17.02.1961
Efri deild: 62. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (1770)

194. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Í frv. til sveitarstjórnarlaga, sem nú er hér fyrir hv. d., er gert ráð fyrir, að felldur verði úr gildi kafli úr lögunum um sveitarstjórnarkosningar, þ. á m. 34. gr. þeirra laga, en í þeirri grein eru ákvæði samhljóða því lagafrv., sem nú er á dagskrá, um að kæra megi kosningu sýslunefndarmanns skriflega innan fjórtán daga og skeri sýslunefnd úr. Nauðsynlegt þykir, að ákvæðið haldist í lögum, og er frv. þetta því flutt að beiðni ráðh., þar sem gert er ráð fyrir, að ákvæðið verði fellt inn í 29. gr. l. um sveitarstjórnarkosningar, en sú grein fjallar um kosningakærur. Þetta er því eins konar fylgifrv. með frv. til sveitarstjórnarlaga.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um það frekari orðum, en legg til, að því verði að lokinni þessari umr, vísað til 2. umr. Ég geri ekki till. um, að því verði vísað til n., þar sem það er flutt af nefnd.