07.12.1960
Sameinað þing: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

1. mál, fjárlög 1961

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 180 nokkrar brtt. við frv. til fjárl. og við brtt. hv. fjvn. á þskj. 162, og vildi ég skýra þær í örstuttu máli.

Fyrsta till. mín er um það, að á 13. gr. fjárl. bætist nýr liður, fjárveiting til Vatnsendavegar, og verði sú fjárveiting 130 þús. kr. Vatnsendavegur liggur til fremstu bæja í Eyjafirði fram, austan Eyjafjarðarár, einmitt á þeim slóðum þar í sveit, sem einna erfiðast er fyrir bændur að koma frá sér mjólkurframleiðslu sinni á vetrum. Vegur þessi var undirbyggður fyrir nokkrum árum fyrir fjárlagafé, en fjárveiting entist þá ekki til þess að bera ofan í veginn, og hefur svo staðið um hríð, að brotizt hefur verið eftir þessum vegi svo komnum. Að dómi yfirverkstjóra vegagerðarinnar nyrðra eru nú orðnar fyrirsjáanlegar skemmdir á því verki, sem þegar hefur verið unnið, ef ekki verður nú undinn að því bugur að ljúka gerð vegarins. Sýnist því ekki búmannslega að farið að draga á langinn fjárveitingu til þess að ljúka þessu verki, en sú upphæð, sem ég legg til að veitt verði til þessa verks, mundi nægja til þess, að svo yrði gert á næsta ári.

Rétt þykir mér að geta þess, að þess var kostur frá hendi meiri hl. fjvn., að n. flytti till. um þessa fjárveitingu, ef upphæðin yrði þá dregin frá öðrum fjárveitingum til vega í Norðurlandskjördæmi eystra. En allir tilkvaddir þm. kjördæmisins voru sammála um, að þær till., sem gerðar eru á þskj. 162, væru enn brýnni, og þar sem þeim sem öðrum var aðeins gefinn kostur á að færa til framlög milli einstakra liða, er sá einn kostur nú fyrir hendi að freista þess að fá þennan lið inn sem hækkun á heildarfjárveitingu.

Þá legg ég til, að framlag til Múlavegar verði hækkað úr 300 þús. kr. í 500 þús. kr., og yrði þá heildarframlag til hans 800 þús. kr., að viðbættu því fé, sem til hans er ætlað af benzínskatti. Ég hygg, að hv. alþm. sé svo kunnugt orðið um þessa vegarframkvæmd, að varla sé þörf á að hafa um hana mörg orð. En augljóst er, að þessi vegargerð getur nærri því að segja ráðið úrslitum um framtíð eins af stærri kaupstöðunum á Norðurlandi, þ.e.a.s. Ólafsfjarðarkaupstaðar. Í fyrrahaust, þ.e.a.s. fyrir viðreisnina, var áætlað, að þá skorti um 6.4 millj. kr. til þess að ljúka vegargerðinni fyrir Ólafsfjarðarmúla, og á s.l. ári nam fjárveiting til hans 600 þús. kr. Samkvæmt því kynnu menn að óathuguðu máli að álykta, að eftir væri framkvæmd, sem kostaði 5.8 millj. kr. En svo er þó ekki. Viðreisnin hækkaði áætlað kostnaðarverð vegarins úr 6.4 millj. í 7.9 millj., eða um 11/2 millj, kr., miðað við núverandi verðlag. Það er því þannig, eð þó að unnið hafi verið fyrir 600 þús. kr. á þessu ári, þá skortir nú meira fé á að ná takmarkinu en á vantaði fyrir viðreisn. Tveggja til þriggja ára framlag, eins og nú er ráðgert, fer aðeins til að vega á móti viðreisnarhækkuninni, og þó að fjárveiting yrði nú hækkuð í 800 þús. kr. og stæði svo framvegis, þá mundi samt taka 9–10 ár að ljúka þessari bráðnauðsynlegu vegargerð, og sýnist það ærinn tími og raunar miklu lengri en viðunanlegt geti talizt.

Á síðasta þingi flutti ég ásamt hv. 4. þm. Norðurl. e. till, að ósk bæjarstjórnar Ólafsfjarðar um heimild til ríkisábyrgðar vegna 3 millj. kr. lántöku, sem bæjarstjórn Ólafsfjarðar hugðist taka til Múlavegar, en sú till. var þá felld af stjórnarliðinu, og þykir mér því tilgangslaust að sýna slíka till. nú. Hins vegar væri ekki ólíklegt, að hv. Alþingi vildi fallast á að auka fjárveitingu svo, að verkið tæki ekki lengri tíma en það hefði gert með sömu fjárveitingu og veitt var s.l. ár, að óbreyttu verðlagi, sem sagt að bæta þessari framkvæmd viðreisnaraðgerðirnar.

Djúpidalur er þverdalur, sem gengur inn úr Eyjafirði fram að vestanverðu. Djúpadalsá er brúuð á þjóðveginum fram Eyjafjarðardal, en nauðsynlegt er og reyndar fyrirhugað að brúa hana framar, hjá bæ þeim, sem heitir að Völlum, og er áætlað, að sú brú kosti um 300 þús. kr. eða þar um þil. Þessi brúargerð hefur verulega almenna þýðingu fyrir samgöngur bænda í Djúpadal, en er auk þess nærri því að segja lífsnauðsyn þess eina ábúanda, sem nú þýr austan árinnar og verður við núverandi aðstæður að brjótast daglega yfir ána á hestum með afurðir bús síns. Ég legg til, að þessari framkvæmd verði tryggð nauðsynleg fjárveiting, 300 þús. kr.

Það er öllum kunnugt, að Öxnadalsheiði er einn fjölfarnasti og mikilvægasti fjallvegur á Íslandi, og liggur um hana lífæð samgangna á landi, sem tengir allt austanvert Norðurland og meginhluta Austurlands við vegakerfið á Vestur- og Suðurlandi. Þýðing þessarar leiðar er ómetanleg, ekki aðeins til mannflutninga, heldur einnig í vaxandi mæli sem vöruflutningaleið, enda er nú orðið lögð höfuðáherzla á að halda veginum opnum á vetrum, svo sem nokkur kostur er á. En vegurinn um Öxnadalsheiði er ekki aðeins mikilvægur og fjölfarinn. Á vetrum er hann jafnframt einn hættulegasti vegarkafli á landinu, bæði sakir landslags og veðráttu. Nauðsyn þess að komast þennan veg árið um kring veldur því, að fast eru sóttar ferðir um veginn, einkum með stórum vöruflutningabifreiðum að vetrinum, þó að færð sé ill og slysahætta mikil. Svo segir í þekktu kvæði, að það sé „annað að kveðja á Kotum en komast í Bakkasel“, enda hefur það alloft reynzt svo, að hörmuleg slys hafa orðið þar á heiðinni og að þeir, sem heilir hafa lagt á hana frá fremsta bænum í Norðurárdal, hafa kannske komizt við illan leik slasaðir í Bakkasel eða jafnvel týnt lífinu, áður en þangað var komið. Í sem skemmstu máli: Allir, sem þekkja til vetrarferða um Öxnadalsheiði, telja það höfuðnauðsyn, sem jafnvel líf manna geti oltið á, að í Bakkaseli sé öll aðstaða til þess að veita ferðamönnum allan beina og aðhlynningu á vetrum, og helzt, að þar væri svo búið, að þaðan mætti vænta nokkurrar aðstoðar, þegar í nauðir ræki. En svo er nú komið frá s.l. vori, að í Bakkaseli er auður bær, og leiðin milli bæja hefur lengzt um milli þriðjungs og helmings. Það þykir augljóst, að eina leiðin til þess að fá úr þessu bætt og auka öryggi á þessum hættulegasta fjallvegi landsins er sú, að búanda í Bakkaseli séu boðin slík fjárhagsleg fríðindi, að þau nægi til þess, að byggð haldist þarna eða a.m.k. varðstaða á vetrum. Ég legg því til, að 12. liðurinn á 13. gr. fjárl. hækki um 30 þús. kr. og að 50 þús. kr. af því fé, Sem varið er til þess að halda uppi byggð og gistingu fyrir ferðamenn, verði varið til þess að tryggja öryggi vegfarenda um Öxnadalsheiði.

Fjárveiting til Akureyrarhafnar hefur samkvæmt till. fjvn. verið lækkuð um 100 þús. kr. frá síðustu fjárlögum. Með tilliti til þess, að ríkið skuldar Akureyrarhöfn nokkuð á aðra millj. kr. og fyrirhugaðar eru þar mjög miklar framkvæmdir, jafnvel þær mestu hafnarframkvæmdir, sem um er að ræða í landinu, þá virðist þessi lækkun vera mjög ómakleg, og legg ég til, að fjárveiting verði óbreytt frá því, sem var á fjári. þessa árs.

Þá legg ég einnig til, að hækkað verði framlag til dráttarbrautar á Akureyri um 250 þús. kr. Ef að líkum og vonum fer, verða framkvæmdir hafnar á næsta ári við dráttarbrautina, og mundi, ef allt færi sem menn vonast eftir, verða lokið á ekki lengri tíma en tveimur árum. Handbært fé til þess að hefja með byggingu dráttarbrautarinnar mun nú nema á milli 4 og 5 millj. kr., en áætlaður heildarkostnaður er nú orðinn um 20 millj. kr. Hér hefur viðreisnin komið við sögu eins og viðar. Afleiðing hennar hefur að þessu leyti orðið m.a. sú, að kostnaðarverð þessara framkvæmda hefur hækkað um a.m.k. 5–6 millj. kr. af hennar völdum, þ.e.a.s. hækkun af völdum viðreisnarinnar hefur orðið meiri en það fé, sem nú er handbært til framkvæmdarinnar. Hún hefur þannig raunverulega étið upp öll þau framlög, sem bæði Akureyrarbær og fjárveitingavaldið hafa hingað til veitt til hennar. Það er því mikil nauðsyn á, að framlagið til dráttarbrautarinnar verði nú hækkað, og tel ég, að hér sé farið fram á algert lágmark, miðað við það, að komið er nú að því að vinna verkið.

Þá legg ég til, að framlag til Húsavíkurhafnar verði hækkað um 75 þús. kr., úr 325 þús. í 400 þús. kr. Í Húsavík hefur verið nú um allmargra ára skeið unnið mjög skipulega og vel að hafnarframkvæmdum, sem eru lífsnauðsynlegar til þess að tryggja öryggi fyrir vaxandi bátaflota og nauðsynlega athafnamöguleika, og Húsvíkingum er rík þörf á nokkurri hækkun fjárveitingar í þessu skyni..

Fimmta till. mín á þskj. 180 er sú, að framlag til Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, hækki úr 25 þús. kr. í 100 þús. kr. Þessi félagsskapur hefur á þeim liðlega tveim árum, síðan hann var stofnaður, unnið stórvirki í málefnum öryrkja, m.a. með félagslegu starfi, sem hefur vakið öryrkjana til mjög þróttmikilla athafna í sínum eigin málum og gefið þeim nýjar vonir um framtíð sína. Á Akureyri t.d. er þegar risið félags- og vinnuheimili þessa félagsskapar, og vinnustofum hefur verið komið á fót víðar. Og allt hefur þetta verið gert að mjög verulegu leyti fyrir fé, sem öryrkjarnir sjálfir hafa unnið sér inn eða safnað með ýmsum hætti. Það liggur nú fyrir, að fá verði þessum samtökum nauðsynlegan tekjustofn til þeirra brýnu og þjóðnauðsynlegu framkvæmda, sem þau hafa með höndum, með hliðstæðum hætti og gert hefur verið t.d. varðandi S.Í.B.S., Styrktarfélag vangefinna, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra og fleiri hliðstæð samtök. En enn er slíkt ekki komið í höfn hér á hv. Alþingi og enginn fjárhagslegur stuðningur veittur þessum samtökum annar en 25 þús. kr. framlag til sambandsins og byggingarstyrkur til félags- og vinnuheimilis samtakanna á Akureyri, sem að sjálfsögðu er þakkarvert út af fyrir sig. En sambandi Sjálfsbjargarfélaganna er það brýn nauðsyn að fá ríflegra framlag en hér hefur verið fyrirhugað til hinnar almennu félagslegu starfsemi sinnar, m.a. til þess að geta haldið uppi upplýsingastarfsemi og félagslegri aðstoð við skjólstæðinga sína frá fastri miðstöð hér í Reykjavík. Og í raun og veru væri þessi þörf jafnbrýn, þó að hv. Alþingi bæri gæfu til þess síðar á þessu þingi að tryggja samtökunum tekjustofn til þess að koma upp vinnustofum fyrir öryrkja. Það er mín skoðun, að fáu fé sé öllu betur varið til almenningsheilla en því, sem fer til þess að styrkja sjúka og örkumla til sjálfsbjargar, né heldur sé líklegra, að annað fé skili sér betur aftur í afkomu landsmanna í heild.

Síðasta till. mín varðar flugvöllinn á Þórshöfn á Langanesi, en þar er, eins og hv. þm. er kunnugt, flugvöllur, sem hefur mjög mikla þýðingu fyrir samgöngur á Norðurlandi austanverðu og fyrir nyrðri byggðir Austurlands. M.a. fara um þennan flugvöll allar loftsamgöngur, aðrar en sjúkraflug til Raufarhafnar, en á sumrum eru þær samgöngur mjög mikilvægar fyrir síldveiðarnar og síldarsöltunina. Flugvöllurinn á Þórshöfn er svo til að öllu leyti gerður af náttúrunnar hendi, og hefur ekki verið kostað til meira en um 100 þús. kr. til þess að gera völlinn það, sem hann nú er, og mun slíkt algert einsdæmi um flugvöll, sem jafnmikil umferð er um og þennan flugvöll. En svo er nú komið, að vegna mikillar umferðar hefur völlurinn urizt svo upp, að ekki þykir verða hjá því komizt að mölbera hann allan með góðu bindilagi, 30–40 cm á þykkt. Er kostnaður við þá framkvæmd áætlaður í kringum 130 þús. kr., og gerir tillaga mín ráð fyrir því.