24.10.1960
Neðri deild: 9. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (1830)

49. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt 3 öðrum hv. alþm. leyft mér að bera fram frv. þetta, sem hér er nú til 1. umr., á þskj. 49. Við þessir sömu flm. fluttum snemma á síðasta þingi frv. sama efnis, sem varð þá ekki útrætt.

Á undanförnum árum hefur samkv. lögum um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir verið varið allmiklu fé á fjárlögum til styrktar vélakaupum ræktunarsambanda, nú hin síðari ár 2 millj. á ári, þar til 2 s.l. ár, að engin fjárveiting hefur fengizt í þessu skyni. Frv. þetta fjallar um, að áfram verði haldið að styrkja ræktunarsambönd til nauðsynlegra vélakaupa. Upphaflega var til þess ætlazt, að vélar ræktunarsambandanna yrðu endurnýjaðar með hinum lögboðnu fyrningarsjóðum þeirra. En vegna hinnar öru verðbólguþróunar eru nú þessir fyrningarsjóðir orðnir eins og títuprjónn í ámukjafti.

Í grg. með frv. er birt yfirlit um verðbreytingar þær, sem orðið hafa, síðan lögin gengu í gildi 1945. Verð á vélunum, sem birt er, er miðað við beltavél eða jarðýtu af miðlungsstærð, og það sést vel af þessu yfirliti, hvernig verðbreytingarnar hafa orðið. En á þessum árum hefur sökum síaukinnar verðbólgu verð slíkrar vélar af miðlungsstærð rúmlega fjórtánfaldazt. Það hljóta allir að sjá, hversu fráleitt það er, að fyrningarsjóðirnir geti staðið undir endurnýjun vélanna, og þá ekki síður, þegar einnig er tekið tillit til þess, að nú eru gerðar allt aðrar kröfur en upphaflega um stærð véla. Nú er yfirleitt sótzt eftir að fá afkastameiri og stærri vélar en í upphafi, sem þá eðlilega eru mun dýrari. Jarðýta af stærstu gerð kostar núna eitthvað nálægt 1 millj. kr., og þar að auki þarf að kaupa með henni jarðvinnslutæki ýmiss konar, sem einnig kosta verulegt fé.

Það er ekki langur tími síðan hér á landi hófst það, sem kalla má ræktunarbúskap. Landbúnaður Íslendinga byggðist fram á okkar daga, sem nú lifum, að mestu leyti á rányrkju. Nú eru íslenzkir bændur yfirleitt að skilja við þá búskaparháttu og hafa tekið upp nýja siði. Framleiðsluafköstin hafa líka aukizt með ævintýralegum hraða, og er það véltækni og vísindum nútímans að mestu leyti að þakka. En við getum ekki gert okkur ánægða með þann árangur, sem þegar hefur náðst. Við hljótum að sækja fram til nýrra sigra á ræktunarsviðinu, enda kallar mannfjölgun þjóðarinnar á sífellt aukna matvælaframleiðslu. Efnahagsráðstafanir þær, sem gerðar hafa verið á þessu ári, hafa komið hart niður á landbúnaðinum, og það er fullt útlit fyrir stöðvun, ef ekki afturför, í ræktun og framleiðslu landbúnaðarvara, ef ekki verða gerðar ýmsar ráðstafanir til þess að efla landbúnaðinn á nýjan leik.

Með frv. þessu, sem hér er til meðferðar, viljum við flutningsmennirnir leggja áherzlu á, að ræktunarframkvæmdir bændanna séu undirstaða að aukinni landbúnaðarframleiðslu og að því opinbera sé skylt að veita áfram nokkra hjálp til þess, að þróun ræktunarmálanna geti haldizt í æskilegu horfi.

Ég álít, að þáttur bændanna í þjóðarbúskapnum sé af mörgum vanmetinn. Og ég hygg, að það stafi kannske fyrst og fremst af því, að landbúnaðarframleiðslan skilar fremur litlum gjaldeyristekjum. En hér er af eðlilegum ástæðum og skiljanlegum mikil þörf fyrir sífellt auknar gjaldeyristekjur, svo að hægt sé að kaupa nauðsynjar frá útlöndum og greiða skuldir, erlendar skuldir. En þegar það er haft í huga, að hinir 6 þús. bændur, sem enn starfa hér á Íslandi, framleiða vörur fyrir 800 millj. kr. samkv. því afurðamagni og verðlagi, sem verðlagsnefnd landbúnaðarafurða hefur byggt tekjur bændanna á eða skammtað þeim að búa við, þá kemur það í ljós, að þeirra þáttur, bændanna, er ekki minni í því að skapa þjóðartekjurnar en annarra manna í landinu. Bændurnir og fjölskyldur þeirra munu vera nálægt sjötti hluti þjóðarinnar. Ég hygg, að þjóðartekjurnar hafi nú hin síðustu árin verið taldar um 5000 millj. kr., og sést þá af því, sem ég sagði, að hlutur bænda í sköpun þessara þjóðartekna Íslendinga er sízt minni en annarra manna í landinu.

Nú hef ég orðið þess var, að ýmsir telja, að landbúnaðurinn þurfi mjög miklar upphæðir í erlendum gjaldeyri fyrir rekstrarvörur. Og þá er oftast talað um fóðurbæti og áburð og gert mjög mikið úr því, hversu gífurlegar fjárhæðir fari í erlendum gjaldeyri til landbúnaðarins í þessu skyni, til þess að kaupa þessar vörur. Í Fjármálatíðindum, 1. hefti þessa árs, er frá því greint, að á árinu 1959 voru fluttar inn fóðurvörur fyrir rúmar 27 millj. kr. og áburður fyrir tæpar 30 millj. Þessir tveir stærstu rekstrarvöruliðir landbúnaðarins hafa þannig umgetið ár kostað 67 millj. kr. í innflutningi. Út voru fluttar á sama tíma landbúnaðarafurðir fyrir 80 millj., svo þó að landbúnaðurinn að vísu þurfi talsvert meiri innflutning í rekstrarvörum en áburðinn og fóðurbætinn, þá er sýnilegt, að landbúnaðurinn kemst langt með það að vera sjálfum sér nógur um gjaldeyri árið sem leið fyrir rekstrarvillur, sem hann þarf að fá til sinna nota frá útlöndum.

Ég hef drepið á þetta hér til þess að rifja það upp fyrir mönnum, hversu gífurlega þýðingarmikið það er fyrir allan hag okkar Íslendinga að búa vel og viturlega að þessum atvinnuvegi. Með frv. þessu, sem hér er til umr., er hlynnt að því, ef það yrði að lögum, að ræktun landsins gæti haldið áfram, og ég tel mig hafa ástæðu til að mega vænta skilnings og stuðnings hv. alþm. við þann þátt þeirra mála, sem stefnt er að með flutningi þessa frv.

Ég vil svo að lokum geta þess, að eftir að þetta frv. var flutt, hefur hæstv. landbrh. sagt mér frá því, að n., sem hann skipaði í fyrra til athugunar á þessum málum, sé nú um það bil að ljúka störfum, að frv. samið af henni muni verða lagt nú innan skamms fyrir Alþingi og að það frv, muni stefna mjög í svipaða átt og þetta frv., sem hér er til umr. Ég þykist af þessum tíðindum mega marka það, að stefnubreytingar í þessum málum sé að vænta af hálfu hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar, og væri mér það gleðiefni, og mun svo fleirum fara.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri nú að þessu sinni, en vil leyfa mér að leggja það til við hæstv. forseta, að málinu verði vísað til 2. umr. nú að þessari umr. lokinni og hv. landbn.