02.11.1960
Sameinað þing: 9. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í D-deild Alþingistíðinda. (2772)

58. mál, útboð opinberra framkvæmda

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í tilefni af þeim ummælum hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ), að nauðsyn bæri til þess eða æskilegt væri að setja sem fastastar reglur um útboð verka, vildi ég aðeins láta þess getið, að iðnmrn. skipaði fyrir nokkru nefnd einmitt til þess að athuga möguleika á því, að opinber verk yrðu boðin út og þá eftir hvaða föstum reglum slík útboð ættu að fara fram. Ég skipaði þessa nefnd nokkru áður en ég lét af yfirstjórn iðnmrn. Mér var það ljóst í upphafi af viðræðum við nokkra nefndarmennina, að hér er um mjög vandasamt verk að ræða. Það er þess vegna kannske ekki við því að búast, að niðurstaða fáist mjög fljótlega. Þó hygg ég, að segja megi, að svo langur tími sé liðinn frá því. að n. var skipuð, að ástæða sé til þess að ganga eftir því, að hún hraði nokkuð störfum. En ég er hv. 3. þm. Norðurl. v. alveg sammála um það, að sé sú regla tekin upp, sem minnzt er á í þáltill., — og þar er sannarlega hreyft mjög athyglisverðu máli, — þá ber nauðsyn til þess, að um það gildi fastar reglur, því að slík mál eru mjög viðkvæm og oft um mjög mikla hagsmuni að tefla. Ég varð þess einmitt var, meðan ég hafði með iðnmrn. að gera, að samning slíkra reglna er mikið hagsmunamál og því mikill vandi að gers sér grein fyrir því, hverjar þessar reglur ættu að vera.

Ég vildi aðeins láta þessa getið í tilefni af þessum ummælum, að þetta mál hefur þegar hlotið athygli ríkisvaldsins og athugun fer fram á því. Að öðru leyti vil ég láta í ljós stuðning minn við þá hugsun, sem í till. felst, og vona, að hún fái gaumgæfilega athugun og helzt afgreiðslu á þessu þingi.