18.10.1960
Neðri deild: 6. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (1870)

7. mál, löggilding bifreiðaverkstæða

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt að fengnum till. Iðnaðarmálastofnunar Íslands, Félags bifreiðaverkstæðaeigenda og Félags bifvélavirkja. Segja má, að það sé samið í framhaldi af þeim strangari umferðarreglum, sem lögfestar voru með umferðarlögunum ekki alls fyrir löngu, þar sem ráðstafanir á að gera eftir þeim til þess, að betur sé fylgzt en áður með, að bifreiðar séu svo örugglega útbúnar, að minni hætta sé af en verið hefur. En eins og kunnugt er, hefur verið ærið um slys að undanförnu, að vísu oftast af öðrum ástæðum en vegna þess, að bifreiðarnar sjálfar væru ekki í lagi, en með vaxandi hraða og vaxandi umferð er lífsnauðsynlegt engu að síður, að svo tryggilega sé um vélar bifreiða og allan frágang búið sem mögulegt er. Hér kemur einnig til, að reynslan hefur orðið sú, að bifvélaverkstæðum hefur orðið erfitt um að útvega sér allar nýtízku vélar til viðgerða og annan þann umbúnað, sem vera þyrfti. Það er sumpart vegna þess, að þessi starfræksla hefur orðið mjög á við og dreif, ef svo má segja, og hinum stærri verkstæðum hefur reynzt harla erfitt að fá nauðsynlegt vinnuafl, en upp hafa vaxið verkstæði, sem ekki eru þannig útbúin, að því sé hægt að treysta, að þau hafi nógu góðar aðstæður til þess að leysa verkefni sitt af hendi.

Þetta varð til þess, að hingað var fenginn á vegum Iðnaðarmálastofnunarinnar sérfræðingur frá Noregi, sem rækilega athugaði þetta mál og samdi um það mjög fróðlega greinargerð, auk þess sem hann ræddi um það bæði við stjórnarvöld, iðnrekendur og iðnaðarmenn. Málið var svo lagt fyrir mig í fyrravetur, og hafði ég raunar haft nokkur kynni af því áður. Ég lagði á það megináherzlu, að ég treysti mér ekki til þess að fallast á neinar till. í málinu, nema Félag bifreiðaverkstæðaeigenda og Félag bifvélavirkja væru till. sammála, þannig að ekki gæti í þeim fólgizt nein tilraun af hálfu bifreiðaverkstæðanna til þess að neyta afls gegn bifvélavirkjum. Á málinu hefur verið haldið með þetta fyrir augum, og það var fyrst eftir að þessir aðilar voru komnir að samkomulagi um nauðsyn löggjafar svipaðrar þessari, sem þetta frv. var samið. Það frv., sem kom frá aðilunum sjálfum, var raunar nokkuð öðruvísi í formi, en efnið í meginatriðum hið sama. En að athuguðu máli þótti mér langeðlilegast, að sú heimild, sem hér er ætluð til löggildingar, yrði alveg sniðin eftir sams konar reglum, sem giltu í Noregi, og má segja, að frv. sé í öllu efni sínu sniðið eftir gildandi norskum lagaákvæðum.

Hitt er svo annað mál, að samkvæmt frv. þarf að setja allýtarlega reglugerð, og hefur hún nú þegar í meginatriðum verið samin. Er sjálfsagt, að ef n. sú, sem málið fær til meðferðar, hirðir um, þá fái hún einnig álitsgerð Norðmannsins og þau drög að reglugerð, sem fyrir hendi eru, til athugunar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál. Ég tel eðlilegast, að frv. gangi til hv. allshn. Hún hafði umferðarlögin til meðferðar á sínum tíma, og þetta mál er í raun og veru einn þáttur þeirra. Ég leyfi mér að leggja til, að málið gangi til 2. umr. og hv. allshn.