02.03.1961
Sameinað þing: 44. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (2395)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Utanrrh. (Guðmundur I. Guðmundsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Síðan við Íslendingar hlutum fullveldi okkar fyrir 17 árum, höfum við staðið sem einn maður um þá skoðun, að útvíkkun fiskveiðilögsögu og verndun fiskstofna við strendur landsins sé mesta og alvarlegasta hagsmunamál þjóðarinnar. Fjórum árum eftir stofnun lýðveldisins var lagður grundvöllur að landhelgisbaráttunni með setningu landgrunnslaganna, en strax og við losnuðum úr fjötrum samningsins frá 1901 var hafizt handa.

Einn áratugur er liðinn, og nú stöndum við á tímamótum í þessu mikla sjálfstæðismáli, sem snertir sjálfa tilveru þjóðarinnar um langa framtíð. Tvisvar sinnum höfum við fært út landhelgina, fyrst í 4 mílur með mikilsverðum grunnlínubreytingum, síðan í 12 mílur án grunnlínubreytinga. Þessar aðgerðir okkar hafa mætt harðvítugri mótspyrnu og í seinna skiptið íhlutun vopnavalds af hálfu Breta.

Að þessu sinni hafa vopnin ekki borið sigur úr býtum. Bretar eru nú fúsir til að viðurkenna ekki aðeins 4 mílurnar og grunnlínurnar frá 1952 og 12 mílurnar frá 1958, sem þeir hafa með öllu mótmælt til þessa, heldur einnig mikilsverðar grunnlínubreytingar, sem íslendingar hafa ekki enn ráðizt í, gegn því að Bretar fái mjög takmarkaðan umþóttunartíma. Er það von mín, að Íslendingar beri gæfu til að taka sigrinum og sameinast um að fagna þeim árangri, sem náðst hefur.

Sigra sína í landhelgismálinu eiga Íslendingar öðru fremur því að þakka, að þeir hafa leitazt við að byggja allar aðgerðir sínar á sem traustustum réttargrundvelli og jafnframt unnið kappsamlega að túlkun málstaðar Íslands á alþjóðavettvangi.

Landhelgissamningur Dana við Breta frá 1901 var alvarlegt áfall fyrir þjóðina. Á meðan sá samningur var í gildi, voru fiskstofnar við landið hvað eftir annað nær gengnir til þurrðar vegna ofveiði togara. Íslendingar geta þakkað hörmungum tveggja heimsstyrjalda, að fiskimiðin við Ísland voru ekki gereydd, þar eð erlendir togarar stunduðu lítt veiðar við Ísland á styrjaldarárunum. Ítrekaðar tilraunir voru gerðar á samningstímabilinu til að fá aðrar þjóðir til að skilja og viðurkenna nauðsyn útfærslu fiskveiðilögsögunnar, en árangurslaust. Án samkomulags við aðrar þjóðir töldu Íslendingar ekki nægilega traustan grundvöll fyrir útfærslu. Því varð dráttur á uppsögn samningsins, þótt hann væri uppsegjanlegur með 2 ára fyrirvara.

Sigur Norðmanna fyrir alþjóðadómstólnum í Haag í deilumáli þeirra við Breta lagði grundvöllinn að útfærslunni 1952 í 4 mílur og nýju grunnlínukerfi. Þrjár þjóðir mótmæltu þessari útfærslu, en Bretar einir beittu þvingunaraðgerðum með löndunarbanni. Ríkisstjórn Steingríms Steinþórssonar svaraði þessum aðgerðum með því að bjóða Bretum hinn 24. apríl 1953, að alþjóðadómstóllinn skyldi úrskurða um réttmæti útfærslunnar. Útfærslan 1952 var því byggð á niðurstöðu alþjóðadómstólsins, og Íslendingar buðust til að láta hann gera um deiluna. Bretar höfnuðu þessu, enda var þeim ekki skyli að leggja málið til dómsins.

Samhliða útfærslunni 1952 tóku íslendingar að vinna að því á alþjóðavettvangi að fá viðurkenndar almennar reglur um víðari fiskveiðilögsögu. Menn gerðu sér vonir um, að á Genfarráðstefnunni 1958 mundu fást viðurkenndar alþjóðareglur, er heimiluðu 12 mílna fiskveiðilögsögu. Svo fór þó ekki. Í lok ráðstefnunnar var hins vegar ljóst, að 12 mílna reglan átti mestu fylgi að fagna, auk þess sem mörg ríki höfðu fært fiskveiðilögsögu í 12 mílur. Á þessum grundvelli ákvað ríkisstjórnin útfærslu í 12 mílur 1958. Grunnlínum þótti hins vegar ekki tiltækilegt að breyta.

Ljóst var sumarið 1958, að útfærslan mundi sæta hörðum mótmælum og andstöðu frá ýmsum grannþjóðum. Alþfl. lagði þá á það ríka áherzlu, að nokkurt tóm gæfist til að eyða þessari andstöðu. Framsfl. studdi þessa stefnu Alþfl. að nokkru, en Alþb. vildi ekkert ráðrúm veita til að brjóta andstöðuna á bak aftur. Alþfl. fékk því þó ráðið, að tilraunir voru gerðar á vegum Atlantshafsbandalagsins til að afla viðurkenningar á útfærslunni.

Ýmsar hugmyndir komu fram innan bandalagsins til lausnar á málinu, og að tilhlutan forsrh., Hermanns Jónassonar, bauð ríkisstj. það fram með símskeyti 23. maí 1958, að ef 12 mílurnar fengjust viðurkenndar, mættu erlendar þjóðir veiða allt árið næstu 3 ár á vissum svæðum á milli 6 og 12 mílna, enda fengjust grunnlínur leiðréttar. Þessu tilboði var hafnað. Hinn 22. ágúst 1958 var þetta tilboð endurtekið að tilhlutan forsrh., en nú í því formi, að erlend skip mættu veiða næstu 3 árin allt árið á öllu svæðinu milli 6 og 12 mílna, ef 12 mílurnar fengjust viðurkenndar, enda yrði grunnlínum breytt. Því var yfir lýst af forsrh., að grunnlínubreytingar þær, sem hann ætti við, væru frá Horni í Skaga, frá Langanesi að Glettinganesi og yfir Mýrabugt. Þessu tilboði var einnig hafnað.

Viðræðurnar innan Atlantshafsbandalagsins sumarið 1958 báru ekki þann árangur, að viðurkenning fengist fyrir 12 mílna mörkunum, enda lá Alþb. ekki á liði sínu til að koma í veg fyrir, að tilætlaður árangur næðist. Árangurslausar urðu viðræðurnar samt ekki með öllu. Snemma sumarið 1958 bundust togaraútgerðarmenn og fiskimenn nokkurra þjóða, sem hér höfðu stundað veiðar, samtökum um að halda veiðunum áfram með ofbeldi inn að 4 mílunum, eftir að reglugerðin gengi í gildi. Fyrir ötult starf innan Atlantshafsbandalagsins og fyrir forgöngu framkvæmdastjóra þess, Paul Henri Spaaks, tókst að eyða þessum samtökum, og urðu Bretar einir um ofbeldisaðgerðirnar 1. sept. 1958.

Þetta var fyrsti sigurinn fyrir 12 mílunum, eftir að ákvörðun var tekin um útgáfu reglugerðarinnar. Menn geta gert sér í hugarlund, hvernig aðstaða okkar hefði verið, ef Bretar hefðu notið samstarfs margra annarra þjóða við ofbeldisaðgerðir sínar, er reglugerðin gekk í gildi 1. sept. 1958.

Átökin á hafinu, sem eftir fylgdu, skulu ekki rakin hér. Hættuástandið á miðunum var augljóst og mikið áhyggjuefni. Íslenzk varðskip háðu ójafna baráttu við ofurefli brezka flotans, og framferði brezkra togara og herskipa leiddi hvað eftir annað til háskalegra árekstra, svo að lífsháski stafaði af.

Íslendingar gerðu sér von um, að á síðari Genfarráðstefnunni, sem haldin var á s.l. vori, mætti takast að fá almenna viðurkenningu fyrir 12 mílna fiskveiðimörkum án umþóttunartíma. Þegar þetta tókst ekki og ráðstefnan reyndist árangurslaus, ríkti alger óvissa um, hvað nú tæki við. Hlé hafði orðið á ofbeldisaðgerðunum á Íslandsmiðum, á meðan á ráðstefnunni stóð. Í lok hennar mátti öllum ljóst vera, að aftur mundi fljótlega sækja í sama horfið og áður var, ef ekkert væri að gert. Raunin varð og sú.

Í júlímánuði var ástandið á Íslandsmiðum orðið svo alvarlegt, að annar fulltrúi Framsfl. í utranrmn., Hermann Jónasson, lýsti því yfir á nefndarfundi, að nú, þegar lokið væri alþjóðafundum um landhelgismálið án árangurs, væru Bretar að færa sig upp á skaftið við Ísland og gæti slíkt endað með stórslysum, enda væri ástandið þegar svo alvarlegt, að sennilega hefði það aldrei verið verra. Krafðist Hermann Jónasson mótaðgerða af hálfu ríkisstj.

Ríkisstj. var sammála Hermanni Jónassyni um, að leita bæri allra ráða, sem tiltækileg þættu, til að afstýra slysum og reyna að leysa deiluna. Þegar því ríkisstj. Bretlands óskaði viðræðna við ríkisstj. Íslands í því skyni að kanna leiðir til að leysa deiluna, ákvað ríkisstj. að verða við þeim tilmælum, jafnframt því sem hún tilkynnti Bretum, að hún mundi ræða við þá á grundvelli ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959.

Viðræður við Breta hófust í Reykjavík hinn 1. okt. 1960. Að þeim loknum er það mat ríkisstjórnarinnar, að unnt sé að leysa fiskveiðideiluna á grundvelil orðsendingar, sem fylgir þáltill. þeirri, sem hér er til umr. Er málið nú lagt fyrir Alþingi til ákvörðunar skv. yfirlýsingu hæstv, forsrh. Í þingbyrjun um, að samráð yrði haft við Alþingi, áður en fullnaðarákvörðun yrði tekin.

Skal ég nú gera grein fyrir því, í hverju lausnin, sem ríkisstj. mælir með, er fólgin í einstökum atriðum.

Í 1. tölulið orðsendingarinnar segir, að ríkisstj. Bretlands falli frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland, og er sú lögsaga miðuð við breyttar grunnlínur. Er hér fengin skýr og óafturkallanleg viðurkenning á 12 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland.

Í 2. lið orðsendingarinnar er fallizt á, að 12 mílna fiskveiðilögsagan miðist við nýtt grunnlínukerfi okkur mildu hagkvæmara en það, sem hingað til hefur gilt. Breytingar þær, sem gerðar eru á gildandi grunnlínukerfi, eru á fjórum þýðingarmiklum stöðum við landið.

Fyrsta breytingin er á Húnaflóa. Verður línan dregin þar þvert yfir flóann, frá Horni að Ásbúðarrifi. Við þessa breytingu stækkar svæðið innan 12 mílna markanna um 972 km2.

Önnur breytingin er sunnan Langaness. Verður grunnlínan dregin úr Langanesi í Glettinganes. Við það stækkar svæðið innan 12 mílna markanna um 1033 km2.

Þriðja breytingin er við Faxaflóa. Hér verður grunnlínan dregin úr Geirfugladrang í Skálasnaga á Snæfellsnesi. Aukning svæðisins innan 12 mílna markanna nemur hér 860 km2.

Loks er fjórða grunnlínubreytingin á Selvogsbanka. Þar verður grunnlínan dregin úr Geirfuglaskeri í Eldeyjardrang. Með þessu stækkar fiskveiðilögsagan um 2200 km2.

Þær fjórar grunnlínubreytingar, sem ráðgerðar eru, leiða samanlagt til aukningar á fiskveiðilögsögunni um 5065 km2. Þessar breytingar á grunnlínum taka gildi, um leið og lausn deilunnar fæst, og þær verða ekki aftur teknar.

Sú aukning fiskveiðilögsögunnar, sem fæst við grunnlínubreytingarnar, er mikil að flatarmáli, enda nemur hún 1/5 hluta af allri aukningunni, sem fékkst við útfærsluna 1958 úr 4 mílum í 12. Hitt er þó jafnvel miklu þýðingarmeira, að þau svæði, sem aukningin tekur til, eru aðalhrygningarsvæði nytjafiska við Ísland, mikilsverðar ungfiskstöðvar og að fleiri skip stunda veiðar á þessum svæðum en annars staðar við landið.

Það hefur lengi verið þýðingarmikið hagsmunamál íslendinga að geta fært út grunnlínur. Við útfærsluna 1952 var gengið eins langt í grunnlínubreytingunum og fært þótti. Síðan hefur verið hikað við grunnlínubreytingar. Við útfærsluna 1958 var ekki lagt í að hreyfa við grunnlínum þrátt fyrir nokkurt tilefni eftir þann árangur, sem fékkst á Genfarráðstefnunni.

Á þessu þingi fluttu þm. Framsfl. og Alþb. frv. í hv. Ed., þar sem lagt var til, að fiskveiðireglugerðin frá 1958 væri gerð að lögum með óbreyttum grunnlínum frá 1952. Ég varaði við samþykkt þessa frv., m.a. á grundvelli þess, að grunnlínubreyting væri ekki svo vonlaus, að ástæða væri til að lögfesta gildandi grunnlínur og þar með beinlínis banna ríkisstj. að breyta þeim. Flm. létu sér ekki segjast og hafa gefið út nál. fyrir fáum dögum, þar sem krafizt er samþykktar frv. óbreytts. Væntanlega endurskoða flm. frv. nú vonleysi sitt, þegar ríkisstj. hefur tryggt stækkun fiskveiðilögsögunnar um 5065 km2 með breyttum grunnlínum á hinum þýðingarmestu stöðum við landið.

Í 3. og 4. tölul. orðsendingarinnar eru ákvæði um, að brezk skip megi stunda veiðar milli 6 og 12 mílna. Þessari veiðiheimild Breta eru þó sett takmörk á þrennan hátt: Í fyrsta lagi eru veiðarnar aðeins heimilar í þrjú ár, í öðru lagi eru þær ekki leyfðar nema hluta úr ári hverju, og í þriðja lagi eru þær bundnar við viss, afmörkuð svæði, en bannaðar með öllu á öðrum svæðum. Því hefur verið haldið fram af þeim, sem andvígir eru hvaða samkomulagi sem er við Breta, að ákvæði um, að veiðiheimild þeirra vari takmarkaðan árafjölda, væri ekki mikils virði. Bretar mundu að samkomulagstíma loknum krefjast framlengingar á veiðitímanum. Var þessi röksemd t.d. meginuppistaðan í andstöðu stjórnarandstöðunnar á s.l. hausti gegn samkomulagi við Breta. Hér er um algerlega óréttmætar getsakir að ræða. Vil ég biðja þjóðina að hafa þrennt í huga, þegar hún hlustar á þessi rök andmælenda samkomulagsins: Í fyrsta lagi er orðalag orðsendingarinnar ótvírætt. Fallið er endanlega og óafturkallanlega frá öllum andmælum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu. Í öðru lagi: Þeir, sem fylgzt hafa með frásögnum af umr. í brezkum blöðum undanfarna daga, hafa áreiðanlega veitt því eftirtekt öðru fremur, að Bretar gera sér glögga grein fyrir því, að veiðum þeirra á milli 6 og 12 mílna lýkur til fulls eftir 3 ár. Og í þriðja lagi: Ríkisstj. Íslands hefur í höndum yfirlýsingu ríkisstj. Bretlands um, að ekki verði farið fram á framlengingu heimildarinnar til að veiða innan 12 mílnanna í lok 3 ára tímabilsins. Séu þetta ekki fullnægjandi rök gegn fullyrðingum stjórnarandstöðunnar um þetta efni, þá jafngildir það því, að allir milliríkjasamningar séu marklaus plögg og því þýðingarlaust að gera þá. Vildi ég mega vænta þess, að stjórnarandstaðan misbjóði ekki dómgreind almennings svo freklega hér eftir að halda fram fyrri fjarstæðum sínum um þetta efni.

Skal þá vikið að þeim svæðum á milli 6 og 12 mílna, sem Bretar mega veiða á í 3 ár. Ber að hafa í huga, að sjálf svæðin eru takmörkuð, að um takmarkaðan tíma úr ári er að ræða og að grunnlínubreytingar skipta hér miklu máli.

Á svæðinu frá Horni að Langanesi er veiðiheimildin bundin við 4 mánuði úr ári, júní til september, eða samanlagt 12 mánuði. Við þetta athugast enn fremur, að svæðið milli Grímseyjar og lands, frá Siglunesi og Lágey og umhverfis Kolbeinsey er algerlega lokað fyrir Bretum. Auk þess hefur grunnlínubreytingin á Húnaflóa svo mikla þýðingu, að veiðar Breta þar verða að mestu utan núverandi 12 mílna marka.

Veiðiheimild Breta á veiðisvæði Austfjarðabáta skiptist í þrennt: Nyrzt, frá Langanesi að Glettinganesi, 8 mánuðir, maí til desember, samtals 24 mánuðir. Vegna grunnlínubreytinga er langmestur hluti þessa svæðis utan núverandi 12 mílna. Miðsvæðis, frá Glettinganesi að Reyðarfirði, 6 mánuðir, janúar til apríl og júlí og ágúst, samtals 18 mánuðir. Syðst, frá Reyðarfirði að Mýrnatanga, 5 mánuðir, marz til júlí, samtals 15 mánuðir. Á veiðisvæðunum við Hornafjörð og Ingólfshöfða eru veiðar Breta þó með öllu bannaðar. Frá Mýrnatanga að 20° v.l., sem er nokkuð austan við Vestmannaeyjar, er brezkum skipum heimiluð veiði 5 mánuði á ári, apríl til ágúst, samtals 15 mánuði. Þá er svæðið frá 20° v.l. að Geirfugladrang. Bretum er hér heimiluð veiði í 3 mánuði, marz til maí, eða samtals 9 mánuði. Hér gætir að sjálfsögðu hinna stórkostlegu grunnlínubreytinga á Selvogsbanka. Á svæðinu frá Geirfugladrang að Bjargtöngum er veiðin heimiluð í 3 mánuði, marz til maí, það eru 9 mánuðir alls. Grunnlínubreytingin á Faxaflóa verkar hér mjög, og auk þess eru þrjú veiðisvæði með öllu lokuð fyrir Bretum: út af sunnanverðum Faxaflóa, út af Snæfellsnesi og út af Breiðafirði. Loks er svo svæðið frá Bjargtöngum að Horni með öllu lokað fyrir Bretum.

Ef litið er í heild á svæði þau milli 6 og 12 mílna, sem gert er ráð fyrir að brezkum skipum verði leyft að stunda veiðar á, er flatarmál þeirra samanlagt 14487 km2. Hér verður hins vegar að taka tillit til þess, að veiðarnar eru leyfðar aðeina í þrjú ár og í öðru lagi er tíminn takmarkaður á hverju ári við 3–8 mánuði. Þegar þessa er gætt, samsvara fyrrgreind svæði því, að Bretum séu heimilaðar veiðar á um 5500 km2 svæði í 3 ár. Er það um 435 km stærra en það svæði samanlagt, sem aukningin innan 12 mílna markanna nemur vegna grunnlínubreytinga.

Reiknað hefur verið út, hve langur veiðitími milli 6 og 12 mílna kringum allt landið jafngildi þeim svæðisbundna veiðitíma, sem orðsendingin heimilar. Niðurstaðan er sú, að ef þannig hefði verið að farið, hefðu Bretar fengið 9.6 mánuði alls. Er þetta fróðlegur samanburður við till. í Genf, sem aðeins vantaði eitt atkv. til þess að ná tilskildum meiri hluta, en samkv. henni hefði Bretum borið veiðiréttur á 6–12 mílum í jafnmörg ár og þeir fá nú mánuði.

Þá eru og í orðsendingu ríkisstj. tvö þýðingarmikil atriði:

Hið fyrra er þess efnis, að ríkisstj. lýsir yfir því, að hún muni halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 5, maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögu við Ísland að endimörkum landgrunnsins. við þessari yfirlýsingu tekur ríkisstj. Bretlands.

Hið síðara er, að framtíðarútfærsla verði tilkynnt brezku stjórninni sex mánuðum áður en hún kemur til framkvæmda og rísi ágreiningur varðandi ráðstafanirnar, skuli þær bornar undir alþjóðadómstólinn, ef annar hvor aðili óskar þess.

Þessi ákvæði eru í fullu samræmi við aðgerðir Íslendinga í landhelgismálinu til þessa og aðstöðu þeirra á báðum Genfarráðstefnunum um réttarreglur á hafinu.

Á Genfarráðstefnu 1958 bar íslenzka sendinefndin samkv. fyrirmælum ríkisstj. Hermanns Jónassonar fram till. þess efnis, að þar sem þjóð byggði afkomu sína á fiskveiðum meðfram ströndum og nauðsynlegt reyndist að takmarka afla á hafinu utan fiskveiðilögsögu hlutaðeigandi ríkis, beri þeirri þjóð forgangsréttur til hagnýtingar fiskstofnanna á því svæði. Í till. var lagt til, að ágreiningur í slíkum málum skyldi lagður fyrir alþjóðagerðardóm. Þessi till. var felld. Á Genfarráðstefnu 1960 flutti íslenzka sendinefndin þessa tillögu á ný. Till. var að vísu felld sem fyrr. En með endurteknum flutningi hennar hafa Íslendingar greinilega lýst yfir þeim vilja sínum, að alþjóðlegur dómur úrskurði um ágreining varðandi útfærslu þeirra svæða, sem strandríkinu einu eru heimilaðar veiðar á.

Á fyrri Genfarráðstefnunni var samþykktur samningur um verndun fiskimiða úthafsins. Í samningi þessum er byggt á þeirri meginreglu, að þau ríki, sem hagsmuna hafa að gæta af fiskveiðum á úthafinu, reyni að ná samkomulagi um nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda fiskstofna á hinum ýmsu veiðisvæðum. Beri slíkar viðræður ekki árangur innan tiltekins tíma, getur hlutaðeigandi ríki gert einhliða verndarráðstafanir. Gerðardómur sker úr, ef ágreiningur verður. Ísland samþykkti þennan samning 1958 og undirritaði hann.

Á þessari ráðstefnu var einnig samþykkt ályktun, þar sem mælt var með, að hlutaðeigandi þjóðir hefðu samvinnu um að tryggja forgangsrétt strandríkis, þegar nauðsynlegt væri að gera ráðstafanir gegn ofveiði, og var þá einnig ákveðið, að gerðardómur skyldi skera úr. Ísland samþykkti þessa till.

Á seinni Genfarráðstefnu 1960 var samþykkt ályktun, þar sem gert var ráð fyrir því, að strandríki, sem byggðu afkomu sína að verulegu leyti á fiskveiðum, gætu krafizt forgangsréttar til fiskveiða á svæðum utan hinnar eiginlegu fiskveiðitakmarka. Einnig hér skyldi ágreiningi skotið til gerðardóms. Ísland greiddi þessari till. atkvæði.

Íslendingar hafa þannig sjálfir lagt til á báðum Genfarráðstefnunum, að alþjóðlegur gerðardómur úrskurðaði um réttmæti útfærslu fiskveiðilögsögu, og eftir að till. þeirra var felld, tóku þeir þátt í að samþykkja og undirrituðu þær ályktanir allar, sem gerðar voru og byggðust á því, að gerðardómur skæri úr ágreiningi.

Sameinuðu þjóðirnar hafa stofnsett alþjóðadómstólinn í Haag. Öll þátttökuríki þeirra eru aðilar að þessum dómi. Það er smáríkjum, sem geta ekki fylgt rétti sínum eftir með valdi, mikil vernd og öryggi, að slíkur dómstóll skuli vera til, og á þetta ekki sízt við um vopnlausa smáþjóð eins og Íslendinga.

Allar aðgerðir Íslendinga í fiskveiðilögsögumálinu hafa byggzt og hljóta að byggjast á réttargrundvelli. Þeir eiga því ekki að vera því fráhverfir, að alþjóðadómstóllinn fjalli um gerðir þeirra. Þvert á móti, það er eftirsóknarvert fyrir Íslendinga, að sú þjóð, sem verið hefur þeim örðugust í landhelgismálinu, skuldbindi sig til að gripa ekki til ofbeldis framvegís, en þess í stað hlýða úrskurði Alþjóðadómstóls, ef ágreiningur verður, þegar Íslendingar hefjast handa um útfærslu út fyrir 12 mílurnar, sem nú er verið að viðurkenna, frá hinum nýju grunnlínum.

Prófessor Ólafur Jóhannesson hafði vissulega rétt að mæla, er hann sagði í hv. Ed., er rætt var um landhelgismálið 14. nóv. síðastliðinn, þannig orðrétt:

„Ég verð að segja og vil láta það koma fram í sambandi við þetta, að ég tel raunar eina veikleikamerkið á okkar málstað hér vera það, ef rétt er hermt, að við höfum neitað að leggja þetta mál til úrlausnar hjá alþjóðardómstólunum.“

Síðar í sömu ræðu segir prófessorinn orðrétt: „Og vissulega er það svo, að smáþjóð verður að varast að ganga svo langt, að hún geti ekki alltaf verið við því búin að leggja mál sín til úrlausnar alþjóðadómstóls, því að sannleikurinn er sá, að smáþjóð á ekki annars staðar frekar skjóls að vænta en hjá alþjóðasamtökum og alþjóðastofnunum, af því að hún hefur ekki valdið til að fylgja eftir sínum ákvörðunum eins og stórveldin, og þess vegna hefði að mínu viti hvert einasta spor í þessu máli átt að vera þannig undirbúið, að við hefðum verið við því búnir að leggja það undir úrlausn alþjóðadómstóls.“

Hér lýkur tilvitnunum í ræðu prófessors Ólafs Jóhannessonar.

Sá, sem heldur því fram, að réttindum og hagsmunum sé fórnað með því að fela alþjóðadómstólum úrskurð ágreinings vegna framtíðarútfærslu fiskveiðitakmarkanna, er að lýsa því yfir, að í framtíðinni skuli ekki unnið að útfærslu á grundvelli laga og réttar, heldur ofbeldis. Slíkur hugsunarháttur hæfir ekki Íslendingum. Okkur skortir bæði mátt og vilja til að beita ofbeldi. Rétturinn er styrkur okkar eins og annarra smáþjóða.

Íslendingar eiga nú um tvennt að velja í landhelgismálinu: annars vegar að hafna þessu samkomulagi og taka afleiðingunum af því, hins vegar að fallast á það, hljóta óafturkallanlega viðurkenningu 12 mílna markanna, geta fært grunnlínurnar út, svo að fiskveiðilögsagan stækki um rúma 5000 km2, fá skuldbindingu Breta um, að ofbeldi verði ekki haft við framtíðarútfærslu, en alþjóðadómstóllinn skeri úr ágreiningi, gegn því að veita Bretum umþóttunartíma á takmörkuðum svæðum og um takmarkaðan tíma, sem jafngildi því, að þeir stunduðu veiðar í 9.6 mánuði á öllum ytri 6 mílunum. Þetta val er ekki erfitt þeim, sem vill þjóð sinni vel, vill farsælan framgang landhelgismálsins. Hinum, sem leggja höfuðáherzlu á fjandskap og illindi við grannþjóðir okkar, verður friðsamleg og akkur hagkvæm lausn tvímælalaust þyrnir í augum.

Stjórnarandstaðan heldur því mjög á lofti, að óþarft sé að ganga til samkomulags við Breta, þeir séu búnir að tapa deilunni, farnir með herskipin og mundu hljóta slíka fordæmingu um allan heim, ef þeir kæmu með þau aftur, að slíkt mundu þeir aldrei gera. Hér gætir alvarlegs misskilnings. Á Genfarráðstefnunni s.l. vor vantaði aðeins eitt atkvæði til, að nægur aukinn meiri hl. fengist fyrir tillögu um 12 mílna fiskveiðilögsögu með 10 ára umþóttunartíma á seinna 6-12 mílna belti. Allir þeir, sem greiddu þessari till. atkvæði, töldu það sérstaka ósanngirni af Íslendingum að vilja ekki veita Bretum nokkurra ára umþóttunartíma. Það kom og fram hjá ýmsum þeim, sem greiddu atkvæði gegn till., að enda þótt þeir viðurkenndu þörf Íslands fyrir 12 mílna fiskveiðilögsögu og vildu veita okkur allan stuðning í því efni, þá töldu þeir okkur sýna ósanngirni, er við neituðum um nokkurn frest. Þessir vinir okkar og samherjar vöruðu við slíkum vinnubrögðum. Með þá viðvörun fórum við frá Genf. Samúðin, sem íslendingar höfðu hlotið, var í hættu vegna vinnuaðferða okkar. Ætti nú ofan á þetta að bætast, að Íslendingar neiti að taka við viðurkenningu á 12 mílunum frá Bretum, stórkostlegri útfærslu grunnlína og samkomulagi um alþjóðadómstól gegn því, að Bretar fái hér skamman umþóttunartíma, þá þurfa Íslendingar ekki að vera í neinum vafa um, að þeir verða taldir sýna frámunalegan þjösnaskap og ósanngirni. Íslendingar þurfa ekki að efast um, að ef þeir hafna slíkri lausn, eiga Bretar samúð heimsins, en Íslendingar ekki. Eftir það væri 12 mílna fiskveiðilögsagan við Ísland haldlítið plagg.

Til slíks kemur þó ekki, Íslendingar vita, hvenær þeir hafa sigrað. Þeir leysa fiskveiðideiluna á grundvelli framlagðrar orðsendingar og treysta samstarf og samvinnu við grannþjóðir sínar og bandamenn.

Ég leyfi mér að leggja til, að í lok þessarar umræðu verði málinu vísað til síðari umræðu og hv. utanrmn. — Góða nótt.