26.01.1961
Neðri deild: 50. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í C-deild Alþingistíðinda. (2080)

159. mál, varnir gegn útbreiðslu kartöfluhnúðorma

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 278, um varnir gegn útbreiðslu kartöfluhnúðorma og æxlaveiki í káljurtum og útrýmingu þeirra, er flutt af landbn. þessarar hv. d. samkv. ósk hæstv. landbrh., og svo sem tíðast mun vera, þegar þingnefndir flytja frumvörp eftir ósk ráðuneytanna, höfum við nm. í landbn. óbundnar hendur um afstöðu okkar til frv. og áskiljum okkur rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma við það.

Um frv. þetta þarf ég ekki að hafa mörg orð. Það lá einnig fyrir síðasta þingi, og hafa því hv. þm. átt þess kost að kynna sér efni þess. Með því er stefnt að skipulegri starfsemi til varna gegn útbreiðslu þeirra jurtasjúkdóma, sem í frv. eru nefndir, og annarra, er upp kunna að koma, og að útrýmingu þeirra. Frv. gerir ráð fyrir, að starfsemi þessi verði falin þriggja manna nefnd, jurtasjúkdómanefnd, sem sé þannig skipuð, að þrír aðilar, Búnaðarfélag Íslands, framleiðsluráð landbúnaðarins og Garðyrkjufélag Íslands, skipi sinn manninn hver. Landbrh., sem hafi yfirstjórn þessara mála, skipi síðan einn nm. formann, sem jafnframt sé framkvæmdastjóri jurtasjúkdómanefndar. Kostnaður, sem leiða kann af störfum þessarar nefndar, gerir frv. ráð fyrir að greiðist úr ríkissjóði.

Jurtasjúkdómar þeir, sem nefndir eru í frv., hnúðormar í kartöflum og æxlaveiki í káljurtum, eru orðnir allútbreiddir jurtasjúkdómar hér á landi, en finnast þó ekki enn í öllum landshlutum. Kartöfluhnúðormar eru allútbreiddir hér um Suðvesturland og Suðurland og finnast einnig á einstökum stöðum á Vestfjörðum og á Norðurlandi. Kálæxlaveikin hefur einkum fundizt á jarðhitasvæðum hér í nágrenni höfuðborgarinnar og í Árnessýslu, en mun þó vera að finna víðar, þó að ekki sé um vitað. Báðir þessir sjúkdómar valda þeim, sem garðyrkju stunda, verulegu tjóni í rýrnandi uppskeru, og væri því mikils um vert, ef hægt væri að útrýma þeim úr landinu, og það telja þeir, sem þetta frv. hafa samið, svo sem sjá má af grg. þeirra, vera mögulegt, ef unnið væri að sem frv. gerir ráð fyrir.

Þó munu menn ekki vera sammála um þetta. Á síðasta þingi bárust landbn. umsagnir frá ýmsum aðilum, sem hún vísaði málinu til, og þær umsagnir voru langt frá því að vera á eina lund. Einkum greindi menn á um ákvæði frv. varðandi útrýmingu kálæxlisins, t.d. benti garðyrkjuráðunautur Búnaðarfélags Íslands á, að torvelt mundi reynast og ærið kostnaðarsamt að útrýma kálæxlinu, sem leggst á allar jurtir af krossblómaætt, jafnt á villijurtir sem nytja- og skrautjurtir. Enn fremur er það álit plöntusjúkdómafræðinga, að æxlið geti lifað í jarðveginum í 7–8 ár, eftir að jurtirnar eru þó horfnar af þessum svæðum. Það mun því ekki auðvelt að útrýma þessum kvilla. En sjálfsagt er að stemma stigu fyrir útbreiðslu hans, eftir því sem framkvæmanlegt er, t.d. með því að banna sölu káljurta af sýktum svæðum, svo sem ráð er fyrir gert í þessu frv. En að banna algerlega ræktun káljurta á þessum svæðum er að minni hyggju ekki eins auðvelt, enda mun það vera svo, að sé réttum ræktunar- og varnarráðstöfunum beitt, þá er unnt að halda sýkinni svo í skefjum, að um tilfinnanlegt tjón þurfi ekki að vera að ræða.

Ég var farinn af þingi í fyrra, áður en allar umsagnir um frv. bárust landbn., en eftir að hafa gluggað lítillega í þær nú, þá hygg ég, að þetta mál sé ekki alveg eins einfalt og auðvelt til lausnar og frv. kann þó að benda til. Ég hygg því, að það sé rétt, að landbn. athugi málið nánar nú á milli umræðna, en ég legg til, herra forseti, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.