28.03.1961
Sameinað þing: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í D-deild Alþingistíðinda. (2680)

149. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Hv. allshn. hefur ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa máls, og hefur meiri hl. lagt til á þskj. 591, að þáltill. verði samþ. með nokkurri breytingu, að tillgr, orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að undirbúa og leggja fyrir næsta Alþingi frv. til laga um ráðstafanir til framleiðsluaukningar og jafnvægi í byggð landsins, m.a. með stofnun jafnvægissjóðs, ásamt ákvæðum um framlög í Því skyni og úthlutun þess fjár. Skal tilgangur þessarar löggjafar fyrst og fremst vera sá að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu.“

Minni hl., þeir Gísli Guðmundsson, Jón Kjartansson, Hannibal Valdimarsson, hefur gefið út sérstakt allt, og munu þeir að sjálfsögðu mæla fyrir sinni tillögu, en þegar hún er athuguð, verður ekki sýnilegt. að það sé raunverulega nein efnisbreyting eða mismunur á till. annar en sá, að þeir óska að gera sína till. nokkru pólitískari en gert er á þskj. 591, enda. var hæstv. forseti í svo miklum vafa um, hvora till. ætti að bera upp fyrr, að hann tók málið út af dagskrá af þeim ástæðum alveg sérstaklega, því að hann gat ekki þá á þeirri stundu séð, að ein till. gengi lengra en önnur.

Það væri að sjálfsögðu hægt að segja margt um þetta mál. en vegna þess að tími þingsins er nú að verða á enda, skal ég ekki lengja umr. um málið. Það er mönnum mjög kunnugt, hversu mikil þörf það er að setja sérstaka löggjöf um jafnvægi í byggð landsins, og ég vænti þess, að allir hv. þm. geti fallizt á, að till. verði afgreidd eins og meiri hl. leggur til. og að hæstv. ríkisstj. þá láti framkvæma till. á þann hatt að undirbúa löggjöf um þetta efni og leggja fyrir næsta Alþingi.