27.10.1960
Neðri deild: 11. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (1742)

52. mál, lækkun byggingarkostnaðar

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. á þskj. 54, flyt ég ásamt hv. 4. þm. Reykn. (JSk). Efni frv. er það, að lagt er til, að ríkissjóður greiði árlega nokkurt fé til byggingarefnarannsókna iðnaðardeildar atvinnudeildar háskólans, er nota skal í því skyni að leitast við að finna leiðir til lækkunar á byggingarkostnaði.

Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur að undanförnu starfað hér erlendur sérfræðingur á vegum byggingarefnarannsókna iðnaðardeildar atvinnudeildar háskólans. Hefur hann ásamt ýmsum innlendum sérfræðingum unnið að því að leggja grundvöll að rannsóknum til lækkunar á byggingarkostnaði, og hafa niðurstöður athugananna fram til þessa verið birtar á prenti í ritinu „Lækkun húsnæðiskostnaðar“, sem útbýtt hefur verið hér í hv. Nd.

Í riti þessu er að finna margar athyglisverðar staðreyndir, sem mönnum hafa að vísu ekki verið alveg ókunnar áður, en fást hér, að ég hygg, óumdeilanlega staðfestar í fyrsta sinn, og sýna, að við Íslendingar erum í byggingarlegu tilliti allmiklu verr á vegi staddir en ýmsar af nágrannaþjóðum okkar, sem meiri rækt hafa lagt við þessa hlið mála en við t.d. segir í riti þessu, að við Íslendingar verjum u.þ.b. 12% af þjóðarframleiðslu okkar til íbúðabygginga, og er það rúmlega helmingi meira en flestar aðrar þjóðir gera. Þrátt fyrir þetta fáum við færri íbúðir fyrir hverja þúsund íbúa heldur en t.d. Vestur-Þjóðverjar, sem verja þó nálega helmingi minni hluta af þjóðarframleiðslu sinni í þessu skyni. Enn fremur sýnir ritið, að íbúðir eru hér miklu dýrari en gerist hjá nágrannaþjóðum okkar, og mun meðalíbúð hér á landi kosta fimmföld meðalárslaun, en annars staðar á Norðurlöndum þarf aðeins þreföld meðalárslaun til að eignast íbúð.

Ýmsar fleiri athyglisverðar staðreyndir hefur fyrrgreint rit að geyma, en ekki skal það frekar rakið hér. Vísast hér um til grg. og fyrrgreinds rits.

M.a. með hliðsjón af framansögðu teljum við flm. þessa frv., að ekki megi dragast lengur að gera ákveðnar ráðstafanir til lækkunar á byggingarkostnaði. Að vísu skal það viðurkennt, að verulegur hluti hins háa byggingarkostnaðar hér á landi stafar af háum vaxtakostnaði, óhagstæðum lánum, skorti á fjármagni, háum opinberum gjöldum og ýmislegu þess háttar. En þó verður ekki komizt hjá að álíta, að mjög megi bæta ástand þessara mála með bættu skipulagi íbúða og bættum verkfræðilegum atriðum og kynningar- og fræðslustarfsemi, því að staðreynd mun vera, að nýting íbúða er hér stórum lakari en annars staðar gerist. Er því nauðsynlegt að notfæra sér betri tækni í miklu ríkara mæli en nú er gert og auka verkfræðilegan undirbúning og koma á þann hátt fram lagfæringum. Til þess að svo megi verða, er óhjákvæmilegt, að til sé í landinu einhver sá aðili, sem húsbyggjendur geta leitað til um aðstoð og úrskurð ýmissa tæknilegra vandamála, sem að höndum ber.

Meðan slík stofnun er ekki til, er hætt við, að hér verði um kyrrstöðu í byggingariðnaði að ræða og að ýmsar nýjungar verði ekki teknar upp hér, sem til úrbóta gætu leitt, því að þess er tæpast að vænta, að einstakir húsbyggjendur séu fúsir til að kosta tilraunir með nýjar byggingaraðferðir í húsum sínum, ef hvergi er hægt að fá nokkra ábyrga umsögn um það, hvaða líkur séu til, að þær reynist til bóta. Svo hefur líka reyndin orðið hér, að allt of mikillar deyfðar hefur gætt að þessu leyti.

Ekki þarf að efa, að verkefnin eru næg, því að hartnær óteljandi eru þau tæknilegu og verkfræðilegu atriði, sem upp geta komið við byggingu, þótt ekki sé nema eins einasta íbúðarhúss. Má þar t.d. nefna hagkvæma uppdrætti, úrskurði um notagildi ýmislegra einangrunarefna, blöndun steinsteypu og rannsókn á nothæfni sands og malar í því sambandi, járnbindingu á steinsteypu og styrkleika, m.a. með hliðsjón af jarðskjálftahættu, svo að fátt eitt sé talið.

Um nauðsyn þess, að til sé slík stofnun, verður tæpast deilt, enda hefur hið háa Alþingi þegar sýnt skilning sinn á því, m.a. með samþykkt laga um húsnæðismálastofnun o.fl., en í 2. gr. þeirra laga er ákveðið, að húsnæðismálastofnun ríkisins skuli vinna að umbótum í byggingarmálum og lækkun á byggingarkostnaði, og eru talin upp margvísleg atriði, sem til greina geti komið í því sambandi, svo sem að gangast fyrir tæknirannsóknum og kynningu á nýjungum í byggingariðnaði. Ekki hefur þó verið talin ástæða til þess fyrir þá stofnun að byggja sérstakar rannsóknarstofur í þessu skyni, enda má segja, að kjarni að slíkri starfsemi sé til í landinu, þar sem eru byggingarefnarannsóknir iðnaðardeildar atvinnudeildar háskólans, sem þegar hafa byrjað nokkurn undirbúning í framangreinda átt, eins og útgáfa fyrrgreinds bæklings um lækkun húsnæðiskostnaðar raunar ber ljósastan vottinn.

Húsnæðismálastofnun ríkisins hefur líka réttilega komizt að þeirri niðurstöðu, að óskynsamlegt og óhagkvæmt sé að dreifa kröftunum, sem að þessu starfa, og hefur hún sýnt þann skilning í verki með því að ákveða að veita 200 þús. kr. á ári til rannsókna hjá atvinnudeildinni. Ber vissulega að þakka þennan stuðning. En því miður er þetta fjármagn afar langt frá því að duga til þess að vinna málinu nokkurt verulegt gagn, og er alveg óhjákvæmilegt að bæta þar duglega við, ef nokkur von á að verða um árangur.

Þegar þess er gætt, hversu gífurlegu fjármagni er varið árlega til húsbygginga hér á landi og hversu möguleikarnir eru stórkostlegir til þess að spara þjóðarbúinu verulegar fjárhæðir á þessu sviði, er augljóst, að þjóðin hefur hreinlega ekki efni á að skera fjárveitingu til þessara rannsókna svo við nögl, að nánast sé útilokað, að nokkur árangur náist. Þegar enn fremur er hugleitt, að hver sérfræðingur, sem að slíkum málum starfar, mun kosta með öllu og öllu: launum, húsnæði og aðstoð — um 300 þús. kr. á ári, sést bezt, hversu sorglega skammt þessar 200 þús. kr. hrökkva.

Flutningsmönnum þessa frv. er líka fullljóst, að jafnvel okkar till., sem þó gerir ráð fyrir allmikilli viðbót, verður ekki heldur alls staðar skoðuð sérstaklega rausnarleg og að ýmsir eru þeir aðilar í landinu, sem telja, að ekki veitti af því, að upphæðin væri a.m.k. helmingi hærri, og hafa þeir óneitanlega mikið til síns máls. Við höfum þó að athuguðu máli komizt að þeirri niðurstöðu, að með þeim fjárhæðum, sem þegar eru fyrir hendi, og að þessu viðbættu væri hægt að koma á fót allmyndarlegum vísi að rannsóknarstofnun í þágu byggingariðnaðarins, og vonum, að mjór geti orðið mikils vísir, þegar fram í sækir og starfsemin hefur sannað nytsemi sína áþreifanlega.

Ég vona og tel raunar alveg víst, að frv. þetta fái góðar móttökur hér á hv. Alþingi, a.m.k. ætti að vera óhætt að gera ráð fyrir velvilja til þeirra rannsóknarstarfa, sem hér er ætlunin að styrkja og efla. Nægir þar raunar að vísa til áðurgreindra ákvæða laga um húsnæðismálastofnun o.fl., er ég vék að áðan, en því til viðbótar mætti vísa til ritstjórnargreinar eins af stjórnarblöðunum frá 20. sept. s.l., en þar segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Byggingarsérfræðingur á vegum tæknihjálpar Sameinuðu þjóðanna hefur dvalizt hér að undanförnu, og hefur hann þegar bent á margt, sem betur mætti fara í byggingarmálum. Allmiklu fjármagni verður að veita til rannsókna á nýjum byggingaraðferðum, enda ætti það að geta skilað sér margfalt aftur til þjóðarbúsins.“

Undir þessi orð viljum við taka með flutningi þessa frv., í fullu trausti um stuðning allra þeirra, sem áður hafa lýst sig málinu svo fýsandi, sem nefnd lagasetning og hin tilvitnuðu ummæli bera vott um. Sé því gengið út frá öruggum velvilja til efnishliðar málsins, eins og gildar ástæður virðast til, er aðeins eftir að velja leiðina til fjáröflunar, en það skal fúslega viðurkennt, að fleira gæti þar til greina komið en aðferð sú, sem hér er bent á.

Víða erlendis tíðkast sú fjáröflunarleið í þessu skyni að leggja gjald á innflutning byggingarvara. Þessi leið getur ekki talizt æskileg hér á landi, þar sem byggingarvörur eru nú þegar skattlagðar mjög hátt, og mundi þetta álag færast að öllu leyti á byggjandann. Það er skoðun okkar hv. 4. þm. Reykn., að erfiðleikar þeirra, sem brotizt hafa í því að koma sér upp þaki yfir höfuðið, séu nú á síðustu tímum alveg nægilega miklir, þótt þeir séu ekki auknir með nýjum álögum, hversu smávægilegar sem þær kunna að vera, til viðbótar við allar þær stórkostlegu hækkanir, sem þeim hafa verið á herðar lagðar nú að undanförnu bæði í einu og öðru formi. Þess vegna kemur þessi leið alls ekki til greina að okkar dómi.

Fleiri leiðir mætti hugsa sér í þessu skyni, en við nánari athugun kemur þó í ljós sameiginlegur ágalli þeirra flestra, að þær leiða til aukinna útgjalda þeirra, sem í byggingarframkvæmdunum standa. Því höfum við valið þá leið að leggja þá skyldu á ríkissjóð að greiða til byggingarrannsókna upphæð, er jafngildi 1% af þeim fjárhæðum, sem byggingarsjóður lánar til íbúðabygginga á vegum húsnæðismálastofnunar ríkisins eða á annan hátt. Það verður þá einnig að telja, að með því fyrirkomulagi sé hvors tveggja gætt, annars vegar að leggja byrðarnar á þann aðilann, sem breiðast hefur bakið til að bera þær, og hins vegar, að sá aðilinn greiði kostnaðinn, sem í raun og veru hefur hér mestra hagsmuna að gæta, því að augljós þjóðarnauðsyn hlýtur það að vera að lækka byggingarkostnaðinn landinu. Með því er unnt að lækka þann hluta þjóðarteknanna, sem að undanförnu hefur þurft að verja til húsbygginga, en flestir eru nú sammála um, að sá hluti sé óeðlilega hár og þurfi nauðsynlega að lækka.

Þess vil ég geta í þessu sambandi, að enda þótt hér hafi aðallega verið rætt um íbúðarhúsabyggingar og fjáröflunin sé miðuð við lánafjárhæðir til þeirra, er vitanlega alveg ótvírætt, að allar tegundir bygginga koma til með að njóta góðs af þeim rannsóknum, sem hér er um að ræða, og er það auðvitað til þess fallið að auka þýðingu þeirra enn að miklum mun og gera framkvæmd málsins enn nauðsynlegri. Um það, hve mikið fé það muni vera, sem samkv. fjáröflunarleið þessari komi til ráðstöfunar, er vitanlega erfitt að spá. Það fer eftir því, hve miklu verður ráðstafað til lána til íbúðabygginga, hve rausnarlega verður að þessum miklu hagsmunamálum almennings í landinu búið. Ætla verður, að þær fjárútveganir verði látnar miðast við það, hve mikið er af húsum og íbúðum í smíðum, og þannig ætti að fást trygging fyrir því, að rannsóknir í þágu bygginga verði þá mestar, þegar þeirra er mest þörf, þ.e. þegar flestar íbúðir eru í byggingu, og sýnist það vera rétt þróun. Síðan lög um byggingarsjóð kaupstaða og kauptúna frá 1957 voru sett, hafa lán verið veitt úr sjóðnum sem hér segir, þ.e. lán greidd af veðdeild Landsbankans: Árið 1957 45 millj. 670 þús., árið 1958 48 millj. 769 þús., árið 1959 34 millj. 490 þús., árið 1960, þ.e. það sem af er þessu ári, um 43 millj. kr.

Af þessu sést, hvert fjármagn hefði fallið til byggingarrannsóknanna, miðað við, að regla þessa frv. hefði gilt. Það hefði þá orðið 1957 456 þús., 1958 487 þús., 1959 345 þús., 1960 430 þús. Ef þessar fjárhæðir hefðu á undanförnum árum verið notaðar til rannsókna, mundi ýmislegt óefað vera með öðrum hætti í byggingarmálum okkar en nú er.

Ekki kemur annað til mála en óhjákvæmilegt verði að veita nú alveg á næstunni miklu meira fé en gert hefur verið að undanförnu til byggingarlána. Veldur því ástand það, sem nú ríkir í þessum málum og að miklu leyti stafar af gífurlegri hækkun byggingarkostnaðar að undanförnu og öðrum auknum útgjöldum, sem á húsbyggjendur hafa lagzt. Við flm. frv. þessa álitum, að þessum örlitla hluta af framlagi og fjárútvegun ríkisins verði ekki betur varið með öðru móti en að leggja kapp á rannsóknarstörfin. Þau munu áreiðanlega launa margfaldlega það fé, sem þeim verður trúað fyrir.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.