22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í D-deild Alþingistíðinda. (2790)

70. mál, fiskveiðar við vesturströnd Afríku

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft til athugunar till. til þál. á þskj. 77 um athugun á möguleikum til fiskveiða við vesturströnd Afríku. N. leitaði umsagnar Fiskifélags Íslands og Landssambands íslenzkra útvegsmanna um málið, í svari Fiskifélagsins segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilliti til þeirrar þróunar, sem orðið hefur á fiskiskipastóli okkar, og einnig vegna þeirrar þróunar, sem orðið hefur í fiskveiðum á þeim slóðum, sem till. ræðir um, teljum við mjög æskilegt, að athugun sú, sem till. gerir ráð fyrir, fari fram sem fyrst. Niðurstaðan af slíkri athugun yrði svo látin ráða um það, hvort tilraun sú, sem síðari hluti till. gerir ráð fyrir, yrði framkvæmd.“

Landssamband íslenzkra útvegsmanna svaraði bréfi fjvn. á eftirfarandi hátt:

„Um leið og stjórn L.Í.Ú. sendir yður hér umsögn sina, vill hún ekki láta hjá líða að þakka ríkisvaldinu þann stuðning, sem það hefur í té látið á undanförnum árum við veiðitilraunir og fiskileit. Er ekki að efa, að það fé, sem varið hefur verið á undanförnum árum til veiðitilrauna og fiskileitar, hefur gefið góðan arð í auknum afla og lengingu úthaldstíma fiskiskipanna almennt. Með tilliti til atvinnuhátta þjóðarinnar er nauðsynlegt, að vér Íslendingar fylgjumst vel með því, sem er að gerast í þróun fiskveiða á öðrum hafsvæðum en þeim, sem næst liggja landinu, og liggja til þess margar ástæður, en þó frekast sú staðreynd, hve afli hefur farið stórminnkandi á hafsvæðinu hér á Norður-Atlantshafi. Því mælir stjórn L.Í.Ú. eindregið með því, að þáltill. verði samþ., enda dragi það á engan hátt úr fjárveltingum til fiskileitar og veiðitilrauna hér við land.“

Svo sem fram kemur í þáltill., er fyrst og fremst lögð áherzla á það, að fram verði látin fara athugun á því, hvaða möguleikar séu fyrir hendi, að íslenzk fiskiskip geti hafið fiskveiðar við vesturströnd Afríku. Sumum finnst e.t.v., að hér sé á ferðinni mál sem enn sé svo langt úti í geimnum og fjarri raunveruleikanum, að ekki sé tímabært í dag að ræða málið, hvað þá heldur að framkvæma. En þegar vér í dag lítum aðeins fá ár aftur í tímann og berum það saman við þá þróun, sem jafnvel aðeins á allra síðustu árum hefur átt sér stað á sviði fiskveiðanna, um hagnýtingu aflans, eigi aðeins hjá vorri þjóð, heldar enn fremur víðar í heiminum hjá hinum ýmsu fiskveiðiþjóðum, þá verður oss ljóst, hve geysimikil bylting hefur hér átt sér stað, og enn fremur, hver hin raunverulega staða vor væri, ef Íslendingar hefðu eigi með áræðni og af dugnaði fylgzt með þeirri miklu þróun, sem hér um ræðir. Nægir í því sambandi að benda á veiðar íslenzku togaranna á undanförnum árum á fjarlægum miðum, t.d. á hafsvæðinu undan Nýfundnalandi og á miðunum við Austur-Grænland. En með því að stunda veiðar á þessum hafsvæðum hafði íslenzki togaraflotinn metár í afla á árinu 1958.

Það kemur fram í grg. með þáltill., að Norðmenn hafi snemma á s.l. ári sent rannsóknarleiðangur á það hafsvæði, sem till. gerir ályktun um. Er sennilegt, að hægt sé að afla upplýsinga nm þann árangur, sem Norðmenn kunna að hafa fengið í því sambandi við þessa tilraun sína. Enn fremur eru það ýmsar fleiri þjóðir beggja vegna Atlantshafsins og jafnvel enn lengra að, sem gera þarna tilraunir með fiskveiðar, en þarna hafa fundizt auðug fiskimið að talið er, og er um margar fisktegundir að ræða, þó að eigi sé enn sem komið er búið að kanna til fulls um notagildi þeirra.

Það er skoðun meiri hl. fjvn. og e.t.v. allrar n., þó að sumir nm. hafi viljað hafa orðalag till. þannig, að það nái yfir víðara svið. að það sé nauðsynlegt fyrir Íslendinga að fylgjast sem bezt með því. sem þarna er að gerast, og leggjum við því til, að þáltill. á þskj. 77 verði samþ. óbreytt.