08.02.1961
Sameinað þing: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (2383)

90. mál, fiskveiðar með netum

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um þessa till. og leitað umsagnar Fiskifélags Íslands og fiskmatsráðs. Báðir þeir aðilar mæla með samþykkt till. N. er einróma sammála um að mæla með því, að till. verði samþykkt með tveimur smávægilegum breytingum.

Talað er um í till., að við undirbúning þessa máls til löggjafar yrði haft samráð við ýmsa aðila, og benti Fiskifélag Íslands á, að rétt væri að bæta þar inn í fiskideild atvinnudeildar háskólans. Það leggur n. til, að gert verði.

Síðustu orðin í tillögunni, eins og hún var lögð fram, eru á þessa leið: „Alþingi það, er nú situr“, — m.ö.o.: að leggja beri fram frv. um skipulagningu fiskveiða með netjum fyrir það Alþingi, sem nú situr. N. þykir þetta heldur mikil vinnuharka, með því að nú er þegar liðið fram yfir mitt þing, og hún vill taka þessi orð út. En sú breyt. þýðir þó ekki, að n. vilji á nokkurn hátt draga úr því, að málið hafi hraðan framgang. Finnst henni eingöngu, að hitt sé að krefjast of mikils. Tillgr. mundi því hljóða svo með þeim breytingum, sem allshn. leggur til við hana, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa setningu reglna um takmörkun á veiðitíma, veiðarfæranotkun og veiðisvæðum þeirra skipa, er fiskveiðar stunda með netjum. Við þann undirbúning verði haft samráð við fiskmatsráð. Fiskifélag Íslands, fiskideild atvinnudeildar háskólans og samtök útvegsmanna og sjómanna. Ef í ljós kemur, að lagasetningar þurfi um þetta efni, verði frumvarp þar að lútandi lagt fyrir Alþingi.“