02.02.1961
Neðri deild: 54. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (1765)

45. mál, lántaka til hafnarframkvæmda

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og þegar er fram komið og fyrir liggur í þingskjölum, hafa sjávarútvegsnefndarmenn ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Minni hl. n., en í honum erum við hv. 4. þm. Austf., leggur til, að frv. verði samþ., og er álit minni hl. birt á þskj. 306. En meiri hl. vill vísa frv. frá með rökst. dagskrá, sem birt er með nál. þess nefndarhluta á þskj. 301. Hv. frsm. meiri hl. hefur þegar gert grein fyrir því nál.

Í frv. um lántökuheimild og ráðstöfun lánsfjár til hafnarframkvæmda, eins og það liggur fyrir á þskj. 45, eru tvö meginatriði. Samkv. 1. gr. frv. er ríkisstj. heimilað að endurlána 30 millj. kr. til hafnarframkvæmda af 6 millj. dollara láni, sem tekið var erlendis samkv. fjárlagaheimild 1959, til viðbótar því, sem áður hefur verið endurlánað til slíkra framkvæmda. En í 2. gr. frv. er ríkisstj. heimilað að taka lán erlendis, allt að 2 millj. dollara eða jafngildi þeirra í annarri erlendri mynt, og endurlána einnig þetta fé til hafnarframkvæmda.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 45, var, eins og þingskjalsnúmerið ber með sér, flutt mjög snemma á þessu þingi, en hefur ekki hlotið afgreiðslu í nefnd fyrr en nú nýlega. Þegar þetta frv. var flutt, var það ekki kunnugt, að ríkisstj. hefði ráðstafað neinu fé af umræddu 6 milljón dollara láni umfram það, sem Alþingi ákvað ráðstöfun á 1959. Þá var ekki annað kunnugt en að þarna væri óráðstafað í kringum 100 millj. kr., og flm. lögðu til, að af þessum 100 millj, kr. yrðu 30 millj. endurlánaðar til hafnarframkvæmda. Alþ. hafði ekki gert neina ályktun um ráðstöfun á þessum eftirstöðvum lánsins og hæstv. ríkisstj, ekki óskað eftir neinni heimild til ráðstöfunar. Nú hefur það hins vegar gerzt alveg nýlega hér á Alþingi, að hæstv. ríkisstj. hefur lýst yfir því, að hún hafi ráðstafað þessu fé, og þess vegna er það, að minni hl. sjútvn. hefur lagt til, að þeirra 30 millj., sem gert var ráð fyrir í 1. gr. að lána til hafnarframkvæmda af þessu fé, verði aflað á annan hátt. Samkv. till. minni hl. er gert ráð fyrir, að þessar 30 millj. verði teknar af því fé, sem mun verða fyrir hendi eða vera fyrir hendi af óafturkræfu framlagi, sem samið hefur verið um til Íslands, og af vörukaupaláni, sem mun fást erlendis, hefur að sumu leyti verið tekið á árinu sem leið og fæst að sumu leyti væntanlega á þessu ári. Við í minni hl. höfum auðvitað gert okkur það fyllilega ljóst, að nú er ekki lengur hægt að ákveða ráðstöfun á því fé, sem ríkisstj. hefur þegar ráðstafað, þó að það væri hægt um það leyti, sem frv. var borið fram. Við leggjum þess vegna til, að þessar 30 millj. komi til útlána á þann hátt, sem ég hef nú gert grein fyrir. Að þessu lýtur fyrri brtt., sem við í minni hl. berum fram á þskj. 306.

Ég veit ekki, hvort það tekur því að ræða það, sem fram kemur í áliti meiri hl. á þskj. 301 og beint er að framsóknarmönnum í sambandi við þetta mál, að þeir hafi verið með yfirboð hér á Alþingi 1959 í sambandi við þetta mál. Ég held, að þessi ummæli stafi af því, að allir þeir hv. þm., sem eru í meiri hl. n., eru nýlega komnir á þing, hafa ekki átt sæti á Alþingi fyrr en nú alveg nýlega og áttu ekki sæti á þingi, þegar fjallað var um heimildina til 6 millj. kr. lántöku vorið 1959. Það mál bar þannig að, að jafnframt því sem heimildin var samþykkt, voru uppi tillögur um að ráðstafa þessu fé, jafnvirði 8 millj. dollara, sem samkvæmt gengisskráningunni þáverandi var um 100 millj. kr. tæpar, eða um 98 millj. kr., n með yfirfærslubótum, sem þá voru í gildi, var þetta fé, sem inn átti að koma af þessari lántöku, kringum 150 millj. kr. Af hálfu Framsfl. var þá lagt til, að Alþ. ráðstafaði öllu þessu fé, sem inn kæmi, þ.e. 150 millj., en af einhverjum ástæðum, sem ég ekki þekki, vildu hæstv. þáv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar á Alþingi ekki ráðstafa nema 98 millj. Hér var því aðeins um það að ræða, að við vildum ráðstafa öllu fénu, sem ríkisstj. var heimilað að taka að láni, og af því leiddi m.a., að við lögðum til, að til hafnarframkvæmda yrðu lánaðar 50 millj. kr., en ekki 28, eins og samþykkt var í þinginu. Og við höfum haldið áfram að leggja þetta til. Þetta var lagt til á sumarþinginu 1959, að þeim 22 millj., sem á vantaði till. okkar um hafnirnar, yrði þá ráðstafað á þennan veg, og einnig í frv. því, sem flutt var í fyrra um þetta mái. Sömuleiðis var svo till. í raun og veru endurtekin í því frv., sem hér liggur fyrir, þó þannig, að upphæðin var hækkuð nokkuð, með því að búið var að breyta gengisskráningunni og því um hærri afgangsupphæð að ræða í íslenzkum krónum. Að öðru leyti skal ég vísa til nál. um þetta atriði.

Minni hl. n, telur enga ástæðu til þess að fresta samþykkt þessa frv., eins og gert mundi verða með þeirri rökstuddu dagskrá, sem hér liggur fyrir, ef hún yrði samþ.

Þess er getið í áliti meiri hl., að mér skilst, að hæstv. ríkisstj. hafi nú þegar ráðstafað 15 millj. kr. sem láni til hafnargerða. Þetta eru vissulega góðar fréttir, það sem það nær, en um þetta hefur þingmönnum verið ókunnugt, að ég ætla, þangað til þessar upplýsingar birtust í áliti hv. meiri hl. Ég minnist þess ekki, að hæstv. ríkisstj. hafi gefið neinar upplýsingar um það hér á Alþingi, að þessum 15 millj. kr. hafi verið ráðstafað til hafnargerða, og því var ekki þess að vænta, að minni hl. væri það kunnugt. Ég minnist þess ekki heldur, að upplýsingar um þessar 15 millj. hafi komið fram í sjútvn., þannig að þetta hlýtur að hafa gerzt nú alveg nýlega, og það liggja ekki heldur upplýsingar fyrir um það, hvaðan þessar 15 millj. séu, hvernig þær séu til komnar eða fengnar. En ég dreg það ekki í efa, að það sé rétt, sem í nál. meiri hl. stendur, að þessar 15 millj. muni fást til hafnargerðalána. En hins vegar stendur að vísu ekkert um það í álitinu, hvenær þessi lán muni fást, hvort þau muni fást á þessu ári að einhverju eða öllu leyti. En jafnvel þó að þessar 15 millj. fengjust að láni til hafnargerða á þessu ári, þá er þar um lítið fé að ræða miðað við þá miklu þörf, sem hér er fyrir hendi.

Það var sumarið 1959, sem úthlutað var 28 milljónunum af fyrrnefndu láni til hafnargerða. Eitthvað af þessu fé var notað á árinu 1959, en nokkuð mikið af því mun hafa geymzt til ársins 1960, og á því hafa hafnargerðirnar margar byggzt á s.l. ári. Nú mun þetta fé vera þrotið að mestu eða sennilega algerlega þrotið nema upphæðin, sem geymd er vegna dráttarbrautarinnar á Akureyri, sem ekki hefur verið byrjað á enn þá. Þess vegna verður ekki séð í raun og veru, hvernig farið verður að því að koma hafnarframkvæmdum áfram næsta sumar, jafnvel þó að þessar 15 millj. kunni nú að verða fyrir hendi, sem um er rætt í áliti meiri hlutans. Það er alkunna, að kostnaður við hafnargerðir hefur hækkað stórlega, eins og annar framkvæmdakostnaður í landinu.

Við minnihlutamenn í sjútvn. fáum ekki séð, að það sé nein sérstök ástæða til þess að fresta því að gera ráðstafanir til þess að útvega hafnarsjóðum lánsmöguleika, þó að nú sé verið að vinna að tíu ára áætlun um hafnargerðir eða endurskoðun hafnarlaga. Það verður eiginlega ekki séð, að það sé beint samband þarna á milli. Það er áreiðanlegt, þó að ég geti ekkert um það fullyrt af neinni nákvæmni, að þegar tíu ára áætlunin liggur fyrir, hvenær sem það verður, þá mun þar verða um miklu hærri áætlunarupphæð í heild að ræða en hér er fjallað um í þessu frv., þannig að sú upphæð, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., kemur sjálfsagt ekki til með að geta talizt nema brot af þeirri upphæð, sem tíu ára hafnaráætlunin mun fela í sér, og þess vegna getur ekkert verið á móti því, þó að gerðar séu ráðstafanir til þess að útvega þessa upphæð. Jafnframt er það svo, að þó að ekki sé búið að gera tíu ára áætlunina um allar hafnargerðir á landinu, þá er það alkunna, að fyrir liggja frá vitamálaskrifstofunni áætlanir um fjölda framkvæmda í höfnum, sem liggja fyrir á þann hátt, að eftir þeim er hægt að vinna og verður að sjálfsögðu unnið, ef fjármagn er fyrir hendi, þannig að skortur á áætlanagerð er á engan hátt því til fyrirstöðu, að hægt sé að gera ráðstafanir til þess að útvega hafnarsjóðum lánsfé, enda mun það sýna sig á þessu sumri, að ef fé verður fyrir hendi, þá mun ekki verða beðið eftir tíu ára áætluninni með að framkvæma þau mannvirki, sem menn geta útvegað fé til.

Sama er að segja um það, þó að eftir að lokið er endurskoðun hafnarlaga kunni að vera breytt greiðsluhlutföllum á milli ríkissjóðs og hafnarsjóða, þá mun ekki heldur verða beðið með framkvæmdir á næsta sumri eftir því, að það hlutfall verði ákveðið.

Þetta frv. er flutt vegna þess, að flm. telja, að brýn þörf sé á því að útvega þetta fé, og af sömu ástæðu mælir minni hl. sjútvn. með samþykkt þess með þeirri breytingu, sem ég hér hef gert grein fyrir. Og eins og ég hef sagt, þá hef ég ekki, hvorki við að lesa nál. meiri hl. né eftir a hafa hlýtt á ræðu hv. frsm., getað komið auga á það, að nein sérstök ástæða sé til þess að fresta þessu máli, ef menn telja, að framkvæmdir í höfnum hér á landi séu eins aðkallandi og þeir, sem að þessu frv. standa og að áliti minni hl., telja að þær séu.