16.02.1961
Neðri deild: 64. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í C-deild Alþingistíðinda. (1818)

38. mál, loðdýrarækt

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki ræða neitt hér um það, sem er stórt deilumál sjálfsagt almennt um landið, eins og það er deilumál hér á Alþingi, hvort skuli leyfa minkaeldi eða ekki. En ég kvaddi mér hljóðs til þess að segja örfá orð um afgreiðslu málsins.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði, að það gætu ekki greitt atkv. með þessari till. aðrir en þeir, sem væru með því að leyfa minkaeldi. Þessu vil ég mótmæla. Þegar lagt er til að vísu einu máli til ríkisstj., þá er greitt atkv. um það og það eitt, og það er alveg hárrétt, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði, að þó að menn samþykki það að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar, þá greiða þeir ekki atkv. um hugleiðingar landbn. N. ber ábyrgð á þeim. En ef við vísum máli til ríkisstj., þá greiðum við atkv. um það og það eitt. Og ég segi fyrir mig, að ég tel mig, þó að ég geti greitt atkv. með þessari till. að vísa málinu til ríkisstj., algerlega óbundinn af því, hvort ég er með þeim hugleiðingum, sem hv. landbn leggur fram í sínu nái.

Nú er það svo, að samhljóða frv. og þetta lá fyrir síðasta þingi og það lá fyrir landbn. þessarar hv. d., sem ég var þá í, og við fengum það eftir að búnaðarþing hafði setið. Við vorum búnir að fá tvær umsagnir aðsendar um þetta frv.: Aðra frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem mælti ákveðið með þessu og taldi það mikils virði til þess að fá markað fyrir vöru. Hin, var frá stjórn Búnaðarfélags Íslands, og það voru harðvítug mótmæli, eindregin. Ég tel því, að hvaða skoðun sem hv. dm. hafa á því, hvað eigi að gera í þessu máli og hvað þurfi að koma fram, þá getum við allir sameinazt um það að greiða atkv. með því að vísa því til ríkisstj., því að með því erum við allir alveg óbundnir af því, hvernig með málið verður farið framvegis. Það veltur á því, eins og hæstv. landbrh. tók fram, hvaða upplýsingar koma fram, o.s.frv. Annars er reynslan hér á þingi og reynslan í landinu þannig, að hún er engan veginn hvetjandi til þess að innleiða þetta dýr hér í stærri stíl en enn er orðið.