17.02.1961
Neðri deild: 65. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í C-deild Alþingistíðinda. (2109)

167. mál, verðflokkun á nýjum fiski

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í þessu frv. um verðflokkun á nýjum fiski, sem hér liggur fyrir til umr., eru raunverulega ekki nema tvö efnisatriði. Annað atriðið er það að lögfesta flokkunarreglurnar og hitt atriðið að ákveða, að verðið í hverjum flokki skuli ákveðið á þann hátt, sem þar segir, og ef ekki næst samkomulag, þá að mér skilst með nokkurs konar gerðardómi.

Mér finnst, að bæði þessi atriði séu allvarhugaverð. Hv. þm., 1. flm., sagði í sinni framsöguræðu, að ferskfiskeftirlitið hefði nú gefið út reglugerð um meðferð fisksins og mat á honum, og það er rétt. Sú reglugerð er gefin út í sjútvmrn. 13. jan. s.l., og þar er kveðið á um, hvernig fiskurinn skuli flokkaður.

Í grg. fyrir frv. segja flm., að með frv. þessu sé gert ráð fyrir, að verðflokkun fisks verði algerlega byggð á gæðamati fiskeftirlits ríkisins. Þetta er þó ekki rétt nema upp að vissu marki. Í þessu lagafrv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir 3 flokkum og aðeins 3 flokkum, en í reglugerðinni, sem vitnað er til og sagt er að frv. sé byggt á, stendur, með leyfi hæstv. forseta, í 37. gr., að „meta má í fleiri flokka, ef verðlagsgrundvöllur eða aðrar ástæður gefa tilefni til“. Þetta bendir til þess, að það sé haft í huga, að flokkarnir geti orðið fleiri, og þá er, að ég tel, ekki hagkvæmt að vera búinn að lögfesta þá skiptingu, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég vil í heild segja um það, að ég tel þetta miklu frekar reglugerðarákvæði en það eigi að setjast um það lög. Þetta er samkvæmt eðli sínu þannig, að það getur komið til, að skyndibreytingar þurfi á flokkunarreglunum að gera, og þá er það miklu þyngra í vöfunum að vera búinn að lögfesta þessar reglur heldur en hafa þær aðeins bundnar í reglugerð, því að lögum er utan þingtíma ekki hægt að breyta nema þá með útgáfu brbl., sem auðvitað ber að forðast í lengstu lög. Ég tel þess vegna, að það orki mjög tvímælis, að það sé heppilegt að fara út í það að lögfesta þessar flokkunarreglur, sem nefndar eru í 1. gr., beinlínis vegna þess, að ég tel, að það sé eðlilegra og rýmra að hafa þetta ákveðið í reglugerð heldur en í lögum.

Það kom líka fram í umr. hér áðan, bæði hjá hv. flm. og hjá hv. 5. þm. Vestf., að lögin um ferskfiskmatið eru tiltölulega ný, þau eru frá síðasta þingi, og það er þess vegna ekkert óeðlilegt, að við framkvæmd þeirra komi í ljós ýmsir byrjunarörðugleikar, þar sem reynslu skortir alveg um framkvæmdina. Hjá okkur hefur aldrei verið gerður sá greinarmunur á nýjum fiski upp úr sjónum, eins og nú er gert ráð fyrir, heldur hefur fiskurinn verið seldur á mikið til jöfnu verði, en nýmælið, sem í l. um ferskfiskmatið felst, er að gera mjög mikinn og strangan mismun á gæðavöru og lélegri vöru. Ég held þess vegna, að það þurfi og sé ekkert óeðlilegt, að það þurfi nokkurn tíma til þess að koma þessum hlutum í fastar skorður og að það sé einmitt, á meðan þetta er ekki komið í fastar skorður, ástæða til þess að binda það ekki um of og allra sízt í lögum.

Hitt efnisatriðið, sem hv. flm. gat um líka og eins hv. 5. þm. Vestf., sem talaði hér áðan, er um, að fiskverðið í hverjum verðflokki skuli ákveðið á þann hátt, sem í greininni segir, í fyrsta lagi með samkomulagi á milli aðila, ef mögulegt er, fiskseljenda og fiskkaupenda, en ef það samkomulag næst ekki, þá verði sáttasemjari ríkisins í vinnudeilum látinn taka sæti í þessari verðákvörðunarnefnd með fullum atkvæðisrétti, sem þá væntanlega í flestum tilfellum sker úr, þar sem seljendur og kaupendur eru jafnmargir eða fulltrúar þeirra, og hlýtur þess vegna þetta ákvæði að verka eins og gerðardómsákvæði um matið. Að vísu segir mjög mildilega í grg., að sáttasemjari ríkisins skuli hafa hönd í bagga með störfum samninganefndanna. Það þykir eitthvað mildara orðalag að segja það, að hann skuli hafa hönd í bagga með störfum samninganefnda, heldur en beint, að hann skuli vera oddamaður í gerðardómi. En ég tel, hvað sem hugsuninni um gerðardóminn líður, sem ég skal ekki fara út í að deila um hér á þessu stigi, að þá sé mjög hæpið að draga sáttasemjara ríkisins inn í þá aðstöðu að verða oddamaður í gerðardómnum. Sáttasemjari ríkisins þarf í öllum tilfellum að hafa trúnað beggja aðila, en það er ósköp hætt við því, að þeim aðilanum, sem undir verður í þessari gerðardómsákvörðun, finnist hallað á sig og hljóti þá að kenna sáttasemjara ríkisins um, þar sem hann beinlínis sker úr um það, hvernig þessi ákvörðun verður gerð. Ef endilega á til gerðardóms að taka, eins og hv. flm. endilega virðast vilja, þá álít ég, að sáttasemjari ríkisins sé sá sízti maður, sem ætti að vera oddamaður í þessum gerðardómi. Það mætti kannske vera, eins og hv. 5. þm. Vestf. orðaði hér áðan, einhver hæstaréttardómari eða einhver annar maður, sem þá yrði ekki dreginn inn í hin almennu viðskipti launþega og atvinnurekenda. Ég tel sem sagt, að sáttasemjari ríkisins sé um það bil sá óheppilegasti maður, sem hægt sé að draga inn í þetta.

En að öðru leyti verð ég að segja, að á meðan ekki er komin meiri reynsla á þetta mál heldur en komin er, þá tel ég líka óþarft og a.m.k. vafasamt, að það sé ástæða til að binda þessa verðákvörðun með lögum, eins og lagt er til í frv, að gert verði. Ég tel miklu nær, að það verði látinn nokkur tími líða og séð, hvernig tekst um frjálst samkomulag á milli aðila. Ég skal taka undir það líka með hv. 5. þm. Vestf., að ég tel sjálfsagt og eðlilegt, að fulltrúar sjómannasamtakanna í landinu verði aðilar að þessari verðákvörðun, ekki síður en útgerðarmenn, þó að þeir hafi ekki orðið það í þetta skipti, sem skýrt var frá líka af honum, hvernig stóð á, þar sem var enn í lögum ákveðið skiptaverð, sem byggt var á, þegar verðið var ákveðið.

Ég veit nú ekki, hvort ég hefði farið út í að ræða þetta mál sérstaklega á þessu stigi, ef ekki hefði komið annað til, sem var, að hv. 1. flm. notaði tækifærið til þess að ræða nokkuð um mismuninn á fiskverðinu í Noregi og hér heima og fór þar mjög í sama farið og hann gerði síðast, þegar þau mál voru til umr., en ég hélt, að þau hefðu orðið útrædd í bili þá, þar sem málið er nú komið til nefndar og nefndin hefur aðgang að öllum þeim gögnum, sem fyrir liggja, til þess að setja sig inn í það og skera úr um það, hvernig þeim málum er varið. En að þessu gefna tilefni skal ég fara um það nokkrum orðum.

Hv. þm. sagði í fyrsta lagi, að það væri óeðlilegt að bera saman verðlag í Noregi í fyrra við verðlag á Íslandi nú. Annaðhvort yrði að miða verðlagið í Noregi í fyrra við verðlagið á Íslandi í fyrra eða verðlagið í Noregi nú við verðlagið á Íslandi nú, og get ég út af fyrir sig fallizt á, að það sé rétt. En ég vil undirstrika enn og aftur, að það, sem gert er í till, til þál. um rannsókn á fiskverðinu eða samanburð á fiskverðinu hér og í Noregi, er það, að gengið er fram hjá því í till. við þennan samanburð, að það, sem þeir bera saman, er fiskverðið í Noregi í fyrra í hæsta verðflokki við verð á Íslandi, sem var nokkurn veginn sama verð fyrir allar gæðategundir af fiski hér. Þetta er það, sem gerir það að verkum, að sá mismunur kemur fram, sem fram hefur komið í grg. fyrir þeirra till. Og þetta er rangt og ósanngjarnt. Ef á að bera saman verðið í Noregi og hér, þá verður að bera saman verðið í tilsvarandi flokkum. Norðmenn höfðu bæði í fyrra og í hittiðfyrra og hafa sjálfsagt haft í langan tíma mjög mikla skiptingu á aflanum eftir gæðum, og þeir hafa líka greitt hann eftir gæðum. En hér er þessi gæðaskipting fyrst komin í framkvæmd nú á þessu ári. Ef þess vegna á að bera saman sambærilega hluti, þá er ekki hægt að taka aðrar tölur til samanburðar en þær tölur, sem nú liggja fyrir, eftir að farið hefur verið út í það hér að meta fiskinn eftir gæðum upp úr sjó. Það er algerlega rangt að bera saman fiskinn í hæsta gæðaflokki í Noregi við meðalverðið hér á Íslandi áður, en það er það, sem þeir hafa gert, hv. flm. þessarar rannsóknartill., bæði í grg. fyrir henni og eins í þeim umr., sem hér hafa farið fram.

Hv. 4. þm. Austf. sagði að vísu, að ég hefði látið mig hafa það að bera saman það, sem væri lágmarksverð í Noregi, við hæsta verð hér á Íslandi. Þetta er líka tilraun til þess að blekkja. Það, sem ég bar saman, var verðið á hæsta gæðaflokknum í Noregi, — í fyrra að vísu, því að ég hafði þá ekki tölurnar eins og þær verða í ár, við verðið á hæsta gæðaflokknum hér á landi, eins og hann er nú, en útkoman úr þeim samanburði varð sú, að mismunurinn varð allt annar en þeir vildu vera láta og miklu minni, og ef öll kurl kæmu til grafar, þá heldur íslenzka verðinu í vil. Þetta ætla ég, að ég geti staðið við, samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef um þetta fengið.

Hv. 4. þm. Austf. sagði líka, að upplýsingar mínar um verðuppbæturnar í Noregi væru jafnvel rangar, eða a.m.k. vildi hann gera þær tortryggilegar. En ég sagði um þær skv. skýrslum, sem ég hef um þær fengið, að verðuppbæturnar hefðu numið á þorsk frá 5 til 17 aurum á hvert kg, og af því að þær voru mismunandi á hinum mörgu verðlagssvæðum, reiknaði ég með meðaltali á milli 5 og 17, þ.e.a.s. með 11 aurum á kg. Í till. þeirra hv. 4. þm. Austf. og hv. 6. þm. Sunnl. um rannsókn á fiskverðinu er því raunar alveg skotið undan, að um nokkrar verðuppbætur hafi verið að ræða. En það liggur alveg ljóst fyrir, að einmitt verðuppbæturnar koma mjög til athugunar í sambandi við verðútreikninginn, þegar um hæsta verðið er að ræða, því að hæsta verðið í Noregi helgast einmitt af hæstu uppbótagreiðslunum. Og uppbótagreiðslurnar fara, eins og ég sagði, upp í 17 aura.

Hv. 4. þm. Austf. vildi nú jafnvel vefengja það, að nokkrar uppbótagreiðslur væru fyrir fisk til frystingar. Í skýrslu Fiskifélagsins frá 29. nóv. 1960 voru ekki fyrir hendi niðurstöður um, hverjar uppbótagreiðslurnar hefðu orðið á öllu árinu 1960. En þá verð ég líka, eins og hv. þm. raunar sjálfur gerði, að miða við tölur frá árinu 1959, því að það eru einu fullkomnu tölurnar, sem fyrir liggja. í þessum skýrslum Fiskifélagsins um árið 1959 er svo komizt að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt Årsmelding fra Norges råfisklag voru niðurgreiðslur til fiskkaupenda, sem óbeint koma fram í hærra verði til útvegsins, sem hér segir á árinu 1959, lokaskýrsla fyrir yfirstandandi ár hefur ekki borizt enn: Í fyrsta lagi fyrir þorsk 5–17 norskir aurar á hvert kg eftir verðlagssvæðum og vertíðum, fyrir ýsu til frystingar 13-21 eyrir norskur, fyrir ufsa 5–9 aurar norskir, fyrir löngu og keilu 5–10 aurar norskir og fyrir steinbít 10 aurar norskir, alls staðar miðað við slægðan og hausaðan fisk.“

Þessar upplýsingar ætla ég að séu réttar, og hef ég a.m.k. enga ástæðu til þess að vefengja þær. En séu þessar upplýsingar um uppbæturnar teknar til greina og uppbæturnar dregnar frá norska fiskverðinu og síðan tekin til greina sú gæðamatsskipting, sem á sér stað í Noregi og það verð er miðað við, sem hv. flm. till. hafa reiknað með í hæsta flokki, — þó að það sé þar lágmarksverð, þá er það ekki lágmarksverð á alla flokkana, það er lágmarksverð í hæsta flokknum, — þá verður mismunurinn, sem þeir vildu láta vera á meðalstórt frystihús, í kringum 3 millj., og á venjulegan vertíðarbát, 700–800 þús. kr., hann verður enginn. Þetta ætla ég svo ekki að ræða meir, en það er alveg sama, hvernig þessu er velt fram og til baka, niðurstaðan er þessi.

Um sjálft frv., sem hér liggur fyrir, skal ég aðeins segja það, að ég er í miklum vafa um, að það sé til nokkurs gagns fyrir þá, sem það á að vera til gagns, heldur geti það skapað erfiðleika og óþægindi í framkvæmd ferskfiskmatsins og að það sé ekki rétt að fara út í að svo stöddu að lögbinda verðákvörðunina, eins og frv. gerir ráð fyrir, fyrr en frekari reynsla er fengin af því, hvernig tekst um samkomulag á þessu sviði, þó að ve1 megi ef til vill athuga þetta, ef þetta samkomulag er ekki fyrir hendi og ef þessir hv. þm. leggja, eins og hér virðist koma fram, svona mikið upp úr því að lögfesta gerðardóminn í þessum vinnudeilum. Ég tel raunar, að ef til þess kæmi, að út í slíka lögfestingu yrði farið, þá væri sáttasemjari ríkisins óheppilegasti maðurinn til þess að taka sæti í og kveða upp úrskurð í slíkum gerðardómi.