25.10.1960
Neðri deild: 10. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (1932)

50. mál, bann gegn vinnustöðvun íslenskra atvinnuflugmanna

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. virðist leggja sig mjög fram um það að sanna, að það ofbeldisverk, sem unnið var gagnvart íslenzkri verkalýðshreyfingu, þegar þessi brbl. voru gefin út, hafi í raun og veru verið eitthvert allsherjar góðgerðastarf og björgunarstarf, ekki aðeins við flugfélögin, við atvinnurekandann, heldur líka við sjálfa verkfallsmennina eða þá, sem ætluðu að beita þessu vopni, þ.e.a.s. flugmennina. Ég held, að þessar tilraunir hans til þess að gylla þennan verknað hljóti að missa marks.

Hann lagði áherzlu á það nú í sinni síðari ræðu, að það væri eitthvað annað en ríkisstj. hafi verið að svíkja þá yfirlýsingu, sem hún gaf hér mjög hátíðlega og oft og var gefin af flestum ráðh., ef ég man rétt, í vetur, þegar gengisfellingarlögin voru til umr., — þá yfirlýsingu, að ríkisstj. mundi ekki blanda sér í deilur eða kaupgjaldsmál atvinnurekenda og verkamanna. Það væri hér eftir þeirra mál að leysa, og þeir yrðu að gera það með frjálsum samningum.

En hver er nú staðreyndin? Hæstv. ráðh. segir, að ríkisstj. hafi ekki gripið inn í þessi mál, fyrr en séð var, að samningar mundu ekki takast. En á hvern hátt grípur hún þá inn í? Og er nú ekki alveg augljóst, að staða atvinnurekendastéttarinnar í landinu er orðin nokkuð létt, ef hún má treysta því, að ríkisstj. grípi inn í málin á þennan hátt. Það er ekkert annað fyrir atvinnurekendurna að gera en láta standa á samningum. Þegar svo verkamennirnir ætla að beita því eina vopni, sem þeir hafa yfir að ráða, að leggja niður vinnu, þá er ríkisstj. komin í spilið á síðustu stundu, vegna þess að samningar takast ekki, með brbl., sem banna verkamönnunum að nota þennan rétt sinn. Ég held, að það fari að verða ósköp augljóst, hvernig málin standa.

Það er ekki aðeins á þennan hátt, sem ríkisstj. kom í veg fyrir, að flugmennirnir og flugfélögin semdu. Öll hennar stefna og líka ríkisstj. Alþfl. stuðlaði að því, að samningar gátu ekki tekizt. Því var yfir lýst bæði þessi ár og einkanlega í vetur, mjög rækilega yfir lýst, að kauphækkanir gætu ekki og mættu ekki eiga sér stað, því að þá væri allt í voða. Það er vegna þess, hvernig ríkisstj. hefur stappað stálinu í atvinnurekendurna, að samningar tókust ekki. Út af fyrir sig er ég sannfærður um, að flugfélögin vildu semja, og það er heldur engan veginn rétt, að þetta séu þeir fátæklingar, sem geti ekki í samkeppni við erlend auðfélög borgað sómasamleg kjör. Það væri kannske rétt að fá reikninga Loftleiða fyrir s.l. ár hér á borðið. Ég man ekki betur en það væri allgóður gróði þar, eftir upplýsingum blaðanna.

Nei, ég held, að flugfélögin hafi viljað semja. En þau eru í Vinnuveitendasambandi Íslands, og Vinnuveitendasambandið var ekki á þeim buxunum, að það ætti að semja, hvorki við flugmenn né aðra, um hækkað kaup, og þakkað veri þessari stefnu ríkisstj., sem gefið hefur atvinnurekendum kjark í tvö ár til þess að neita hverri einustu sjálfsagðri réttarbót, sem verkafólk hefur farið fram á. Það er ekki sízt á þennan hátt, sem hæstv. ríkisstj. hefur komið í veg fyrir það, að samningar tækjust við atvinnuflugmenn.

Þessi aðgerð hæstv. ríkisstj., setning þessara brbl., er í alveg rökréttu og beinu framhaldi af því, sem skeð hefur hér nú á undanförnum tveimur árum.

Eins og hv. 4. landsk. tók hér fram áðan, þá fylgir þetta á eftir þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru veturinn 1959 og svo aftur nú í vetur, þar sem samningsfrelsi verkalýðsfélaganna var stórlega skert. Ráðstefna, sem Alþýðusambandið boðaði til í vor og mættir voru á fulltrúar frá nær öllum verkalýðsfélögum í landinu, samþykkti einróma, Alþýðuflokksmenn, sjálfstæðismenn, framsóknarmenn og náttúrlega kommarnir, að þessar aðgerðir væru frekleg skerðing á samningsfrelsi verkalýðsfélaganna, og þessu var mótmælt harðlega af öllum þessum mönnum.

Sú valdbeiting, sem síðan kom með brbl. í sumar, er kórónan á þetta verk, kórónan á þessa stefnu. Fyrst samningsfrelsið, síðan það, sem verkalýðshreyfingin þó telur sér helgast af öllu, og það er verkfallsrétturinn. Og það er ekki aðeins, að hún telji sér það helgan rétt, heldur er hér um grundvallarlýðréttindi að ræða. Ef þessi lýðréttindi eru afnumin, þá eru það aðeins þeir voldugu í landinu, aðeins þeir, sem auðinn hafa og völdin, sem geta einhverju fengið framgengt. Hinir eru ofurseldir að öllu leyti þeirra valdi.

Ég held, að sú sterka mótmælaalda, sem reis upp gegn setningu þessara brbl., ætti að sýna það, að þetta er ekki fær leið. Og það er alveg öruggt, og það er eins gott, að hæstv. ríkisstj. og hv. alþm. geri sér það ljóst, að það er alveg öruggt, að verkalýðshreyfingin í landinu þolir ekki áfram slíkar aðgerðir. Þetta eru hlutir, sem gerzt hafa víða um lönd, frelsi verkalýðshreyfingarinnar hefur verið þrengt. Hvað hefur upp úr því hafizt? Ógnaröld yfirleitt. Það fylgja í kjölfar aðrar og meiri ráðstafanir. Kannske hæstv. ríkisstj. hugsi sér að halda áfram? Það eru til fleiri fyrirmyndir, ef þetta dygði ekki og bannið væri kannske brotið. Það er til að banna fundafrelsi líka. Það er líka þekkt frá þessum fyrirmyndarlöndum, sem þessi fyrirmynd hefur sjálfsagt verið sótt til, að fangelsa þá, sem í forustunni standa. Allt þetta er til. Kannske hugsar hæstv. ríkisstj. sér að ganga enn frekar þessa braut? Ef til vill. En það er alveg gefið mál, alveg öruggt, það er rétt, að allir geri sér ljóst, að verkalýðshreyfingin íslenzka mun rísa upp gegn slíku, og það er alveg gefið mál, að stjórnarflokkarnir munu í þeim hópi, sem þar rís upp, finna sína menn, sína pólitísku samherja, þeir yrðu ekki með þeim í slíku.