08.02.1961
Sameinað þing: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í D-deild Alþingistíðinda. (2887)

103. mál, rannsókn fiskverðs

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. undirstrikaði það, sem ég raunar get fallizt á, að hér væri nauðsyn hlutlausrar rannsóknar. En hana hef ég látið fara fram, mjög ýtarlega, hlutlausa rannsókn, sem Fiskifélagið hefur gert meðal annarra. Það voru raunar fleiri, sem höfðu þá rannsókn með höndum. Ég hef enga ástæðu til þess að ætla. að Fiskifélag Íslands hafi verið á nokkurn hátt hlutdrægt í þessu máli, og allar þær niðurstöður, sem ég hef nefnt hér, eru í samræmi við niðurstöður Fiskifélags Íslands. En hitt hef ég ástæðu til að halda, að sá samanburður, sem flm. þessarar till. hafa verið að burðast við að gera hér á hv. Alþ., sé hlutdrægur úr hófi og þar sé verið að bera saman hluti, sem alls ekki er hægt að bera saman.

Hann vildi reyna, hv. þm., að snúa út úr því, þegar ég talaði um hámarksverð hér áðan. Kannske hefur það verið ekki alveg nákvæmlega orðað hjá mér að kalla þetta hámarksverð, en það, sem ég auðvitað meinti, og það, sem hann skildi vel sjalfur, var, að um var að ræða verðið á hæsta verðflokknum. Það var opinbert verð á hæsta verðflokknum. Hvort svo og hve mikið hefur verið greitt umfram þetta hámarksverð, skal ég ekki segja. Ég hef engar tölur um það, og það er fyrst nú, þegar hv. þm. sér, út í hvaða ófæru hann er kominn, að hann fer að tala um, að það sé greitt miklu hærra verð en það skráða verð, sem samkomulag hefur verið um á milli Norsk Ráfisklag og kaupendanna. Það getur vel verið, að í einhverju einstöku tilfelli hafi fiskurinn verið seldur á hærra verði en því, sem um hefur verið samið, en um það liggja engar skýrslur fyrir, og það er fyrst nú, sem þetta er dregið hér fram. Í samanburðinum, sem gerður er í till., er engin tilraun gerð til að geta þess. að um einhverjar umframsölur hafi verið að ræða, sölur umfram það verð, sem samkomulag hefur náðst um á milli aðila, heldur er þar eingöngu nefndur sá óskaplegi verðmunur, sem hér hefur verið talinn, og miðaður við skráða verðið, en ekki við þetta yfirverð, sem hv. þm. nú vill segja að einhver hafi keypt einhvern tíma einhverja vöru á.

Þá sagði hv. þm.. að það væri alrangt hjá mér að bera saman þetta verð, sem tekið er fyrir hjá honum, og hæsta núverandi flokkunarverð á Íslandi. Ég held, að þetta sé alveg nákvæmlega sambærilegt. Það er tekið í báðum tilfeilunum verð á hæsta flokknum, á bezta fiskinum, bæði með íslenzku verði og með norsku verði, og þá kemur dæmið út þannig, að norska verðið er í kringum kr. 3.02 íslenzkar, en það íslenzka er kr. 3.11.

Þá ætlaði hv. þm. að reyna að snúa sig út úr þessu með því að segja, að nú væru gerðar miklu hærri kröfur um fiskverð í Noregi en áður hefðu verið gerðar, þannig að það fiskverð, sem ætti að bera saman við hæsta verð hjá okkur, væri miklu hærra en þessir 85 aurar til 90 aurar, sem hann hefur verið að bera saman við meðalverðið hér. Ég held, að ég megi fullyrða, að þetta sé líka rangt hjá hv. þm. Ég hef hér í höndunum frá Norsk Råfisklag, sem er aðalseljandi fersks fisks í Noregi og í eru meðlimir, - ég held ég fari rétt með það, - frá öllu landinu nyrzt til syðst, og þar eru kröfurnar um verðið, sem á að gilda frá 19. sept. 1960 og áfram, m.ö.o. kröfuverðið fyrir vertíðina 1961. Og þetta verð, sem ég hef fengið sent beint frá Norsk Råfisklag, svo að það fari engra annarra á milli, er þannig, að hæstu kröfurnar eru 89–95 aurar. Verðið er mismunandi eftir því, á hvaða stað er, og eftir því, hvað niðurgreiðslurnar eru miklar: á fyrsta verðlagssvæði 89 aurar, á öðru verðlagssvæði 89 aurar, á þriðja verðlagssvæði 90 aurar, á fjórða verðlagssvæði 92 aurar, á fimmta verðlagssvæði 95 aurar og sjötta., sjöunda og áttunda verðlagssvæði líka 95 aurar. Hæsta verðið, sem í skýrslunni er nefnt, eru 95 aurar. Svo kemur hv. þm. og segir, að verðið eigi nú á næstunni að vera á aðra krónu norska. Það er a.m.k. ekki samkv. þeirri uppsetningu, sem Norsk Råfisklag, sem er aðalseljandi og ég vil segja hér um bil eini seljandi af ferskum fiski í Noregi, hefur sett fram sem kröfu um verðið á næstu vertíð, 1961. Þar við er svo enn því að ,bæta, eins og ég gat um áðan, að það hefur ekkert samkomulag náðst um þetta verð enn. Þetta er það verð, sem er fram sett af fiskseljendunum, en það hefur ekki verið viðurkennt af fiskkaupendunum, og hvað það verður, það skal ég ekki um segja, ég veit ekki til, að því hafi verið slegið föstu enn þá. En þetta verð er ekki það ólíkt verðinu, sem var á vertíðinni 1960, að það sé ekki hægt að bera saman þáverandi vertíðarverð í Noregi með þeim verðmismun, sem leiddi af flokkun fisksins, og íslenzka verðið, sem ákveðið hefur verið nú hér kr. 3.11 hæst, þ.e. fyrir allan fyrsta flokks línufisk, og ég held, að verðmismunurinn, sem ákveðinn hefur verið hér á Íslandi, sé ekki meiri en hann er í Noregi, þegar um góðan og lélegan fisk er að ræða. Það náttúrlega má endalaust fara út í það að bera saman mismunandi flokka og mismunandi staði, eftir því t.d., hvernig uppbæturnar eru, hvernig á að nota fiskinn, og ýmislegt annað þess háttar. En ef á að bera saman tölur, sem eru sambærilegar, mundi ég segja, að það væru tölurnar, sem í fælist verðið á norska fiskinum í fyrsta flokki, ,það kröfuverð, sem gert hefur verið um fyrsta flokks norskan fisk, og það verð, hið opinbera verð, sem skráð hefur verið um bezta íslenzkan fisk. Og niðurstaðan af þeim samanburði, sem verður ekki hrakin, er sú, að verðið á íslenzka fiskinum er ívið hærra en það norska. Ég velt ekki, hvort hv. þm. vill reyna að halda fram hinu gagnstæða. Það þýðir ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir hann, það liggur svo ljóst fyrir, að það getur ekki farið á milli mála. En ég vil sérstaklega taka fram, að þessar hugmyndir hans um eitthvert stórhækkað verð á vertíðinni 1961 eru alls ekki raunverulegar, því að þær tölur eru ekki komnar út og er verið að semja um þær. Þær verða kannske eitthvað öðruvísi en hér hefur komið fram, varla þó miklu hærri, það vil ég ekki ætla, því að þetta er kröfuverð fiskimannanna sjálfra, sem ég hef hér lesið upp.

Ég út af fyrir sig er ekki á móti því, að þetta mál verði rannsakað, og ég er ekkert hræddur við, að það verði rannsakað, eins og hv. þm. hélt. þvert á móti, ég vildi gjarnan, að það yrði rannsakað alveg ofan í kjölinn, svo að það færi ekkert á milli mála. En ég tel. að með þeirri athugun sem Fiskifélag Íslands hefur þegar gert og ég efast ekki um að er eins hlutlaus og sú rannsókn yfirleitt getur verið, hafi verið komizt eins nálægt sannleikanum í þessu máli og hægt er að komast, og þær niðurstöður, sem ég hef hér birt, eru niðurstöður sem byggðar eru á þessari athugun Fiskifélagsins. Ég skal hins vegar ekkert hafa á móti því, að málið fari í nefnd, þingnefnd. ágæta þingnefnd, og að hún fái þau gögn, sem fyrir liggja um málið. Ef henni sýnist, að málið þurfi frekari rannsóknar við, og hún færir að því rök. einhver önnur rök en hér hafa komið fram hjá hv. flm., þá skal ég síður en svo vera á móti því, að það verði gert. En mér sýnist, eins og málið liggur fyrir nú, að það sé fullkomlega upplýst og það sé ekki ástæða til að setja neina milliþn. til þess að fjalla um málið. Það mætti þá setja milliþn. í ýmis önnur mál sem frekar þyrftu upplýsingar við.