25.03.1961
Neðri deild: 84. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1578)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Fram. 2. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf., Gísli Jónsson, formaður heilbr.- og félmn. d., kom hér í ræðustólinn áðan og sagðist gera það til þess að bera af sér sakir. Sakirnar, sem ég hafði á hann borið, voru þær, að hann hefði látið brúka sig til þess óhæfuverks að heimta meðnm. sína á nefndarfund s.l. nótt um óttuskeið, rétt um kl. 3. Þetta eru engin þingleg vinnubrögð, — það er alveg sama, undir hvern það er borið, — þetta er þjónusta við ofbeldi, sem hann átti ekki að láta nota sig til. Hans þvottur viðvíkjandi þessu atriði er því í senn kattarþvottur og Pílatusarþvottur.

Að öðru leyti vék hv. þm. að einu atriði ræðu minnar í nótt, sem sé því, að ég hefði haldið því fram, að hvergi væri launamisrétti kvenna og karla jafnsvívirðilegt og hjá verzlunar- og skrifstofufólki, og þar sem hann hefur að einhverju leyti verið við verzlun og viðskipti kenndur, þóttist hann vera þess umkominn að bera þetta til baka. En staðreyndirnar tala, hversu ákveðið sem hv. þm, mælir gegn þessu. Það er ekkert launungarplagg, samningur Verzlunarmannafélags Reykjavíkur um launakjör verzlunarfólks, og það sér hver einasti maður, sem lítur á launakjör kvenna samanborið við launakjör karla, að þar er reginmunur á, þó að um sé að ræða stúlkur komnar úr sérfræðingaskóla verzlunarstéttarinnar, Verzlunarskóla Íslands. (Gripið fram í.) Þeim hefði ekki veitt af því. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það standi neitt á góðri forustu í kaupgjaldsmálum, þar sem íhaldsmenn ráða og Alþfl.-menn hafa einhverja hönd í bagga. En það stafaði ekkert af því. Á Alþýðusambandsþingi í haust var gerð samþykkt um það, þingsamþykkt, að A.S.Í. byði fram alla aðstoð við þessi stéttasamtök láglaunafólksins í verzlunarstétt, sem þessi samtök óskuðu eftir. Þessi samþykkt var gerð með samhljóða atkv. á Alþýðusambandsþingi, og það vantar ekkert upp á það, að verzlunarsamtökin viti, að þau njóta fyllsta stuðnings A.S.Í. í sinni kjarabaráttu. (Gripið fram í.) Það var alveg vitað mál, að það var pólitísk innrásartilraun, sem A.S.Í. hlýtur að áskilja sér rétt til að svara á hvern þann hátt, sem meiri hl. þings ákveður, og engir aðrir. (Gripið fram í.) Nei, það var ekki pólitísk útilokun. Það var pólitísk spekúlasjón þarna og árás á Alþýðusambandið, ekkert annað en í pólitískum tilgangi. Ef hv. 1. þm. Vestf. hefði rétt fyrir sér, að það væri engin hæfa fyrir því, að það væri nokkurt launamisrétti ríkjandi í verzlunarstétt, þá er hann að fullyrða, að fullkomið launajafnrétti kvenna og karla sé. komið á hjá verzlunarfólki á Íslandi, — og er það sannleikanum samkvæmt? Nei, það eru ósannindi.

Lokaatriðið í ræðu hv. þm. var svo það, að hann var að afsaka, að nefndin, heilbr.- og félmn., sem hann er formaður fyrir, hefur haldið hjá sér í allan vetur frá því á haustmánuðum frv. til laga um sömu laun kvenna og karla og meiri hl. hv. n. hefur ekki enn haft manndóm í sér til þess að gefa út nál. um frv. Hvað hefðu verið þingleg vinnubrögð í þessu máli? Að afgreiða málið út úr n. til d. á hæfilegum tíma fyrir þinglok, svo að málið hefði í þingdeild getað fengið þinglega meðferð og menn skipað sér þar til afstöðu gagnvart því með eða móti, eins og þeir hefðu manndóm og réttlætistilfinningu til. En þennan manndóm skorti hv. meiri hl. n. og kaus því að liggja á frv. allt til þingloka og fæst ekki einu sinni til þess að gefa út nál. um það. Þessi vinnubrögð verða ekki heldur afsökuð, þó að hv. formaður n. reyni að gera það. Það er staðreynd, sem við horfumst nú í augu við í lok þessa þings, að slíku gerræði hefur verið beitt gagnvart minni hl. á Alþ., að ég held, að það sé áreiðanlegt, að ekkert mál stjórnarandstöðunnar hafi hlotið samþykki á Alþ., — ekkert. Á öllum málum stjórnarandstöðunnar hefur verið traðkað þannig og þinglegum rétti minni hl. á Alþ., að ekkert mál, sem minni hl. hefur borið fram, hefur náð afgreiðslu á Alþ. eða samþykki. Og það er eitthvað annað en þingræðislegur andi og lýðræðisleg helgi, sem sveimar yfir vötnunum, þegar sú er niðurstaðan.

Þá kemst ég ekki hjá því að víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 8. þm. Reykv., frú Ragnhildar Helgadóttur, sem nú virðist vera fjarstödd og er e.t.v. ekki í húsinu. Þá þykir mér hálfu leiðinlegra að víkja máli mínu að henni, en verð þó sennilega að neyðast til þess. Þessi hv. þm. er einasta konan, sem við höfum hér í hv. Nd. Alþ., og hvert var hennar erindi hingað í ræðustól? Var það ekki það að lýsa því yfir, að hún fylgdi að sjálfsögðu hverri þeirri till. og greiddi henni atkv., sem gengi lengst í því að auka réttindi kvenna? Ég hefði vænzt þess, að slíkt erindi hlyti einasta konan í hv. Nd. Alþ. að eiga í ræðustól í sambandi við það mál, sem hér er til umr. En þetta var ekki erindi elskulegrar frúarinnar. Það var einmitt hið gagnstæða, að mæla gegn öllum þeim tillögum, sem hér ganga lengst í því að. auka launajafnrétti kvenna móts við karla, þó að hæstv. frúin sé einmitt í lögfræðingastétt og enginn láti sér detta í hug, að lögfræðingurinn, sem er kona, eigi að vinna eftir lægri kauptaxta en lögfræðingurinn, sem er karlkyns. En misréttið skal vera nógu gott handa öðrum kynsystrum hennar, þótt hún njóti jafnréttisins sjálf.

Aðalerindi frúarinnar að öðru leyti en lýsa afstöðu sinni móti öllum þeim tillögum, sem hér vilja unna konum jafnréttis í launamálum við karlmenn, var svo það að básúna út, hversu frækilega Sjálfstfl. hefði barizt fyrir jafnréttismálum kvenna á Alþingi fyrr og síðar, og þar til nefndi hún þrennt. Hún tilnefndi, að fyrsti sigur flokksins hefði legið í því, að hann hefði fengið samþykkta þáltill. — mun hafa verið 1953 — um áskorun til ríkisstj. um að rannsaka, hvort Ísland gæti fullgilt hina svokölluðu jafnlaunasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Það er rétt, þessi till. frá hinum 6 sjálfstæðismönnum var samþykkt. Og hver var ávöxturinn af henni? Hann var sá, að það var skipuð nefnd af ríkisstj. á grundvelli þessarar tillögu og hún átti að segja til um það, hvort Ísland gæti fullgilt alþjóða-jafnlaunasamþykktina. En þessi nefnd var þannig skipuð og það þjónustusöm við þáv. ríkisstj., að hún komst að þeirri niðurstöðu, að það væri ógerlegt fyrir Ísland að fullgilda jafnlaunasamþykktina um sömu laun kvenna og karla, og þar með var málið kistulagt, ágætum slagbrandi skotið fyrir möguleika þess, að það mál fengi lausn í bili. En áður hafði Sjálfstfl. einmitt lýst því yfir, að það væri hinn bráðnauðsynlegasti áfangi í þessu máli, að jafnlaunasamþykktin yrði fullgilt fyrir Íslands hönd.

Þá var annar stórsigur Sjálfstfl. í þessum réttindamálum kvenna, setning laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Hv. 8. þm. Reykv., frú Ragnhildur Helgadóttir, sagði, að flm. þess máls á Alþ. hefði verið núv. hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen. Það er alrangt. Sá dyggðum prýddi ráðh. þarf víst ekki að fá neinar lognar dyggðir á sig til skrauts. Hann var ekki flm. málsins. Hann hafði verið í vinnumennsku hjá þáv. hæstv. fjmrh., Eysteini Jónssyni, við að semja drög að frv. upphaflega, en flm. frv. var þáv. hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson. Og ég hefði nú viljað halda, að ef Sjálfstfl. hefði flutt málið, hefði hann með nokkrum rétti getað eignað sér heiðurinn af frv., en hann verður a.m.k. að deila þeim heiðri með Framsfl. og Eysteini Jónssyni, ef rétt skal segja söguna.

Þá er þriðji sigurinn, að það hafi verið samþykkt hér á Alþ. þáltill. um að staðfesta, að Ísland skyldi fullgilda jafnlaunasamþykktina, alþjóðasamþykktina um sömu laun kvenna og karla. En það er alveg að fljúga á stolnum fjöðrum að ætla að eigna Sjálfstfl. nokkurn heiður í sambandi við það, eftir að n., sem hans ríkisstj. hafði skipað, hafði sagt, að Ísland gæti ekki fullgilt þessa samþykkt. Það var vinstri stjórnin, sem gekk frá fullgildingu þessarar samþykktar, og höfðu kvennasamtökin í landinu á undanförnum árum gert fjölda samþykkta um, að það væri mjög þýðingarmikill áfangi í launajafnréttismálum kvenna, ef ríkisvaldið á Íslandi fullgilti þessa samþykkt og gengist þannig undir skuldbindingar um, eins og í sjálfri samþykktinni segir, að vinna að því, að reglan um sömu laun til kvenna og karla verði gildandi. Með slíkri samþykkt eru stjórnarvöld á Íslandi skuldbundin til þess að vinna að launajafnrétti kynjanna. Um það verður ekki deilt. Það stendur skýrum stöfum í samþykktinni sjálfri.

Þegar frúin, hv. 8. þm. Reykv., hafði þetta mælt, sagði hún: Þetta sýnir allt saman, hvaða þátt Sjálfstfl. á í þessu máli, hvað saga hans er glæsileg í þessum málum.

Þessu næst vék hv. frúin að mér, mínum þætti í þessum málum. Hún byrjaði á að skýra frá því, að þegar Kvenréttindafélag Íslands var 50 ára, var félaginu tilkynnt með bréfi, að einmitt þann sama dag að morgni hefði verið ríkisráðsfundur að Bessastöðum og þar hefði ríkisstj., vinstri stjórnin, samþykkt á ríkisráðsfundi að fullgilda jafnlaunasamþykktina. Átti þessi ákvörðun nokkurt erindi til Kvenréttindafélags Íslands? Var hægt að 1íta svo á, að það mundi verða einhver fögnuður í þeim herbúðum á þessu hálfrar aldar afmæli samtakanna, þegar margfaldar óskir og kröfur þessara samtaka frá undanförnum árum höfðu nú verið uppfylltar eða ákvörðun um það tekin að uppfylla þær og að jafnlaunasamþykktin yrði samþykkt? Svo mikið er víst, að þegar Kvenréttindafélagið fékk þessa tilkynningu, fögnuðu konur því mjög, enda var það í fullu samræmi við þeirra fyrri afstöðu. Það er flestum kunnugt, að jafnlaunasamþykktin tekur ekki gildi í neinu landi frá þeim degi, sem hún er fullgilt, heldur segir í sjálfri samþykktinni, — og það gildir um öll meðlimaríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, — að hún tekur ekki gildi fyrr en 12 mánuðir eru liðnir frá því, að hún hefur verið skráð hjá aðalritara Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Þessi samþykkt, sem var fullgilt fyrir Íslands hönd á árinu 1957, var því ekki fullgilt, var ekki komin í gildi, orðin gildandi fyrir Ísland, fyrr en á síðari hluta ársins 1958, og á síðari hluta ársins 1958 fór vinstri stjórnin frá völdum. Við höfðum því ekki langt svigrúm til að gera ráðstafanir til, að hún yrði framkvæmd þegar í stað. Það átti að koma í hlut þeirrar ríkisstjórnar og þeirra ríkisstjórna, sem setið hafa síðan.

Það, sem ég hins vegar gerði, rétt skömmu eftir að Ísland hafði fullgilt jafnlaunasamþykktina, var í fullu samræmi við samróma kröfur kvennasamtakanna í landinu, innan verkalýðssamtakanna og utan, að nú yrði, þegar Ísland væri búið að skuldbinda sig til að vinna að launajafnrétti, skipuð svokölluð jafnlaunanefnd, sem yrði í þremur sætum af fimm skipuð konum. Ég varð þegar í stað við þessum óskum kvennasamtakanna, taldi það eðlilegt og réttmætt, að nú yrði nefnd falið að rannsaka alveg ofan í kjölinn, hvernig stæðu hlutföllin í kaupgjaldsmálum og launamálum kvenna og karla, bæði hjá því opinbera og hjá atvinnulífinu. Þessi nefnd var skipuð, og það voru ekki skipaðar 3 konur í hana, heldur 4 af 5, og aðeins einn karlmaður. Og hún fékk sitt erindisbréf um að afla skýrslna og upplýsinga sem allra fyrst um það, hvernig þessi mál stæðu. Það var búizt við því þá, að hún gæti lokið störfum ef til vill innan árs. En reyndin hefur orðið sú, að starfið reyndist bæði umfangsmikið, og þó einkum hitt, að það er illur draugur að glíma við, hvað íslenzkir einstaklingar og íslenzkar stofnanir eru tregar og seinar til að senda skýrslur, og þessi nefnd hefur mjög orðið fyrir því, að einstaklingar og stofnanir, sem, hún óskaði eftir skýrslum frá, hafa sent þessar skýrslur mjög seint og sumar illa. (Gripið fram í: Hver er formaðurinn?) Hann heitir Snorri Jónsson, og veit ég ekki annað en það hafi verið gott samstarf í nefndinni. Konurnar fjórar hafa tekið að sér ákveðna þætti af því starfi, sem n. átti að vinna, og í raun og veru haft meginþætti starfsins í sínum höndum, skipt því niður á sig. Ef þarna er illa unnið, er það a.m.k. að einhverju leyti því að kenna, að þessar konur hafa ekki reynzt eins áhugasamar og ætla mátti um þetta starf, en ég hef a.m.k. enga ástæðu til að ásaka þær um léleg vinnubrögð. Ég veit ekki betur en þessi nefnd hafi starfað sífellt að sínu verkefni og hygg, að nú líði líka að því, að þessi nefnd skili störfum. Mér er kunnugt um, að svipuð nefnd, sem sett var til þessa verkefnis í Finnlandi. hefur starfað nú á sjöunda ár og er fyrst á árinu 1961 að senda frá sér til ráðuneytisins lokaskýrslu um málið. Ég ásaka í raun og veru enga ríkisstj. um það að hafa ekki farið lagaleiðina í þessu máli, fyrr en þessi nefndarskýrsla lægi fyrir, það taldi ég eðlilegt milliskref, til þess að fá öruggan grundvöll um það, hvaða launamisrétti væri ríkjandi í landinu og á hvaða sviðum. En við þá, sem ásaka mig fyrir, að á þeim vikum, sem liðu, frá því að jafnlaunasamþykktin gekk í gildi á árinu 1958, þar til vinstri stjórnin lét af völdum, skyldi ég ekki hafa komið fram löggjöf um fullkomið launajafnrétti, segi ég það, að þeir hefðu þá átt að gera betur á árinu 1959 og 1960 og því sem er af 1961. En þar hefur um fjallað Emil Jónsson, formaður Alþfl., hæstv. núv. heilbr.- og félmrh. Hann var forustumaður ríkisstj. á árinu 1959 og hafði alla þræði þessa máls þá í hendi sér. Síðan hefur verið við völd, eins og kunnugt er, núv. hæstv. ríkisstj. undir forsæti Sjálfstfl. með þátttöku Alþfl., og hefði þessi áhugi verið þá einnig til þess að leysa málið með löggjafaraðferðum, áður en álit n. lá fyrir, eins og var fundið að hjá mér, þá hefðu þessir herrar átt að gera það líka, og þeir hafa til þess haft nú meira en tvö ár.

Ég held, að þetta hafi verið aðalatriðið í ræðu hv. 8. þm. Reykv., að ásaka mig fyrir að hafa ekki komið löggjöf fram um launajafnrétti kvenna í beinu framhaldi af fullgildingu jafnlaunasamþykktarinnar að því er snertir sömu laun fyrir sömu vinnu. En ég segi það að lokum: Ef ég hef glatað tækifærum með því að koma þessu ekki fram, þá hafa tækifærin verið mörg og stór fyrir ríkisstj. Emils Jónssonar og núv. hæstv. ríkisstj. til þess að gera þessa hluti, og a.m.k. er það víst, að nú á þessum dögum Alþingis, í gær og í dag, blasa möguleikarnir við núv. stjórnarflokkum að koma fram löggjöf um algert launajafnrétti kvenna, ef þeir vilja nota þann möguleika, því að hér hafa borizt í fangið á þeim tillögur um það, sem þeir verða annaðhvort að fella eða samþykkja. Ef þeir eru heilir í þessu máli, geta þeir auðvitað ekkert annað gert en samþykkja þær tillögur. Séu þeir óheilir í því, fella þeir þær. Um það skal ég ekki saka þá, fyrr en þeir hafa það gert.

Það var eitt af lokaatriðum í ræðu hv. 8. þm. Reykv., frú Ragnhildar Helgadóttur, að það gæti verið tvíbent, að konur fengju launajafnrétti á við karlmenn, það gæti verið hættulegt. Hver veit, nema konum yrði þá bægt burt af vinnumarkaðinum? Það gæti sem sagt leitt yfir þær atvinnuleysi. Jú, er þetta ekki ósköp skýr vottur um það, að áhuginn sé brennandi fyrir launajafnrétti hjá þessum hv. kvenþm. okkar? Nei, ég held ekki. Hún tekur aðallega fram, að það geti verið hættur því samfara fyrir konurnar sjálfar, þær skuli því fara varlega í þetta. Það hefur sjálfsagt verið þessi ótti, sem aftraði atvinnurekendum í Vestmannaeyjum fyrir nokkrum vikum frá því að hækka kaup kvenna meira en þeir gerðu, en á það var bent, að það mundi vera líklegt til þess, ef þeir hækkuðu kvennakaupið myndarlega, að þeir ættu þá á vertíðinni, sem í hönd fór, auðveldara með að fá þann vinnukraft, sem þá vantaði til framleiðslustarfanna, þ.e.a.s. til þess að geta tekið á móti þeim afla, sem bærist á land í fiskvinnslustöðvarnar hjá þeim. Þeir hækkuðu kaupið nokkuð hjá konum, en hvergi nærri svo sem þeir hefðu átt að gera, og þeir hafa orðið að játa nú, að þá vanti enn þá til Vestmannaeyja um 1000 konur, helzt þyrftu þeir að fá 1000 konum fleira í þjónustu atvinnulífsins þar. Ég efast ekki um, að þeir hefðu fengið mörg hundruðum fleiri konur til starfa við fiskvinnslustöðvarnar í Vestmannaeyjum, ef þeir hefðu t.d. innleitt launajafnrétti kvenna á við karla, sem hefði verið réttmætt, af því að konur koma að sízt minna gagni við fiskiðnaðinn en karlmenn og eiga þannig auðvitað við þau störf að hafa sama kaup.

Þá hneykslaðist frúin á því, að ég hefði nefnt þetta frv., þetta frv.-örverpi Alþfl.-mannanna, sem við erum hér að ræða, háðung og svívirðingu. Ég sagði orðrétt, að réttlætið í smáskömmtum, eins og um eitur væri að ræða, væri háðung og svívirðing, og það stend ég við, og ég held, að þessi stimpill verði ekki svo auðþveginn af þessu frumvarpi.