aðeins ná til þeirra kvenna, sem vinna eftir samningum almennu verkakvennafélaganna, eftir samningum Iðju, eftir samningum verzlunarfólks. En hvað um konur, er vinna í sjúkrahúsum, í prentsmiðjum, við bókband o.s.frv.?“

Það er að vísu rétt, að það kunna að vera til einhverjar þær starfsstéttir kvenna, sem yrðu utan við þetta frv. En ég held, að þegar málið er athugað betur, þá séu það ákaflega fá tilfelli og reyndar erfitt að gera sér grein fyrir því, að sá möguleiki sé meira en fræðilegur. Ef við tökum það kvenfólk, sem er í alþýðusamtökunum og ekki mundi ná undir þetta frv., við skulum segja konur, sem vinna í sjúkrahúsum, — það væri reyndar hálfgert öfugmæli að setja þær hér inn í frv., því að frv. byggist á sömu launum fyrir sömu störf. Það vinna engir karlmenn sömu störf og t.d. gangastúlkur í sjúkrahúsum eða stúlkur, sem eru í eldhúsi í sjúkrahúsum eða í þvottahúsum eða eitthvað slíkt. Það vinna engir karlmenn þessi störf, þannig að það væri enginn grundvöllur fyrir því að láta þær hafa sama kaup. Á sama hátt má segja t.d. um aðstoðarstúlkur í prentsmiðjum. Það vinna engir karlmenn þessi störf, svo að ég viti. Við getum tekið fleiri konur, sem eru í Alþýðusambandinu, eins og nuddkonur. Ég veit ekki til þess, að neinir karlmenn nuddi. Eða flugfreyjur. Það eru engir karlmenn til, sem vinna flugfreyjustörf. Það væri tilgangslaust að taka þetta upp í frv., vegna þess að þarna er um störf að ræða, sem karlmenn vinna yfirleitt aldrei. Hitt er svo annað mál, að auðvitað mundi samþykkt þessa frv. hafa óbein áhrif, sterk, óbein áhrif í þá átt að létta samningsaðstöðu þessa kvenfólks, sem vinnur störf, sem karlmenn vinna ekki, en hefur lág laun. Og mér finnst nú, að þegar annar fulltrúi minni hlutans, hv. þm. Alfreð Gíslason, var að prédika um þetta óréttlæti og að þetta mundi vera erfitt, þá sé hann raunverulega að bera fram vantraust á forustu verkalýðssamtakanna hér, og ég hefði álitið, að það vantraust ætti sízt að koma úr þeirri átt. Alveg sama má segja um það, þegar er verið að tala um, að samþykkt þessa frv. mundi leiða til þess, að vinnuveitendur neituðu verkakonum um allar frekari hækkanir eða allar hækkanir til að brúa bilið milli karla og kvenna umfram það, sem segir í þessum lögum, að þá er það í sjálfu sér líka vantraust á verkalýðssamtökin, ef verkalýðssamtökin hafa það í hyggju að brúa þetta bil á skemmri tíma. Og eins og margoft hefur verið tekið fram, þá hamlar þetta frv. ekkert gegn því, það er bara verið að tryggja lágmarksávinning fyrir konurnar, það lágmark, að þær fái launajöfnuðinn á sex árum, en á engan hátt með frv. komið í veg fyrir það, að þær geti fengið hann á skemmri tíma.

Svo að ég haldi mér aftur við nál. á þskj. 637, þar segir svo: „Sett skal samkv. frv. ríkislaunuð nefnd manna, er stéttarfélög kvenna skulu sækja um þessar launahækkanir til, eða a.m.k. verða stéttarfélögin að fá árlega hjá nefndinni staðfesta hækkunina, og fleira er í frv. af fyrirmælum, sem hafa í för með sér skriffinnsku í sex ár og hlaup aftur og fram.“ Þessi hv. þm. kom líka, og báðir fulltrúar minni hl. inn á það, að hér væri að óþörfu verið að stofna til skriffinnsku og það væri stefna ríkisstj. að fækka nefndum, en væntanlega ekki að stofna nýjar. En til þess nú að geta komið nokkuð til móts við óskir þessara hv. manna í þessu efni, þá vil ég benda á, að þegar þessi nefnd verður skipuð, þá er alveg óhætt að leggja niður aðra nefnd, og það er jafnlaunanefnd, sem skipuð var vorið 1958 af þáv. félmrh., Hannibal Valdimarssyni. Sú nefnd átti að rannsaka mismun á launakjörum karla og kvenna og undirbúa tillögur, og mér er ekki kunnugt um það, að sú nefnd hafi sent frá sér neinar tillögur um það efni enn í dag, þannig að þarna mætti skera niður aðra nefnd á móti.

Þá segir enn fremur í þessu sama nál. á þskj. 637: „Launajafnréttið er að ryðja sér til rúms, og ekki þýðir fyrir neinn að þrjózkast á móti því. Íslendingar hafa þegar skuldbundið sig til að koma því á hjá sér: Þetta er ekki rétt. Hér mun hv. þm. eiga við aðild Íslands að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, en í þessari samþykkt skuldbinda Íslendingar sig aðeins til þess að stuðla að því, og í raun og veru er þetta miklu fremur stefnuyfirlýsing en skuldbinding. Það má alltaf segja, að verið sé að vinna að þessu og undirbúa það. Það eru engar tímaákvarðanir eða neitt slíkt. Og það er líka annað, að skuldbindingin nær ekki nema til þess að koma á jöfnum launum fyrir jafnverðmæt störf, en það er miklu þrengra en gert er ráð fyrir í þessu frv., þannig að við gætum 10–20–30 ár verið aðilar að þessari samþykkt án þess að gera neitt, svo að það er ofsagt þarna í nál., að við höfum þegar skuldbundið okkur til þess að koma á launajafnrétti eins og hér er gert ráð fyrir í frv.

Þá ætla ég að leyfa mér að koma inn á nál. hv. 2. minni hl., hv. þm. Alfreðs Gíslasonar. Það nál. er í höfuðatriðum byggt á umsögn A.S.Í. um þetta mál, þannig að ég get alveg eins vitnað til þeirrar umsagnar. Reyndar telja báðir hv. þm. í minni hl., að það gangi of skammt að ná þessu launajafnrétti í sex áföngum og að það væri miklu eðlilegra og réttlátara að gera þetta í einum áfanga. Ég vil benda á, að jafnvel verkalýðssamtökin sjálf hafa það ekki á stefnuskrá sinni, — þau hafa auðvitað fullt launajafnrétti á stefnuskrá sinni, en þau hafa það ekki á stefnuskrá sinni að gera þetta í einum áfanga. Þau telja það óframkvæmanlegt með samningum a.m.k. Þau hafa markað sér þá stefnu að ná í næsta áfanga 90%, að konur fái 90% af launum á móts við laun karla. Nú þekkja allir, hvað það getur verið mikill munur á því að setja fram kröfur við vinnuveitendur og svo hinu, sem maður fær í sinn hlut, þegar staðið er upp frá samningum, þannig að það er auðvitað ólíklegt, að verkalýðssamtökin mundu ná 90%, þó að það væri vissulega gott, ef svo yrði. Það má t.d. benda á vinnudeiluna í Vestmannaeyjum. Að vísu liggja nú ekki fyrir glöggar skýrslur um þá samninga, sem þar voru gerðir, en mér skilst, að verkakonur þar hafi ekki náð umfram karlmenn nema svona um það bil einum þriðja af þessum mismun, sem þurfti að ná, til þess að þær fengju 90% á móts við karlmenn. Og það verður að hafa það í huga líka, að verkakonur voru marga daga í verkfalli og höfðu mjög sterka aðstöðu, þar sem öll önnur verkalýðsfélög í bænum voru í samúðarverkfalli með þeim, Það verður líka að meta það, þegar horft er fram í tímann, til jafnlaunabaráttu verkakvenna og annarra kvenna, hvað það mundi kunna að kosta miklar fórnir að þurfa að ná þessu að mestu leyti með kjarabaráttu.

Það má þess vegna segja, að ef engin frumvörp hefðu komið hér fram á hv. Alþ., þá væri líklegt, að það tæki mörg ár að ná þessu launajafnrétti, og jafnvel þó að eitthvað mundi þokast áleiðis í næstu samningum milli stéttarfélaganna, þá veit enginn, hvað mundu líða mörg ár aftur, þangað til aftur næðist einhver áfangi í þessu máli.

Ég vil í þessu sambandi benda á það, að frá því 1955 eða ef við lítum síðastliðin sex ár aftur í tímann, þá voru laun verkakvenna 76% af launum karla. Almennu launin hafa síðan hækkað upp í 78% af launum karla. Það var fyrir aðgerðir löggjafans, það var ekki vegna samninga. Verkakvennafélögin hafa ekki brúað þetta bil á neinn hátt með samningum. Nú er gert ráð fyrir í þessu frv., að á næstu sex árum hækki þetta úr 78% í 100%, þ.e.a.s. næstu 6 ár, ef þetta frv. verður samþykkt, þá næst ellefu sinnum meiri árangur í jafnlaunabaráttunni en á s.l. 6 árum. Er það ekki fagnaðarefni, að svo skuli líta út fyrir? Það má líka benda á aðrar þjóðir. Þær hafa ekki séð sér fært að koma á fullkomnu launajafnrétti á örskömmum tíma. T.d. í Svíþjóð mun hafa verið samið um að gera þetta á næstu fimm árum, og eru þó Svíar áreiðanlega miklu ríkari þjóð en við. Það getur líka haft sína annmarka að gera þetta of snöggt. Það mundi geta valdið mikilli röskun á vinnumarkaðinum og það mundi geta valdið atvinnuleysi hjá konum. Það mundi líka geta valdið því að það yrði erfiðara fyrir verkalýðssamtökin að berjast fyrir almennum kjarabótum öllum til handa, þegar þetta væri komið þannig að það eru ýmis fleiri atriði á að líta.

Í þessari umsögn Alþýðusambandsins segir enn fremur svo, með leyfi forseta: „Út af 3. gr. frv. vil ég taka fram, að verkalýðsfélögunum er áreiðanlega næsta óljúft að láta ákvarðanir um kaupgjaldsmál sín í hendur nefndar, sem verkalýðsfélögin ættu í aðeins einn fulltrúa af þremur. Samkv. 4. gr. eiga stéttarfélög, sem semja um kaup og kjör, að sækja um launahækkanir til þessarar nefndar. Samkv. sömu grein hafa samningar, sem félögin gera við atvinnurekendur, ekki gildi, fyrr en þeir hafa hlotið staðfestingu af þessari margnefndu nefnd. Með þessu er samningsaðstaða verkalýðsfélaganna öll torvelduð og samningsrétturinn beint skertur“.

Hér er um ákaflega mikinn misskilning að ræða í öllu þessu, sem ég las úr í þessari umsögn. Ákvörðunin eða reglurnar um hækkunina eru ekki settar af nefndinni. Reglurnar um hækkunina og rétturinn til hækkunarinnar er byggður á lögunum. Hins vegar gæti auðvitað átt sér stað, að það yrði deila um, hvernig ætti að skilja þessi lög, og í stað þess að þurfa að fara fyrir dómstóla með slík mál, — slík mál gætu tekið marga mánuði eða jafnvel missiri, — þá kemur þessi nefnd, og úrskurðarvald hennar kemur í staðinn fyrir dómstólana. Þetta er alveg á sama hátt og þegar deilt er nú í dag um skilning á ákvæðum kjarasamnings. Ef deilt er um skilning, þá fellur mál fyrir félagsdóm. Það er það, sem verið er að gera þarna, að deila um skilning á þessum lögum fer ekki fyrir dómstólana, heldur fyrir þessa nefnd.

Þá er það hitt atriðið, að það þurfi að sækja um til n. og að hún þurfi að staðfesta samningana, til þess að þeir haldi gildi sínu. Það er alveg skýrt tekið fram í skýringum við frv., hvernig á þessu stendur. Til þess að gera þetta þægilegra í framkvæmd og greiðara fyrir báða aðila, þá er verkalýðsfélögunum og vinnuveitendum heimilað að semja um þessa lögboðnu hækkun, í staðinn fyrir að þurfa að sækja um þetta beinlínis til nefndarinnar. En til þess að tryggja það, að verkalýðsfélögin fái sem lágmark það, sem lögin veita þeim, verður n. að staðfesta það. Nefndin þarf ekki að staðfesta þennan samning nema til þess að gæta þess eins, að viðkomandi stéttarfélag verkakvenna hafi fengið sinn sjötta hluta, en það verði ekki samið um minna. Það er ekki til neins annars. Og ástæðan til þess, að það þarf að hafa þessa nefnd og það þarf að leita til hennar, er sú, að hækkunin er ekki algerlega bundin við taxtana, sem standa í samningum, heldur segir: „Sömu laun fyrir sömu störf.“ Þó að ég að vísu álíti, að þar sé um hreinar undantekningar að ræða, þá getur í sumum tilfellum verið þannig, að störf, sem eru launuð með almennu verkakvennakaupi, einhver lítill hluti þeirra yrði kannske talinn til starfa, sem karlmenn ynnu ekki, og þá þarf að vera einhver aðili, sem sker úr þessu, þannig að þessi nefnd skerðir ekki á nokkurn hátt rétt verkakvennafélaganna, heldur er hún alveg nauðsynlegur aðili. Það er nauðsynlegt, að ríkið setji á fót einhverja slíka stofnun, einhvern aðila til þess að framkvæma lögin á einfaldan og greiðan hátt.

Ég held, að það sé þá ekki öllu fleira, sem ég vildi sérstaklega taka fram. Það má auðvitað miklu fleira um þetta mál segja, en ég ætla að láta þetta nægja að sinni.