22.02.1961
Sameinað þing: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í D-deild Alþingistíðinda. (2690)

160. mál, læknaskortur

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa ánægju minni yfir framkomu þessarar þáltill., og þar sem hún er fram borin af stjórnarliðum, mætti ætla, að hún fengi e.t.v. greiðari afgreiðslu hér í gegnum hv. Alþingi og e.t.v. skjótari og ákveðnari leið en ella að úrræðum af stjórnarvaldanna hálfu, þótt ég hins vegar efi ekki, að slíkur vilji sé fyrir hendi hjá heilbrigðisyfirvöldunum.

Það er vafalaust, að læknaskorturinn víðs vegar úti um land er mjög alvarlegt þjóðfélagsvandamál, sem sífellt fer vaxandi, nær því með hverju árinu, sem líður, og komið á það stig, að það veldur fólkinu ugg og ótta og stefnir að einu marki, það er flótta fólksins úr þeim byggðarlögum, þar sem svo er komið, að lengstan tíma ársins er nær ógerningur að ná til lækna, ef slys eða lífshættulega sjúkdóma ber skyndilega að höndum eða þarf að vitja læknis vegna konu í barnsnauð.

Ég er nákunnugur í einu af þeim sex læknishéruðum, sem fyrst eru nefnd í grg. þessarar þáltill., Þ.e. í Bakkagerðislæknishéraði. Það samanstendur af tveimur hreppum, Borgarfirði og Hjaltastaðaþinghá. Segja má, að íbúar Hjaltastaðaþinghár eigi ekki lengri né erfiðari læknissókn til Egilsstaða en ýmsar aðrar sveitir á Fljótsdalshéraði. en þess ber þó að geta, að nú síðustu daga er á kreiki orðrómur, sem ég veit ekki, hvort réttur er, að læknir, sem hafði fengið veitingu fyrir eystra læknishéraðinu á Fljótsdalshéraði. muni vera hættur við að taka það starf, og þá verður þar senn læknislaust eða ekki nema einn læknir fyrir allt Fljótsdalshérað. En nú um stund og þar til væntanlegur læknir átti að taka við eystra læknishéraði Fljótsdalshéraðs, hefur verið þar settur læknir. En hvað viðkemur Bakkagerðislæknishéraði, þá, eins og ég sagði, má gera ráð fyrir, að það skapist ekki hreint öngþveiti fyrir hluta íbúanna, þ.e. íbúa Hjaltastaðaþinghár, ef tveir læknar sitja að Egilsstöðum. En 300 íbúar Borgarfjarðar eru þá í raun og veru, a.m.k. yfir vetrartímann, algerlega einangraðir frá því að leita læknis, a.m.k. oft og tíðum, jafnvel þótt líf liggi við.

Þá er í grg. með þessari þáltill. minnzt á Vopnafjörð. Ég vil aðeins leiðrétta það, að það er talað um, að Vopnafjörður sé að missa lækni sinn, en það rétta er, að Vopnafjörður hefur ekki haft fastan lækni síðan í árslok 1959. Síðan hafa aðeins verið þar hlaupalæknar, ef maður má orða það þannig. En það hefur tekizt svo vel til með aðstoð landlæknis, að honum hefur tekizt að fá þangað einn lækni, þegar annar hefur farið. Hvað lengi slíkt tekst, að útvega lækni í Vopnafjörð, þegar annar fer, er vitanlega alveg, á huldu. En að 700 manna byggð þurfi áfram að búa við slíka óvissu í læknamálum, er vitanlega algerlega óviðunandi, og það veit enginn, þrátt fyrir góðan vilja landlæknis, sem ég efa ekki, hvenær það ber að, að Vopnfirðingar verði læknislausir, t.d. yfir vetrarmánuði, þegar þeir eiga í raun og veru engra kosta völ að ná sér í lækni. hvað sem við liggur. Það má segja, að yfir sumarmánuðina séu nokkrir möguleikar í því efni að ná í lækni til Vopnafjarðar, en Þó þannig, að það tekur minnst tvo klukkutíma að ná í lækni frá Þórshöfn og 5–6 klukkutíma að ná í lækni frá Egilsstöðum, og auðvitað því lengur, ef þessir læknar eru ekki tilbúnir að bregða undireins við, Þegar kallið kemur. Yfir sumarmánuðina má líka segja, að það þurfi fleiri að njóta læknisaðstoðar eða Þess öryggis að hafa lækni á Vopnafirði heldur en heimamenn, því að yfir þann tíma er allmikið atvinnulíf í Vopnafirði og allmargir aðkomumenn, bæði vegna síldarsöltunar, síldarbræðslu og síldveiðiskipa, sem koma þar mikið á þeim tíma.

Ég hef nú aðeins vikið að ástandinu í Þeim tveimur læknishéruðum, þar sem ég þekki bezt til, og ég geri ráð fyrir, að svipað ástand sé yfirleitt í þeim læknislausu héruðum, sem m.a. eru nefnd í grg. þessarar þáltill. Ég býst við því, að það sé ekki auðvelt að ráða fljóta bót á þessu óviðunandi ástandi, en ég er sammála flm. um það, að hér verður að taka til skjótra og öruggra ráða, ef vel á að fara. Ég er einnig sammála nokkrum af þeim till., sem hv. flm. nefna sem úrræði í þessu máli. Ég vil taka undir það, að það er nauðsynlegt að horfa ekki fram hjá því, að það er svo aðeins von um, að hægt sé að fá lækna í sum Þessi dreifbýlislæknishéruð, að kjör þeirra verði bætt. Ég tel líka, að það þurfi að athuga búsetuskilyrði þeirra og koma upp læknisbústöðum, þar sem þess er þörf. Og ég tel, að í fámennustu læknishéruðunum dugi ekki að skirrast við því, að það getur borið nauðsyn til að leggja fram af opinberri hálfu meira fé til byggingar læknisbústaða á þessum stöðum en gert er ráð fyrir lögum samkvæmt. En hvaða leið yrði farin í því, hvort það fé yrði veitt læknishéraðinu eða íbúum aðstoð með hagkvæmu láni eða á einhvern slíkan hátt, gæti verið til athugunar. Ég tel einnig, að það beri að veita annaðhvort styrk eða mjög hagstæð lán til þess að auðvelda læknum í þessum læknishéruðum að komast yfir hagkvæma og hentuga bíla, sem við eiga á þeim vegum, sem fyrir hendi eru. Og ég tel einnig vera rétt að athuga, hvort ekki er hægt að stuðla að því, m.a. með aukinni skylduvinnu læknastúdenta, að til þeirra sé auðveldara að grípa til slíkrar þjónustu, sem hér um ræðir, meir og um lengri tíma en nú er um að ræða. Slík úrræði verða þó auðvitað aldrei nema tímabundin úrræði eða úrræði í bili.

Hv. flm. drepa á einn möguleika, þann að fá hingað erlenda lækna. Ég skal ekki mikið segja um þá till., en ég held, að í flestum tilfellum yrði slíkt neyðanúrræði, þótt fært reyndist. Mér finnst vera ástæða til að óttast, að erlendir læknar, sem til slíks fengjust, væru allmisjafnir og sennilega oft óvanir erfiðum vetrarferðum, og að jafnaði yrðu þeir, a.m.k. til að byrja með, hálfmállausir við íslenzka alþýðu. Það er því ástæða til að ætla, að slík úrræði leystu fárra vanda í afskekktu læknishéruðunum, en væri samt gott til að vita, ef slíkt væri fært í einstaka tilfelli. En þá geri ég ráð fyrir, að líka þyrfti að horfast í augu við það að bjóða slíkum læknum miklu betri kjör en dreifbýlislæknar hafa nú, og væri þá réttara að fara fyrst á flot með það að bæta kjör íslenzkra lækna og gera þeim mögulegra að sækja um þessi læknishéruð. Um erlenda hjúkrunarmenn skal ég ekkert segja. Ég hef ekki trú á þeirri tilraun, en hún má vera ólöstuð af mér, ef fært þykir í einstaka tilfelli.

Að byggja vonir til umbóta í þessu máli á elliheimilum í dreifbýlinu til þess að fá þar lækna, vekja þar með áhuga lækna til að setjast að í hlutaðeigandi héruðum, tel ég meir en vafasamt frá mörgu sjónarmiði. Almennt talað munu menn helzt koma sér saman um að byggja elliheimili í hinum fjölmennari héruðum, þar sem m.a. samgöngur eru auðveldar eða auðveldari en í hinum afskekktari byggðarlögum. En þar er einmitt, eins og við vitum og hér er til umr., læknaskorturinn fyrst og fremst mikill. Í sambandi við byggingu elliheimilanna koma einnig til greina misjafnar skoðanir manna á nauðsyn og gildi þeirra. Það viðurkenna allir meiri og minni nauðsyn þeirra í þéttbýlinu, en telja, að víða úti um land í dreifbýlinu séu ýmsar umbætur í heilbrigðismálunum nauðsynlegri og meira aðkallandi, auk þess að margir þar telja sig ekki hafa fjárhagslega getu til að kosta fólk á elliheimili og senda það því ekki frá sér, fyrr en því er nauðsynleg vist á sjúkrahúsi. Og ýmsir eru þeir, sem m.a. vilja ekki senda gamla fólkið á elliheimili, meðan nokkur kostur er að hafa það heima, vegna þess að margir vita, hve afi og amma og önnur góð gamalmenni eru uppvaxandi börnum oft og tíðum mikils virði. Ég held því, að af mörgum ástæðum verði ýmis vandkvæði á því að ætla sér að leysa læknisskortinn í dreifbýlinu með því að koma upp allmörgum elliheimilum, sem geri læknum fýsilegra að þjóna hinum fámennari og afskekktari læknishéruðum. Ég held, að slík till. sé ekki raunhæf. En ef slíkt gæti í einstaka tilfelli leyst þennan vanda, þá er ekki nema gott um það að segja.

Það hafa nú komið fram brtt. við þessa merku þáltill. Ég gæti ímyndað mér, að brtt. hv. 9. þm. Reykv. á þskj. 340 sé til bóta. Verkefnið er þar hið sama, en ákveðnar og skipulegar fram sett. En auðvitað verður það hlutverk þeirrar nefndar, sem við málinu tekur, að meta þessa og aðrar þær brtt., sem koma fram í málinu.