16.11.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Það er nú orðinn siður hjá hæstv. ríkisstjórn, og virðist þar taka það hver eftir öðrum, að þegar þeir lenda í deilum, þá stimpla þeir með miklum hávaða, að það, sem andstæðingur segir, sé rökþrot og vitleysa og þess háttar. Það er hæstv. dómsmrh., sem hefur tekið upp á því að taka sér dómsvald í því, hver hafi rök að mæla, og hæstv. landbrh. lét ekki á sér standa í gær að nota sömu aðferðina og viðskmrh. einnig.

Ég skal ekki fara langt inn á umræður um þetta mál, sem við erum að þræta um, hæstv. forsrh. og ég, enda gefur ræða hæstv. forsrh. ekki tilefni til þess, því að hún er ekkert annað en endurtekning, að ég ekki segi upptugga á þeim rökum, sem stjórnarsinnar hafa talið sig færa fram í þessu máli og ég tel að hafi verið marghrakið. Það dettur engum manni með heilbrigða skynsemi og heilbrigða tilfinningu sem Íslendingur í hug að bera það saman að útvega með fyrirspurn viðurkenningu allra NATO-þjóða fyrir því, að við hefðum rétt til að færa út einhliða, ef við tækjum lítils háttar tillit til þess í því, hvernig það væri gert, eða að semja við einu ofbeldisþjóðina, þá þjóð eina, sem hefur sýnt okkur ofbeldi og hótað okkur að bana þeim löggæzlumönnum, sem við höfum hér í kringum landið. Þetta ber enginn saman.

En það var sérstaklega annað atriði, sem hæstv. ráðh. minntist á. Hann þóttist muna það, að ég hefði talað við sig um símskeyti 18. maí, sem sent var úr utanrrn. og ég kannast við að hafa staðið að með utanrrh. Ég minnist nú ekki þess, að þetta samtal hafi átt sér stað, og ég tek því með varúð, þó að þessi hæstv. ráðh. bjóðist til þess að gerast kennari í sannleiksást. Ég tek með varúð þessari fullyrðingu. En það eru skjallegar sannanir fyrir því, að hæstv. ráðh. og formanni Sjálfstfl. þótti of skammt gengið í skeytinu 18. maí, og þær sannanir er að finna í Morgunblaðinu, á forsíðu þess 8. ágúst 1958, þar sem er sagt frá samtali mínu við hæstv. núverandi forsrh. uppi í stjórnarráði 21. maí, en þar er sérstaklega fundið að því í þeirri fréttatilkynningu, að ég hafi lýst því yfir, að ég vildi ekki standa í neinu viðræðuþófi við NATO-ríkin framar, og talið sérstaklega aðfinnsluvert. Það er vitað mál, að svo sem Alþýðubandalaginu þótti of langt gengið af Framsókn með þessu símskeyti og birti þann dóm sinn í Þjóðviljanum samstundis, eins þótti Sjálfstfl. og Alþfl. of skammt gengið með sendingu skeytisins, með fyrirspurninni, því að þeir vildu samningaþóf, sem hefði leitt til þess að stranda málinu. Alþb. vildi hins vegar engin viðtöl eiga við NATO. Þess vegna fór Framsfl. sem málamiðlari með málið þannig, að það var hægt að sigla skipinu í höfn, eins og reyndin sýnir, og fer ég ekki nánar inn á það í þessari ræðu minni, enda gefst tilefni til þess að ræða það síðar.