21.10.1960
Neðri deild: 8. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (1979)

36. mál, erfðafjárskattur

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir á þskj. 36, var flutt á síðasta þingi af mér ásamt nokkrum öðrum hv. þm. og fékk þá ekki afgreiðslu. Frv. er því flutt hér á ný og þess vænzt, að það nái fram að ganga á þessu þingi.

Eftir langa og harða baráttu fékkst loks samkomulag um það hér á Alþingi, að stofnaður skyldi með l. nr. 12 30. júlí 1952 erfðafjársjóður. Skyldi allur erfðafjárskattur samkv. l. nr. 30 frá 27. júní 1921 og arfur samkv. 33. gr. erfðalaganna frá 1949 renna í þennan sjóð. Með samþykkt þessara laga frá 1952 var ákveðið, að erfðafjárskatturinn skyldi frá 1. jan. 1953 hætta að verða eyðslufé ríkissjóðs, svo sem hann hefði verið alla tíð, en í stað þess sinna ákveðnu hlutverki í þjóðfélaginu, hlutverki, sem allt í senn er fagurt, mannúðlegt og þjóðhagslega hagkvæmt og svo aðkallandi, að því verður ekki lengur skotið á frest. En hlutverk þetta er að koma upp vinnuheimilum, vinnustofum og vinnutækjum fyrir öryrkja og gamalmenni. Hygg ég, að um það sé enginn ágreiningur hér á Alþ., að þörfin fyrir slíkar stofnanir sé meir en nóg, og lágmarksskyldur þjóðfélagsins við þetta fólk, sem slitið hefur út kröftum sínum við að skapa þær framfarir, sem hér hafa orðið og fært hafa þjóðina á skömmum tíma frá örbirgð til velmegunar, eða hefur misst orku sína við áhættusömustu störfin og það oft á bezta skeiði ævi sinnar, störfin, sem þjóðfélagið má ekki og getur ekki verið án, eru tvímælalaust þær að búa þessu fólki mannsæmandi lífskjör, þegar það getur ekki lengur staðizt samkeppnina á hinum almenna vinnumarkaði í landinu. Um þetta getur ekki heldur verið neinn ágreiningur. Hitt má svo deila um, á hvaða hátt afla skuli þessum sjóði fjár, sem nauðsynlegt er til þess að inna af hendi þessar skyldur við öryrkja og gamalmenni, sem ekki ganga lengur heil til skógar.

Að fornu voru það lög, að menn skyldu sjá fyrir fjórmenningum sínum og öðrum nálægari ættingjum, ef þess þætti þörf, enda tækju þeir og arf eftir þá. Nú er þetta að því leyti breytt, að framfærsluskyldan er horfin, en eftir situr erfðarétturinn. Veldur hér um fullur skilningur á félagsmálaþróun, hvað snertir fyrra atriðið, en skilningsskortur á afleiðingum breyttrar löggjafar til mannúðarmála, hvað snertir hið síðara, því að ekkert er eðlilegra en erfðarétturinn færist hlutfallslega til þeirra aðila, sem framfærsluskyldan er færð yfir á. Frv. það á þskj. 36, sem hér er til umr., er aðeins lítið spor í þá átt, ef að lögum verður.

Ég hef orðið þess var, að sumir hverjir hv. þm. líta svo á, að með frv. þessu, ef að lögum yrði, væri verið að draga mikið fé úr höndum einstaklinga yfir til ríkissjóðs og með því sé verið að rýra einstaklingsframtakið og eignarrétt manna. En þessi skoðun er byggð á miklum misskilningi og takmarkalausum. ókunnugleika á eðli málsins.

Samkv. 1. gr. frv. er lagt til, að erfðafjárskattgreiðendum sé skipt í 3 flokka, aðeins einum færri en nú er í lögum. Í fyrsta flokki verði skipað öllum sömu aðilum og nú eru í fyrsta flokki. En auk þess eru foreldrar, afar og ömmur færð í þennan flokk, svo að þeir greiði erfðafjárskatt eftir lægsta skattstiga, en þeir greiða nú eftir hærri skattstiga en börn, sem taka arf eftir foreldra sína. En svo náin tengsl eru á milli allra þessara aðila, að ekki sýnist rétt að gera hér upp á milli um skattgreiðslu af erfðafé. Lagt er til, að skattstiginn í þessum flokki sé nokkuð hækkaður frá því, sem nú er, þ.e., að strax sé greiddur hámarksskattur, 10%, en ekki stighækkandi upp í þá upphæð eftir því, hve erfðafjárupphæðin er há, eins og nú er í lögum. Erfðafjárskattur, sem greiða skal samkv. frv. af þessum aðilum, sem skipað er hér í annan flokk, er örlítið hærri en þessir aðilar greiða nú eftir gildandi lögum, að undanskildum þeim, sem arf taka samkv. sérstökum gjafabréfum, en þar er lagt til, að skatturinn hækki úr 10% í 25%. Til réttlætingar þessu vil ég taka það fram, að ég tel, að það sé mjög vandfundið hlutverk, sem á sér meiri rétt í þjóðfélaginu en það, sem rækja á fyrir þetta fé, og þótt svo færi, þá nýtur það þó enn 75% af, gjafaupphæðinni, þótt frv. yrði að lögum. Hitt fullyrði ég, að fjöldi annarra hlutverka, sem fé er gefið til með gjafabréfum, er þjóðinni ekki jafnnauðsynlegur og hlutverk það, sem erfðafjársjóðurinn skal rækja í framtíðinni. Langveigamesta hækkunin er á því fé, sem fellur til þeirra arftaka, sem heyra undir þriðja flokk arftaka, ef frv. verður að lögum. Hér er eingöngu um að ræða útarfa, sem oftast standa í engu sambandi við hinn látna, voru honum til engrar aðstoðar eða gleði í lífinu. Hann er ekki að inna af hendi neinar skyldur við þessa niðja sína eða önnur skyldmenni, sem hann e.t.v. hefur engin kynni haft af, en með þeim hluta eigna hans, sem fellur til erfðafjársjóðsins samkv. þessu frv., ef að lögum verður, er hann að uppfylla skyldur við fólkið, sem sleit kröftum sínum við að skapa honum betri starfsskilyrði í lífinu.

Það verður ekki um langan aldur spyrnt fótum við að koma upp og starfrækja þær stofnanir, sem koma skal upp fyrir fé úr erfðafjársjóði. Spurningin er því sú og sú ein: Á að afla sjóðnum, fjár með hærri erfðafjárskatti, svo að hann geti sinnt þessu hlutverki, svo að viðunandi sé, eða á að taka þetta fé á annan hátt og þá fyrst og fremst beint úr ríkissjóði með hærri sköttum á þurftarvörur almennings í landinu og með því að fara enn dýpra ofan í vasa framleiðenda og annarra, sem halda uppi atvinnurekstri í landinu? Það er þetta og þetta eitt, sem hv. þm. verða að gera upp við sig, er þeir greiða atkv. um þetta frv.

Mér þykir rétt að benda hér á, að ég tel það engan veginn eðlilegt eða rétt, að stefnt sé að því, að komið sé upp elliheimilum og öryrkjavinnustofum einungis í höfuðborg landsins eða í umhverfi hennar. Hinar dreifðu byggðir þurfa engu síður að leysa þennan vanda heima fyrir. Það eru síður en svo öll gamalmenni, sem óska þess að flytja úr sveit sinni beint í yfirfull elliheimili þéttbýlisins og vera þannig slitin úr tengslum við allt, sem þeim er kærast og hugþekkast, og bíða síðan lokaþáttarins, oftast án nokkurra starfa, sem þó hvort tveggja í senn heldur við lífsorkunni og skapar þjóðarbúinu tekjur, auk þess sem það viðheldur sjálfri vinnugleðinni, en hún er sí og æ frumskilyrði allrar lífshamingju. Þessu fólki á hvorki né má dreifbýlið stjaka frá sér. Yfir þetta fólk á og verður að byggja heimili, þar sem það getur lifað og starfað í sem allra nánustu samræmi við eðli sitt og lífsstörf, þótt kraftarnir þverri, svo sem eðlilegt er. Slíkum stofnunum verður að koma upp í dreifbýlinu, þar sem nægilegt er landrými og nægilegur jarðhiti. Án þess að ég vilji hér hefja nokkurn áróður fyrir ákveðnum stöðum, sem tilvaldir eru til að koma upp slíkum stofnunum, því að mér er ljóst, að þeir eru margir á landi hér, get ég þó ekki látið vera að benda á, að bæði á Reykhólum í Barðastrandarsýslu og Reykjanesi við Ísafjarðardjúp sýnast ákjósanlegir staðir til að koma þar upp slíkum stofnunum, og þó einkum vegna þess, að auk þess sem þeir báðir hafa öll skilyrði, þá mundi slík ráðstöfun leysa jafnframt það vandamál þessara héraða að tryggja þeim læknisþjónustu, sem þar búa, því að læknir yrði að sjálfsögðu staðsettur við slíkar stofnanir. En þetta er í dag einn sá mesti vandi, sem þessi héruð eiga að glíma við. Án framlags til stofnunar og rekstrar úr erfðafjársjóði er ekki hugsanlegt, að slíku yrði fram komið, nema ríkissjóður væri fús til þess að leggja fram það, sem til þess þyrfti að koma slíkum stofnunum upp og starfrækja þær. Hér er því beinlínis um að ræða veigamikinn þátt í baráttu fyrir jafnvægi í byggð landsins.

Frv. þetta var flutt á síðasta þingi, eins og ég gat um áðan. Því var þá vísað að lokinni 1. umr. til 2. umr. og hv. fjhn. Erfðafjársjóðurinn er samkv. lögum í vörzlum Tryggingastofnunar ríkisins, og stjórn þeirrar stofnunar ræður því yfir því fé, hvernig því er varið á hverjum tíma, og með því að hér er ekki um að ræða neitt fjárhagsmál fyrir ríkið, þar sem erfðaféð er þegar tekið út af fjárlögum, er hér raunverulega um hreint félagsmál að ræða. Ég vil því leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn., einkum þó vegna þess, að frv. var á síðasta þingi aldrei tekið til umr. í fjhn. og ekki leitað álits neinna aðila um efni þess. Það er víst, að svo aðkallandi mál sem hér um ræðir má ekki þing eftir þing fá slíka meðferð. Vænti ég, að hv. d. fallist á það og samþykki að vísa þessu máli til 2. umr. og til hv. heilbr.- og félmn. og að sú nefnd að sjálfsögðu leiti umsagna réttra aðila um málið og afgreiði það síðan til umr. hér í þessari hv. d. Ég vænti þess einnig, að þá fái frv. fullnaðarafgreiðslu, svo að það geti orðið að lögum hér á þessu þingi.