21.02.1961
Neðri deild: 67. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í C-deild Alþingistíðinda. (2113)

167. mál, verðflokkun á nýjum fiski

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér síðast til umr., beindi hv. fyrri flm., hv. 4. þm. Austf., til mín fsp. nokkurri, sem ég vil ekki láta ósvarað, þó að ekki gæfist tækifæri til að gera það þá, vegna þess að fundartíminn var á enda, þegar hann hafði lokið sínu máli. Hv. þm. spurði, hvort það væri álit mitt, að leggja bæri gæðamatið til grundvallar við verðflokkun fisksins, eða hvort ég væri þeirrar skoðunar, að frekar ætti að hafa annan hátt á. Ég skal svara þessu alveg eindregið, að til þess er gæðamatið sett á laggirnar, að til þess er ætlazt, að það geti orðið grundvöllur undir þá verðflokkun, sem gildir um verð fisksins, sem seldur er til vinnslu hverju sinni. Þó að það hafi orðið ofan á í þetta fyrsta skipti, sem gæðamatið kemur til framkvæmda, að nokkuð annar háttur hafi verið hafður á, þá álít ég það í fyrsta lagi enga frambúðarlausn og í raun og veru óheppilegt, að þá leið hefur verið farið. En skýring er þó til á því, sem er sú, að menn hafa litla eða enga reynslu enn af gæðamatinu og þess vegna kannske ekki óeðlilegt, að menn séu nokkuð bundnir við fyrri hugmyndir í þessu efni. En fyrri hugmyndir manna í þessu efni voru fyrst og fremst þær, að netafiskur og línufiskur væru mismunandi vara, sem strax gæfi tilefni til þess að verðflokka eða verðleggja fisk. Það er þess vegna sjálfsagt sá gamli hugsunarháttur, sem hefur ráðið því að einhverju leyti a.m.k., að þessi leið hefur verið farin. En ég tel, eins og ég sagði, sjálfsagt, að gæðamatið sjálft á fiskinum, þegar hann kemur í land, verði látið ráða því, í hvaða verðflokki hann lendir.

Ég skal svo ekki ræða það frekar. En ég skal aðeins, úr því að ég tók til máls á ný um þetta, minnast örlítið á það, sem bæði þessi hv. þm. og hv. 6. þm. Sunnl, komu inn á í sínum ræðum hér síðast um gerðardómsákvæði 2. gr.

Þessir þm. báðir vildu sem sagt reyna að smeygja sér fram hjá því, að í 2. gr. fælust nokkur gerðardómsákvæði af nokkru tagi. En þetta er vitaskuld fjarri öllu lagi. Það, hvað. sjómaðurinn ber úr býtum, markast af tvennu. Annars vegar af því, hvað hann fær stóran hlut af aflanum, og í öðru lagi hinu, hvaða verði þessi aflahlutur hans er seldur. Og þetta síðara atriði, á hvaða verði aflahluturinn er seldur, er vissulega ekki þýðingarminna en hitt, hvað hann fær stóran hlut af aflanum. Ég er þeirrar skoðunar, að það muni mjög fljótlega komast á nokkuð föst ákvæði eða fastar reglur um skiptinguna á milli bátseigenda annars vegar og þeirra, sem á skipunum starfa, hins vegar og þess vegna verði raunverulega ekki neinn vafi um, hvað sjómaðurinn ber úr býtum, nema vegna þess, hvaða verð er greitt fyrir aflann. Ég tel þess vegna, að aflaverðið verði í framtíðinni það, sem nánast sker úr um það, hvað sjómaðurinn eða starfandi menn á skipunum bera úr býtum. Ég tel þess vegna, að það sé, — ég vil ekki orða það sterkara en að segja, að það sé mjög varhugavert að fara þessa leið og það sé langæskilegasta aðferðin, að aðilarnir komi sér hreinlega saman um það, eins og raunar er gert ráð fyrir líka í frv., þó að þar sé gert ráð fyrir aðferð, ef menn koma sér ekki saman, sem raunverulega getur orðið tekin til notkunar eða til framkvæmda mjög fljótlega, eftir að menn hafa byrjað að tala saman, því að það er ekkert um það í frv., hve langur tími á að líða, frá því að viðræður hefjast á milli fiskkaupenda og fiskseljenda og þangað til sáttasemjari getur komið þar inn sem 13. aðili í ákvörðun verðsins. Ég held þess vegna, að það verði ekki með neinu móti fram hjá því komizt, að þessi aðferð er gerðardómur í málinu og ekkert annað. Og ég vil segja meira. Ég tel, að það liggi fyrir, að það sé ekki heppilegt að fara þessa leið, heldur að þetta eigi að vera samkomulagsatriði og verði að vera samkomulagsatriði á milli fiskseljendanna og fiskkaupendanna, hvert verðið verður.

Það er nú, sem betur fer, komið svo, að samkomulag hefur orðið á flestum stöðum landsins um þau mál, sem hér er gert ráð fyrir að lögfesta og einungis fyrir árið 1961. Ég tel þess vegna þegar af þeirri ástæðu, að frv. sé óþarft, hvað sem um það er að segja að öðru leyti.

Hv. 4. þm. Austf. kom inn á það í sínum tveim síðustu ræðum, hversu mikill verðmismunur væri á fiskinum upp úr sjó hér á Íslandi og í Noregi. Hann er raunar horfinn frá því, held ég, að mestu leyti að gera samanburðinn fyrir liðna tíð, heldur hefur hann nú fært sig yfir á þann vettvang að segja, hvað verðið muni verða, sem greitt verður í Noregi á þessari vertíð, og hefur talið, að það verð væri miklu hærra en okkar. Ég skal viðurkenna það, að ég hef ekki haft aðstæður til þess að kanna þetta. En af undanförnum fullyrðingum þessa hv. þm. tel ég rétt og sjálfsagt að taka þessum upplýsingum hans með nokkrum fyrirvara, þó að sjálfsagt verði farið út í að kanna það siðar.

Mér þykir rétt að geta þess að lokum, að ég hef fengið í hendur upplýsingar um það, hverjar tekjur norsks fiskimanns hafi orðið að meðaltali við Lófótfiskiríið á árinu 1960. Og þá kemur í ljós, að meðaltekjur norsks sjómanns alla Lófótvertíðina í fyrra, á árinu 1960, varð með þessu háa fiskverði, sem hv. þm. hefur talið að væri, alls 1906 kr. norskar fyrir alla vertíðina eða rétt í kringum 10 þús. ísl. kr. Þetta þykir mér rétt að komi fram, vegna þess að þetta er, að ég ætla, þó allmiklum mun lægra en íslenzkir sjómenn hafa að launum fyrir sín vertíðarstörf.