25.01.1961
Sameinað þing: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í D-deild Alþingistíðinda. (2678)

149. mál, jafnvægi í byggð landsins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. dró nafn mitt inn í þessar umr. hér áðan, og ég vil vænta þess, að mér leyfist að segja örfá orð um þessa litlu og frekar lítilsverðu till. um hið stóra mál. sem oft ber á góma, jafnvægi í byggð landsins.

Ég get ekki annað en látið það í ljós, að ég er sammála hv. 4. þm. Vestf. (SE), sem ræddi um þetta mál hér áðan og sagði. að hann kæmi því illa heim og saman, þegar þeir menn, sem stæðu að núv. stjórnarstefnu, viðreisninni, sem m.a. miðar mjög að því að draga fjármagn úr byggðum landsins, safna því í frystihús Seðlabankans í Reykjavík og draga það utan af landsbyggðinni, koma svo með þáltill. um, að það skuli gera gagnráðstafanir til þess að flytja fjármagn út í landsbyggðina aftur. Að vísu má segja, að þetta geti verið afleiðing af því, að þeir sjái, að til ógæfu stefnir með þessa fjárdráttarstefnu utan af landsbyggðinni til Reykjavíkur og að það þurfi að borga skaðabætur, — veiti ekkert af því, — og ég tek þetta Þannig, það þurfi að bæta fólkinu það, að t.d. fé er dregið úr sparisjóðum og innlánsdeildum kaupfélaga úti um landið og fryst hér í Seðlabankanum. Ég kalla það þess vegna frystihús Seðlabankans. Og ef þetta er réttur skilningur minn, þá er ég sammála því, að það þurfi að gera gagnráðstafanir gegn þessari stefnu, og þykir gott að fá þar til liðs nokkra menn úr stjórnarliðinu.

Hins vegar er það svo, að það er líka erfitt að draga af því jákvæða ályktun, þegar maður sér, að alþm., sem áður hafa borið fram frv. til laga um jafnvægi í byggð landsins, standa nú tveim fótum í jötu stjórnarliðsins, hafa þannig hina ákjósanlegustu aðstöðu til að koma sínum fyrri áhugamálum fram, þeim sem þeir hefðu heilastan og mestan áhuga á að koma fram, en láta það vera. Þegar þeir hafa aðstöðu til þess og koma með ómerkilega þáltill. í staðinn, en láta frumvörpin um sín gömlu áhugamál og hugsjónir liggja, hvarflar að mönnum að þeim hafi ekki verið mikil alvara, ellegar þá, að eitthvað hefur breytzt, og það gæti verið, að áhuginn hefði breytzt og væri nú Þeim mun minni, sem þáltill. er minni háttar þingplagg en frv. til laga og tryggir mínna.

Ég, skal ekki drótta neinu að þeim um það, þessum ágætu þm., að áhugi þeirra hafi breytzt í málinu. Svo mikið er víst, að áður fluttu þeir um þetta frv., nú láta þeir sér nægja að flytja um það þáltill.

Þegar þetta hafði gerzt, að um þetta hafði verið rætt hér um stund, reis upp hv. 1. þm. Vestf. og greip nú til þess, hvað hann er stálminnugur, og mundi þá eftir því, að hann hafði flutt frv. um jafnvægi í byggð landsins og það frv. var, að sögn höfundarins sjálfs, mjög vel undirbúið, enda hafði það verið unnið í milliþinganefnd, og hann mundi það enn eftir mörg ár, að þingmenn höfðu ekki tekið það frv. meira en svo alvarlega. Það er alveg rétt hjá honum. Þá var atvinnuleysi í landinu, og það var stórt vandamál, atvinnuleysið. Þá kom fram frv. um að verja, — það hafa líklega verið um 5 millj. kr., til þess að bæta úr þessu. Það hefði þó þurft 50 millj., ef það hefði verið nokkur alvara í því, þá var atvinnuleysið svo geigvænlegt. Þegar þetta frv. kom fram, stjórnarfrv. held ég, undirbúið af milliþn., átti að verja 5 millj. til þess að skapa jafnvægi í byggð landsins, þá brostu þingmenn í kampinn, og þeir höfðu um það ýmis spaugileg ummæli. m.a. þessi, sem voru höfð eftir mér, að ég kallaði þetta frv. litlu gulu hænuna, bara til þess að draga dár að því. Það átti ekki annað skilið. Þarna var stóru vandamáli mætt með svo smárri fjárupphæð, að það var sýnilega ekki gert í alvöru. Ég geri ekki ráð fyrir því, að þetta köpuryrði hafi dugað til þess að drepa frv. Þá hefur a.m.k. verið veikur lífsneisti þessa frv. upphaflega, ef þetta, að það var kallað litla gula hænan, hefur drepið það. En mér liggur við að halda, að hv. höfundur og flm., 1. þm. Vestf., liti svo á, að þetta hafi orðið banabiti frv., úr því að hann minnist þessara orða núna eftir mörg, mörg ár.

En ef frv. hefði ekki fengið dánarvottorð, þegar það fór upp fyrir þarna, þá væri ekki til neins að leiða getum að því nú, hvort það dó af þessu eða einhverju öðru. En réttilega hefur það verið upplýst, að frv. varð ekki að lögum í þetta sinn, og það var af því, að Alþingi vildi stækka frv., það kom fram þingvilji fyrir því að stækka frv., svo að það væri í meira samræmi við það stóra mál, sem það átti að leysa. Það var samþ. á Alþ. till. um, að það skyldi dreift nokkrum atvinnutækjum út um landið, og það var það, sem þurfti. Það var það, sem þurfti, ef það vakti fyrir mönnum að tryggja jafnvægi í byggð landsins. Það var samþykkt, eins og hér var sagt áðan, tillaga um, að það skyldu fest kaup á nokkrum togskipum og þeim dreift út um landið til þess að styrkja atvinnugrundvöllinn þar. Þá var frv. orðið alvörumál. Þá var það ekki nein lítil gul hæna lengur. En hvað gerðist þá? Þetta, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan. Þá missti hæstv. forsrh. allan móð, allt fylgi brast í stjórnarherbúðunum við frv., og það var látið lognast út af, deyja. Það er rangt, að þessi brtt. hafi verið frá kommúnistum, úr Alþb. Alþb. var þá ekki til. Það var stofnað síðar á árinu 1956. Þessi till, var frá Alþfl.-mönnum, og ef einhverjir eru svikarar í þessu máli, þá eru það þeir. Ef þeir hafa með því að gefa því þetta innihald, að bera fram till. um atvinnutæki úti um landið og fá hana samþykkta, ef Það er að svíkja mikið að gera það, þá eru það Alþýðuflokksmenn. Ég var þá Alþýðuflokksmaður og einn af þeim mönnum, sem höfðu í mörg ár borið fram till. um togara til atvinnujöfnunar í landinu, og það var í raun og veru meginefni þess ákvæðis. sem var samþ. inn í frv. um litlu gulu hænuna og varð hennar banabiti, eftir því sem menn nú segja. Þá var orðið of mikið innihald í frv., svo að stjórnarliðinu þáv. ofbauð og lét ekki frv. fara lengra.

En úr því að við erum með þessi gamanmál, langar mig til þess að segja, að það var fleira skemmtilegt sagt um litlu gulu hænuna. Það var t.d. sagt alveg réttilega, að frv. væri samið af tveimur mönnum, annar væri gáfaður, en hinn væri duglegur. Og þannig leizt mönnum á frv., að það gæti ekki verið, að það væri samið af þeim gáfaða, það væri áreiðanlegt, að þetta frv. hefði verið samið af þeim duglega, og það heyrði ég núna í þessum umr. í dag.