22.02.1961
Sameinað þing: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í D-deild Alþingistíðinda. (2969)

153. mál, vaxtakjör atvinnuveganna

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ákveðin var á sínum tíma ein umr. um þessa till Það er nokkuð langt síðan umr. hófst, því að það var hinn 1. febr., að vísu á þessu ári, en ekki í fyrra. Síðan fór fram framhaldsumræða fyrir hálfum mánuði, 15. febr., og var þá enn frestað. og er nú málið tekið upp hér í þriðja sinn.

Það hafa nokkrir menn rætt um þessa till, og meðal þeirra var hv. 11. þm. Reykv. Hann fór vitt yfir og lét gamminn geysa. Hann minntist m.a. í ræðu sinni 15, febr. á uppbótakerfið, sem svo hefur verið nefnt og var hér í gildi, áður en gengisbreytingin var gerð í fyrra, er raunar að nokkru leyti notað enn, því að niðurgreiðslurnar á vöruverði eru aðeins einn þáttur uppbótakerfisins. Hv. þm. hélt því fram, að það hefði ekki verið hægt að notast við þetta fyrirkomulag áfram, vegna þess að skilyrði fyrir því, að hægt sé að nota það, sé það, að við tökum á hverju ári stórlán erlendis til þess að flytja inn fyrir þá peninga hátollavörur. Þetta er sama kenningin og nafni hans, hæstv. forsrh., hélt fram í fyrra, þegar rætt var um efnahagsmálin, og það var mælt þá þegar á móti þessu og sýnt fram a, að þetta væri ekki rétt, þetta gæti ekki staðizt. Ég er ekki með því að gerast neinn málsvari uppbótakerfisins, þó að ég bendi á það, að vitanlega er hægt að nota slíkt fyrirkomulag. Það þarf aðeins að afla nægilegs fjár innanlands með innflutningsgjöldum eða á annan hátt til þess að vega á móti útflutningsuppbótum, sem veittar eru. Það er því hin mesta villukenning, að slíku kerfá sé ekki hægt að halda uppi með öðru móti en því að taka stórlán erlendis og flytja inn fyrir það hátollavörur. Og ég er satt að segja hissa á því, að jafnskýr maður og hv. 11. þm. Reykv. er skuli taka upp þessa vitleysu, sem búið er að hrekja áður.

Ýmislegt fleira bar á góma í þessum umr. 15. febr. Hv. 11. þm. Reykv. talaði um það m.a. í ræðu sinni þá, að í nágrannalöndum okkar væri það þannig, að stjórnmálamennirnir yrðu að segja til um það, hvað þeir vildu gera í þjóðmálunum, fyrir kosningar. Hann sagði: Kjósendurnir þar heimta ábyrga afstöðu. Það mundi ekki þýða þar að segja þegar þið eruð búnir að kjósa okkur, þá skuluð þið fá að sjá, hvernig við viljum leysa viðfangsefnin. — Ef slíkt væri sagt á kjósendafundum í nágrannalöndum okkar, þá mundi bara vera hlegið að þeim frambjóðendum, sem héldu slíku fram. Þeir munu ekki fá nein atkv. Þar heimta kjósendurnir það, sagði hv. þm., af stjórnmálamönnunum, að þeir geri ákveðnar tillögur í ákveðnum málum. Allt sýnist þetta vera eðlilegt. En mig langar að spyrja þennan hv. þm.: Hvað mundu þeir segja í nágrannalöndunum, sem heimta að fá að vita það fyrir kosningar, hvað frambjóðendur hafa í hyggju, ef það kæmi nú fyrir, að einhverjir þeir, sem hefðu verið kosnir upp á kosningaloforðin, breyttu svo þveröfugt við það, þegar þeir væru komnir til valda? Hvað mundu þeir segja þar um þá stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka t.d., sem hefðu lofað því fyrir kosningar að leiða þjóðina á veg bættra lífskjara. en færu svo þannig að eftir kosningar, þegar þeir væru komnir í valdaaðstöðu, að í staðinn fyrir að gera þetta, þá þrýstu þeir þjóðinni aftur á bak til miklu lakari lífskjara en hún áður hafði? Og hvað mundu kjósendurnir þar segja við þá þm. og þá flokka, sem lofuðu því fyrir kosningar að stöðva dýrtíðaraukningu án þess að leggja nýja skatta á þjóðina, en létu svo verða sitt fyrsta verk, eftir að búið væri að kjósa þá og þeir væru komnir til valda, að stórauka dýrtíðina og leggja nýja skatta á þjóðina í ofanálag? Já, hvað mundu þeir segja í okkar nágrannalöndum við þessa menn og þessa flokka? Ætli þeir létu það nægja að hlæja að þeim? Skyldu þeir láta sér það nægja? Ég er ekki viss um það. Ætli þessir menn og þessir flokkar yrðu í hávegum hafðir hjá kjósendum, þegar þeir kæmu fram fyrir þá næst til að biðja um atkv.? Hve mörg atkv. ætli þeir fengju þá, ef þeir hefðu hagað sér með þessum hætti og breytt þveröfugt við það í fjöldamörgum efnum, sem þeir lofuðu fyrir kosningar?

Þá kom skömmu síðar í ræðu hv. 11. þm. Reykv. kafli um það, hvernig ástandið hefði verið, þegar vinstri stjórnin fór frá völdum seint á árinu 1958. Hann sagði, að í skýrslum, sem þá hefði verið útbýtt um efnahagsástandið, hefði því verið haldið fram, að óhjákvæmileg væri veruleg kjaraskerðing. Kjaraskerðingin var nú ekki meiri en það, sem þá var reiknað út af hinum færustu mönnum að þyrfti að vera, að það var hægt að halda óbreyttum kaupmætti launa, eins og hann var í aktóber 1958. Tillögur þær, sem Framsfl. gerði þá um úrlausnir í efnahagsmálum, voru byggðar á því, að kaupmáttur launa héldist óbreyttur eins og hann var í október 1958. Hvað hafa menn svo fengið yfir sig síðan? Ég er ekki í vafa um það, að ýmsir, sem þá hindruðu áframhaldandi starf vinstri stjórnarinnar og þar með að búa við óbreyttan kaupmátt launa, eins og hann var í október 1958, þeir munu nú sjá, að betra hefði verið að fallast á þá lausn, sem þá var í boði heldur en fá yfir sig það, sem yfir menn hefur dunið síðan, því að það vita allir, að kaupmáttur launa er nú miklu minni en hann var í okt. 1958. Og síðar í sömu ræðunni, sem hv. 11. þm. Reykv. flutti 15. febr., fór hann að tala um kaupgjaldsmál og var með ýmsar bollaleggingar um það, hvort atvinnuvegirnir mundu geta borið meira kaup eða ekki. Hann ræddi sem sagt töluvert um kaupgjaldsmálin. Vitanlega er það rétt hjá hv. þm., að þar kemur mjög til álita, hvað atvinnuvegirnir geta borið, alveg rétt. Það þarf vel að athugast, hvað er hægt að greiða. En það getur vitanlega farið að verulegu leyti eftir því, hvernig að atvinnurekstrinum er búið, t.d. af stjórnarvöldunum, hvað atvinnuvegirnir geta greitt hátt kaup, og það er ýmislegt fleira en það, sem hv. þm. nefndi í sinni ræðu, sem getur verið ástæða til að íhuga í sambandi við kaupgjaldsmál. Það mun láta nærri, að það séu um það bil 300 virkir dagar í árinu. Ég held, að það sé rétt út reiknað, að með því kaupgjaldi, sem nú er hjá verkamönnum hér í Reykjavík og ég held víðast annars staðar um land, sé útkoman sú, að verkamaður, sem vinnur 300 daga, 8 stundir á dag eða dagvinnutímann, hafa að meðaltali á mánuði 4134 kr. í kaup. Enginn virkur dagur má falla úr, til þess að hann nái þessu, en að vísu er þarna inni í hans sumarleyfi. Hann fær kaup, eins og kunnugt er, fyrir þá daga. Nú vil ég spyrja hv. 11. þm. Reykv.: Telur hann, að það sé hægt fyrir verkamenn að lifa á þessum launum, eins og kostnaðurinn er nú við að framfleyta lífinu? Mundi hv. þm. treysta sér til þess sjálfur? Nú veit ég það að vísu, að hann hefur hærri laun en þetta, enda á hann að hafa það, því að hann gegnir slíkri stöðu í þjóðfélaginu. Hann hefur varið nakkrum árum eða allmörgum af ævi sinni til að mennta sig og gegnir slíkri stöðu, að það er eðlilegt, að hann hafa hærra kaup, enda hefur hann það. En ég vil samt spyrja hann: Mundi hann treysta sér til þess að lifa á þessum tekjum? Hv. 11. þm. Reykv. er það vel lærður í tölvísi. að ég efast ekki um, að hann geti reiknað það út, hvernig þessi upphæð mundi endast honum til að kaupa fyrir hana lífsnauðsynjar og greiða öll þau gjöld, sem á mönnum hvíla yfirleitt. Og ég vil spyrja hann að lokum til viðbótar: Getur sú stjórnarstefna staðizt, sem krefst þess, að verkamenn lifi á mánaðarlaunum, sam eru rúmlega 4100 kr., eins og dýrtiðin er nú? Telur hv. þm., að sú stjórnarstefna geti staðizt?