12.12.1960
Efri deild: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

130. mál, söluskattur

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef aðallega kvatt mér hljóðs í tilefni af ræðum hv. stjórnarandstæðinga við 1. umræðu þessa máls, þar sem m.a. var nokkuð gert að því að vitna til orða tveggja forustumanna Alþfl., Haralds Guðmundssonar og Gylfa Þ. Gíslasonar, frá árinu 1953 um söluskatt, þar sem þeir telja þann skatt ranglátan.

Vildu þessir hv. ræðumenn með þessu benda á, að Alþfl. hefði alveg snúizt í málinu og væri orðinn umskiptingur. Út af fyrir sig, þegar þetta er hugleitt, gæti maður auðvitað spurt framsóknarmenn alveg gagnstæðrar spurningar: Ef þeir töldu þann söluskatt, sem þeir stóðu að árið 1953, réttlátan, hvers vegna telja þeir þá söluskatt nú á árinu 1960 vera ranglátan?

Hitt er svo annað mál, að maður verður vitanlega að athuga allar forsendur. Þegar Alþfl. metur það, hvort hann telur einhvern skatt réttlátan eða ranglátan, þá hefur það mjög mikið að segja í hans augum, hvernig á að verja skattinum. Þessum söluskatti, sem lagður var á á s.l. vetri og nú er hér verið að framlengja hluta af, er, eins og allir vita, aðallega varið með þrennum hætti. Söluskatturinn hefur í fyrsta lagi gengið til þess að vega upp á móti tekjumissi ríkissjóðs, vegna þess að meginhluti tekjuskattsins var felldur niður. Í öðru lagi hefur fjórðungur af þessum söluskatti gengið til sveitarfélaganna, og það hefur beinlínis orðið til þess að lækka útsvör um þá upphæð. Á s.l. ári var þetta 56 millj. kr., og árið 1961 er gert ráð fyrir því, að þetta verði 71 millj. kr., og fjórðungurinn af söluskattinum fer til sveitarfélaganna, hvort sem það er söluskatturinn 3% af viðskiptum innanlands eða viðaukasöluskatturinn í tolli, þannig að þegar hv. stjórnarandstæðingar eru að berjast gegn þessu frv., þá eru þeir þar með að berjast gegn því, að sveitarfélögin fái allmikla tekjustofna, sem auðvitað verða til þess, að útsvör eru lækkuð.

Í þriðja lagi hefur þessi söluskattur farið til þess að afla ríkissjóði tekna til þess að standa undir hinum stórkostlega auknu útgjöldum til almannatrygginganna.

Þegar á allt þetta er litið, getum við Alþýðuflokksmenn vart hugsað okkur, að hægt sé að verja nokkrum skatti betur en hér hefur verið gert.

Það er svo auðvitað, að þegar hugleidd er afstaða Alþfl. til söluskattsins 1953, er ekki nóg að tala bara um söluskatt, því að söluskattur getur vissulega verið mismunandi. Söluskattur getur verið margs konar eðlis. En það vildi ég leggja alveg sérstaka áherzlu á, að afstaða Alþfl. til söluskatts, — söluskatts, sem er þá jafn á flestar eða allar vörur, — hlýtur að fara eftir því, hverjir tollar og aðflutningsgjöld eru lögð á vörur. Ég tel ekki nokkrum vafa bundið, að frá því 1953 hafa tollar og aðflutningsgjöld á hátollavarningi og óhófsvöru hækkað alveg stórkostlega, og því eru auðvitað takmörk sett, hvað hægt er að bæta þar á ofan, þannig að það gilda allt önnur hlutföll nú en 1953. Nú er það líka þannig, að innfluttar neyzluvörur, eins og kaffi og sykur og hveiti, eru niðurgreiddar. Ekki var það 1953. Þess vegna er það, þegar Alþfl. er að taka afstöðu til þess, hvort hann eigi að fallast á söluskatt í innflutningi, sem sé jafn á allar vörur, þá hlýtur það auðvitað að vera meginforsenda, hvaða aðflutningsgjöld og tollar séu lagðir á og í hvaða hlutföllum á vörurnar yfirleitt. Og þetta hefur breytzt mjög mikið frá því 1953. Þess vegna er hér ekki um sambærilega hluti að tefla. Það er líka núna þannig með söluskattinn í viðskiptum innanlands, 3%, sem er eingöngu lagður á lokastig viðskipta, það er m.a. gert til þess að hann sé innheimtanlegri og síður hætta á því, að þeir, sem innheimta skattinn, standi ekki skil á honum. Áður skilst mér með söluskattinn, að hann hafi verið á mörgum stigum viðskipta hér innanlands og miklu erfiðara að eiga við hann. Það er þess vegna alls ekki verið að tala um sambærilega hluti og sambærilegar forsendur, þegar er verið að tala um afstöðu Alþfl: foringjanna 1953 og þá afstöðu, sem Alþfl. hefur í dag.

Við þetta er svo hægt að bæta því, að Alþfl. hefur breytt um stefnu í skattamálum. Hann hefur viljað hverfa nokkuð frá beinum sköttum, en taka upp óbeina skatta í staðinn. Þess vegna er stuðningur hans við söluskatt yfirleitt alveg í samræmi við stefnu hans nú.

Það er út af fyrir sig heiðarlegt, þó að einhverjir flokkar skipti um stefnu eða breyti um stefnu í tilteknum málum eins og skattamálum. Hjá Framsfl. virðist þetta nokkuð annars eðlis. Hann skiptir að vísu oft um stefnu eða afstöðu, ekki vegna þess kannske, að hann hafi skipt um stefnu samkvæmt ákvörðun flokksþings eða neitt slíkt, — nei, hann skiptir bara um stefnu eftir því, hvort hann er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þegar þessi flokkur er í stjórn, þá er sjálfsagt að leggja á alla skatta og tolla og söluskatt, en þegar hann er í stjórnarandstöðu, þá er hann á móti öllum sköttum og tollum. Slíka afstöðu vill Alþfl. ekki tileinka sér.

Það má svo benda á í sambandi við þetta, þótt það komi söluskattinum ekki beinlínis við, að hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði orðrétt í sinni ræðu hér við 1. umr., með leyfi forseta, þannig:

„Ég hef aldrei haldið því fram, að vandinn í efnahagsmálunum hafi verið lítill, þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við. Ég hef hins vegar sagt, að hann hafi verið mikill. Og hann varð það að nokkru leyti meðfram vegna ábyrgðarlausra aðgerða, sem Alþýðuflokksstjórnin stofnaði til á árinu 1959.“

Það má náttúrlega skjóta því hér inn, að við efnahagsmálaumræðurnar á s.l. vetri sagði formaður þingflokks Framsfl. einmitt þveröfugt. Hann sagði, að vandinn væri nú minni en oftast áður, — að vísu sagði hann svo í annarri ræðu um svipað leyti, að hann væri meiri, og átti þá vitanlega við alveg sama tíma, það var svo stutt á milli. Þetta er sagt til þess að benda almennt á málflutning þessara hv. framsóknarmanna í efnahagsmálunum.

En það, sem ég vildi líka gera að umtalsefni, er, að þessi hv. þm. sagði, að vandinn hefði orðið mikill meðfram vegna ábyrgðarlausra aðgerða, sem Alþfl. stjórnin stofnaði til á árinu 1959. Nú var það svo, að um þær aðgerðir — niðurfærsluna — stóð Framsókn með Alþfl. Það var fyrst og fremst um eitt atriði, sem var ágreiningur, það var um kaupið til bænda. Framsfl. vildi, að bændur fengju meira út úr þessu en Alþfl. vildi, og Framsfl. kom ekki sínum hlut fram, — þannig að ef það hefði verið vegna ábyrgðarlausra aðgerða, sem að vísu er alrangt, sem vandinn hefði vaxið, þá hefði Framsfl. vissulega átt hlut að þeirri ábyrgð.

Til þess að fara nokkrum fleiri orðum um stefnu Framsfl. almennt í skattamálum, þá vil ég hér, með leyfi hæstv. forseta, lesa örfá orð upp úr Tímanum, það er föstudaginn 2. okt. 1959. Þá er sagt frá kosningafundi í Keflavík, þar sem m.a. núv. þm. Framsfl., Jón Skaftason, hélt ræðu, og þarna í Tímanum er tekinn upp útdráttur úr ræðunni, örstuttur útdráttur um skattamálin, og ég vildi — með leyfi hæstv. forseta — lesa þetta hér. Þar segir svo:

„Hann drap fyrst á skatta- og útsvarsmálin og benti á þá staðreynd, að beinu skattarnir væru nú orðnir svo þungir, að í ýmsum tilfellum yrði vart undir þeim risið, ekki sízt útsvarsþunginn. Flestum væri nú orðið ljóst, að hér þyrfti gagngerðra breytinga við. Hann minnti á, að Framsfl. hefði á undanförnum árum haft forgöngu um nær allar breytingar til bóta í skattamálum. Þar eru helztar lækkanir á tekjuskatti af lágtekjum, sem Eysteinn Jónsson hefur beitt sér fyrir, skattfrádráttur sjómanna og framtal hjóna hvors í sínu lagi o.fl. Á sama tíma hefur nær engin breyting verið gerð til bóta á útsvarslögum, og útsvör hafa því farið hækkandi ár frá ári. Þetta skapar einnig mikið ranglæti í garð þeirra, sem ekki draga undan skatti. Þeir heiðarlegu verða að borga brúsann fyrir hina. Ofan á bætast svo undarlegar ívilnanir á útsvörum pólitískra gæðinga. Ég get ekki betur séð, sagði Jón, en næsta Alþingi hljóti að verða að taka skatta og einkum útsvarsmálin til gagngerðrar athugunar og á næstunni verði hreinlega að hverfa af braut beinna útsvara og skatta að verulegu leyti, því að þessi mál brenna nú svo á bökum manna, að undan breytingu verður ekki komizt.“ Þetta voru orð Jóns Skaftasonar, tilfærð í Tímanum.

Þegar þessi hv. framsóknarmaður er að tala um, að nauðsynlegt sé að hverfa af braut beinna útsvara og skatta að verulegu leyti, þá hlýtur hann auðvitað að meina það, að í staðinn verði horfið inn á braut óbeinna skatta. Önnur getur meiningin ekki verið.

En þegar þessi skattamál voru hér til umr. á Alþingi á s.l. vetri, var ekki svo vel, að Framsfl. tileinkaði sér þessar skoðanir Jóns Skaftasonar, sem koma þarna fram. Nei, þvert á móti, þá vildi flokkurinn halda í beinu skattana, en barðist gegn þeim óbeinu. Og þetta sýnir einmitt það, að þegar hv. framsóknarframbjóðendur og þm. standa frammi fyrir kjósendunum, þá seilast þeir gjarnan til þess að túlka þau viðhorf í skattamálum, sem eru nátengd stefnu Alþfl.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. flutti hér framsögu fyrir sínu minnihlutaáliti, og hann vitnaði þar nokkuð í skýrslu norska hagfræðingsins Per Draglands. Það er nú út af fyrir sig fagnaðarefni, að framsóknarmenn skuli vera farnir að vitna í þessa skýrslu, sem erfiðlega gekk að fá birta í Tímanum, og ég held reyndar, að blaðið hafi aldrei birt hana, a.m.k. tregðuðust þeir mjög við því á sínum tíma. Og hann vildi m.a. styðja afstöðu sína gegn því að framlengja viðaukasöluskattinn, tollinn, með tilvísun til þessarar skýrslu. Að vísu gat ég ekki fundið það út úr þessum orðum, sem hann las, að þar væri reynt beinlínis að styrkja þessa skoðun. Hins vegar fyndist mér það ekki úr vegi, úr því að framsóknarmenn eru nú farnir að leggja svona mikið upp úr Per Dragland, sem ég mun vissulega gleðjast yfir, hvort þessi hv. þm. vildi ekki bara hringja í hagfræðinginn og bera þetta undir hann, hvort hagfræðingurinn teldi, að það væri réttmætt, eins og sakir stæðu, að fella þennan skatt niður, þannig að það færi ekkert á milli mála, að hv. þm. færi þó eftir þessari ráðleggingu.

Annað sagði þessi hv. þm., sem mér fannst reyndar afar merkilegt, að stjórnarandstöðunni eða þeim bærí ekki skylda til þess að benda á neinar tekjur í staðinn fyrir þennan viðaukasöluskatt, í staðinn fyrir þessar 168 millj. Þetta var mjög fróðleg yfirlýsing, að stjórnarandstaðan telur sér það alls ekki skylt. Nú hefur þessi hv. þm. t.d. flutt hér frv., sem mundi valda ríkissjóði á næstu árum útgjaldaaukningu um 160 millj., til þess að láta fé í bændasjóði, sem eru févana nú. Ég held, að það geti ekki farið á milli mála, að stjórnarandstöðu, sem er ábyrg, hlýtur auðvitað að bera skylda til þess að benda á tekjuöflun í staðinn, annaðhvort sparnað eða tekjuöflun. Veit þessi hv. þm., að þegar hann lýsir því yfir, að þeim beri engin skylda til þess — (KK: Ég færði rök fyrir því.) Jú, það er alveg rétt, ég kem að því á eftir. Hann færði þau rök fyrir því, að ríkisstj. héldi leyndum einhverjum upplýsingum. Maður gæti þá náttúrlega alveg eins haldið fram, að þeir gætu ekki flutt tillögur um útgjaldahækkanir, meðan þessum upplýsingum væri haldið leyndum. En það virðist bara vera á annan veginn, að þeir geti ekki flutt tillögur um tekjuöflun, meðan upplýsingum er haldið leyndum. Annars er þetta raunar mjög vesæl málsvörn. Þessi hv. þm. er hér kominn inn á sömu línu og Sjálfstfl., þegar hann var í stjórnarandstöðu gegn vinstri stjórninni. Þá bar hann því alltaf við, að hann gæti ekki gert neinar tillögur, vegna þess að það væri haldið fyrir sér ýmsum upplýsingum. Þetta taldi þessi hv. þm. þá alls ekki frambærileg rök. Nú er hann búinn að sækja þessi rök til Sjálfstfl. að því er bezt verður séð, sem hann taldi mjög lítils virði á sinum tíma, þegar Sjálfstfl. beitti þeim. Nú telur hann sér sæmandi að gera það.

Á síðasta Alþýðusambandsþingi var samþykkt með atkv. meiri hl., þ.e.a.s. framsóknarmanna og kommúnista, tillaga um að setja fram kröfur til kjarabóta, beinar launahækkanir og ýmsar aðrar kjarabætur. Þessar kjarabætur mundi a.m.k. vera hægt að meta sem 30% kjaraaukningu frá því, sem nú er. Þeir settu það enn fremur fram í þessari samþykkt, að það þyrfti að breyta um efnahagskerfi, til þess að það væri unnt að verða við þessum kjarakröfum. Ég vil lýsa því yfir fyrir mig persónulega, að ég mundi mjög gjarnan vera til viðtals um að stuðla að því að breyta um efnahagskerfi, þannig að það væri hægt að veita landsfólkinu yfirleitt 30% kjarabætur. En ég vil bara fá einhverjar upplýsingar frá þeim, sem hafa þessar tillögur fram að færa og krefjast þess, að efnahagskerfinu væri breytt, um það, í hverju þessar breytingar ættu að vera fólgnar, svo að þessi glæsilega lausn á okkar vandamálum yfirleitt sé ekki falin fyrir þjóðinni. Ég vil þvert móti, að hún komi fram, að þessi mikli leyndardómur sé afhjúpaður, þannig að maður sé ekki hér að styðja efnahagsaðgerðir í sinni fávizku af því, að maður sjái ekki annað betra og það liggi einhvers staðar hulið fyrir framan mann, að það sé hægt að breyta efnahagskerfinu þannig, að það sé hægt að veita öllum mönnum 30% kjarabætur. Ég vildi skora á þessa menn, sem hafa þessar tillögur fram að færa, að afhjúpa nú leyndardóminn og láta menn heyra þessa stórglæsilegu lausn.

Afstaða Alþfl. til þessa viðaukasöluskatts er sú, sem kom hér greinilega fram hjá hv. ræðumanni, sem talaði á undan mér. Auðvitað vill Alþfl. vinna að því, að unnt verði að afnema þennan viðaukasöluskatt, strax og þjóðfélagið hefur ráð á því og strax og efnahagslegar aðstæður eru fyrir hendi. Og það er meira en það, það er líka vegna þess, að Alþfl. telur, að einmitt með vörulækkunum, í því formi sé bezta kjarabótin fólgin. Þegar aðstæður leyfa og skilyrði eru fyrir hendi, til þess að unnt sé að bæta kjör almennings aftur á nýjan leik, þá telur Alþfl., að það sé langfarsælast, að það sé gert í því formi, að vöruverðið sé lækkað, en ekki á þann hátt, að kaupið sé hækkað. Því til viðbótar má svo að endingu vitna í hin glöggu rök norska hagfræðingsins Per Draglands, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. vitnaði hér í, þar sem hann benti á, að þessi skattur, ef til lengdar léti, gæti hann á margan hátt verkað sem óheilbrigður verndartollur. Þess vegna, þegar aðstæðurnar skapast og efnahagurinn batnar á nýjan leik, þá telur Alþfl. einmitt, að það eigi að koma fram í þeirri mynd að lækka eða afnema þennan skatt, sem því miður er alveg óhjákvæmilegt að framlengja fyrst um sinn, eins og nú standa sakir.