17.02.1961
Neðri deild: 65. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (1826)

38. mál, loðdýrarækt

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. neitt sem heitir, en ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er fyrst og fremst sú, að ályktunarorð hv. landbn., eins og þau koma fram í lok nál., skil ég svo, að í þeim felist nokkur viljayfirlýsing. Það eru þau fyrst og fremst, sem ég vil gera að umtalsefni. En áður en ég vík að því, vil ég taka undir það, sem hæstv. landbrh. sagði hér í gær, að það hefur orðið verulegur árangur í sambandi við framkvæmd l. frá 1957 um útrýmingu minka og refa. Ég legg á það áherzlu, að áfram verði haldið á þeirri braut að útrýma þessum meindýrum á þann hátt, sem þar er lagt fyrir að gert verði og gert hefur verið síðan. Og jafnvel þó að sú skoðun væri uppi, að okkur tækist ekki að útrýma þessum meindýrum, eins og kemur fram í áliti veiðistjórans, þá er ég sannfærður um það, að við erum nú þegar að ná tökum á því að gera meindýrin til muna óskaðlegri en áður hefur verið og megum í engu slaka á í þeim efnum.

Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, þó að hér væru skiptar skoðanir, ef menn stæðu frammi fyrir því, hvort leyfa ætti minkaeldi eða ekki. Reynsla sú, sem við höfum í sambandi við minkaeldi hér, meðan það var leyft, var slæm, og ber því að hafa fulla varúð við, ef inn á þessa braut yrði farið að nýju. Þá er um minkana að segja, að hér er tízkuvara á ferðinni, svo að verðsveiflur eru tíðar, og getum við í því sambandi vitnað í reynsluna af refaeldinu, þar sem silfurrefur og platínurefur voru um tíma mjög verðmæt vara, en hafa nú þokað fyrir minknum og eru ekki lengur taldir verðmæt vara. Þetta allt ber að hafa í huga, þegar málið í heild er athugað.

Þrátt fyrir þá vankanta, sem á þessu máli eru, er ég þeirrar skoðunar, að þetta mál eigi, eins og önnur mál, að athugast vel og ekki að fullyrða í upphafi, hvort hér sé skynsamlega stefnt eða ekki. Þess vegna vil ég láta athuga málið mjög ýtarlega, en gera það hleypidómalaust og án þess, að fyrir fram sé ákveðið um stefnuna. Ég lít svo á, að sú yfirlýsing, sem hæstv. landbrh. gaf hér í gær, hafi verið á þá leið, að hans skilningur á afgreiðslu málsins hér á hv. Alþ. væri sá, að það ætti að athuga málið alveg hleypidómalaust, án þess að hafa fyrir fram ákveðna stefnu, og að þeirri athugun lokinni ætti að taka um það ákvörðun, hvort rétt væri að afgreiða málið hér á hv. Alþ. á þann hátt, sem nefndin virðist stefna að, eða ekki. Ég hef hugsað mér að greiða atkv. með því að vísa þessu máli til hæstv. ríkisstj. með tilliti til þessa skilnings míns. En ég tek það líka fram, að það er ekki skilningur minn, að með því að vísa málinu til ríkisstj. eigi ekkert að aðhafast, eins og kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. v. að gæti orðið niðurstaðan, heldur eigi að vísa málinu til hæstv. ríkisstj. í trausti þess, að málið verði grandskoðað, án þess að hafa fyrir fram ákveðna stefnu um niðurstöðuna.