07.03.1961
Sameinað þing: 47. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í D-deild Alþingistíðinda. (2426)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Björn Jónsson:

Herra forseti. Í 1. gr. laga um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948 er svo fyrir mælt, að sjútvmrn. skuli með reglugerð ákveða takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins, þar sem allar veiðar skuli háðar íslenzkum reglum og eftirliti, enda verði friðun á landgrunninu á engan hátt rýrð frá því, sem verið hefur. Síðan segir, að ráðuneytið skuli einnig ákvarða allar þær reglur, sem nauðsynlegar eru til verndar fiskimiðunum á landgrunnssvæðinu. Og í lok greinarinnar segir svo, að reglugerðin skuli endurskoðuð, eftir því sem vísindalegar rannsóknir gefi tilefni til. Í þeim umr., sem hafa orðið um þá þáltill., sem er hér til umr., hefur margoft verið sýnt fram á með skýrum rökum, að sjálf landgrunnslögin, sem hafa verið hvort tveggja í senn grundvöllur og leiðarmerki í sókn okkar í landhelgismálinu allt frá 1948 og fram til þessa dags, eru raunverulega ógilt og afnumin með samþykkt þessarar till. Þau nótuskipti, sem gert er ráð fyrir að fram fari milli Íslands og Stóra-Bretlands, munu því í fyrsta lagi ómerkja heimild laganna til handa ráðh. til þess að breyta í einu eða neinu sjálfri stærð verndarsvæðanna í þrjú næstu ár, og hygg ég, að sú staðreynd sé viðurkennd af öllum, líka þeim, sem að þessari þáltill. standa. En eftir árin þrjú mundi rétturinn til reglugerðarbreytinga í átt til aukinnar fiskverndar stranda í fyrsta lagi á 6 mánaða tilkynningarskyldu gagnvart Bretum og þar á eftir á málarekstri fyrir Haagdómstólnum, sem upplýst er að taka mundi fjölda ára. Og engin vissa gæti auðvitað verið fyrir því, hvort úrskurðir hans yrðu í samræmi við þær breytingar, sem ráðgerðar væru eða skylt væri að gera af íslenzkum ráðherra í samræmi við íslenzk lög.

Hæstv. dómsmrh. sagði í útvarpsumr. hér á Alþ. 2. þ. m., að hið þýðingarmesta af öllu í sambandi við þennan samning væri það, að Ísland haldi áfram að vera réttarríki, undir því væri gæfa þjóðarinnar komin, og á því gæti sjálfstæði hennar oltið. Og hann hélt áfram: Með samþykkt þessarar tillögu er allt þetta tryggt. Slegin er skjaldborg um lífshagsmuni íslenzku þjóðarinnar, sagði ráðh., og fáni laga og réttar, frelsis og full veldis hennar dreginn að hún. — Hafa menn heyrt öllu öfgafyllri öfugmæli en þessi? Og hvernig er sá málstaður, sem neyðir einn helzta og jafnvel snjallasta talsmann sinn til þess að gripa til slíkra upphrópana? Orðstíllinn er þannig, að ef maður þekkti ekki til alvöru málsins og viðkomandi persónu. þá gæti maður ímyndað sér, að þessi ráðh. væri genginn í Hjálpræðisherinn. Eða er það meining þessa ráðh., að þegar gefizt er upp fyrir ofbeldinu, þá sé fáni frelsis og fullveldis dreginn að hún, þegar íslenzk lög og réttur er gerður að samningsmáli við Bretland eða lagður í gerð erlends dómstóls, þá sé verið að tryggja hér réttarríki, þegar íslenzkum lífshagsmunum er fórnað og efnahagslegu sjálfstæði stefnt í voða, þá sé verið að slá skjaldborg um lífshagsmuni íslenzku þjóðarinnar og tryggja gæfu hennar? Og það er vissulega íhugunarefni, að slíkt skuli vera mælt af munni æðsta manns laga og réttar í landinu.

Þegar landgrunnslögin voru sett 1948, var Íslendingum ljóst, að fyrir fram yrði ekki með neinni vissu vitað, hve mikil útfærsla verndarsvæða fiskimiðanna innan landgrunnsins yrði nauðsynleg á hverjum tíma. Takmarkið var sett um verndun miðanna á öllu landgrunninu og því slegið föstu, að þar ætti íslenzk lögsaga að gilda og fram yrði sótt, til þess að Ísland gæti notað þennan rétt, eftir því sem vísindalegar rannsóknir sýndu að nauðsynlegt væri hverju sinni, og sú lagaskylda beinlínis lögð á herðar sjútvmrh. hverju sinni að endurskoða útgefnar reglugerðir, eftir því sem vísindalegar rannsóknir sýndu að ástæða væri til, og þá að sjálfsögðu til stækkunar, því að frá upphafi var augljóst, að með bættri veiðitækni og aukinni veiðiásókn hlyti þörfin fyrir frekari vernd að vaxa. Alveg óumdeilanlega var svo komið 1958, þegar fiskveiðilögsagan var færð út í 12 mílur frá grunnlínum, að vísindalegar rannsóknir á fiskistofnunum sönnuðu brýna nauðsyn bæði fyrir okkur Íslendinga og einnig fyrir aðrar þjóðir, sem hafa nytjar af fiskistofnunum undan ströndum landsins, að hún var fyrir hendi fyrir þeirri ráðstöfun, sem þá var gerð, og jafnvel þótt meiri hefði verið. Útfærslan þá var þess vegna byggð á grundvelli þessa ákvæðis landgrunnslaganna, sem ég nefndi, og íslenzk stjórnarvöld voru aðeins að framkvæma skyldu sína gagnvart þeim lögum með framkvæmd hennar. Skerðing á þessari útfærslu, hvort sem hún yrði gerð um takmarkaðan eða ótakmarkaðan tíma, hlýtur því óhjákvæmilega að verða tvöfalt brot á landgrunnslögunum: Í fyrsta lagi á því ákvæði þeirra, sem að því lýtur, að sótt verði að því marki, að við ákvörðum lögsögu yfir landgrunninu öllu, og í öðru lagi á því skýlausa ákvæði þeirra, að friðunarsvæðin verði ákveðin, eftir því sem vísindarannsóknir gefa tilefni til, því freklegra brot á landgrunnslögunum verður sú skerðing á 12 mílna mörkunum, sem nú er fyrirhuguð, þar sem reynslan og staðreyndirnar sanna sífellt betur vaxandi þörf fyrir aukna vernd. Aflatregða togaraflotans nú og á síðasta ári sérstaklega, miðað við það, sem áður hefur verið, er eitt viðvörunarmerkið um nauðsyn aukinnar verndar. Alþjóðleg ofsókn á síldarstofnana er annað hættumerkið. En miklu fleira kemur þó hér til. Víðtækar tilraunir hafa á undanförnum árum farið fram á vegum fiskveiðistórveldanna — og með árangri — um nýjar veiðiaðferðir, m.a. með rafmagn sem aðalhjálpartæki, — tilraunir, sem líklegt er að á næstu árum skapi alveg ný og áður óþekkt viðhorf, þannig að um verði að ræða miklu stórvirkari og fiskistofnunum hættulegri aðferðir við veiðar en nokkurn hefur órað fyrir fram undir þessa tíma. Samtímis er það að gerast mjög víða um heim og m.a. meðal allra fiskveiðiþjóða Vestur-Evrópu, að veiðar með ströndum fram fara síminnkandi og skila nú víðast aðeins broti af þeim árangri, sem enn er unnt að ná við Íslandsstrendur. Það er þegar vitað og liggur fyrir, hvernig þessar þjóðir hyggjast mæta vaxandi tregfiski á heimamiðum sínum. Það hyggjast þær gera með því jafnvel að margfalda úthafsflota sinn og senda hann á fjarlægari mið, hvar sem veiði er að hafa, en draga jafnframt úr strandveiðum sínum á smærri farkostum. Þannig hafa Bretar t.d. að undanförnu haft uppi ráðagerðir um að koma upp miklum móðurskipum fyrir togaraflota sinn, m.a. með því að taka til þeirra nota flugvélamóðurskip, sem ekki er lengur þörf á í hernaði og breytt yrði til þeirra þarfa. Norðmenn telja það nú vera eitt helzta viðfangsefni sitt í sjávarútvegsmálum að byggja upp flota sinn með togurum og öðrum stórskipum, sem keppt geti um veiðimöguleika hvar sem er á heimshöfunum. Vestur-Þjóðverjar og reyndar Austur-Þjóðverjar líka og fleiri stefna að því að stórauka verksmiðjuskipaflota, sem halda má úti mánuðum saman á fjarlægum miðum. Sovétríkin auka og hafa aukið úthafsflota sinn gífurlega síðustu árin og hafa nú, að því er fullvíst er talið, a.m.k. 1000 skip að veiðum á Norður-Atlantshafi. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til þess að sjá, hvað þessi þróun þýðir fyrir okkur Íslendinga, — sjá, að hún leiðir til slíkrar ásóknar á fiskimiðin undan ströndum landsins, þau sem opin standa, að allt, sem við höfum reynt í þeim efnum á umliðnum árum og jafnvel öldum, verður lítilfjörlegt til samanburðar. Ég hygg ekki ofmælt, að lífshagsmunir okkar Íslendinga, sjálfstæði og frelsi séu undir því komin, að við gerum okkur fulla grein fyrir þeim framtíðarhorfum í þessum efnum, sem við blasa, og við reynumst menn til þess að mæta þeim með fullnægjandi gagnráðstöfunum, ekki eftir að við erum ofurseldir voðanum, heldur áður en hann er skollinn yfir.

Með þessum milliríkjasamningi við Breta, sem nú er fyrirhugað að gera eða ákveðið, er því óumdeilanlega slegið föstu, að við afsölum okkur með öllu dýrmætum rétti innan 12 mílna markanna, rétti, sem við höfum þegar hlotið alþjóðlega viðurkenningu á, og þetta réttindaafsal á að gilda í 3 ár a.m.k. og raunverulega gagnvart öllum þjóðum og öllum hugsanlegum veiðarfærum. Þó að ekkert annað né meira réttindaafsal fælist í þessari þáltill., sem hér er rædd, þá væri slíkt afsal glæpur gagnvart íslenzkum hagsmunum, jafnvel þó að fulltryggt væri, að réttindaafsalið að þessu leyti yrði endurheimt eftir þrjú ár, sem þó verður að teljast mjög vafasamt, eins og ég mun víkja lítillega að síðar. Útfærslan 1958 var lágmarksaðgerð á þeim tíma til verndar fiskimiðunum og að sjálfsögðu miðuð við þær aðstæður sem þá voru fyrir hendi. Enginn getur fullyrt um það nú, að sú útfærsla reyndist nægileg íslenzkum hagsmunum næstu 3 ár, eins og útlitið er nú um ný viðhorf og ég hef lauslega drepið á. Þrjú ár eru kannske ekki langur tími, en á tímum svo örrar þróunar á öllum sviðum tækni, jafnt í fiskveiðum sem öðru, geta á skemmri tíma orðið slíkar gerbyltingar á þeim sviðum, sem hér skipta máli, að þær geti valdið miklum umskiptum. Á næstu þremur árum gætu auðveldlega skapazt nýjar þarfir til viðbótar þeim, sem fyrir eru, fyrir stórfelldum aðgerðum af okkar hálfu í landhelgismálunum. En hæstv. ríkisstj. hikar ekki við að binda hendur okkar, svo að þær verða hvergi hreyfðar í næstu framtíð, jafnframt því sem hún minnkar stórkostlega verndarsvæði, — verndarsvæði, sem sannað var að voru óhjákvæmileg nauðsyn fyrir tveimur og hálfu ári, og gerir með þessu þjóðina varnarlausa gegn yfirvofandi hættum af völdum ofveiði. Enda þótt svo færi gegn öllum líkum, að við kæmumst vel, miðað við það, sem efni standa til, út úr þeim stórfelldu vandamálum og hættum, sem þessi samningur mundi stefna okkur út í á næsta þriggja ára tímabili, og jafnvel þótt svo færi, að Bretar vikju út að 12-mílna mörkunum að þeim tíma liðnum, þá mundu samt standa eftir háskalegustu atriði þessa samnings, sem binda hendur okkar að meira eða minna leyti um ófyrirsjáanlega framtíð og geta hæglega leitt það af sér, að við stöndum uppi sem bónbjargarmenn, en helzti þjóðarauður okkar verði upp étinn af erlendum veiðiflotum.

Með næstsíðustu málsgrein hinnar fyrirhuguðu nótu hæstv. utanrrh. til utanrrh. Bretlands er öllum rétti til einhliða aðgerða í útfærsluátt af okkar hálfu afsalað um alla framtíð, þrátt fyrir það, að sú staðreynd blasir við, að allar þjóðir, sem mestan rétt hafa helgað sér um fiskveiðilögsögu og allar með fullkomnum árangri, hafa hingað til farið þá leið til þess að ná markmiðum sínum, og þrátt fyrir það, að það er þessi leið einhliða aðgerða, m.a. okkar Íslendinga, sem skapað hefur og þróað alþjóðarétt, að svo miklu leyti sem hann er til varðandi fiskveiðilögsögu. Það lýsir nokkuð eðli þessa mikilvægasta og hættulegasta ákvæðis fyrirhugaðs samnings, að Bretar lýsa því nú yfir, að þeir hafi öllu fremur óttazt, að 12 mílna útfærslan yrði aðeins fyrsta skrefið af mörgum, sem mundu ná hámarki með því að bægja brezkum togurum frá hinu umfangsmikla svæði íslenzka landgrunnsins, eins og orðrétt stendur í brezka blaðinu „The Guardian“ 1. þ.m., og blaðið hélt áfram: Sú tillaga, sem nú hefur verið borin fram, ætti að létta þessum áhyggjum af Bretum. — Það liggur einnig fyrir, að samband brezkra togaraútgerðarmanna sættir sig við a.m.k. eða styður tillöguna á þeim grundvelli, að Íslendingar hafi afsalað sér réttinum til að færa fiskveiðimörkin út enn frekar án samninga. Margir brezkir stjórnmála- og blaðamenn hafa jafnvel tekið enn dýpra í árinni og fullyrt, að raunverulegt inntak samninganna væri það, að ekki væri síðar unnt fyrir okkur að færa mörkin út fyrir 12 mílur, eins og einn þm. í brezka þinginu komst að orði nú fyrir fáeinum dögum.

Ef við lítum raunsætt á ákvæði samningsins og reynum jafnframt að gera okkur grein fyrir viðhorfunum, eins og þau kunna að verða að þrem árum liðnum, þá fer varla hjá því, að í bezta falli hypja Bretar sig út að 12 mílna mörkunum, en samtímis verður orðin miklu ríkari nauðsyn á nýjum útfærsluaðgerðum en nokkru sinni áður. Margt bendir til þess, eins og ég hef áður drepið á, að þá og kannske fyrr verði 12 mílna beltið orðið jafnvel litlu meiri vernd fyrir okkur en þriggja eða fjögurra mílna friðunin var okkur á sínum tíma. Líf okkar sem þjóðar kann því að liggja við, að stórfelld ný friðunarsvæði verði mynduð og margvíslegar reglur um veiðiaðferðir og fleira verði settar bæði utan og innan hinnar eiginlegu fiskveiðilögsögu.

En hvernig yrði aðstaðan til slíkra aðgerða, jafnvel fyrir þjóðholla og dugmikla ríkisstj., ef þessi samningur væri á annað borð talinn hafa eitthvert gildi? Líklegt væri, að fyrst hæfust hálfs árs samningar við Breta samkvæmt ákvæðum þessa samnings og þeir færu fram jafnvel undir þrýstingi af nýjum ofbeldishótunum og heitingu vopnavalds, því að ekkert ákvæði þessa samnings bindur hendur þeirra í því efni. Að þessu hálfa ári liðnu yrðum við þess vegna engu nær, og væri þá tvennt fyrir hendi, í fyrsta lagi að gefast upp, annað að skjóta málinu til Haagdómsins og hafast ekki að, meðan beðið væri úrskurðar hans, sem gæti orðið margra ára bið, og að honum fengnum að lúta þeim úrskurði, hver sem hann yrði, hvort sem hann tryggði okkur sigur eða dæmdi okkar lífsnauðsynlegu aðgerðir ólögmætar og hindraði þannig, að Íslendingar gætu tryggt efnalegt sjálfstæði sitt.

Menn geta auðvitað haft misjafna trú á réttdæmi alþjóðadómstólsins, eins og hann er skipaður nú, og menn geta líka leitt misjafnlega vafasamar getur að ágæti hans að mörgum ókomnum árum liðnum. En hitt er jafnvíst, að sú trú má vera mikil og studd meiri líkindum en nokkrum manni er fært að færa fram nú, sem gerir það verjandi að leggja alla velferð og framtíð heillar þjóðar á eitt spil, eins og hér er verið að gera. Stórveldin ráða mestu um skipun Haagdómsins, eins og hér hefur verið sýnt fram á, og Bretland er eitt þeirra. Það gæti því farið svo, því að ekki eru allir dómendur í dómum sammála, að þegar að því kæmi, að við ættum allt undir þessum dómstóli, réði eitt brezkt eða brezksinnað atkvæði þar úrslitum um framtíð okkar og um líf okkar.

Engin þjóð, engir ábyrgir stjórnmálamenn í nokkru landi mundu láta sér til hugar koma að leggja slíkt lífshagsmunamál eins og landhelgin og rétturinn til fiskimiðanna er okkur Íslendingum undir neinn dómstól, hversu vel sem hann væri skipaður, hvað þá undir dómstól, sem enginn veit, hvernig skipaður verður, þegar að degi dómsins kemur. Og engin þjóð hefur heldur áður gert slíkt í sögunni. Þjóð, sem á í lífsháska, hefur aldrei og mun aldrei leggja það í gerð eins eða neins, hvort hún megi lifa eða ekki. Hún gerir þær ráðstafanir sér til bjargar, sem hún getur, og tekur síðan því, sem að höndum ber. Þetta hefur líka verið lífsregla okkar Íslendinga í landhelgismálinu, og án þess að fylgja henni hefðu ekki unnizt þeir sigrar, sem við höfum unnið til þessa í því máli.

En nú á að taka upp nýjar aðferðir, undanhald fyrir ofbeldishótunum og leik með fjöregg þjóðarinnar af erlendum valdsmönnum, og sjálfu Alþingi Íslendinga er nú ætlað að létta ábyrgðinni af slíku óafturkallanlegu svikræði af herðum upphafsmannanna, hæstv. ráðh., og taka hana á sig, — taka hana á sig umboðslaust frá hendi kjósenda sinna og gegn aðvörunum yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar. Það er erfitt að trúa því að óreyndu, að hv. þm. stjórnarliðsins láti hafa sig til slíkra verka, og það er enn erfiðara að trúa því, að þeir standi gegn því, að málið verði lagt undir þjóðaratkvæði. Það er erfitt að trúa því, að jafnvel menn, sem kannske trúa því, að óhætt sé að leggja framtíð landhelgismálsins í dóm erlendra manna, láti hafa sig til þess að synja sinni eigin þjóð um atkvæðisrétt um þetta mesta lífshagsmunamál sitt.

Í umr., sem urðu um landhelgismálið í hv. Ed. fyrr í vetur, sagði hæstv. dómsmrh., að við lausn fiskveiðideilunnar við Breta yrði þess vandlega gætt að meta réttilega hagsmuni hvers landshluta fyrir sig og sjá þeim borgið, svo að fyrir öllum verði jafnvel séð. Þetta voru ekki kannske alveg orðrétt ummæli ráðh., en efnislega voru þau þessi örugglega. Það fer ekki hjá því, að þessi loforð hæstv. ráðh. komi upp í hugann, þegar hlutskipti okkar Norðlendinga er athugað í þeirri þriggja ára áætlun, — undanhaldsáætlun, sem hér liggur fyrir. Ef svo er, að aðrir landshlutar verði jafnilla úti, þá verður það ekki málstað hæstv. ríkisstj. til framdráttar, svo mikið er víst. En sé gert á okkar hlut umfram annarra, þá eru það enn ein brigðmælin innan um stóru svikin. En grg. þáltill. virðist bera það með sér, að samvizkan sé ekki alveg hrein gagnvart Norðlendingum, því að þar er gripið til beinna falsana til þess að bera í bætifláka fyrir fyrirhugaðri skerðingu landhelginnar fyrir Norðurlandi. Þar segir, að á vestra Norðurlandssvæðinu, frá Djúpavík til Grenivíkur, veiðist aðeins 8.9% af heildaraflamagni bátaflotans og á eystra svæðinu, frá Grímsey til Þórshafnar, aðeins 2.5%. Það er sem sagt alveg sleppt þeim hluta af aflamagninu, sem fólginn er í síldveiðunum, en sé hann tekinn með, þá gerbreytist auðvitað allur þessi samanburður við aðra landshluta, þar sem meginið af sumarsíldveiðinni hefur oftast fengizt á þessum svæðum og fyrir austan landið, og þó miklu oftar nær eingöngu á þessum Norðurlandssvæðum. En landhelgin hefur ekki síður áhrif á þær veiðar en aðrar og ég hygg jafnvel enn þá afdrifaríkari. Þessi fölsun mun eiga að afsaka meðferðina á Norðlendingum.

Þá segir einnig á bls. 5, í grg.: „Enn fremur er svæðið á milli Grímeyjar og lands að mestu lokað.“ Og ókunnugir gætu fengið það á tilfinninguna, að a.m.k. hér hefði eitthvert stórt afrek verið unnið til hagsbóta fyrir Norðlendinga. Það rétta er, eins og allir mega sjá, sem líta á kortið, sem fylgir með till., að alla leiðina frá Horni og að Langanesi og reyndar aftur þaðan og suður með allri austurströnd landsins er landhelgin minnkuð inn að 6 mílum, að því er allt Norðurlandssvæðið frá Horni til Langaness áhrærir, yfir mánuðina júní til september á hverju ári. Það er rétt, að frá þessu er sú undantekning ein, að á svæðinu á milli Grímseyjar og lands er ekki alveg lokað. Það er skilinn eftir örlítill geiri suður af eynni, en Bretum og öllum öðrum hins vegar tryggðar veiðar nefndan árstíma vestan hennar, norðan og austan og nokkuð til suðuráttar, beggja vegna. Ég held, að einmitt valið á þessu litla svæði suður af Grímsey sem bannsvæði sé táknrænt fyrir val hinna svonefndu bannsvæða, sem að vísu eru öll smávægileg nema fyrir Vestfjörðum. Það er nefnilega þannig, að lokaða svæðið við Grímsey er öllum togurum einskis virði. Þar er hraunbotn, þar getur ekki nokkur togari fiskað með árangri, og lína er þar sjaldan lögð eða ekki. Þess vegna mátti auðvitað banna Bretum ásókn á þetta svæði og hæla sér yfir því. En á hinn bóginn eru allgóð togmið bæði vestan og austan Grímseyjar, og þar voru einu hólfin, sem brezkir togarar reyndu að fiska á fyrir öllu Norðurlandi, á meðan þeir sóttu með herskipafylgd hér á Íslandsmiðum. Einu svæðin, sem Norðlendingar höfðu að segja af togurum fyrir öllu Norðurlandi, allan tímann frá því að Bretar hófu innrás sína í landhelgina, voru á svæðunum vestan og austan við Grímsey, en þar náðu þeir líka verulegum árangri, og þar er þeim hleypt inn núna, enda hefur það að sjálfsögðu verið þeirra krafa, að þeir fengju aftur afnot af þessum svæðum. Og það stóð ekki á hæstv. ríkisstjórn: Alveg sjálfsagt, bara fara ekki inn á svæðið, þar sem ekkert er að hafa nema rifið troll.

En þá kem ég að hinu: Er það þá ekki alveg einstök vernd fyrir Norðlendinga, að veiðar skuli vera bannaðar frá októberbyrjun til maíloka? Það sanna í því er þetta: Alveg fram að þeim tíma, þegar útfærslunnar 1958 fór að gæta fyrir Norðurlandi, hófst vertíð þar ekki fyrr en í maí og stóð fram á haust. Vaxandi fiskgengd í skjóli 12 mílna útfærslunnar á undanförnum 21/2 ári hefur leitt til þess, að vetrarveiðar hafa verið reyndar þar og þó ekki teljandi fyrr en í vetur. Slíkar vetrarveiðar eru dauðadæmdar, eftir að mörkin hafa verið á ný færð inn að 6 mílum yfir aðalveiðitímann og á meðan fiskurinn gengur á miðin. Verndin yfir 8 mánuðina er alveg hliðstæð við það, að bóndi leyfði granna sínum sumarbeit á túninu sínu, gegn því að hann lofaði því að beita ekki á túnið, á meðan allt væri hulið snjó og gaddi. En þannig hygg ég að þetta sé líka alls staðar annars staðar, nema þá fyrir Vestfjörðum. Brezki togaraflotinn og í kjölfar hans togarar allra annarra þjóða fá að elta fiskigöngurnar inn að 6 mílna mörkunum allan ársins hring, því að það er enginn tími undanskilinn, sem brezkir togarar mega ekki veiða inn að 6 mílum einhvers staðar á landinu. Svæðaskiptingin, þar sem þeir mega veiða á hverjum tíma, er hnitmiðuð við það, að þá sé veiðivon, en bannsvæði við það, að þá sé lítið eða ekkert að hafa á þeim.

Allur sá útreikningur sem hafður hefur verið í frammi og á að sanna, að raunveruleg innfærsla landhelgislínunnar sé eitthvað minna en þeir 14500 km2, sem hún raunverulega nemur, eru því blekkingar einar. Allur sá brezki togarafloti, sem sótt hefur á Íslandsmið á síðari árum, getur óhindrað stundað hér veiðar innan eða utan við 12 mílna mörkin, eftir því sem hann kýs, eins og áður, að öðru leyti en því, að nú má hann að sjálfsögðu ekki fara inn fyrir 6 mílna mörkin.

Sumarsíldveiðin fyrir Norður- og Austurlandi er, eins og kunnugt er, einn af mikilsverðustu þáttum íslenzkra fiskveiða, en til þeirra veiða er haldið úti allt að 250 fiskiskipum. Norðmenn senda hartnær sömu tölu einnig til þessara veiða. Og margar fleiri þjóðir senda hingað nokkurn fjölda skipa. T.d. gera Sovétríkin nokkur hundruð skipa út til síldveiða með reknet og flotvörpur á Norður-Atlantshafi, — flota, sem fylgist með fullkomnum tækjum með göngu síldarinnar til Íslandsstranda. Það er nú talin full vissa fyrir því, m.a. af beztu sérfræðingum Norðmanna, að um mikla ofveiði sé að ræða á síldarstofnunum, og Norðmenn a.m.k. reikna með minnkandi veiði, jafnvel næstu áratugi fram í tímann. Það veltur því áreiðanlega á miklu og kannske öllu fyrir framtíð síldveiða fyrir Norður- og Austurlandi, að hinum gífurlega stóru veiðiflotum Norðurlandaþjóðanna og Sovétríkjanna sé bægt frá þeim veiðum eins og frekast má verða. Þau stórhögg, sem þessar þjóðir höggva í síldarstofnana og síldargöngurnar á leiðinni upp að landinu, eru vissulega ærin, þó að þeim sé bægt frá þeim svæðum, sem við getum bægt þeim frá. Þegar síldin er gengin á miðin við Norður- og Austurlandið, staðnæmist hún þar oftast nær aðeins í örstuttan tíma og hefst við á mjög takmörkuðum svæðum, og jafnvel þó að þar komi enginn að nema 250 íslenzk fiskiskip, þá er keppnin um hverja torfu alveg gífurleg. Menn ættu því að geta gert sér í hugarlund, hvernig ástandið verður á þessum miðum, þegar kapphlaupið um síldina stendur yfir og hundruð og jafnvel mörg hundruð skipa, jafnvel mörgum sinni fleiri en allur íslenzki síldveiðiflotinn, renna sér inn að 6 mílna mörkunum og taka upp keppnina um þessa takmörkuðu veiði ásamt íslenzka flotanum og það á stórum svæðum, sem þeim hefur verið bægt frá á undanförnum árum, og á sama tíma mundu svo togarar Breta, Íslendinga og sjálfsagt margra annarra þjóða skarka og skafa á sömu slóðum. Það er vissulega engin furða, þó að menn spyrji: Vita þeir menn, sem að þessu standa, hvað þeir eru að gera?

Síðan útfærslan í 12 mílur var framkvæmd fyrir röskum tveim árum, hafa nýjar vonir glæðzt fyrir Norðlendingum og Austfirðingum um það, að hægt væri að bjarga fiskimiðunum á þessum slóðum og jafnvel að nýtt uppgangstímabil væri fram undan fyrir sjávarþorpin, sem öll byggja tilveru sína og lífsvon á fiskveiðunum. Og vonirnar voru að byrja að rætast. Aflinn hefur vaxið, bátar hafa verið byggðir og keyptir, aðstaða til vinnslu á sjávarafla hefur verið bætt, verksmiðjur hafa verið reistar, og það má segja, að jafnvel samdráttarstefna núv. ríkisstjórnar, „viðreisnin“, hafi ekki megnað að drepa niður framfaravilja, framfarakjark og bjartsýni fólksins, sem þessa staði byggir. Þessi samningur kemur því vissulega eins og reiðarslag yfir þetta fólk. Það veit, hvers virði útfærslan 1958 var fyrir afkomu þess og lífsskilyrði, og það veit, hvað herrarnir í ríkisstj. eru að gera, þó að þeir viti það kannske ekki sjálfir, og það er ekki heldur búið að gleyma svardögum þingmanna sinna allra frá tvennum kosningum 1959, að þeir mundu aldrei hvika frá ákvörðun Alþ. um óskerta 12 mílna fiskveiðilögsögu.

Ég drap áðan á það, að óhjákvæmilega sæktu að manni grunsemdir um það, sem í veðri er látið vaka eða fullyrt af sumum, að Bretar hverfi þó allténd út fyrir 12 mílna mörkin eftir 3 ár og að engin hætta sé á, að þeir sækist eftir þeim fríðindum, sem þeim nú eru tryggð, þegar þar að kemur. Við Íslendingar erum nú orðnir slíkum brigðmælum vanir í samskiptum við stórveldin, að við getum ekki leyft okkur að vera auðtrúa á neitt, sem ekki er fast í hendi og efna á af þeirra hálfu, og við höfum líka mjög takmarkað af góðri reynslu varðandi skilaboð, sem borin eru á milli okkar og þeirra. Þar hefur oftsinnis farið svo mikið á milli mála, að hvítt hefur orðið svart á leiðinni. Og loks hlýtur það svo að verða ofraun fyrir trúgirni okkar margra að treysta fullkomlega þeim hæstv. ráðh. okkar, sem oftast hafa verið staðnir að ósönnum fullyrðingum, bæði hér á hv. Alþ. og frammi fyrir þjóðinni allri, m.a. í þessu máli. Í mínum augum a.m.k. er það ekki afsökun, sem einn hæstv. ráðh. færði sér til málsbóta undir þessum umr., þegar hann játaði, að Alþ. hefðu verið gefnar rangar upplýsingar um þetta mál. Þessi hæstv. ráðh. sagði, að það hefði ekki samræmzt hagsmunum Íslands að skýra rétt frá gangi samninganna. Það var sem sagt logið af hreinni þjóðhollustu. Það hefur sjálfsagt líka verið logið af einskærri þjóðhollustu af þeim hv. þm., sem hyggjast nú samþ. þennan samning, þegar þeir sóru það frammi fyrir þjóðinni í síðustu kosningum, að þeir skyldu aldrei víkja frá 12 mílna mörkunum. En a.m.k. á sú þjóðhollusta þeirra eftir að sannast við afgreiðslu málsins.

En það eru líka fleiri ástæður, sem við höfum til þess að gruna jafnvel hið versta, heldur en reynslan í þessum efnum í öðrum málum. Í orðsendingunni, sem fyrirhugað er að senda, segir hvergi berum orðum, að Bretum séu óheimilar veiðar innan 12 mílna markanna að þrem árum liðnum. Það segir hvergi berum orðum. Í 4. gr. orðsendingarinnar segir aðeins: „Á áðurgreindu þriggja ára tímabili er þó skipum, sem skráð eru í Bretlandi, óheimilt að stunda veiðar á svæðinu milli 6 og 12 mílna innan fiskveiðilögsögunnar, sem um getur í 1. og 2. gr., á eftirgreindum svæðum“ o.s.frv. Ef allt er eins og hér er sagt, hvers vegna er þá bannið við veiðum Breta hér aðeins tiltekið til þriggja ára, hafi meiningin verið sú af beggja hálfu, að um bann fyrir alla framtíð ætti að vera að ræða? Ef það er ótvírætt, að samningar hafa verið gerðir með þeim skilningi, að Bretum yrði undir öllum kringumstæðum óheimilt að veiða innan 12 mílna að 3 árum liðnum, því í ósköpunum mátti það ekki standa skýrt og ótvírætt í orðsendingunni, heldur á einhverju leyniplaggi, sem hæstv. utanrrh. segist hafa í fórum sínum, en þorir ekki að sýna þm.? Slíkt orðalag, sem er í einu og öllu á orðsendingunni, getur ekki verið samið af neinum Íslendingi, ekki einu sinni hæstv. utanrrh. Hver einasti maður, sem hefði haft snefil af íslenzkum hagsmunum í huga, hefði orðað þar öll atriði á annan veg, þannig að sá réttur, sem hæstv. ríkisstjórn telur Íslendinga þó eiga samkvæmt samningnum, væri þar skýr og ótvíræður.

Sókn Breta á hendur okkar í þessu máli, ofbeldi þeirra og ofbeldishótanir og að síðustu þessir samningar, sem hér eru ræddir, minna okkur á margan hátt óhugnanlega á annan svikasamning, sem á óheillastund var þröngvað upp á þjóðina af erlendu valdi og innlendum umboðsmönnum þess, þ.e.a.s. Keflavíkursamninginn 1946. Meðan verið var að svíkja hann upp á þjóðina, var henni sagt, að hann væri — þessi samningur — óhjákvæmilegt spor að því marki að losna við her og herstöðvar af íslenzku landi, alveg eins og okkur er nú sagt, að þessi undanhalds- og svikasamningur sé þjóðarnauðsyn nú, til þess að við getum losnað við brezkt ofbeldi og brezka ásókn í íslenzkri landhelgi. Og forsagan er ekki heldur með öllu ólík kosningunum 1946 sóru allir frambjóðendur og verðandi þm., að þeir skyldu aldrei samþ. herstöðvakröfu Bandaríkjanna, alveg á sama hátt og frambjóðendur og verðandi þm. voru látnir sverja landhelgismálinu fullan trúnað 1959. Í október 1946 sviku 37 alþm. svardagana frá kosningunum um vorið og samþ. herstöðina í Keflavík. (Gripið fram í.) Keflavíkursamningurinn varð ekki upphaf að því, að amerísku hernámi linnti á Íslandi, eins og heitið var, heldur voru svikin, sem með gerð hans voru framin undir yfirskini íslenzkra hagsmuna og með faguryrtum loforðum hins erlenda stórveldis og íslenzkra valdsmanna, upphafið að heilli svikakeðju gegn Íslandi og sjálfstæði þess, svikakeðju, sem nú nær hálfum öðrum áratug síðar, hefur reyrt okkur fastar í fjötra hernaðar og herstöðva en nokkurn gat órað fyrir og enginn fær nú séð, hvenær við fáum af okkur slitið.

Þessi samningur er eins konar nýr Keflavíkursamningur, að sínu leyti sízt betri en hinn fyrri. Hann á að gera í skjóli hótana um ofbeldi, alveg eins og hinn samninginn. Hann er gerður þvert gegn öllum loforðum allra íslenzkra stjórnmálamanna, alveg eins og hinn fyrri. Hann er gerður í fullkominni óþökk og í fullkomnu umboðsleysi frá hendi þjóðarinnar, alveg eins og hinn fyrri. Hann er gerður í þeim tilgangi að skapa yfirgangsstórveldinu nýja og betri aðstöðu til valds yfir alíslenzkum málum, alveg eins og hinn fyrri. Og hann boðar ný svik og nýtt undanhald, alveg eins og hinn fyrri. En í einu mikilvægu atriði er nýi svikasamningurinn þá frábrugðinn Keflavíkursamningnum frá 1946. Þeim samningi gátu Íslendingar sagt upp að tilteknum tíma liðnum, en þessum samningi geta Íslendingar aldrei sagt upp. Hann, að svo miklu leyti sem hann verður talinn löglegur gerningur, á að gilda, þar til báðir aðilar koma sér saman um annað. Einsdæmin eru verst, var einu sinni sagt. Aldrei, jafnvel á mestu niðurlægingartímum þjóðarinnar, bundu Íslendingar sér og óbornum kynslóðum slíka fjötra um ákvörðunarrétt sinn í eigin málefnum.

Ég held það hafi verið hæstv. menntmrh., sem sagði hér í útvarpsumr. 1. þ. m., að með þessum samningi væru Íslendingar ekki að afsala sér neinu, í þessu máli ættum við engan rétt nema alþjóðalög og hefðum því engu að afsala okkur. Samkvæmt hans skilningi og þekkingu á alþjóðarétti býður sá réttur okkur að láta undan fyrir ágangi Breta og hleypa þeim inn að 6 mílna fiskveiðimörkum fyrir svo til allri strandlengju landsins, meðan 31 þjóð önnur hefur 12 mílna landhelgi eða enn þá stærri. — En sleppum því og athugum nánar, hvort það er rétt, að við höfum engum rétti að afsala okkur að öðru leyti. Með samningnum á að gefa alþjóðadómstólnum eilífðarvald til að ákveða fiskveiðilögsögu Íslands. Það mætti þess vegna ætla, að þeir, sem þennan samning vilja gera, hefðu fyrir fram gert sér fulla grein fyrir því, eftir hvaða lögum dæmt yrði. En þá blasir við sú staðreynd, að allar tilraunir til þess að skapa óyggjandi alþjóðalög um víðáttu fiskveiðilögsögu hafa farið út um þúfur hingað til. Alþjóðalögin, sem hæstv. menntmrh. og reyndar margir aðrir hafa sagt að væru okkar eini réttur, eru ekki til í dag og verða það ef til vill ekki enn um ófyrirsjáanlega framtíð. Það er því vissulega rétt, sem hv. 4. þm. Austf. o.fl. hafa sagt, að dómur Haagdómsins í landhelgismáli okkar yrði ekki annað en persónuleg atkvæðagreiðsla þeirra, sem dóminn skipa, um vilja þeirra eða þess ríkis, sem þeir eru fulltrúar fyrir. Hitt má segja með réttu, að alþjóðaréttur um þessi mál sé í deiglunni, og það er að sjálfsögðu von okkar Íslendinga, að þegar hann er fullskipaður, sem verður fyrr eða síðar, þá tryggi hann okkur fullan og ótvíræðan rétt til allra fiskimiða á íslenzka landgrunninu og jafnvel út fyrir það, ef nauðsyn krefur. Þróunin til slíkrar áttar hefur verið að fara fram og á vonandi eftir að halda áfram að fara fram.

En hvað er það, sem hefur ýtt réttri þróun þessara mála fram á leið á alþjóðavettvangi? Ég held, að á því leiki enginn vafi, að þar sé fyrst og síðast um að ræða þær einhliða aðgerðir, sem margir tugir þjóða og þar á meðal við Íslendingar hafa á liðnum árum gert til verndar fiskimiðunum. Með aðgerðum okkar í landhelgismálinu, með landgrunnslögunum 1948, með útfærslunni 1952 og 1958 og með rökum okkar á alþjóðavettvangi í mörg ár höfum við verið að leggja fram okkar skerf til þess, að skapast mætti slíkur alþjóðaréttur, að við ættum þaðan styrks og verndar að vænta, og til þess að helgur réttur okkar sem smáþjóðar, sem á líf sitt að verja, yrði virtur, en sá réttur hlýtur alltaf að verða öllum öðrum rétti æðri í okkar augum a.m.k. Með þessum samningi á ofan á allt annað að fórna fyrir fullt og allt rétti okkar til þess að halda áfram að styðja að því, að alþjóðaréttur þróist á þá leið, sem við bindum vonir við. Svo mikil er niðurlæging okkar, einu sjálfstæðu þjóðar heimsins, sem á allt sitt undir fiskveiðum, undir eignarréttinum á fiskimiðunum, að við eigum að verða fyrstir til að afsala okkur rétti, sem allar aðrar þjóðir hafa og notfæra sér eftir þörfum. Verður lengra komizt eða dýpra sokkið? Þannig erum við ekki aðeins svínbeygðir og brotnir niður, heldur einnig látnir styrkja og styðja að því, að þróun alþjóðaréttar verði á þá lund, sem höfuðfjendur okkar helzt kysu.

Réttindaafsal okkar er þess vegna margfalt, margfalt meira og alvarlegra en nokkurn gat órað fyrir að reynt yrði. Í fyrsta lagi sviptir samningurinn okkur rétti, sem við höfum helgað okkur með einhliða aðgerðum að hætti annarra þjóða og er þegar viðurkenndur, ýmist formlega eða í reynd, af öllum þjóðum nema Bretum, þ.e.a.s. rétti til 12 mílna fiskveiðilögsögu frá grunnlínum. Í öðru lagi sviptir samningurinn okkur a.m.k. um fjölda ára rétti, sem við eigum samkvæmt alþjóðasamningi um grunnlínur. Í þriðja lagi sviptir samningurinn okkur öllum rétti til útfærslu núgildandi friðunarsvæða með einhliða aðgerðum, hversu mikla nauð sem til slíkra aðgerða ber síðar og jafnvel þótt tilvera þjóðarinnar lægi við. En þennan rétt eigum við, eins og allar aðrar þjóðir, meðan óyggjandi alþjóðalög eru ekki til um stærð fiskveiðilögsögu. Í fjórða lagi sviptir samningurinn okkur áhrifavaldi á þróun alþjóðaréttar, en styrkir áhrifavald höfuðandstæðinga okkar frá fyrstu tíð á sköpun þeirra laga, sem eiga að ákvarða rétt okkar um alla framtíð. Til þess að gera þetta margfalda brot, þetta margfalda réttindaafsal, sem stefnir efnahag og jafnvel sjálfstæði þjóðarinnar í voða, er svo til þess ætlazt og til þess mælzt af hæstv. ríkisstj., að hv. alþm. í fyrsta lagi þverbrjóti og eyðileggi landgrunnslögin frá 1948, — lögin, sem öll barátta okkar í landhelgismálinu hefur grundvallazt á síðan. Í öðru lagi, að þeir rífi í tætlur yfirlýsingu sína frá 5. maí 1959 um það, að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið. Í þriðja lagi, að þeir gangi þvert gegn margyfirlýstum vilja íslenzku þjóðarinnar, eins og hann hefur mótazt í algerðri þjóðareiningu um landhelgismálið í nærri 3 ár. Í fjórða lagi, að þeir rjúfi orð sín og eiða, sem þeir hafa flestir margsinnis og allir einhvern tíma gefið kjósendum sínum um það að standa fast á þeim rétti, sem þjóðin hefur þegar aflað sér til fiskimiðanna. Og í fimmta lagi, að þeir synji þeim kröfum, sem áreiðanlega eiga að baki sér allan þorra íslenzku þjóðarinnar, um það, að hún fái að greiða atkvæði — þjóðaratkvæði — um þetta lífshagsmunamál sitt á örlagastund þess. Er til nema eitt svar við þessum tilmælum hæstv. ríkisstj. af hálfu þingmanna? Er til nema eitt svar, sem sæmir nokkrum Íslendingi? Nei, þetta skal aldrei verða.

Líklega á engin þjóða veraldar orð á sinni tungu, sem nákvæmlega feli í sér hið sama og okkar íslenzka orð — landhelgi. Þetta orð býr yfir einhverju, sem er stærra og meira í ætt við háleitt markmið heldur en hliðstæð orð á öðrum tungum. Og þetta er ekki tilviljun, heldur rökrétt afleiðing af því viðhorfi, sem íslenzka þjóðin hefur um hundruð ára mótað sér gagnvart þjóðréttindum sínum á þeim hluta landsins, sem sjó er hulinn, — þjóðréttindum, sem eru okkar þjóð hvort tveggja í senn helgari og dýrmætari en nokkurri annarri þjóð er hliðstæður réttur, vegna þess að undir þeim er líf okkar og sjálfstæði komið, vegna þess að á grunnsævi lands okkar er okkar þjóðarauður, sem við verðum að geta verndað og notið, ef þjóð okkar á að vera lífvænt í þessu landi sem sjálfstæðri þjóð. Þess vegna eru réttindi okkar til fiskimiðanna á landgrunninu heilög réttindi, að þau eru bundin órjúfandi böndum við frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar, og þess vegna hefur annar meginþáttur sjálfstæðisbaráttu okkar fram til þessa dags verið háður á grundvelli réttar okkar til fiskimiðanna, — réttar, sem byggzt hefur og byggist fyrst og síðast á því sögulega hlutverki okkar þjóðar að skapa hér sjálfstætt menningarríki á þeim slóðum, sem hún hefur frá upphafi byggðar helgað sér með öllum gögnum þeirra og gæðum.

Meira en 500 ár eru nú liðin, frá því að erlendir menn hófu ásókn sína á íslenzk fiskimið sér til auðgunar, en þjóð okkar til miska og tjóns. Í allan þann langa tíma getur sagan greint frá óslitinni röð rána, gripdeilda, manndrápa og hvers konar annarra lögbrota, sem framin hafa verið gegn þjóð okkar varnarlausri, vanmáttugri og kúgaðri af erlendu valdi, allt í þeim tilgangi að hrifsa af okkur lífsbjörg okkar, skrapa til botns í þeirri gullkistu Íslandsmiða, sem erlend áþján gerði okkur lengst af vanmáttuga að nytja nema að litlu leyti og þá helzt til hagsbóta þeirri þjóð, sem við urðum að lúta sem réttlaus nýlenda. Loks urðum við svo að þola þá smán árið 1901, að Danir seldu Englendingum, sem frá upphafi höfðu haft forustuna um ránin og óhæfuverkin gegn okkur, seldu þeim landhelgina — íslenzku landhelgina — inn að 3 sjómílum, í þeim tilgangi að fá í staðinn öruggari markað fyrir kjötframleiðslu sína. En áður hafði landhelgin verið talin lengst af 16 og jafnvel upp í 24 sjómílur. Um líkt leyti og þó nokkru fyrr komu botnvörpungar til sögunnar og alveg nýjar hættur sköpuðust á því, að miðin yrðu gereyðilögð, enda varð sú raunin á víða í skjóli hinnar þrengdu landhelgi og algerrar vanrækslu dönsku löggæzlunnar, að togarar Breta skröpuðu miðin upp að landsteinum, þar til ekkert kvikt lifði eftir, en íslenzkir fiskimenn sátu bjargarlausir eftir. Því hefur verið réttilega lýst í umræðunum um þetta mál, að dönsku samningarnir frá 1901 hefðu óefað gereytt íslenzku miðunum, ef ekki hefði komið til tímabil tveggja heimsstyrjalda, sem hlífðu þeim um hríð og björguðu þeim í bili.

Mörg þung orð hafa fyrr og síðar verið höfð um þennan samning Dana, og hann hefur með réttu verið talinn eitt mesta ógæfuspor, sem stigið hefur verið í okkar málum. En ég tel mikinn vafa á því, að þessi samningur, sem okkur er nú boðið upp á, sé í nokkru betri, miðað við breytta tíma og breytt viðhorf, en um margt eru þeir hliðstæðir. Ég hef áður í ræðu minni leitt að því líkur, að svo kunni að fara, að þau verndarmörk, sem nú á að skammta okkur, hvernig sem aðstæður breytast, geti orðið okkur jafnvel minni vernd en samningurinn 1901 var, og að svo geti farið, að ekki aðeins fiskimenn okkar standi uppi sem bónbjargarmenn, heldur og þjóðin öll, ef þessi samningur verður gildandi. Með fullgildingu samningsins frá 1901 braut konungur Dana stjórnarskrá landsins frá 1874. Í dag ætla íslenzkir valdsmenn að brjóta íslenzk lög og íslenzkan rétt til þess að gilda nýjan afsalssamning. Árið 1901 voru landsréttindi okkar seld fyrir svínakjötsmarkað. Nú á að fórna þeim á altari Atlantshafsbandalagsins — hernaðarbandalags vestrænna stórvelda. Árið 1901 var hörfað af dönskum stjórnarvöldum fyrir árhundraða ofbeldisverkum Breta í íslenzkri landhelgi. Nú ætla íslenzk stjórnarvöld að svínbeygja sig fyrir ofbeldishótunum, sem vitað er þó að Bretar þora ekki lengur að framkvæma, hve fegnir sem þeir vildu. Ég get sparað mér að draga ályktanir af þessum samanburði, því að þær liggja augljósar fyrir hverjum og einum. Það er skylda hv. Alþingis að fella þessa smánartill. ríkisstj. eða leggja hana undir þjóðaratkvæði ella. Það er heilög skylda þess við lýðræði og þingræði, skylda þess við þjóðina alla og hennar framtíð.