07.12.1960
Sameinað þing: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

1. mál, fjárlög 1961

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til þess að tala fyrir brtt., sem eru á þskj. 180, og hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr. um fjárlögin núna og mun ekki gera það, en hafa aðeins örfá orð sem inngang að því, sem ég segi um brtt.. Ég mun við annað tækifæri, sem væntanlega gefst hér síðar, ræða nokkuð um efnahagsmálastefnu ríkisstj. og fjárlögin í því sambandi og hvernig nú er komið og hvað við blasir í því efni. Hv. frsm. 1. minni hl. hefur gert þessum málum svo rækileg skil við þessa umr., að þar þarf ekki við að bæta, og ég veit, að hann muni svara ýmsu af því, sem hæstv. fjmrh. vék að honum, og get ég alveg gengið fram hjá því.

Ég vil þó aðeins segja, að þessi fjárlög eru ömurleg mynd af þeim áhrifum, sem samdráttar- og kjaraskerðingarstefna ríkisstj. hefur þegar haft á þjóðarbúskapinn, — ömurlegri mynd en jafnvel þeir, sem svartsýnastir voru á þetta flan, gátu hugsað sér fyrir fram að blasti við eftir aðeins örfáa mánuði. Ég vil einnig benda á, að það er ekkert spaug fyrir stjórnarandstæðinga að fást við tillögugerð í sambandi við þessa fjárlagaafgreiðslu, þar sem ekki hefur fengizt lögð fram gjaldeyrisáætlun fyrir næsta ár og þar með engin innflutningsáætlun, sem hægt er að kalla því nafni, og þá um leið engin grg. fyrir því, hversu mikið erlent lánsfé ríkisstj. hugsar sé að geta notað eða muni nota á því ári. En bara það atriði eitt að fá upplýsingar um, hversu mikið erlent lánsfé á að nota, er svo stórkostlegt, að það er alveg út í bláinn að ætla sér að reyna að gera till. um tekjuáætlunina t.d. án þess að vita það. En af einhverjum undarlegum ástæðum er þessu alveg haldið leyndu nú af þeim, sem fyrir þessum málum standa, og því ekki hægt að sjá, hvert verið er að fara í því efni.

Ég sagði, að ég mundi ekki svara hæstv. fjmrh., og ég mun ekki heldur gera það að ráði. Hann talaði hér talsvert um endurbætur á fjárlögum og reikningshaldi, sem hann hefði í hyggju, og væri gott, ef hann gæti komið slíku í framkvæmd, því að vafalaust stendur margt til bóta í þeim efnum og væri það ekki nema eðlileg þróun. En fram að þessu hef ég ekki orðið var við aðrar breyt. verulegar á uppsetningu fjárlaganna í þessum skilningi af hendi hæstv. ráðh. og þess meiri hl., sem hann styður, en þá að taka upp á því að telja framlög til vegagerðar með eignaaukningu ríkissjóðs, á 20. gr., telja það auknar eignir ríkissjóðs, sem lagt er fram í vegi af atvinnuaukningarfé, og mun fæstum finnast það vera til bóta í reikningsfærslu ríkisins eða til að gera þær línur skýrari eða gleggri á nokkurn hátt. En á hinn bóginn mun vera í þessu að einhverju leyti stuðzt við fordæmi frá reikningsfærslu Reykjavíkurbæjar, sem hefur ekki þótt til sérstakrar fyrirmyndar að þessu leyti. Það væri betur, ef hæstv. ráðh. auðnaðist að gera betur en byrjunin bendir til, og mjög gott væri að mínu viti að setja reglur um, hvernig upp skuli gerður frá ári til árs greiðslujöfnuður ríkissjóðs, sem við tölum svo oft um. Að vísu hafa skapazt um þetta nokkuð fastar venjur, en það mundi engu spilla að hafa þær fastari.

Áður en ég kem að brtt., þá get ég ekki heldur stillt mig um að benda aðeins á þann — ég vil segja skrípaleik, sem hér er leikinn um alvarlegt efni, þar sem eru ráðstafanir eða öllu heldur bollaleggingar og athuganir á möguleikum á sparnaði í ríkisrekstrinum: En þessum leik er þannig háttað eða einum þætti í honum, að í fyrra taldi hæstv. fjmrh. upp 12 atriði, sem hugsanlega væri hægt að spara, og í fjárlagaræðunni núna benti hann á 25 liði, sem taka mætti til athugunar í þessu sambandi. Eins og gefur að skilja, er sumt af því sömu liðirnir og hann ræddi um í fyrra. Síðan tekur meiri hl. hv. fjvn. fjárlögin og bendir á 23 liði, sem þurfi að athuga og sennilega væri hægt að spara á, og sumt af því eru auðvitað enn hinir sömu liðir og voru í þessum 25, sem hæstv. ráðh. benti á. Síðan er það næsti þáttur í leiknum, að hæstv. ráðh. kemur hér og þakkar meiri hl. fjvn. með alveg sérstökum kurteisistilburðum fyrir að hafa nú bent á þessa liði, sem væntanlega sé hægt að spara á. Þetta er það, sem gerzt hefur.

En ekki flytur meiri hl. fjvn. eina einustu till. til lækkunar á fjárlögunum eða í sparnaðarátt. Ekki eina, ekki um eina krónu. Það eina, sem fram kemur um þetta, eru þessar bollaleggingar, sem að verulegu leyti eru sífelldar endurtekningar. Á hinn bóginn er nú miklu minna rætt um ýmislegt af því, sem mikið var um talað fyrr í haust, svo sem um sparnað og nýjar aðferðir við að eyða refum og minkum og nýjar aðferðir við strandferðir og annað slíkt. Af hverju ætli það sé? Þetta leyfi ég mér að kalla skrípaleik með alvarleg málefni. Síðan kemur svo hæstv. fjmrh. og áminnir menn mjög, með mjög sterkum orðum, um, að það megi engin sýndarmennska eiga sér stað í meðferð þessara mála og allra sízt þegar um það sé að ræða að leita að sparnaðarleiðum og flytja till. í því efni. Loks er svo aðalmálgagn ríkisstj. látið lýsa því yfir, að niðurstaðan af þessu öllu saman sé, að ríkisútgjöldin séu að lækka og margar og merkar sparnaðartill. komi frá meiri hl. fjvn., og það þó að ekki sé ein einasta till. — ekki ein — frá meiri hl. fjvn. um nokkra lækkun á nokkrum lið í fjárlögunum og fjárlögin hækki við þessa umr. að tilhlutan þessa meiri hl. um 35 millj. og samtals um 85 millj. frá því í fyrra. Þetta heitir lækkun á ríkisútgjöldum og stórmerkilegar till. um sparnað í ríkisrekstri. Þetta leyfi ég mér að kalla skrípaleik, þakkarávörp flutt á víxl um þessar margumtöluðu ábendingar, sem sumar virðist vera búið að nota þrisvar, þannig að samanlögð tala hinna merku ábendinga er með því móti komin upp í 60.

Hæstv. fjmrh. fann að því, að bent væri á þá stórfelldu hækkun, sem væri á fjárlögunum, og taldi grautað þar tölum og erfitt um samanburð: Það er alls ekkert erfitt. Það á að bera saman útgjöld fjárlaganna, eins og þau liggja fyrir núna, því að niðurgreiðslurnar eru á þeim núna, og: fjárlögin eins og þau voru 1958, og bæta þar við þeim niðurgreiðslum, sem inntar voru þá af hendi utan fjárlaga. Með þessu móti verður samanburðurinn laukréttur, og þá er hækkunin 700 millj.

Hæstv. fjmrh, sagði, að framsóknarmenn ættu ekki að vera að tala um þetta, vegna þess að fjárlögin hefðu hækkað á 8 árum úr 300 millj., held ég hann hafi sagt, upp í 800 millj. eða eitthvað þar um bil. Þetta er að vísu stórkostleg hækkun, það skal játað, 500 millj. á 8 árum. Þar kom til verðbólguþróun og ýmislegt fleira, sem of langt er út í að fara. En á hinn bóginn sýnist mér, að það sé öllu meiri hraði að hækka um 700 millj. á tveimur árum, en 500 á átta.

Það var mjög merkileg yfirlýsing, sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. í sambandi við útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir. Ég veit ekki betur en hæstv. ríkisstj. hafi samið um þetta mál á sínum tíma við Stéttarsamband bænda, þau séu í raun og veru liður í samningi við Stéttarsambandið, þessi ákvæði, sem lögfest voru um útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir. Nú segir hæstv. ráðherra alveg blákalt, að þetta geti alls ekki staðizt, þetta verði að breytast og það fyrr en síðar. Er það þá meiningin hjá hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn að svíkja það, sem samið hefur verið um við Stéttarsambandið í sambandi við þá málamiðlun, sem náðist í fyrravetur? Er það ætlunin? Það væri mjög æskilegt, að hæstv. landbrh. gæfi skýrari yfirlýsingar um, hvað það er, sem til stendur samkvæmt yfirlýsingu hæstv. fjmrh. Hvaða breytingar eru það, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að gera á þessu samkomulagi og hæstv. fjmrh. talaði um? Það virtist vera einhver mjög veruleg takmörkun á þeim ákvæðum, sem nú hafa verið lögleidd. Hvað er það, sem hæstv. ríkisstj. hefur í huga í þessu? Ég sé ekki betur en það sé nauðsynlegt, að hæstv. landbrh. geri hér alveg hreint borð og geri þetta gleggra en fram kom hjá hæstv. fjmrh. — Ég sé, að hæstv. landbrh. er farinn, kannske hefur honum brugðið svo við það, sem hæstv. fjmrh. sagði. En ég vænti, að hæstv. fjmrh. vilji koma þessari fyrirspurn á framfæri við hæstv. landbrh.

Ég skal þá snúa mér að brtt. Við höfum hér fjórir þingmenn af Austurlandi flutt nokkrar brtt., sem ganga ekki mjög langt. Þær eru á þskj. 180.

Það er fyrst tillaga um að auka framlag til Hellisheiðarvegar um 100 þús. kr. Þessi vegur á að tengja Vopnafjörð og Fljótsdalshérað og mundi stytta þá leið feikilega mikið, eins og allir þekkja, sem kunnugir eru á þeim slóðum. Það er að vísu veitt nokkurt fé til þessa vegar, en það mundi taka afar langan tíma að leggja hann, ef ekki verður hægt að fá meira fé til hans en nú er ráðgert í fjárlögum. Og þó að okkur sé ljóst, að það muni vera mjög erfitt að fá meiri hluta hér á hv. Alþingi fyrir því að hækka framlögin til verklegra framkvæmda, þá viljum við samt freista þess að gera þessa hógværu till. um, að framlagið til þessa vegar verði hækkað um 100 þús. kr.

Þá er till. um að leggja til Hróarstunguvegar austan Lagarfljóts 50 þús. kr. Þessi vegur hefur áður haft fjárveitingu á fjárlögum, en hefur nú verið strikaður út, eins og margir aðrir vegir, sem hafa verið strikaðir út að tilhlutan núverandi hæstv. ríkisstj. og þingmeirihluta. Hér er um veg að ræða, sem liggur frá Lagarfljóti og inn á aðalveginn, sem liggur um sveitina, og þessi vegur er mjög þýðingarmikill vegna mjólkurflutninga og annarra flutninga, og leggjum við þess vegna til, að hann fái 50 þús. kr. framlag.

Þá er till. um að hækka framlag til Stöðvarfjarðarvegar um 100 þús. kr. En þannig er háttað með þennan veg, að þar er bæði um að ræða vegarlagningu til Stöðvarfjarðar frá Fáskrúðsfirði og enn fremur vegarlagningu áfram frá Stöðvarfirði til Breiðdals. Þar er um 7 km haft, sem þarf að leggja veg um, og þegar því er lokið, mundi vera hægt að fara í bifreiðum með allri sjávarströndinni fyrir Austfjörðum, og mundi það verða geysileg breyting á allri samgönguaðatöðu þar. En vegna þess að þessari fjárhæð þarf að skipta í tvo staði, þá er ekki hægt að ná neinum verulegum árangri með þeirri fjárveitingu sem er í fjárlögunum, þó að hún sé 310 þús. kr. Leggjum við því mjög eindregið til, að þessi fjárveiting verði hækkuð um 100 þús. kr., í 410 þús.

Þá eru fjórða og fimmta till. Það má í raun og veru tala fyrir þeim í senn. Það eru till. um að hækka framlögin til Berufjarðarvegar annars vegar og Geithellnavegar hins vegar um 40 þús. kr. til hvors vegar. Þessir vegir liggja með sjávarströndinni áfram um Beruneshrepp og Búlandshrepp og Geithellnahrepp og eru þess vegna liður í þeim vegi, sem liggur umhverfis landið, aðalþjóðbrautinni. En ástand þessara vega er mjög slæmt, og gengur afar hægt að bæta úr því með þeim fjárveitingum, sem nú eru. Viljum við því eindregið fara þess á leit, að hv. alþm. fallist á að hækka þessar fjárveitingar upp í 170 þús. kr. í hvorn veg.

Þá gerum við till. um að veita fé til Sandár í Jökuldal, sem er mjög slæmur farartálmi á Jökuldalnum austanmegin. Þar er um að ræða 350 þús. kr., og er það kostnaðurinn víð að gera þá brú.

Enn fremur leggjum við til, að greitt verði tillag til brúar á Selá í Álftafirði, 150 þús. kr. Það hafa nú þegar verið veittar fyrir tveim árum 100 þús. kr. til þessarar brúar, en siðan hefur ekki fengizt viðbót, og mundi .þó ekki vera hægt að ljúka henni fyrir þessar 150 þús. kr., sem hér er gert ráð fyrir. En það mundi þá vera komið fyrir meira en helmingi af andvirði brúarinnar, og erum við því með þessari till. að fara fram á, að það verði haldið áfram að safna fé, til þess að þessi brú geti orðið til. Hún hefur þýðingu fyrir innansveitarsamgöngur í Álftafirðinum, og enn fremur liggur sjúkraflugvöllur þeirra Álftfirðinga, þar sem kalla mætti handan árinnar, og er mjög nauðsynlegt að fá brú á ána einnig af þeim ástæðum.

Þá höfum við hér eina till. um hafnarframkvæmdir. Það er um að hækka framlag til Vopnafjarðarhafnar úr 100 þús. kr. í 150 þús. kr., um 50 þús. kr. Á Vopnafirði er verið að vinna að mjög aðkallandi framkvæmd vegna atvinnulífsins á staðnum, og 100 þús. kr. framlag er of lítið til að hrinda því máli áleiðis.

Leggjum við því eindregið til, að þetta verði fært upp í 150 þús. Hér er þó aðeins um að ræða lítinn áfanga af því mikla verki, sem vinna þarf í hafnarmálum Vopnfirðinga, ef vel á að verða. Vopnafjörður er nú orðinn afar þýðingarmikill staður vegna þeirrar aðstöðu, sem er þar til móttöku á síld, og þeirra síldar- og fiskimiða, sem þar liggja framundan og hafa reynzt árum saman og má jafnvel segja áratugum saman fengsæl á síldarvertíðinni.

Við hefðum gjarnan viljað flytja miklu fleiri till., einkanlega um hækkun á vegafé, en við vildum þreifa fyrir okkur fyrst með þeim till., sem hér liggja fyrir, hvort þær fá undirtektir. En það ber ekki að skoða þennan tillöguflutning af okkar hendi þannig, að við teljum á nokkurn hátt fullnægjandi að sinna aðeins þeim málum, sem hér eru fluttar till. um, því fer alls fjarri, heldur eru þessar till. fluttar til að fá bætt úr nokkrum ágöllum fjárlagafrv. að því er varðar fjárveitingar í okkar kjördæmi, en aðeins fáum ágöllum af mjög mörgum. Ég vil m.a. í því sambandi benda á þá óhæfu, sem framkvæmd var í fyrra, þegar strikaðar voru út fjárveitingar í mjög marga vegi og svo ekki teknar upp aftur í þetta fjárlagafrv., þannig að vegagerð hefur víða algerlega fallið niður.