17.03.1961
Efri deild: 75. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í C-deild Alþingistíðinda. (2342)

210. mál, fjáröflun til íþróttasjóðs

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja nokkur orð í sambandi við þetta mál, áður en það fer til nefndar, einkum vegna þess, að mér þykir ekki sennilegt, að það verði aðstaða til þess að afgreiða það endanlega á þessu þingi, hvorki jákvætt né neikvætt, hvað sem yrði ofan á í þessu efni.

Það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að af hálfu íþróttasamtakanna og íþróttanefndar ríkisins hefur verið mikill áhugi á því að fá þetta mál tekið upp og fá raunverulega víðtækari samtök um það en frv. ber með sér, eins og það nú er flutt, og einmitt af þeim ástæðum tel ég rétt að komi þegar fram, hvernig á því stendur, að ekki hafa menn úr öllum flokkum talið sér fært á þessu stigi að gerast aðilar að frv.

Það er alveg rétt hjá hv. flm., að hér er um mjög mikið nauðsynjamál að ræða. Skuldir íþróttasjóðs hafa stóraukizt á liðnum árum, og enda þótt fjárveiting til hans hafi verið smáhækkuð og sé nú 2 millj. kr. á ári, hrekkur hún engan veginn til þess einu sinni að halda jöfnuði, þannig að ekki verði um aukningar að ræða á skuldum sjóðsins, heldur er beinlínis um skuldaaukningu að ræða frá ári til árs. Af hálfu fjvn. Alþingis hefur hvað eftir annað verið á það bent í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, að hér væri orðið um svo þungar byrðar að ræða á þessum sjóði, að það yrði að grípa til sérstakra ráðstafana til þess að leysa úr vandræðum hans, því að sannleikurinn er sá, að eins og málinu er háttað, er þetta auðvitað ekki orðinn nokkur starfsgrundvöllur undir sjóðnum. Það má vafalaust um það deila, hvort vinnubrögð hafa verið rétt, sem sjóðsstjórnin hefur fylgt, þ.e.a.s. að viðurkenna mannvirki í svo stórum stíl eins og gert hefur verið, með þeim afleiðingum, að skuldir hafa safnazt fyrir, þannig að nú nema þær hálfum öðrum milljónatug. Hins er þó að gæta nefndinni til afsökunar, að ásóknin er að sjálfsögðu geysimikil og þessum mannvirkjum hefur þó verið komið þetta áleiðis með sérstökum og oft og tíðum mjög miklum fórnum þeirra aðila, sem að þeim hafa staðið, og skal ég síður en svo saka íþróttanefnd, þó að svo hafi farið, eins og raun hefur borið vitni um, varðandi þær kvaðir, sem hún raunverulega hefur samþykkt á sjóðinn. Og það er augljóst, að það verður að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir til að létta á sjóðnum og leysa þennan mikla vanda.

Um það er því enginn ágreiningur, og ég hygg ekki, að það sé neinn ágreiningur um það milli neinna alþingismanna, að þetta sé bæði æskilegt og nauðsynlegt. En þá kemur að hinni hlið málsins, hvernig þetta verði bezt gert. Hér er lagt til, að það verði gert á þann hátt að ]eggja sérstakt gjald á sælgæti, sem nemur 2 kr. á hvert kg, og er gert ráð fyrir, að þessi tekjustofn gefi 1 millj. kr. á ári. Ekki skal ég á neinn hátt lasta þessa hugmynd út af fyrir sig. Þetta er ekki annað en það, sem gert hefur verið í svo mörgum tilfellum, þar sem fjárskortur hefur verið, enda þótt hins vegar verði almennt að segja, að þetta er dálítið hæpin braut, sem út á er farið í sambandi við þær fjáraflanir, sem þegar hafa verið samþykktar varðandi skattlagningu á ýmsa almenna þjónustu eða vörur, sem almenningi eru seldar, sem ætlunin er þannig að gangi til sérstakra þarfa, umfram þá skattlagningu, sem ríki og sveitarfélög hafa með höndum hverju sinni.

Ég hygg, að það verði mjög að íhuga það mál í alvöru, hvað auðið sé að ganga langt í því efni og hvort ekki sé þegar gengið lengra en hæfilegt er. En jafnvel þó að við gætum fallizt á, að það væri ekki óeðlilegt að taka upp slíka skattlagningu, þá kemur þó fleira til, sem verður að íhuga, og það, sem fyrst og fremst ber þar að gæta og er þess valdandi, að mönnum finnst hæpið að leggja út í að taka ákvörðun um þetta efni, a.m.k. nú á þessu þingi, er m.a. það, að uppi eru allháværar raddir um það hjá öðrum aðilum, sem hafa þegar sérstaka tekjustofna til sinna þarfa, að fá annaðhvort hækkun á þeim gjöldum, sem þar eru á lögð, eða þá jafnvel nýja tekjustofna. Og það kom einmitt fram í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e., og ég hygg það byggist á till. nefndar, sem um þau mál hefur fjallað, að það er gert ráð fyrir, að til hliðstæðra þarfa verði teknir fleiri tekjustofnar og þá fyrst og fremst sá, sem hér er um að ræða. Þannig er nú þegar af þeirri ástæðu um beina árekstra að ræða. Þegar fjárlög voru afgreidd nú, lá fyrir ósk um að hækka eldspýtnagjaldið, sem er tekjustofn sá, sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur. Jafnan hefur legið fyrir ákveðin ósk um það af hálfu Styrktarfélags vangefinna, að hið svokallaða tappagjald eða flöskugjald yrði hækkað vegna mikillar fjárþarfar til þess, sem þau samtök vinna að. Ekki hefur enn þótt fært að verða við þessum óskum, hvorki frá Styrktarfélagi vangefinna né Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, m.a. og kannske fyrst og fremst vegna þess, að það hefur ekki þótt heppilegt að leggja nú á sérstaka nýja skatta eða hækka þá. Og þar sem hér bætist svo enn við skattlagning, alveg ný skattlagning, þá er ekki að undra, þótt menn vilji nokkuð stinga við fótum og íhuga málið, án þess að með því sé nokkuð um það sagt, hvort það komi til greina að láta íþróttasjóð hafa þennan skattstofn eða ekki.

Það, sem er sem sagt kjarni málsins, er, að það er talið, að það sé ekki gerlegt að fara út í að samþykkja skattstofn sem þennan fyrir íþróttasjóð, án þess að það yrði um leið að verða að einhverju eða öllu leyti við þeim óskum, sem fram hafa komið, bæði frá Styrktarfélagi vangefinna og Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, en báðir þessir aðilar gegna, eins og við öll vitum, hinu þýðingarmesta starfi, sem er mjög brýn þörf að fá aukið fé til. Ég hygg því, að það verði ekki á neinn hátt hægt að túlka það — enda er það ekki hugsun neinna — sem andstöðu við málefni íþróttasjóðs eða nokkra andúð á þeirri hugmynd út af fyrir sig, sem hér kemur fram um tekjuöflun til hans, þó að ýmsir kunni á þessu stigi málsins ekki að vera reiðubúnir til að taka formlega afstöðu til þessa máls, og ég get tekið undir orð þau, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að þessi mál séu þess eðlis, að það sé nauðsynlegt að taka þau til athugunar sameiginlega. Það er þegar sýnilegt, að það eru þarna á ferðinni beinir árekstrar út af þessum tekjustofnum. Ég álít, að það þurfi að taka bæði til athugunar, að hve miklu leyti auðið er að fara inn á þá braut að heimila sérstaka skattlagningu, eins og hér er um að ræða, ekki aðeins til íþróttasjóðs, heldur einnig til annarra aðila, og í annan stað verði, þar sem nú liggja fyrir margar óskir úr ýmsum áttum um annaðhvort hækkun á slíkum gjöldum eða ný gjöld og beinir árekstrar á milli þessara aðila, þá verði að taka málin til heildarathugunar og því ekki auðið að gera nú á þessu þingi sérstaka ráðstöfun varðandi neinn einstakan aðila þessa máls. Ég tel hins vegar ekkert á móti því, að þessi hugmynd hafi komið fram, sem felst í þessu frv., og það því ekki á nokkurn hátt hafa spillt málinu, allra sízt fyrir íþróttasjóð, þó að vakíð sé máls á þessu áhugamáli sjóðsins. Kann vel að vera, að það sé hægt að benda á einhvern annan tekjustofn, og ég skal játa það fyrir mitt leyti, að mér sýnist, miðað við þær miklu þarfir, sem þarna eru hjá íþróttasjóði, sem skuldar nú þegar um 16 millj. kr., að þá verði þetta ekki ýkjamikil lausn á fjárhagsvandræðum sjóðsins, þó að hann fái þarna ef til vill eina milljón til viðbótar á ári næstu 5 ár, þótt ekki beri hins vegar að lasta þann tekjuauka, sem þar er um að ræða.

Í sambandi við þessa skattlagningu, sem hér er lagt til að farið sé inn á, er auk þess rétt að gera sér grein fyrir því, að hér er um að ræða einn mjög veigamikinn tekjustofn ríkissjóðs, og þegar gjaldið var síðast hækkað af innlendum tollvörutegundum, var um að ræða samdrátt í sölunni. Menn verða því alvarlega að gera sér grein fyrir því, að það er mikil hætta á því, ef boginn er hér hærra spenntur, því að hér er ekki um lögverndaða framleiðslu að ræða, að það geti verið um að ræða innflutning á vissum vörum, sem hér koma til greina. Þá getur orðið hér mikill samdráttur, sem leiðir af sér minnkandi tekjur fyrir ríkissjóð og einnig þann, sem á að njóta góðs af tekjuaukanum, sem hér er lagt til að verði lögleiddur, og kynni þá svo að fara, að það yrði jafnvel hagkvæmara fyrir ríkissjóð, og óneitanlega væri það eðlilegri lausn, ef hægt væri að fá um það samkomulag að hækka sem þessu næmi beina fjárveitingu til íþróttasjóðs, heldur en fara út á þá braut að leggja á nýtt gjald, sem ef til vill kynni að valda samdrætti fyrir báða aðila og verða þar af leiðandi báðum að nokkru leyti til tjóns.

Þessi orð mín ber þó ekki að skilja á nokkurn hátt sem andmæli gegn þessu frv. Ég tel einmitt, miðað við þær raddir, sem fram hafa komið úr ýmsum áttum um tekjustofna til mismunandi þarfa, — þarfa, sem allar eru brýnar og nauðsynlegar, — að þá sé ekkert á móti því, að málið hafi komið fram og vakið sé máls á þessu vandamáli íþróttasjóðs, sem vissulega er mikið, og engum efa bundið, að það verður ekki lengur fram hjá því komizt að gera einhverjar ráðstafanir til þess að rétta hag sjóðsins.