22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í D-deild Alþingistíðinda. (2863)

96. mál, eftirlit með fyrirtækjasamtökum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Till. þessi var flutt af Unnari Stefánssyni, þegar hann átti sæti á þingi sem varamaður. Þar sem hann á ekki sæti á þinginu nú, vildi ég fyrir hans hönd fylgja till. úr hlaði með örfáum orðum. Ég vil byrja á því að lesa — með leyfi hæstv. forseta — tillgr. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta athuga, með hverjum hætti hið opinbera geti haft eftirlit með viðleitni einkafyrirtækja til að hafa með sameiginlegri afstöðu á markaði óæskileg áhrif á verðmyndun í landinu og hvernig bezt megi tryggja, að neytendur fái notið ávaxta aukinna framleiðsluafkasta í meira vöruúrvali og hagstæðara verðlagi.“

Ég vil benda á í þessu sambandi, að hér er um að ræða stórmál sem í nálega hverju landi, sem við þekkjum bezt til. hefur orðið efni ýtarlegrar og nákvæmrar löggjafar, og hvarvetna þátt óhjákvæmilegt, að til væri slík löggjöf til að fyrirbyggja óæskilega þróun í viðskiptalífinu. Hér á landi má segja, að til skamms tíma hafi ekki verið rík þörf á slíkri löggjöf. En athafnalíf okkar vex hröðum skrefum, og sjást nú ýmis merki þess, að þessi þörf sé hér fyrir hendi.

Ég vil taka það fram, að þessi till. hefur verið flutt áður, en varð þá ekki útrædd. Þá var leitað umsagna ýmissa aðila, og mér er það minnisstætt, þó að ég hafi skjölin ekki við höndina, að t.d. Verzlunarráð Íslands gerði um þetta mál samþykkt og taldi mjög æskilegt, að þetta mál væri gaumgæfilega athugað og að slík löggjöf yrði sett hér á landi.

Til viðbótar vil ég aðeins benda á það, að á þessu þingi hafa verið lögð fram mál sem eru viðkomandi rekstri fyrirtækjasamtaka í landinu. Ég vil ekki blanda þeim efnislega inn í þetta, en aðeins benda á það, að þær umr., sem þar urðu, sýndu eins og margt annað, að hér er vaxandi ástæða til að gefa þessu máli gaum.

Ég mun ekki hafa þessi orð lengri, en vísa til allýtarlegrar grg., vil svo að lokum leggja til, herra forseti, að umr, verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.