26.10.1960
Sameinað þing: 7. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í D-deild Alþingistíðinda. (2453)

63. mál, rafmagnsmál á Snæfellsnesi

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vænti þess, að ein af þeim venjulegu kveðjum frá framsóknarmönnum til Alþfl., sem heyrast nú hér nálega á hverjum degi í þinginu, muni ekki skaða þetta mál. enda var víst ekki tilgangurinn sá.

Ég vil aðeins segja það, að eins og ráðherrar Alþfl. í bráðabirgðastjórninni 1959 útskýrðu hér, voru þær breytingar, sem þar voru gerðar, samkv. meðmælum færustu sérfræðinga þjóðarinnar og byggðust á því, að rafvæðingin ætti ekki að tefjast, heldur gerast á nokkuð annan hátt en upphaflega hafði verið áætlað, og átti að verða til þess, að hægt væri að koma fjármálum, sem voru orðin nokkuð þung í vöfum, lánsútvegun og öðru slíku, haganlega fyrir. Ég vísa því algerlega á bug, að Alþfl. sé nú, fyrir utan það að þjást af hatri til landbúnaðarins, farinn að hatast við rafvæðingu landsins, eins og skilja mátti á þessum hv. þingmanni.