27.03.1961
Sameinað þing: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

Almennar stjórnmálaumræður

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það hefur mjög þótt loða við hina svokölluðu vinstri flokka, að þeim og þeirra mönnum væri tamt að teygja lopann við umræður mála, með stóryrðum, sleggjudómum og offorsi í málflutningi. Mörg eru þar dæmin á hinum ýmsu málþingum. Ekki hefur Alþingi það, sem nú situr, farið varhluta af þessum séreinkennum kommúnista og fylgifiska þeirra. Hafa kommúnistar og félagar þeirra, svo sem alþjóð er kunnugt, haldið hér á þingi uppi einu hinu ferlegasta málþófi, sem um getur. Þeir hafa keppt hver við annan og slegið met. Jafnvel hafa þeir keppt við sín eigin met, eins og hv. 4. landsk. þm., Hannibal Valdimarsson, gerði hér aðfaranótt s.l. laugardags, og honum tókst að slá það — hann talaði í 4½ klst. Er nú svo komið, að ekki einungis þeim, sem fyrir fram vegna þekkingar sinnar og reynslu af þessum og þvílíkum vinnubrögðum kommúnista hafa haft á þeim skömm og fyrirlitningu, heldur fjölda þeirra eigin fylgismanna er farið að blöskra svo ósvífnin og lítilsvirðingin fyrir fjármunum almennings, sem þinghaldið verður að greiða.

Engan skal þó undra þessar málþófsaðferðir hv. stjórnarandstæðinga. Þegar betur er að gáð. má öllum verða ljóst og auðsætt, hver tilgangurinn er. Ein sú baráttuaðferð, sem kommúnistar víða um heim nota með góðum árangri fyrir upplausnarstefnu sína, er að skapa stjórnmálaþreytu og þar af leiðandi afskiptaleysi almennings í stjórnmálum. Í þeim efnum hafa þeir m.a. notað málþófstækni sína, samfara vísindalegum sálfræðibrögðum, og hefur þeim oft orðið furðuvel ágengt, svo sem heimskortið ber sannarlega með sér í dag. Það er því í alla staði rétt og skylt, að aðvörun sé borin fram í áheyrn alþjóðar. Vissulega er málfrelsi og prentfrelsi einn af hyrningarsteinum lýðræðisins, og ekki munum við stuðningsmenn núv. ríkisstj. biðjast undan gagnrýni né óttast þá gagnrýni, sem hv. stjórnarandstaða hefur fram að bera, svo burðug sem hún er. Eigi að síður skal þjóðin aðvöruð. Barátta kommúnista, eðli þeirra og innræti er alls staðar hið sama. Aðferðirnar eru aðeins dálítið mismunandi eftir aðstæðum. Þjóð okkar er því nauðsynlegt að halda vöku sinni. Andvaraleysi og áhugaleysi um framvindu þjóðmála, stjórnmálaþreyta, allt er þetta vatn á myllu hins alþjóðlega kommúnisma.

Lengi hafði því verið trúað og verið von margra, að framsóknarmenn og flokkur þeirra gæfust ekki upp fyrir hinni andlegu kúgun að austan, enda þótt þeir lentu utan ríkisstjórnar Raunin hefur nú orðið önnur, og mun það mörgum framsóknarmönnum raunarefni. Víst er um það, að heillum horfnir eru þeir forustumenn Framsóknar hér á Alþingi, ef þeir láta sér ekki segjast við hinar sívaxandi óánægjuraddir flokksmanna þeirra víðs vegar um landið um kommúnistadekur þeirra og þjónustulund.

Það hefur vakið furðu allra landsmanna, á hvern hátt hv. stjórnarandstæðingar hafa hagað málflutningi sínum hér á Alþingi eftir fall vinstri stjórnarinnar, og þeir sýnast ætla að halda því áfram hér í kvöld. Vissulega var það ævintýri mikil vonbrigði fyrir alla vinstriflokkana, en það sem verra var, það var dýrkeypt fyrir þjóðina og þjóðarbúið. Þegar núv. ríkisstj. var setzt að völdum og tekin að leysa þau miklu vandræði, sem steðjuðu að eftir setu vinstri stjórnarinnar, virtist eins og hv. stjórnarandstæðingar ætluðu algerlega að ærast. Stóryrðin voru ekki spöruð. Menn, sem skildu við völdin samkvæmt þeirra eigin orðum þannig, að óðaverðbólga væri fram undan og engin samstaða um úrræði innan vinstri stjórnarinnar, kalla nú raunhæfar aðgerðir í efnahags- og peningamálunum ósvífnustu árás á lífskjör almennings. Mennirnir, sem á 2½ árs valdatímabili lögðu yfir 1100 milljóna nýjar álögur á almenning, auk stóreignaskatts, er nam 130 milljónum, eða 2200 kr. hverja mínútu, sem vinstri stjórnin sat að völdum, kalla nú stórlækkun tekjuskatts og algera niðurfellingu tekjuskatts á almennum launatekjum ægilegustu lífskjaraskerðingu, sem átt hefur sér stað. Ég nefni hér örfá dæmi, en ótalmargt fleira væri hægt að tína til, ef tíminn leyfði, til þess að sýna fram á, hversu gersamlega hv. stjórnarandstæðingar hafa misst fótanna.

Óskammfeilni stjórnarandstæðinga náði þó hámarki sínu, þegar hæstv. ríkisstjórn tókst að fá lausn á þeirri mjög svo viðkvæmu deilu, sem við höfðum átt í við Breta vegna útfærslu á landhelginni. Það var öllum ljóst, sem til þekktu, að vinnubrögð þau, sem við voru höfð af hálfu fyrrv. sjútvmrh., Lúðvíks Jósefssonar, við útfærslu landhelginnar 1958, voru nákvæmlega eftir þeim kokkabókum, sem kommúnistar starfa, að reka á einhvern hátt fleyg í samstarf vestrænna þjóða. Þegar þeir ráðh. Alþýðubandalagsins í vinstri stjórninni sáu, að seta þeirra í ríkisstj. dugði ekki til þess að reka varnarlið NATO úr landi, þá var sjálfsagt að nota það mál, sem lífshagsmunir íslenzku þjóðarinnar eru hvað mest við tengdir; landhelgismálið, til þess að koma af stað deilum meðal vestrænna þjóða. Landhelgismálið hafði áður verið undir forustu manna, sem kunnu skil á þeim starfsaðferðum, sem nota þurfti, þeirra hæstv. núv. forsrh. og hæstv. núv. dómsmrh., enda hafði þeim mönnum tekizt að ryðja úr vegi þeim tálmunum, sem þessu mikla hagsmunamáli gátu orðið til skaða. Þegar svo málið á ný er komið í hendur þessara sömu manna, sem bezt þekkja og reynsluna hafa og setja hagsmuni íslenzku þjóðarinnar öllu ofar, og þeim hefur tekizt að leysa vandann þannig, að hagsmunum okkar er nú betur borgið en áður, með stækkun landhelginnar og að í framtíðinni verði ekki beitt vopnavaldi gegn okkur, þá tryllast þessir menn algerlega og lýsa því yfir, eins og hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, að hann hefði helzt kosið að semja við Breta um áframhaldandi valdbeitingu.

Þær fjarstæður, sem heyrðust hér í sölum Alþingis, er landhelgismálið var til umræðu, voru slíkar, að furðu gegnir. Afstaða kommúnista var og er skiljanleg, en afstaða Framsfl. óskiljanleg, nema ef vera skyldi, að framsóknarmenn væru orðnir umboðsmenn kommúnista. Fullyrðingar eins og þær, að alþjóðadómstóllinn sé algerlega máttlaus stofnun og ekkert skjól fyrir smáþjóðirnar, eins og hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, og hv. 7. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, lýstu yfir, eru furðulegar. Það var annað hljóð í framsóknarmönnum, þegar byrjunaraðgerðir í landhelgismálunum voru hafnar. Þá sagði Tíminn í leiðara 20. des. 1951, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar um þessi mál, landhelgismálin, var rætt síðastliðið haust, var m.a. minnzt á það í þessu blaði, Tímanum, hve mikilvægt það væri fyrir smáþjóð, að til væri alþjóðadómstóll, þar sem smáþjóðirnar gætu leitað réttar síns. Annars væru þær ofurseldar yfirdrottnun stórvelda.“

Síðan segir: .

„Á þetta var bent vegna þess tilefnis, að málgagn kommúnista hafði farið svívirðilegum orðum um dómstólinn í Haag og haldið því fram, að smáþjóðir ættu að einskisvirða hann.“

Svo segir enn fremur í Tímanum, og bið ég hlustendur að taka vel eftir:

„Úrskurður hans“ — þ.e.a.s. alþjóðadómstólsins — „í landhelgisdeilu Norðmanna og Breta hefur sýnt, hver ávinningur það er fyrir smáþjóð, að slíkur dómstóll er til.“

Þetta var sannarlega rétt 1951, og þetta er eins rétt í dag, 1961. En nú hefur bara forusta Framsóknar, með ritstjóra Tímans í fararbroddi, snúið dæminu við. Í dag er alþjóðadómstóllinn að áliti forustumanna Framsóknar, — ég undirstrika: aðeins forustu Framsóknar, en ekki hins almenna flokksmanns, — óalandi og óferjandi. Það er málflutningur að tarna!

Ég hef nú reynt í stórum dráttum að draga upp mynd af hv. stjórnarandstöðu hér á Alþingi, og myndin er ófögur. Ég hef dregið þessa mynd, til þess að mönnum geti verið fullkomlega ljós þau vinnubrögð, sem hér eru viðhöfð, og sá tilgangur, sem hér liggur að baki.

Síðan núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, er aðeins liðið eitt ár og fjórir mánuðir. Á þessum stutta tíma hefur ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar tekizt að leysa ótrúlega erfið vandamál, sem við blöstu eftir valdatíma vinstri stjórnarinnar. Stöðvun verðbólgunnar var að sjálfsögðu fyrsta verkefnið. Lögfest var hér á Alþingi fyrir rúmu ári umfangsmikil efnahagslöggjöf, sem fól í sér algera kerfisbreytingu frá því, sem áður hafði verið um langan tíma. Samhliða samþykkti Alþingi hliðarráðstafanir, m.a. til þess að láta þær byrðar, sem borgararnir urðu óumflýjanlega að bera, koma sem léttast niður á þeim, sem sízt voru aflögufærir, eins og barnafjölskyldum, öldnum og sjúkum, m.a. með lagfæringu tekjuskatts og auknum almannatryggingum. Auk þess var nú um síðustu áramót skerðingarákvæðið fellt niður. Þá voru fjárlög fyrir bæði árið 1960 og 1961 afgreidd hallalaus. Fjölmargar breytingar á stjórn einstakra þátta hins opinbera hafa verið gerðar til þess að tryggja einfaldari og auðveldari starfs- og stjórnarháttu en áður var. Þá vil ég mega benda á, að ríkisstj. hefur í undirbúningi mjög mikilvæga framkvæmdaáætlun. Lögfest hefur verið á þessu þingi ný skipan jarðborana og jarðhitaleitar, stofnaður jarðhitasjóður. Þá hefur ríkisstj, eftir þál. frá 1958 látið hefjast handa um að steypa fjölförnustu vegi landsins. Hefur undirbúningsvinna verið hafin til þess að steinsteypa veginn Suður með sjó. Hér er ekki aðeins um mikið hagsmunamál byggðarlaganna suður á Reykjanesskaga að ræða, heldur þjóðarinnar allrar, enda eru þar staðsettar margar beztu verstöðvar landsins, og minna má á, að Keflavíkurhöfn er ein stærsta útflutningshöfn sjávarafurða í landinu. Með bráðabirgðalögum frá í janúar var sjávarútveginum gert kleift að breyta stuttum lánum í löng, og var það höfuðnauðsyn fyrir sjávarútveginn. Á sama hátt hefur því verið lýst yfir, að ríkisstj. mun beita sér fyrir því, að hluta víxilskulda bænda verði breytt í föst lán. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru.

En hvernig hafa svo öll þessi úrræði reynzt, sem ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa beitt sér fyrir, sér í lagi í efnahagsmálum? Jú, þróun efnahags- og fjármálanna hefur verið hagstæð árið 1960. Ef innflutningur skipa og flugvéla er dreginn frá vöruskiptajöfnuðinum, þá er vöruskiptajöfnuðurinn 1960 aðeins óhagstæður um 218 millj., miðað við 632 milljónir 1959. Aukning sparifjár, frá því að efnahagslögin gengu í gildi og vextir hækkuðu til síðustu áramóta, var 132 millj. kr. meiri en á sama tíma árið áður. Allt þetta sýnir, að við erum á réttri braut til þess að skapa jafnvægi í þjóðarbúskapnum og ef þessu heldur áfram og almenningur tekur þessu með sama skilningi og hingað til, komumst við yfir þann örðuga hjalla, sem við blasti, þegar ríkisstj. tók við völdum. Ef þjóðin hlustar ekki á það málæði og þá rangtúlkun stjórnarandstöðunnar, sem ég gerði að umtalsefni í upphafi máls míns, heldur lítur á þessi mál frá sjónarhól íslenzks málstaðar, efast ég ekkert um hennar skilning.

Góðir hlustendur. Ég vil ljúka máli mínu hér í kvöld með því að viðhafa orð hæstv. forsrh. í lok ræðu, sem hann flutti á landsfundi Sjálfstfl. í marzmánuði 1959, en hann sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

,.Það, sem heill þjóðarinnar nú veltur á öðru fremur, er, að hún beri gæfu til að tryggja sjálfri sér forustu athafnamikillar, víðsýnnar, frjálslyndrar, þróttmikillar og framfarasinnaðrar ríkisstjórnar, sem veit, hvað hún vill, og þorir að fylgja því.“

Þá ríkisstjórn hefur þjóðin fengið undir hans forsæti, og þá ríkisstjórn styður fólkið í landinu til framfara og hagsældar. — Góða nótt.